Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2010

Það hófst allt með frumdýri...

Elisabeth Blackburn velti fyrir sér hvernig litningaendar eru eiginlega varðveittir í frumum við skiptingar. Það leiddi hana að frumdýrinu Tetrahymena sem er einnar frumu lífvera með mikinn rekstur. Þessi frumdýr eru í raun þykjustu fjölfrumungar. Þeir eru með tvo kjarna, annar er með eðlilegt sett af genum frá báðum foreldrum á stórum og heilbrigðum litningum. Þessi kjarni (svokallaði litli kjarni - micronuclei) er varðveittur þangað til litla frumdýrið finnur sér lífsförunaut (eða skammtímaást). Hinn kjarninn er aftur á móti mjög undarlegur. Í honum má finna mörg, mörg afrit af hverju einasta geni frumdýrsins, og litningarir eru allir brotnir upp. Það þýðir að í þessum stórkjarna (macronucleii) eru ótrúlega margir litningaendar.

378px-Tetrahymena_thermophilaTetrahymena thermophila af wikimedia commons.

Þess vegna fór Elisabeth Blackburn að leita að þáttum sem gátu varið litningaendanna í stórkjörnum frumdýrsins. Og hún uppskar telómerasa, flóka ensíms og RNA sameindar, sem getur bætt við litningaenda og komið í veg fyrir að þeir styttist við hverja skiptingu (sjá lýsingu á vandamálinu í Galsi og eilíft líf).

Hún hlaut einnig nóbelsverðlaunin í læknisfræði árið 2009, ásamt samstarfsmönnum sínum Carol W. Greider og Jack W. Szostak.

Litningaendar tengjast öldrun - ef þeir verða of stuttir eyðileggjast mikilvæg gen og litningarnir verða óstöðugir. Þeir tengjast einnig krabbameinum, algengt er að sjá of langa litningaenda í krabbameinsfrumum. Einnig sýndu Þórunn Rafnar og félagar hjá decode að breytileiki í telomerasa hefur áhrif á líkurnar á nokkrum gerðum krabbameina:

Önnur af þeim tveim stökkbreytingum sem fundust á þessu svæði er í TERT geninu, sem skráir fyrir víxlrita ensímflókans telomerasa. Eins og við höfum rætt áður er telomerasi nauðsynlegur fyrir viðhald litningaenda og líklega sem slíkur fyrir stöðugleika erfðamengisins (Urður, verðandi og skuld).

Elisabeth mun halda fyrirlestur á afmælisári HÍ á næsta ári. Hún er öndvegis fyrirlesari, skýr með notalegan talanda og framsetningu. Rannsóknirnar eru fyrsta flokks og spurningarnar stærri en lífið sjálft...eða næstum því.

Aukalega:

Ef grant er að gáð eru fréttir mbl.is og dv.is snarpar þýðingar á frétt the Guardian. Slík vinnubrögð sleppa kannski þegar verið er að fræða fólk um fjölda marka í fótboltaleik, en stundum skolast vísindin til í meðförum fréttamanna sbr. (Þýðingarþjónusta mbl.is) sem fjallar einmitt...um litningaenda og telómerasa.

Ítarefni:

The Guardian Ian Sample 28 nóvember 2010.Harvard scientists reverse the ageing process in mice – now for humans

Um nóbelsverðlaunin 2009 - CCCCAA


mbl.is Snúa við öldrun í músum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Traust á vísindalegum niðurstöðum

Læknisfræðin eru raunvísindi, í þeim skilningi að settar eru fram tilgátur, þær prófaðar og metnar. Þekking okkar á eðli sjúkdóma er sífellt að aukast, vegna vísindalegra rannsókna á smitberum, sjúklingum, umhverfisþáttum og erfðum. Á sama hátt reyna heilbrigðisvísindamenn og líffræðingar að finna leiðir til að meðhöndla sjúkdóma, lækna eða a.m.k. milda einkenni þeirra. Ný meðferðarúrræði eða lyf þarf alltaf að meta með hliðsjón af bestu fáanlega meðferð. Það skiptir engu þótt ný meðferð sé betri en læknisfræði nítjándu aldar, mið verður að taka af stöðu dagsins í dag.

Lyfjafyrirtækin þurfa að fá leyfi fyrir því að markaðssetja ný lyf, eða gömul lyf sem svar við öðrum sjúkdómum. Til þess að meta notagildi lyfja er framkvæmd lyfjapróf, þar sem eiginleikar lyfjanna eru kannaðir og svörun sjúklinga við þeim. Slík lyfjapróf eru mjög fjárfrek, enda er sterk krafa um að einungis nothæf lyf séu sett á markað og að aukaverkanirnar séu litlar (eða ásættanlegar).

