Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009

Langtíma sveiflur í þorskstofninum

Í þorskstofninum við Ísland má finna töluverðan erfðabreytileika. Hvergi er hann þó meiri en á Pan I  geninu, þar sem tvær megin gerðir A og B eru þekktar. Gerðirnar eru mjög ólíkar og vísbendingar um að þær haldist við í stofninum í fleiri hundruð þúsund ef ekki milljónir ára.

Einar Árnason og félagar sýndu nýlega fram á að AA gerðirnar halda sig á grunnsævi, á meðan BB eru mun algengari í djúpinu. Þeir arfblendnu AB finnast bæði í djúpi og grunnsævi. Þetta samband er með því sterkasta sem sést milli arfgerðar og umhverfisþáttar í náttúrunni, (sjá mynd úr grein þeirra félaga í Plos One færsla, frumheimild).

Ástæðan virðist vera sú að BB gerðin stundi lóðrétt far, þar sem fiskarnir kafa niður á mikið dýpi á milli þess sem þeir dvelja í grynnri sjó. Þessi arfgerð hlýtur sem sagt að gera fiskunum kleift að þola mikið dýpi, þannig að líklegast er að genið hafi áhrif á starfsemi sundmagans eða einhverja aðra þætti þrýstingsjöfnunar.

Guðrún Marteinsdóttir og Klara Jakobsdóttir hafa unnið einstaka rannsókn á sveiflum í tíðni Pan I gensins síðustu 60 ár. Vísindagrein um rannsóknina er ekki komin út en Guðrún ræddi þær þó í grófum dráttum í Speglinum þriðjudaginn 16 júní 2009 (viðtalið hefst nokkurn vegin um miðbik þáttarins).

Ég hvet fólk til að hlusta á viðtalið sem er bæði fróðlegt og skemmtilegt. Guðrún virðist hallast að því að veiðar hafi haft afgerandi áhrif  á tíðni A og B gerðanna í þorskinum, en er ekki jafn svartsýn á horfur stofnsins og Einar, Kristján og Ubaldo. Enginn þeirra umhverfisþátta sem þau hafa rannsakað geta útskýrt breytingarnar í tíðni A gerðanna, en þótt ekki sé hægt að útiloka að þær séu vegna óþekktra eða óskilgreindra umhverfisþátta.

Ítarefni: Vefsíða rannsóknarhóps Guðrúnar Marteinsdóttur: www.marice.is

Leiðrétting, í fyrstu útgáfu var talað um lárétt far í þriðju málsgrein, það er auðvitað lóðrétt. Jóhannesi er þökkuð ábendingin.


Maur, maur, maur, maur, maur...

Yfirmaður minn í Chicago, Marty Kreitman, sagði okkur einu sinni sögu af samræðum sem hann átti við Ed Wilson, hinn mikilsvirta náttúrufræðing. Wilson sagði að líffræðingar hefðu þrjár leiðir til vinna sér inn orðspor.* Ein leiðin er að verða mesti sérfræðingur heims í einhverju ákveðnu, t.d einni tegund maura, og harsla sér síðan æ stærri völl í trausti þess orðspors (þetta er leiðin sem Wilson fór). Önnur leiðin er sú að beita nýrri tækni á vandamál sem fólk hefur staðið ráðþrota gagnvart. (Þetta var leið Martys, sem beitti tækni til raðgreininga fyrstur manna á erfðaefni einstaklinga innan tegunda). Þriðja leiðin er sú að uppgötva eitthvað virkilega nýtt, kannski tegund, kannski gen, en ef þú ert virkilega góður (heppinn) líffræðilegt fyrirbæri eða lögmál.

Þriðja leiðin er vitanlega erfiðust. Margir birta fjöldi vísindagreina og sópa inn risastyrkjum en uppgötva aldrei neitt.

Kveikjan af þessari hugvekju er viðtal í New York Times, A Conversation With Bert Hölldobler Insects Succeeding Through Cooperation, tekið af CLAUDIU DREIFUS. Bert Hölldobler er einmitt samstarfsmaður Ed Wilsons, og saman gáfu þeir út doðrantinn Maurar (ANTS). Bókin er alger gersemi, í sama gæðaflokki og Fuglar, Perlur og Hálendið í náttúru Íslands. antstheonion061209_864115.jpg Myndin er af vefsíðu The Onion, sem er ekki alveg jafn alvarlegur miðill og New York Times.

Hölldobler, þýskur dýrafræðingur af Goethes-náð flutti erindi í Chicago eitt árið sem ég var þar. Hann lýsti rannsóknum sínum á maurum. Félagsskordýr eru alveg mergjuð fyrirbæri, þar vinna saman systur og bræður, í búi sem móðir þeirra er drottning. Einstaklingarnir eru aðskiljanlegir, þú getur greint muninn á hverjum maur, en þeir eru samt hluti af einhverju stærra. Félagsskordýr hafa verið notuð sem líkön til að rannsaka samvinnu og samhjálp, eins og þegar maurar leggja slóð fyrir bræður sína í átt að fæðuuppsprettu. Hölldobler lýsti því t.d. hvernig maurarnir ramba á réttar greinar á tré með því að hlera eftir þvi hvar aðrir maurar eru að saga laufblöð.

Í viðtalinu í NYTimes lýsir hann því líka hvernig tvö mauraveldi takast á, og í sumum tilfellum ráðast hermaurar úr einu búi, inn í annað bú og drepa drottninguna. Þeir stela síðan lirfum og bera inn í sitt bú. Erfðafræðin staðfestir að maurarnir stunda þannig þrælhald. Það held ég að sé meiriháttar uppgötvun, kannski þessi Hölldobler hafi unnið sér inn orðspor?

* Mín fyrstu orð voru "slá í gegn" en það nær ekki inntakinu alveg, þótt það undirstriki auðvitað þá staðreynd að margir fara út í vísindi af metnaði.


Fréttamenn bregðast frekar vegna...

Fyrsta setning fréttarinnar:

Tregða karlmanna til þess að tileinka sér heilbrigðan lífsstíl og til þess að fara til læknis getur orðið til þess að mynda kynjabil þegar kemur að krabbameini og dauðsföllum.

er þýdd nánast orðrétt af vef BBC.

The reluctance of men to adopt a healthy lifestyle and visit the doctor may be fuelling a gender gap in cancer cases and deaths, experts say. (Men warned of greater cancer risk, BBC 15 júní 2009.)

Mbl.is keyrði ekki einu sinni villupúkann á textann ( "samkvæmt upplýsingur"), og fyrirsögnin er algert met. Vonandi leyfist manni að umskrifa fyrstu setningu fréttarinnar:

Tregða fréttamanna til þess að tileinka sér vönduð vinnubrögð og [til þess] að leita til fagaðilla getur orðið til þess að þeir skrifi lélegar fréttir [þegar kemur að krabbameini og dauðsföllum.]

RÚV stóð sig mun betur, í það minnsta er fyrirsögnin ekki atlaga að íslenskri tungu. Karlar deyja frekar úr krabbameini.

Meginboðskapur fréttarinnar byggir á gömlum sannindum, "Álitið er að hægt sé að komast hjá um helmingi krabbameinstilfella með breyttum lífsstíl". Það er ágætt að muna þetta þegar næsta erfðarannsóknin birtist.


mbl.is Karlar látast frekar vegna krabbameins en konur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kæra fjölskylda

Fyrir mánaðarmót sendi frænka mín bréf á alla fjölskylduna þar sem hún varaði við ræktun erfðabreytts byggs. Mér fannst ástæða til að svara fjölpóstinum, og er það svar grunnurinn að þessari færslu.

Líffræðin kennir okkur að erfðabreyttar lífverur eru ekki eins hættulegar og fólk segir.

Í náttúrunni blandast erfðamengi lífvera saman á hverjum degi, bakteríur taka upp gen, veirur skjótast inn í erfðamengi, systurtegundir æxlast og sambýlislífverur skiptast á genum. Lífverur eru náttúrulega erfðabreyttar, auk þess sem nýjar og ófyrirsjáanlegar stökkbreytingar verða til á hverri sekúndu. 50 erfðabreyttar byggplöntur eru dropi í þann sjó lífvera sem til er og hefur verið til. Og að segja að áhættan á skrímslum vegna 50 byggplantna sé meiri en áhættan í allri náttúrunni yfir milljarða ára er rangt.

Ræktendur hafa nýtt sér náttúrulegar uppsprettur erfðabreytileika í ræktun afbrigða og kynbótum í hundruð ef ekki þúsundir ára. Við skjálfum ekki á beinunum yfir kynbættum kartöflum eða vel æxluðum nautgrip, en þeir eru í sjálfu sér ekki svo fjarri "ónáttúrulega" erfðabreytta bygginu sem ORF líftækni ræktar. Í stað þess að nota handahófskenndar aðferðir og bíða eftir því að finna "náttúrulega" erfðabreytt bygg (með því að hella manna DNA á nægilega margar byggplöntur mun það takast á endanum!!), þá notar ORF nákvæmari tækni.

Erfðabreyttustu lífverur jarðar eru nytjaplöntur og húsdýr. Það eru ekki skrímsli sem eiga eftir að þurrka út annað líf á jörðinni eða drepa mannfólk unnvörpum. Nytjaplöntur og húsdýr eru í raun bæklaðar lífverur, vegna þess að við höfum valið fyrir ákveðnum eiginleikum (mjólkurnyt, kjötmagni, stærð kornsins) á kostnað náttúrulegrar hæfni lífverunnar. Þessar plöntur og dýr þarfnast margar hverjar okkar aðstoðar við að lifa af. Hveiti nútímans fellur ekki af axinu sjálft, sum evrópsk kúakyn geta var fædd kálfa án dýralæknis, og bananar eru einræktaða útgáfan af halta Pétri. Því er auðvelt að álykta að erfðabreytt bygg með insúlíngen mannsis er engin ógnun við lífríkið.

Margir setja jafnaðarmerki milli ORF líftækni og Monsanto. Við getum rætt Monsanto og áþekk fyrirtæki síðar, en ORF er með annarskonar framleiðslu. Það notar bygg sem efnaverksmiðjur. Það að hreinsa lífefni úr öðrum uppsprettum er bæði óskilvirkara og sóðalegra, og það að nýmynda slík efni með aðferðum lífrænnar efnafræði krefst margra lausna sem eru miður æskilegar. Ef valið er á milli þess að framleiða Insulín með byggi, eða hreinsa það úr svínavef þá myndi ég velja byggið. 

Áhættan af erfðabreyttu byggi er hverfandi, eins og við höfum rakið hér áður. Ef við viljum sýna náttúrunni og umhverfinu virðingu þá er margt annað sem við ættum að BANNA á undan erðabreyttu byggi (flugvélar, bíla, orkufrek hús með glerrúðum, malbik, dráttarvélar, farþegaskip, bækur, gosdrykki, umbúðir o.s.frv.).

Við verðum að forgangsraða í okkar lífi, t.d. með þvi að draga úr akstri, kaupa matvöru með litlum eða engum umbúðum og setja niður tré. Ég treysti ykkur alveg til að komast að eigin niðurstöðu um það hvernig við getum verndað náttúru Íslands og heimsins, en ég vona að þið dæmið ekki erfðabreytta byggið á röngum forsendum.

Með kveðju,


Erfðabreyttar lífverur, efasemdum svarað

Umræða um erfðabreyttar lífverur hefur tekið mikinn kipp á síðasta mánuði, i kjölfar beiðni ORF líftækni um að fá að rækta utandyra hérlendis erfðabreytt bygg. 

Ræktun nytjaplantna með markvissum erfðabreytingum er ekki í eðli sínu frábrugðin hefðbundinni ræktun, eða jafnvel venjulegri þróun.

Kári Stefánsson minntist á þetta í samtali við Leif Hauksson í þættinum samfélag í nærmynd (þriðjudaginn 9 júní 2009); líkurnar á að markvissar erfðabreytingar geti skapað skrímsli séu í raun hverfandi. Ef það væri auðvelt að búa til skrímsli með erfðabreytingum, þá hefði það örugglega gerst á síðasta einum milljarði ára. En þekking okkar á þróunarsögunni sýnir að slík skrímsli hafa aldrei orðið til.

Kristín Vala Ragnarsdóttir benti á að aukin ræktun  erfðabreyttra plantna í Bandaríkjunum helst í hendur við hrun í býflugnastofninum, og staðhæfði að um orsakasamband væri að ræða (án þess að geta heimilda, því þær eru engar!). Eins og Ólafur Andrésson og félagar benda á er ekki um orsakasamband að ræða. Kári útskýrir þetta ágætlega með líkingu: byggræktun hefur aukist á Íslandi á síðustu árum, á meðan fjöldi framsóknarmanna hefur minnkað. Það dettur engum í hug að halda að byggið hafi étið framsóknarmennina! Margar þættir sýna fylgni, og ef við kíkjum á Bandaríkin, þá er líklegt að marg annað sýni fylgni við samdrátt í fjölda býflugna, fylgi demókrata eða farsímanotkun. Hér er óttinn að trompa sannleikann.

Krafa fólks er um meiri upplýsingar og umræðu. Því miður hefur umræðan verið örlítið öfgakennd, og þegar fullyrðingar hafa verið hraktar, er slengt fram tilfinningalegum rökum eða vísunum í mismunandi lagaumhverfi (sjá til dæmis samskipti Katrínar Önnu Guðmundsdóttur og Magnúsar Karls Magnússonar, á bloggsíðu Katrínar).

Upplýsingarnar eru öllum aðgengilegar. Nefnd fagaðilla fór yfir umsókn ORF líftækni og skilaði sínu áliti, sem er aðgengilegt öllum á heimasíðu Umhverfisstofnunar. Tveir af nefndarmönnunum rituðu í síðustu viku grein í morgunblaðið (fimmtudaginn 11 júní 2009) sem tekur á nokkrum þeirra athugsemda sem fram hafa komið. Fyrirsögn greinar Evu Benediktsdóttur og Snorra Baldurssonar er sú sama og þessarar færslu "Erfðabreyttar lífverur, efasemdum svarað".

Í grein sinni ræða Eva og Snorri einnig þá nálgun andstæðinga erfðbreyttra lífvera, að slá um sig með misvísandi staðhæfingum og glannalegu orðalagi, sem er í raun bara hræðsluáróður (sbr. færslu Jakobínu Ingunnar Ólafsdóttir Óþverri á heimsmælikvarða).

Grein þeirra Evu og Snorra er endurprentuð hér í heild sinni, með góðfúslegu leyfi höfunda.

Nú liggur fyrir umsókn frá líftæknifyrirtækinu ORF um tilraunaræktun á erfðabreyttu byggi á sérstökum tilraunaakri í Gunnarsholti. Plöntunum hefur verið erfðabreytt þannig að þær framleiða græðisprótín eða vaxtarþætti úr mönnum í fræjum sínum. Nokkur umræða hefur verið um þessa umsókn undanfarið og er það af hinu góða. Til þess að slík umræða geti orðið grundvöllur upplýstrar skoðanamyndunar er mikilvægt að umræðan byggist á þekkingu, en ekki ranghugmyndum, misskilningi eða fordómum. Eðlilegt er að margir hafi áhyggjur af hinu óþekkta og í þessari umræðu hafa verið settar fram nokkrar fullyrðingar sem mikilvægt er að upplýsa um og skýra frekar.

1. Fullyrt hefur verið að lítið eða ekkert umhverfisáhættumat hafi verið gert varðandi umsókn ORF.

Áhættumat er skylda samkvæmt lögum og stór liður í umsókninni. Uppbyggingu þess má sjá á umsóknareyðublaði sem fyrir liggur hjá Umhverfisstofnun. Í umsókninni er áhættumatið vandlega útfyllt af umsóknaraðilum og yfirfarið af umsagnar- og matsaðilum.

2. Fullyrt er að erfðabreytta byggið geti æxlast við plöntur í náttúru Íslands, t.d. melgresi.

 Í fyrsta lagi er bygg sjálffrjóvga og dreifir ekki frjókornum nema í afar litlum mæli. Í öðru lagi á ræktað bygg enga nána ættingja í íslensku flórunni sem það gæti hugsanlega æxlast við. Undan ræktuðu byggi og melgresi er ekki hugsanlegt að kæmu frjóir afkomendur.

3. Fullyrt er að erfðabreytt bygg geti breyst í ágenga plöntu, sbr. spánarkerfil og lúpínu, sem geri innrás í íslenska náttúru.

Þetta er óhugsandi. Bygg er einær planta sem hefur verið í ræktun hér á landi með hléum frá landnámsöld og hefur aldrei slæðst úr ræktun. Mannaprótín í fræjum erfðabreytta byggsins gerir það á engan hátt hæfara til að vaxa í villtri náttúru.

4. Því er haldið fram að erfðavísarnir og prótínin sem um ræðir mengi jarðveg á tilraunastaðnum og safnist þar fyrir í jörðu líkt og þrávirk eiturefni eða þungmálmar.

Þetta er fráleitt. Erfðavísar (gen) og prótín eru flóknar stórsameindir byggðar upp af kirnum og amínósýrum. Þessi lífrænu efni rotna jafnt og allir aðrir hlutar lífvera. Örverur sjá um að brjóta niður plöntuleifar í jarðvegi, jafnt leifar erfðabreyttra plantna sem annarra. Erfðavísar og prótín eru í allri fæðu sem við innbyrðum og þeim er sundrað í grunneiningar sínar í meltingarvegi manna og dýra.

5. Áhyggjur eru uppi vegna fugla, smádýra og örveruflóru jarðvegs á tilraunastað.

Mest af plöntuleifum verður fjarlægt, gera má þó ráð fyrir að örlítið verði eftir á tilraunaakrinum og verði fæða smádýra og fugla. Óhugsandi er að þeim geti orðið meint af. Þau prótín sem framleidd eru í fræhvítu byggplöntunnar eru ekki virk fyrr en búið er að meðhöndla þau á rannsóknarstofu. Svipuð eða sömu prótein finnast í hræjum, kjöti og mjólk.

Í þessari umræðu hafa andstæðingar erfðabreyttra lífvera því miður notað orðalag sem ætlað er að sá tortryggni og hræða. Sem dæmi má nefna að slegið er fram spurningum varðandi eiginleika og áhrif hinnar erfðabreyttu lífveru án þess að leitað sé svars, en það er vel þekkt áróðursleið. Sagt er að vistkerfin eða lífveran „fari úr böndunum" og að erfðafræðingar „möndli" og „fikti" með erfðaefnið. Versta dæmið er líklega þegar matvörur, unnar úr erfðabreyttum lífverum, eru kallaðar „Frankenstein food". Svona málflutningi er ekki ætlað að upplýsa fólk, heldur að hræða það með óvönduðum áróðursbrellum.

Það sem virðist valda mestum ótta varðandi fyrirhugaða ræktun á byggi er að ætlunin er að framleiða mannaprótín. Mikilvægt er að fólk geri sér grein fyrir hve stór þáttur erfðatækni er nú þegar í nútíma samfélagi og hversu  mikilvæg hún er í framleiðslu lyfja og fyrir rannsóknir og framfarir í líf- og heilbrigðisvísindum.

Margir alvarlegir sjúkdómar manna orsakast af því að líkaminn framleiðir ekki nægilega mikið af lífsnauðsynlegum prótínum. Gott dæmi er sykursýki, sem stafar af skorti á insúlíni. Eina ásættanlega leiðin til að framleiða sérvirk mannaprótín er að flytja erfðavísa úr mönnum í aðra lífveru. Áður en erfðatækni kom til sögunnar var insúlín einangrað úr brisi svína og nautgripa og það var með dýrustu lyfjum. Í meir en tvo áratugi hefur raunverulegt manna-insúlín hins vegar verið framleitt af erfðabreyttum örverum sem innihalda erfðavísi úr mönnum. Nýlega hefur kanadískt líftæknifyrirtæki hafið tilraunaframleiðslu á insúlíni í erfðabreyttum plöntum og standa vonir til að hægt verði að lækka verðið umtalsvert og gera insúlín aðgengilegt öllum sem á þurfa að halda. Fjölmörg önnur lífefni og sérvirk lyf fyrir menn er einungis hægt að framleiða í lifandi erfðabreyttum frumum.

Erfðatækni má vissulega nota í misjöfnum tilgangi eins og alla aðra tækni. Það eru engir betur meðvitaðir um það en sameindalíffræðingar og náttúrufræðingar sem hafa tekið þátt í því frá upphafi að móta lög og reglur um erfðabreyttar lífverur. Löggjafinn hér á landi og í Evrópu hefur tekið þá afstöðu að dæma hverja umsókn fyrir sig faglega og hefur það verið gert í þessu tilfelli.

 


mbl.is Íslensk líftækni seld til Bandaríkjanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sveiflur í náttúrulegum stofnum

Við nám í líffræðinni þá kveikti vistfræðin aldrei neinn áhuga hjá mér. Vitanlega var mér umhugað um umhverfið og náttúruna, arfleið úr sveitinni eða MH, nema hvorutveggja sé. Samt fannst mér þær  spurningar vistfræðinnar bara óspennandi.

Blessunarlega hef ég þroskast, og þótt það sé ólíklegt að ég leggi genin mín á hilluna kann ég í það minnsta að meta hversu flókin og margslungin vistkerfi eru. Ef manni finnst fruman margslungin, þá eru vistkerfi mörgum sinnum flóknari og erfiðari viðfangs. Sérstaklega þar sem það er mjög erfitt að gera tilraunir með vistkerfi á sama hátt og við getum gert tilraunir með einangraðar frumur eða vefi.

Síðustu viku hafa þrjár rannsóknir og vaktanir á stofnum við Ísland komist í fréttirnar, vegna þess að stofnar eru að sveiflast.

Í fyrsta lagi er erfðasamsetning þorsksins að breytast, þar sem valið er gegn arfgerð sem heldur sig á grunnsævi.

Í öðru lagi er lundastofninn í mikilli niðursveiflu, hann hefur minnkað um  25% frá 2005 samkvæmt upplýsingum frá Náttúrustofu Suðurlands.

Í þriðja lagi er rjúpnastofninn i uppsveiflu um allt land, eins og skýrt var frá í fréttum RÚV og tilkynningu frá Náttúrufræðistofnun Íslands.

Sveiflur í stofnstærð eru eðlilegur hluti af vistkerfum. Vistkerfi og náttúran er aldrei í "jafnvægi" eins og stundum er fullyrt. Náttúran er í besta falli í stöðugu ástandi, en það þýðir t.d. að stofnstærð hangi á einhverju meðal bili, en að stöðug endurnýjun sé í vistkerfinu. Nýjir einstaklingar inn, aðrir út, heilmikið reipitog milli einstaklinga innan tegunda og á milli afræningja, bráðar, sýkla, hýsla og frumframleiðenda.

Það er mjög mikilvægt að við áttum okkur á því að vistkerfin eru hverful, og að við byggjum okkar nýtingu á stofnum á bestu þekkingu um vistkerfin og lífverurnar. Íslenska þjóðin mun ekki svelta ef rjúpna eða lundastofnarnir hrynja þá er mjög mikilvægt að við göngum ekki frá þorskstofninum, því annars höfum við ekki efni á jeppunum okkar, gosdrykkjabaðkarinu og áskriftinni að belgíska boltanum.


Erindi: Hjartaþyngd bleikju

Dvergbleikjur eru meðal sérstökustu lífvera sem finna má hérlendis. Þær hafa þróast úr venjulegri bleikju, eru smærri og með kubbslegra höfuðlag en ættingjar þeirra. Þær búa einnig á öðrum svæðum, halda sig t.d. í ferskvatnslindum eða grýttasta botni Þingvallavatns.

Það eru vísbendingar um að dvergbleikjurnar hafi orðið til oft á Íslandi, þá líklegast í kjölfar staðbundinar aðlögunar að sérstökum búsvæðum. Samt er augljóst að þær eru ekki fyllilega einangraðar frá öðrum bleikjuafbrigðum, þar sem saman geta þau eignast frjó og frísk afkvæmi. Áhrif umhverfis á útlitið eru einnig mjög öflug, það fer að miklu leyti eftir því hvers konar fæðu seiðin fá, hverskonar lag líkamar þeirra taka.

Einnig sýna rannsóknir Hlyns Reynissonar að hjörtu 10 dvergbleikjuafbrigða er mjög áþekk að stærð. Það er vísbending um að dvergbleikjur séu mjög einsleitar, og styður þá hugmynd að þær séu allar af sama meiði. Greiningar á útliti og stærri rannsóknir á erfðabreytileika geta skorið úr um hvort að íslensku dvergbleikjurnar séu af einum meiði eða hafi orðið til aftur og aftur í þróun.

Hlynur mun kynna niðurstöður sínar föstudaginn 12 júni, kl 11:00 i stofu 131 í Öskju. Fyrirlesturinn er vörn á fjórða árs verkefni Hlyns, ágrip á íslensku og ensku má nálgast á vef HÍ.


Umræða um erfðabreyttar lífverur

Á fyrsta ári í doktorsnámi mínu í erfðafræði við North Carolina State University (NCSU) sótti ég námskeið sem hét "siðfræði og fagleg vinnubrögð í vísindum". Hluti af námskeiðinu fjallaði um ígildi Hippokratesar eiðs fyrir líffræðinga, annar um einkaleyfi, tilraunir á dýrum, og samskipti sprotafyrirtækja og Háskóla.

Nú var því slegið upp í Morgunblaðinu að Landbúnaðarháskólinn væri hluthafi í ORF líftækni, og gefið í skyn í það minnsta að rannsóknir allra vísindamanna og umsagnir um erfðatækni væru litaðar af þeirri staðreynd.

Í fréttinni sem hér fylgir ræðir Björn Örvar þessa ásökun og bendir á að viðkomandi vísindamenn leggi vísindalegann heiður sinn að veði, þegar þeir gefa umsagnir.

Ástæðan fyrir því að þetta viðfangsefni var tekið fyrir í NCSU var sú að þetta er mjög flókið mál. NCSU er að upplagi landbúnaðarháskóli, búinn til sem "land grant University", til að efla landbúnað í Bandaríkjunum. Margar deildir sinna ræktun á nytjategundum, sér deild um hænur, önnur um skógartré, meindýr á ökrum og þar frameftir götunum. Starfsmenn sem finna nýjar varnir gegn  pestum, eða leiðir til að bæta afköst hænsnabúa geta því oft selt niðurstöður sínar, eða stofnað um þær fyrirtæki (þetta er nýsköpun, hugmynd verður að fyrirtæki og tekjum). Og það er eðlilegt að háskólinn njóti góðs af, t.d. sem hluthafi. NCSU brenndu sig á því þegar tölfræðingurinn John Sall stofnaði tölfræðifyrirtækið SAS, að þeir veittu honum mjög takmarkaðan stuðning, og báru eðlileg lítið úr býtum. Tæknigarðar eiga að vera vettvangur fyrir slíka tækni og iðnþróun.

Hvernig viðheldur vísindamaður faglegu orðspori sínu þegar milljónir hanga á spítunni? Ef þú átt hugmyndina sjálfur, stofnaðu þá um hana fyrirtæki og haltu rannsóknunum til hliðar. Það eru vitanleg til fyrirtæki sem stunda rannsóknir, birta þær í ritrýndum tímaritum og allt það, en við látum þá umræðu eiga sig í bili.

Lausnin er að draga úr möguleika á hagsmunaárekstrum. Ef þú átt hlut í fyrirtæki í ákveðnum geira, þá getur þú ekki talist óháður umsagnaraðilli að efni á því fræðasviði. Eins verða þeir sem þú hefur unnið með áður, tengist ættarvenslum eða í gegnum félagslegt athæfi (vikulega tedrykkju, eða sjóböð) sjálfkrafa vanhæfir.

Hérlendis veifa stórnmálamenn og aðrir oft örmum og segja, ég gerði ekkert rangt. Vissulega hafði ég möguleika á því, en ég breytti samt rétt.

Okkur var kennt í námskeiðinu við NCSU að það á ekki að vera möguleiki á hagsmunaárekstrum ("there should be no possibility of conflict of interest"). Ef það var möguleiki á að þú gætir hafa misnotað aðstöðu þína, þá varðst þú að labba.

Því miður verður þessi pistill ekki sú ítarlega samantekt um erfðabreyttar lífverur sem efni standa til. En í það minnsta verður þetta örlítil innsýn í veröld vísindafólks. Það er vissulega mannlegt, en flestir þeirra gera sér grein fyrir því hvar mörk persónulegra skoðanna og faglegrar þekkingar liggja.


mbl.is Grundvallarspurning um mann og náttúru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Raunvísindi og líffræði

Vita framhaldsnemar hvað raunvísindi ganga út á? Hvað felur starfsferill í líffræði i sér, eða frami í stjörnufræði, eðlisfræði eða efnafræði? Þetta var umfjöllunarefni sjónvarpsfrétta RUV í gærkvöldi.

Samkvæmt Atla Harðarsyni aðstoðarskólastjóra við fjölbrautarskóla Vesturlands  "það vita allir nokkurn vegin hvað bankamenn gera, en hafa afar óljósa hugmynd um hvað raunvísindamenn gera, flestir unglingar þekkja þessi störf lítið".

Störfin eru vissulega fjölþætt, líffræðingar starfa við rannsóknir, kennslu, umhverfivottun og á ríkistofnunum eða við líftæknifyrirtæki. Lífefnafræðingar, efnafræðingar, og eðlisfræðingar starfa á svipuðum sviðum einnig, en í fyrirtækjum með áherslu á viðkomandi fagsvið (raftækni, efnaverkfræði, tölvur). Reynsla í raunvísindum nýtist samt mörgum á milli fagsviða, á Decode vann ég með stærðfræðingum, læknum, verkfræðingm, líffræðingum, lífefnafræðingum og lífeindafræðingum.

Kveikja að frétt RUV var vísindavika sem Landbúnaðarháskóli Íslands stóð fyrir, þar sem framhaldskólanemar á vesturlandi fengu tækifæri til að taka þátt í rannsóknum og kynnast störfum líffræðinga og búfræðinga.

Þegar ég var við nám í  Bandaríkjunum kynntist ég forvitnilegri leið að sama marki. Góðir  framhaldskólanemar fengu tækifæri til að koma inn í háskólana og kynnast einhverri fræðigrein og starfi á rannsóknarstofu. Þeir unnu þá sem sjálfboðaliðar, fengu reynslu og innsýn í heim raunvísindanna sem virðist geta framkallað bæði aðdáun og ótta (hið síðara oftast af röngum forsendum - samanber umræðu um erfðabreyttar lífverur).


Erindi: Áhrif mannsins á gróðurlendi

Í dag mun Sverrir Aðalsteinn Jónsson flytja fyrirlestur um rannsókn á gróðurfari í Fljótsdalshéraði. Hann notaði jarðfræðilegar aðferðir til að skoða breytingar sem orðið hafa á síðustu 2000 árum, og kanna hvort að maðurinn eða breytingar á veðurfari hafi skipt meira máli varðandi breytingar á gróðulendi. Þetta sýnir hvernig hin mismunandi svið raunvísinda geta nýtast til að svara vísindalegum spurningum. Rannsóknin var unnin undir handleiðslu Ólafs Ingólfssonar, jarðfræðings, en spurningin er í raun líffræðileg eða umhverfisfræðileg, hvað hefur áhrif á útbreiðslu og viðgang gróðurs.

Rannsóknina vann Sverrir sem meistaraverkefni við Jarðfræðideild HÍ og er fyrirlesturinn hluti af vörn hans. Erindið hefst kl 14:00 í stofu 131 í Öskju, náttúrufræðihúsi HÍ. Ágrip má nálgast hér, það er einnig endurprentað hér að neðan.

Megintilgangur rannsóknarinnar var að afla gagna sem gætu skýrt gróðurfarssögu Fljóts­dalshéraðs síðastliðin 2000 ár og kanna orsakir hnignunar skóga héraðsins. Rannsóknin var gerð á tveimur mismunandi gagnasöfnum. Í fyrsta lagi var gerð nákvæm rannsókn á öllum sagnfræðilegum heimildum um gróðurfar og veðráttu á Austurlandi frá landnámi. Í öðru lagi var gerð frjókornarannsókn á sýnum úr setkjarna er tekinn var úr tjörn innan Hallorms­staðarskógar. Sá kjarni spannar um það bil 2000 ár.

Setið í kjarnanum var einsleitt vatnaset er innihélt mörg öskulög. Öskulagatímatal var útbúið fyrir kjarnann og við það notuð sex þekkt öskulög. Niðurstöðum frjókornarannsóknarinnar var skipt upp í sex kafla (zones) og hver þeirra táknaði mismunandi gróðurfarsaðstæður. Þessir kaflar voru síðan notaðar til túlkunar gróðurfarssögu svæðisins. Við landnám var svæðið um­hverfis tjörnina þakið skógi, en skógurinn hörfaði hratt eftir landnám. Á 15. öld sótti skógurinn fram á ný og var frekar gróskumikill allt fram á miðja 18. öld en þá hörfaði hann hratt. Þessi hörfun hélt áfram allt til upphafs 20. aldar þegar skógurinn var friðaður.

Áhrif mannsins virðast hafa skipt sköpum hvað varðar ástand skógarins eftir landnám en veðurfar virðist hafa haft minni áhrif.

Leiðbeinendur: Ólafur Ingólfsson, prófessor, og Dr. Ólafur Eggertsson

Prófdómari: Dr. Egill Erlendsson


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband