26.11.2009 | 20:29
Lyfjafyrirtæki og blekkingar
Í framhaldi af fyrri umræðu hér um lyfjafyrirtæki og geðlyf vill ég benda lesendum á grein eftir Steindór J. Erlingsson, sem birtist í Fréttablaði dagsins (26 nóvember 2009).
Þar rekur hann svikamyllu GlaxoSmithKline lyfjarisans við markaðssetningu á SSRI lyfinu Seroxats.
Í fyrra birtust tvær vísindagreinar þar sem ítarlega er greint frá því hvernig GlaxoSmithKline (GSK) og forveri þess birti neikvæða rannsókn á virkni SSRI-lyfsins Seroxats sem jákvæða. Um er að ræða rannsókn nr. 329 á virkni Seroxats á þunglyndi í unglingum, sem birtist í Journal of the American Academy of Child and Adolescent Psychiatry (JAACAP) árið 2001. Þar er því haldið fram að lyfið sé áhrifaríkt á meiriháttar þunglyndi í unglingum og almennt vel þolað.
Í umræddum greinum kemur hins vegar fram að rannsókn nr. 329, auk tveggja annarra, leiddi í ljós að Seroxat var ekki fremra lyfleysu í að meðhöndla þunglyndi í unglingum, auk þess hafði lyfið slæmar aukaverkanir. GSK hafði áhyggjur af því að þessar neikvæðu niðurstöður gætu dregið úr sölu lyfsins til fullorðinna einstaklinga. Því var ákveðið að birta rannsóknina sem jákvæða og var almannatengslafyrirtæki, sem sérhæfir sig í læknisfræði, fengið til þess að skrifa grein um rannsóknina. Eftir að fyrsta uppkast fyrirtækisins lá fyrir gerðu hinir eiginlegu höfundar rannsóknarinnar, 22 talsins, litlar efnislegar breytingar á greininni þar til handrit var sent til birtingar.
Með hliðsjón af þessum vinnubrögðum Glaxo er mjög eðlilegt að fólk sé tortryggið um starfsemi lyfjafyrirtækja.
Einnig hlýt ég sem vísindamaður að vera virkilega svekktur yfir því hvernig sumir vísindamenn (að nafninu til) láta nota sig (viljandi eða ekki?!).
Vissulega duga vísindin til þess að afhjúpa svona svik, en það má ekki kosta líf og útlimi.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Athugasemdir
Vísindamenn eru mannlegir og láta stundum glepjast af gylliboðum. Mér finnst verst við svona að margir byrja tortryggja vísindin í stað þess að hafa í huga breyskleika mannsins, því eins og þú segir eru það vísindin sem afhjúpa svona svik.
Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 26.11.2009 kl. 22:24
Það er bæði gott og slæmt þegar svona mál koma upp.
Gott, því að það sýnir að það er virkt eftirlit, þótt það þurfi stundum einstaklinga til.
Slæmt, því þetta kemur óorði á allan lyfjageirann og veldur því að fólk verður jafnvel hrætt við lyfjagjöf.
Arnar, 27.11.2009 kl. 10:15
Því miður nota samsæriskenningafólkið þetta sem rök gegn læknavísindum og lyfjageiranum í heild sinni.
Það virðist vera sem fólk vilji sjá heiminn í svörtu og hvítu, ekki í þeim regnboga lita, ljóss og skugga sem hann er. Heimurinn er flókinn, samband mannsins við náttúruna er flókið, líffræði sjúkdóma er flókin og áhrif lyfja eru flókin.
En auðvitað þarf að veita lyfjafyrirtækjunum aðhald, og fylgjast með eiginleikum nýrra lyfja, framleiðslu leyfilegra lyfja og markaðssetningu.
Við vísindamenn eigum líka að spyrna við fótunum og standa vörð um orðspor fræðigreinanna, með gagnrýnni hugsun, kröfum um aðgengi að upplýsingum og minni hagsmunaárekstra.
Arnar Pálsson, 1.12.2009 kl. 14:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.