Því miður er að koma í ljós að lyfjafyrirtæki hafa stundað margskonar bellibrögð til þess að fegra niðurstöður lyfjaprófa og markaðsset lyf sem annað hvort virka illa eða hafa alvarlegar aukaverkanir. Þetta er einna skýrast í tilfelli geðlæknisfræðinnar. Steindór J. Erlingsson hefur skrifað ítarlega um þessi mál á undanförnum tveimur árum. Nú fyrir helgi birtist grein eftir hann á Pressunni, þar sem hann reifar þessi svik lyfjafyrirtækjanna og meðvirkni læknasamfélagsins. Hann vísar í leiðara British Medical Journal, sem vill "endurvekja trúna á fyrirliggjandi vísindagögn“ í læknisfræðinni. Úr grein Steindórs:

Rannsóknir hafa leitt í ljós að lyfjapróf sem fjármögnuð eru af lyfjafyrirtækjum (í dag eru rúmlega 70% af lyfjaprófum fjármöguð af þeim) eru mun líklegri til þess að sýna marktækan mun á lyfi og lyfleysu eða samkeppnislyfi en þegar þau eru fjármögnuð af óháðum aðilum. Vandamálið snýst um að lyfjafyrirtækin halda öllum gögnum, takmarka þannig aðgang rannsakenda að þeim og láta oft „draugahöfunda“ skrifa vísindagreinar.

Ein alvarlegasta birtingarmynd þessa er þegar lyfjafyrirtæki birta ekki niðurstöður neikvæðra lyfjaprófa eða birta þau sem „jákvæð“. Með þessu móti er dregin upp röng mynd af mögulegri virkni lyfja. Þessari aðferð hefur verið beitt við markaðssetningu ýmissa þunglyndislyfja sem komið hafa á markað á undanförnum rúmum tuttugu árum.....

Af framansögðu má ljóst vera að læknar hafa ekki síður en sjúklingar verið blekktir. Þeir geta hins vegar ekki fríað sig ábyrgð. Í bók lífsiðfræðingsins Carls Elliott, White Coat, Black Hat: Adventures on the Dark Side of Medicine (2010), er fjallað um þennan vanda sem læknisfræðin stendur frammi fyrir. Eitt af því sem hann gerir að umtalsefni eru samskipti lækna við lyfjaiðnaðinn. Elliott segir læknasamfélagið hafa deilt áratugum saman um hvort auglýsingar, gjafir, námsferðir eða önnur hlunnindi sem lyfjaiðnaðurinn og fulltrúar hans láta læknum í té hafi áhrif á lyfjaávísanir þeirra. Í dag liggur hins vegar ljóst fyrir að þessi samskipti hafa oft bein áhrif á hvernig og hvaða lyfjum læknar ávísa, enda segir Elliott endurteknar rannsóknar hafa staðfest þetta.

Í ljósi þess sem fram hefur komið þá hlýt ég að spyrja:

Af hverju halda læknar áfram að eiga bein samskipti við fulltrúa lyfjaiðnaðarins?

Af hverju leyfði Geðlæknafélag Íslands fulltrúum lyfjaiðnaðarins að sitja fyrir gestum á vísindaþingi félagsins í vor?

Af hverju tóku íslenskir geðlæknar þátt í skipulagningu fundar í vor þar sem til stóð að fulltrúi lyfjafyrirtækisins Pfizer, framleiðandi hins rándýra kvíðalyfs Lyrica, gagnrýndi eldri gerðir kvíðalyfja? Er það eðlilegt að lyfjaiðnaðurinn borgi með auglýsingum rúmlega 90% af rekstarkostnaði Læknablaðsins?

Þetta þykja mér mjög eðlilegar spurningar. Læknar og fræðimenn verða að verja orðspor sitt - og það er best gert með því að forðast mögulega hagsmunaárekstra. Lyfjafyrirtækin vita að styrkir til lækna - til að fara á ráðstefnur eða vinnufundi - skila sér í meiri ávísunum og meiri tekjum.

Það er erfiðara að meta áhrif lyfjarisa á heil vísindasamfélög, t.d. í gegnum auglýsingar í fagtímaritum, styrki við ákveðnar stofnanir og fundi. Við í stjórn líffræðifélagsins þáðum t.d. styrki frá Gróco, Alcoa, Orf líftækni og Landsvirkjun, til að halda Líffræðiráðstefnuna 2009, en það er mér finnst ólíklegt að það hafi bein áhrif á rannsóknir þeirra vísindamanna sem sóttu ráðstefnuna.


Íslenskar rannsóknir á líffræðilegri fjölbreytni

 

Sameinuðu þjóðirnar helguðu árið 2010 líffræðilegri fjölbreytni (biodiversity). Af þessu tilefni standa Líffræðifélag Íslands og Vistfræðifélag Íslands fyrir ráðstefnu um rannsóknir á eðli, tilurð og verndun líffræðilegrar fjölbreytni þann 27. nóvember 2010. Ráðstefnan verður haldin í Norræna Húsinu og Öskju, náttúrufræðihúsi HÍ.

biodiv2010.pngDagskráin stendur frá 9:00 til 18:30, boðið verður upp á yfirlitserindi, styttri fyrirlestra og veggspjaldakynningu (frá 17:00 til 18:30 í Öskju).

Ég vil vekja sérstaka athygli á tveimur yfirlitserindum.

Ástþór Gíslason, við Hafrannsóknarstofnun, mun fjalla um líffræðileg fjölbreytni og nýlegar rannsóknir á henni á Mið-Atlantshafshryggnum (Kl. 9.15).

Simon Jeffrey, sem vinnur við Samevrópska jarðvegsstofnun í Ipsa á Ítalíu mun kynna verkefni sem kortleggur líffræðilega fjölbreytni í jarðvegi (European Atlas of Soil Biodiversity - Kl. 13.15)

Meðal annars efnis á ráðstefnunni eru fyrirlestrar um:

Líffræðileg fjölbreytni kóralsvæða við Ísland
Áhrif skógræktar á tegundaauðgi planta, dýra og sveppa
Fjölbreytt gróðurfar í ræktuðu túni gaf meira fóður og dró úr illgresi
Verndun líffræðilegrar fjölbreytni: mikilvægi vist- og þróunarfræðilegra ferla
Fjölbreytileiki íslenskra hornsíla
Myndun afbrigða í Þingvallableikjunni
Duldar tegundir ferskvatnsmarflóa sem lifðu af ísöld


Ráðstefnan er öllum opin, en rukkaðar eru 500 kr. fyrir kostnaði. Ókeypis er fyrir nemendur.  Nánari dagskrá og ágrip erinda má sjá á vefsíðum Líffræðifélags Íslands (Biologia.hi.is) og Vistfræðifélags Íslands (vistis.wordpress.com).


Fuglaáhugamenn eru flottastir

Þegar ég kom í líffræði þekkti ég kannski 10-15 tegundir fugla. Í árganginum mínum voru engir forfallnir fuglaáhugamenn, en einn slíkur kenndi okkur hryggdýr.

Arnþór Garðarsson hefur alla tíð heillast af fuglum, birti sína fyrstu grein 17 ára gamall og hefur aldrei slegið af. Nú lætur hann af störfum sem prófessor í líffræði eftir áratuga starf og laugardaginn 6 september [2008] verður haldin ráðstefna honum til heiðurs. (sjá Til heiðurs Arnþóri Garðarssyni)

Á hverjum tíma hafa alltaf verið nokkrir forfallnir fuglaáhugamenn í líffræðinámi við HÍ. Ég segi forfallnir af því að þeir eru einbeittari og ákveðnari en margir samstúdentar þeirra, eða að minnsta kosti með skýrar hugmyndir um það hvað þeir "vilja verða þegar þeir verða stórir". 

Það er hreint út sagt undarlegt að enginn fuglafræðingur verði með framlag á ráðstefnunni um Íslenskar rannsóknir á líffræðilegri fjölbreytni, sem haldin verður 27. nóvember í Norræna húsinu. Eina fuglatengda viðfangsefnið er veggspjald um sníkjudýr í rjúpum, mjög jólalegt viðfangsefni.


mbl.is Fuglamerkingar í nýjum höndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Erindi: Eric Lander

Einn af þeim vísindamönnum sem stóðu fyrir raðgreiningu á erfðamengi mannsins, Eric Lander, mun halda erindi þriðjudaginn 23 nóvember kl 10:00. Fyrirlesturinn verður í húsnæði Íslenskrar Erfðagreiningar, að Sturlugötu 8. Úr tilkynningu:

Dr. Lander gekk til liðs við Whitehead stofnunina árið 1986 og hóf síðar störf við MIT sem erfðafræðingur. Hann hlaut árið 1987 hinn virtu MacArthur verðlaun. Árið 1990 stofnaði hann WICGR (Whitehead Institute/MIT Center for Genome Research), sem er er leiðandi stofnun á heimsvísu innan erfðafræðirannsókna. Undir forystu Dr. Landers hefur stofnunin náð miklum árangri við þróun aðferða við að greiningu erfðamengja spendýra. Dr. Lander var einn helsti hugmyndasmiður og leiðtogi alþjóðlega samstarfsverkefnisins "The Human Genome Project", um kortlagningu erfðamengis mannsins. WICGR stofnunin lagði grunninn að stofnun Broad stofnunarinnar, en þar lék Dr. Lander lykilhlutverk.


Til lukku með gosið í jöklinum

cover_natureÉg vildi bara óska félögum mínum í Öskju, jarðvísindafólkinu til hamingju með árangurinn. Greinin er mjög forvitnileg, meira að segja fyrir líffræðing.

Ekki sakar að hafa mynd Fredrik Holms á forsíðunni - hann er með margar flottar myndir af gosinu á síðunni sinni.


mbl.is Rannsökuðu Eyjafjallajökul
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er arfleiðin?

Gaman að sjá ítarlegari umfjöllun um rannsókn Agnars og Sigríðar Sunnu, fyrsta fréttin á mbl.is var frekar hraðsoðin (Amerískir indíánar til Íslands árið 1000?).

Ef þetta er satt þá eiga líklega um 350 íslendingar ættir sínar að rekja til indjána Vesturheims.

Hvað felst í því að vera kominn í 40sta lið af indjánafrú?

Hvert einasta afkvæmi fær helming gena sinna frá föður og helming frá móður. Því er óhjákvæmilegt að indjánaarfurinn þynnist, með fjölda kynslóða. Barnabarn indjánakonunar var með fjórðung af genum hennar, barnabarnabarnabarn einn sextánda og þar frameftir götunum. Úr kaflanum um þróun mannsins:

Þó að við getum rakið ætt okkar til mikilmenna (t.d. Grettis Ásmundarsonar eða Kópernikusar) er einungis lítill hluti gena okkar frá viðkomandi einstaklingum (um 20 kynslóðir eru milli nútímamanns og Kópernikusar, þannig að framlag stjörnufræðingsins til erfðamengis afkomenda hans á okkar öld væri um 1/1.000.000).

Hver einasti afkomandi er semsagt með u.þ.b. 1 milljónasta af því erfðaefni sem Kópernikus var með. Í erfðamengi okkar eru um 21000 gen, þannig að hver einstaklingur er í besta falli með eitt gen frá forföður í tuttugasta lið. Undantekningin er kvenleggurinn, þar sem hvatberinn erfist bara frá móður. Vitanlega er óvissa í þessum tölum, því það er tilviljun háð hvaða gen lenda í hverri kynfrumu.

Genin okkar koma úr mörgum áttum, þau eru svo sameiginleg arfleifð okkar sem tegundar.

Leiðrétt 18 nóvember 2010.


mbl.is Eiga rætur að rekja til indíána
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Genaflæði

Ef þú skiptir 5000 ávaxtaflugum í 5 jafnstóra hópa og setur hvern í eina krukku, fóðrar þær reglulega og bíður í 50 kynslóðir, verður þú vitni að þróun. Með tímanum mun tíðni arfgerða breytast í krukkunum. Ef einhver breytileiki í geni (t.d. skipti á A og T í sjötta basa gens X) var í 50% tíðni í öllum fimm krukkunum í upphafi er óhjákvæmilegt að tíðnin breytist á kynslóðunum 50. Tíðnin gæti verið orðin 51% í krukku 1, 47% í krukku 2 og jafnvel 70% í krukku 5. Þetta er vegna tilviljunar.

Í hverri kynslóð er það hendingu háð hvaða gerð (A eða T) lendir í hverri einustu kynfrumu. Þegar horft er til þess að þúsundir kynfruma er myndaðar í hverri kynslóð, í 50 kynslóðir er ljóst að tilviljunin er mikilvægur þróunarkraftur. Til mótvægis við hendingu er genaflæði - sem er tilkomið vegna fars (migration) lífvera á milli svæða eða landa. Í dæminu hér að ofan er mikilvægt er innsigla krukkurnar þannig að engar flugur komast út og engar inn - til að koma í veg fyrir genaflæði. Ef nægilegt genaflæði hefði verið á milli krukkana, verður tíðni stökkbreytinganna sú sama í þeim öllum. Hending getur breytt stofnum, en genaflæði gerir þá eins.

Agnar Helgason sagði mér eitt sinn frá þessari sérkennilegu arfgerð sem fannst í hvatbera íslenskrar manneskju, og nú er greinin komin út. Þegar ættartré hvatberalitninga er skoðað sést að þessi gerð, C1e er frábrugðin þeim gerðum sem eru ríkjandi í Evrópu. Þessi litningur er líkastur litningum frumbyggja Ameríku. Ameríka var numin fyrir u.þ.b. 14.000 árum og því er möguleiki að litningurinn hafi borist inn í íslenska stofninn eftir fund Grænlands og Vínlands. Með því að skoða arfgerðir nokkura núlifandi íslendinga og ættartré Íslendingabókar gátu Agnar og Sigríður Sunna fundið fleiri einstaklinga með C1e gerðina, og metið hvenær litningurinn kom til landsins. Þau segja að hann hafi komið - í seinasta lagi - rétt fyrir árið 1700 en mestar líkur eru á að hann hafi komið fyrr.

Það er því góður möguleiki á að þessi litningur hafi borist með konu eða stúlku sem flutt var frá nýja heiminum til Íslands, þótt erfðafræðin segi ekkert um leiðina (t.d. Halifax - Öræfi eða Labrador - Nuuk - Reykjavík). Í lok ágrips greinarinnar segir einnig að ekki sé hægt að útiloka að litningurinn hafi borist frá Evrópu eða Asíu, þótt það sé vissulega ólíklegri möguleiki.

Stofnar mannkyns hafa aðskilist að hluta, sá meiður sem gat af sér frumbyggja Ameríku átti ekki möguleika á að æxlast við Evrópubúa í 13500 ár (eða jafnvel lengur). Far og genaflæði milli landsvæða var frekar lítið á forsögulegum tíma og því byggðist upp erfðamunur milli þjóða og landsvæða*. Þannig urðu C1 arfgerðirnar algengar í Austur Asíu og Ameríku, en aðrar gerðir ríkjandi í Evrópu og Afríku. Saga þjóðanna er mikilvægasta útskýringin á þeim mun sem við sjáum á mannfólki um víða veröld. Þrátt fyrir munin sem við sjáum er samt augljóst að við erum öll sömu tegundar.

Map_of_gene_flow_in_and_out_of_BeringiaMynd af wikimedia commons: úr grein Eriku Timm í Plos One: Creative commons license.

Genaflæði í nútímanum mun draga úr þeim mun sem byggðist upp á milli stofna á forsögulegum tíma - genaflæði mun þannig stuðla að erfðafræðilegu jafnrétti stofna.

*Náttúruleg val getur líka leitt til þess að stofnar verði ólíkir að erfðaupplagi, en það útskýrir samt ekki nema lítinn hluta þess breytileika sem við sjáum.

Ítarefni:

Sigríður Sunna Ebenesersdóttir og félagar A new subclade of mtDNA haplogroup C1 found in icelanders: Evidence of pre-columbian contact? American Journal of Physical Anthropology DOI: 10.1002/ajpa.21419

race/history/evolution notes fjallaði um greinina og er ekki sannfærður Icelandic C1 distinct from Amerindian and Asian subclades

Þróun mannsins - kafli í bókinn Arfleifð Darwins. Fyrstu 3 síðurnar eru aðgengilegar á netinu.


mbl.is Amerískir indíánar til Íslands árið 1000?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Arfleifð Darwins: Þróun atferlis

Hið íslenska bókmenntafélag gefur út bókina Arfleifð Darwins, sem við höfum kynnt með pistlum á þessari síðu. Valdir kaflar úr bókinni eru aðgengilegir á darwin.hi.is og Facebook síða helguð bókinni hefur verið sett í loftið. Hrefna Sigurjónsdóttir og Sigurður S. Snorrason skrifuðu kafla um þróun atferlis, sem þau kynntu í fyrirlestri á Darwin dögunum fyrir ári síðan. Hér eru brot úr kafla þeirra (pdf af fyrstu þremur síðum kaflans má sjá á Darwin.hi.is).
Atferli einstaklings, dýrs eða manns, er í raun allt það sem hann gerir, hvernig hann hegðar sér. Atferlisfræðingar leitast við að greina og flokka atferli og svara spurningum er lúta að lífeðlisfræði þess og þróun. feður dýraatferlisfræðinnar eða eþólógíunnar (ethology), eins og fræðigreinin var gjarnan nefnd, eru oftast taldir vera þrír, Konrad Lorenz (1903–1989),
Karl von Fritz (1886–1982) og Niko Tinbergen (1907–1988). Þeir gerðu garðinn frægan um miðbik síðustu aldar og hlutu nóbelsverðlaunin fyrir rannsóknir sínar árið 1973. Mun það vera í eina skiptið sem dýrafræðingar hafa fengið þau verðlaun. Þó er óhætt að segja að Charles Darwin sé hinn eini og sanni frumkvöðull á þessu sviði eins og svo mörgum öðrum. Hann lýsti hegðun dýra og túlkaði hana í ljósi aðlögunargildis í sínum þekktustu ritum, Uppruna tegundanna (On the Origin of Species), The Descent of Man, and Selection in Relation to Sex og The Expression of the Emotions in Man and Animals...
Árið 1975 kom út stór og merkileg bók eftir Edward O. Wilson, skordýrafræðing við Harvard-háskóla, sem ber heitið Sociobiology (félagslíffræði). Bókin markaði upphafið að uppgangi hinnar nýju dýraatferlisfræði þar sem hegðun dýra, einkum félagshegðun, er skoðuð í ljósi vist fræði og þróunarfræði og áhersla lögð á að atferli sé að einhverju leyti arfbundið. Wilson tók fyrir alla helstu dýrahópa og í síðasta kaflanum fjallaði hann um hegðun manna á sama hátt. Ári seinna kom út bókin The Selfish Gene eftir breska þróunarlíffræðinginn richard Dawkins. Dawkins lagði áherslu á að það væru í raun genin sem náttúrulegt val snerist um. Genin „lifðu“ áfram en ekki einstaklingarnir, hvað þá hóparnir. Óhætt er að segja að þessi mikla áhersla á aðlögunargildi hegðunar, hafi valdið miklum úlfaþyt í vísindasamfélaginu. 

Heljartök lyfjarisanna

Hér er tekið á jafn hart á bulli nýaldarsinna og svindli lyfjarisanna. Það er því miður almennt að lyfjarisar beiti margvíslegum brellum til að hagræða sannleikanum, til þess að græða peninga.

Lyfjafyrirtæki hafa verið staðin að því að halda leyndum aukaverkunum lyfja - þrátt fyrir óyggjandi vísbendingar. (sjá greinar Steindórs J. Erlingssonar)

Lyfjafyrirtæki hafa tilhneygingu til að birta jákvæðar niðurstöður rannsókna sinna, en stinga neikvæðum niðurstöðum undir stól. (Sjá pistil Ben Goldacre - pay to play?)

Lyfjafyrirtæki selja lyf sín með því að blása upp aukaatriði. Ef lyf dregur úr styrk kólesteróls í blóði, er það það sett á oddinn í augslýsingum, en lítið rætt um þá staðreynd að lyfið dregur ekki úr hjartaáföllum (ef við tökum eitt tilbúið dæmi).

Vandamálið er að hluta til vinnubrögð lyfjafyrirtækja og skortur á siðferðisvitund starfsmanna þeirra. Annað vandamál er að margar rannsóknir eru hreinlega of litlar - tölfræðipróf á litlum gagnasettum geta gefið mjög misvísandi niðurstöður. Stór nýleg úttekt á lyfinu Natrecor sýndi að það var ekki jafn öflugt og haldið var, og einnig að aukaverkanirnar voru vægari en talið var í fyrstu (litlu tilrauninni!) - Good News and Bad From a Heart Study By GINA KOLATA and NATASHA SINGER í New York Times 16 nóv 2010.

Það væri að fleygja barninu út með baðvatninu að loka alveg á lyfjafyrirtækin. Þau hafa fært okkur mörg notadrjúg lyf og lausnir á heilbrigðisvandamálum. En það er nauðsynlegt að setja þeim strangari reglur, og krefjast þess að frumgögn úr ÖLLUM lyfjaprófum og smáatriði uppsetningar og aðferða verði gerð opinber.

 

Sjá einnig skylda pistla:

Svindl í svefnrannsóknum

Þunglyndislyf og léleg tölfræði

Framhald um þunglyndislyf og lyfjarisa

Geðröskun og lyfleysa

Er ADHD ofgreint?


mbl.is Lyfið kostaði 500 manns lífið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband