Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2011

Við erum ekki skyggn

Fyrr á þessu ári birti Darryl Bern grein í virtu tímariti sem bentu til þess að fólk gæti spáð fyrir um framtíðina, að við værum skyggn, a.m.k. að einhverju leyti.

Stór dagblöð slógu þessu upp, NY Times, the Guardian og fleiri, vissulega með nokkrum varnöglum og gagnrýnni umræðu, en gerðu sér samt mat úr málinu.

Ég gagnrýndi þessa umfjöllun á grundvelli þeirrar kennisetningar að miklar staðhæfingar þurfa að byggja á víðfemum og óyggjandi gögnum en ekki lítilli rannsókn eins manns (Mér er ekki sama...):

Mér finnst samt eðlilegt að svona byltingakennd niðurstaða sé studd af frekari gögnum, en ekki bara rannsóknum eins manns. Það ætti að vera nægilega auðvelt að endurtaka tilraunirnar og sannreyna þær frekar. Það er mjög algengt að líffræðingar séu beðnir um að gera auka-tilraunir, eða endurtaka ákveðnar tilraunir ef yfirlesarar eru ekki sáttir. 

Ben Goldacre á Bad science bendir á að nú hafi tilraun Berns verið endurtekin, og niðurstaðan sú að fólk hafi EKKI skygnigáfu. Þið verðið að lesa pistil hans I foresee that nobody will do anything about this problem. Inntakið er þetta:

Tímaritið (Journal of Personality and Social Psychology) sem birti grein Berns vill ekki birta þessa grein sem hrekur ályktanir hans, af því að þeir birti ekki endurtekningar á sömu rannsókn (jafnvel þótt að niðurstaðan sé önnur!).

Einnig er ólíklegt að stóru miðlarnir muni ræða þessa nýju rannsókn jafn ítarlega og þá fyrri.

Neikvæðar niðurstöður eru nefnilega ekki jafn spennandi og jákvæðar niðurstöður. Jafnvel þótt neikvæðar niðurstöður geti bjargað mannslífum og sparað pening, þykja þær ekki fréttamatur. Við erum forfallnir fíklar í jákvæðar niðurstöður og sæmilega "sennilegar" sögur (fyllist inn í eftir þörfum).

Eftirskrift: Ben Goldacre gaf út bókina Bad Science sem er hreinasta gersemi.


... um vísindi, trúarbrögð og Carl Sagan

Eftir að hafa lesið pistil Róberts Björnssonar og hlustað á hugvekju Carl Sagans um litla blá depilinn (jörðina Pale Blue Dot) sá ég (í athugasemdum og á stjörnufræðivefnum) að ekkja Carl sagans mun halda fyrirlestur hérlendis 26. maí næstkomandi. Hvet alla til að mæta, og hvetja aðra til að mæta...og svo koll af kolli. Af vef Siðmenntar:

Fimmtudaginn 26. maí flytur Ann Druyan fyrirlestur um vísindi, trúarbrögð og Carl Sagan. Fyrirlesturinn verður haldinn í Háskólanum í Reykjavík (Bellatrix) og hefst klukkan 20:00. Aðgangur ókeypis og allir velkomnir.

Ann Druyan er bandarískur rithöfundur, fyrirlesari og framleiðandi sjónvarpsþátta. Hún hefur fjallað mikið um áhrif vísinda og tækni á siðmenningu okkar. Druyan skrifaði ásamt eiginmanni sínum heitnum, geimvísindamanninum og húmanistanum Carl Sagan handritið að Cosmos sjónvarpsþáttunum. Þessir þættir nutu mikilla vinsælda, unnu til fjölmargra verðlauna og voru sýndir í meira en 60 löndum.

Erindi hennar heitir „At Home in the Cosmos

Ann Druyan kemur til Íslands á vegum Siðmenntar í samstarfi við Háskólann í Reykjavík og heldur fyrirlestur um togstreituna á milli vísinda og trúarbragða og þau áhrif sem Carl Sagan hafði á almenna þekkingu og umræðu um vísindi.

 Tilkynning frá Siðmennt
mbl.is Leita að lífi á öðrum hnöttum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kreppa geðlæknisfræðinnar og svefnvandi þjóðar

Viðtal Unu Sighvatsdóttur við Steindór J. Erlingsson birtist í Morgunblaðinu fyrr í vikunni. Það birtist í framhaldi af grein Steindórs í tímariti námsráðgjafa, Glímir geðlæknisfræðin við hugmyndafræðilega kreppu? Um vísindi og hagsmuni.

Í viðtalinu segir meðal annars:

Að sögn Steindórs var það í kringum 1980 sem byrjað var að leggja aukna áherslu á líffræðilegu skýringarnar. Nýtt greiningarkerfi geðraskana var smíðað sem byggðist á flokkun ákveðinna einkenna í skýrt afmarkaðar raskanir. „Þeir sem bjuggu til þetta kerfi sáu fyrir sér að í framtíðinni myndu líffræðilegu skýringarnar finnast með aukinni tæki. Nú 30 árum síðar eru þær ekki komnar. Þannig að þetta kerfi lýsir bara einkennum, en greinir ekki orsakirnar.“

Flokkunarkerfið sem geðlæknisfræðin reiðir sig á virðist því vera hluti af vandanum, að sögn Steindórs, því það byggist á veikum vísindalegum grunni. Afleiðingarnar virðast m.a. vera þær að fjöldi þeirra einstaklinga sem hægt er að greina með geðröskun hefur aukist verulega, og lyf yfirgnæfa önnur meðferðarform geðraskana.

Í ljósi þess að ekki er vitað fyrir víst hvað það er sem veldur geðröskunum eins og t.d. þunglyndi, þarf heldur ekki að koma á óvart að ekki er með vissu vitað hvernig t.d. þunglyndislyfin virka í raun.

Steindór rekur einnig í grein sinni í Tímariti félagsráðgjafa að hvorki ríkir einhugur um mögulega virkni geðlyfja né hversu mikið beri að nota þau til að meðhöndla geðraskanir, en óvíða eru fleiri ávísanir á geðlyf en einmitt á Íslandi.

Vilhjálmur Ari Arason gerir grein Steindórs einnig að umtalsefni í pistli um Svefnvanda þjóðar. Þar segir hann:

Allt of auðvelt er að ánetjast svefnlyfjum, sérstaklega þar sem þau virðast við fyrstu sýn vera svo heppileg lausn við algengum vanda. En í upphafi skyldi endinn skoða, eins og á við um allar skyndilausnir. Of gott aðgengi og hvatning að skyndilausnum eins og svefnlyfjum getur í vissum tilvikum skýrt vandann sem við nú stöndum frammi fyrir. Svefnlyf geta nefnilega orðið eins og hækja sem viðkomandi þorir ekki að sleppa þótt hugsunin hafi verið að nota hana aðeins tímabundið. Stundum verður stressið við það eitt að ná ekki að sofna mesta vandamálið og því meira sem fólk hefur vanist að nota svefnlyf sem lausn. Og það getur líka verið ansi erfitt að losna undan viðjum vanans seint og um síðir.

Svefnlyf er því miður ekki eina skyndilausnin sem við ofnotum í heilbrigðiskerfinu. Lyfjakostnaður vegna tauga- og geðlyfja er hins vegar allmennt mjög hár á Íslandi miðað við Norðurlandaþjóðirnar og skipar hér 2. sætið, strax á eftir hjarta- og æðalyfjum. Hluti skýringarinnar er líklega ofnotkun og vert að benda á ágætis grein sem Steindór J. Erlingsson skrifaði í síðustu viku í Tímarit félagsráðgjafa um þátt lyfjafyrirtækja í lyfjanotkun og hugsanlega hugmyndafræðilega kreppu innan geðlæknisfræðinnar. Að mörgu leiti einkenna skyndilausnir hins vegar allt okkar þjóðfélag, hvert sem litið er og sjúklingurinn er að mörgu leiti þjóðfélagið sjálft.


Vísindadagatalið: Thomas H. Morgan og ávaxtaflugan

Vísindavefurinn heldur upp á aldarafmæli Háskóla Íslands með vísindadagatali. Þar er einn vísindamaður, erlendur eða íslenskur kynntur á hverjum degi. Ávaxtaflugan Drosophila melanogasterMér hlotnaðist sá heiður að skrifa um Thomas H. Morgan, sem var vísindamaður mánudagsins 9. maí. Morgan var alger brautryðjandi í rannsóknum á erfðum, mikið til vegna þeirrar heppni að hafa valið sér ávaxtafluguna sem tilraunadýr. Mynd af ávaxtaflugunni Drosophila melanogaster af vef Wikimedia commons. Hann sýndi fram á að genin eru á litningum og hlaut fyrir það nóbelsverðlaunin 1933. Hann deildi verðlaununum með nemendum sínum, sem flestir gerðu merkar uppgötvanir í erfðafræði. Hér er brot úr pistlinum:

Ávaxtaflugur mynda fullvaxta afkvæmi á tæpum tveim vikum við herbergishita, en engu að síður þurfti Morgan að bíða eftir niðurstöðum. Hugmynd hans var að fjölga flugum, æxla þeim saman og leita að frávikum. Mendel vann með ertur og hafði fundið litaafbrigði, hrukkaðar og sléttar baunir, dvergvaxin afbrigði og svo framvegis, en Morgan fann ekkert áþekkt. Hann játaði við gest á tilraunstofunni að hann væri við það að gefast upp, „Tveggja ára vinna er farinn í súginn, ég hef æxlað flugum allan þennan tíma og hef ekkert upp úr krafsinu“.**

En snemma árs 1910 uppskar hann laun erfiðis síns. Í einni flöskunni fann hann hvíteygða karlflugu. 

Í fyrra voru einmitt 100 ár síðan fyrsta genið fannst í ávaxtaflugum, sjá t.d. Morgan og hvíta genið.

Einnig vil ég benda fólki á að í tilefni afmælis HÍ býður heilbrigðisvísindasvið nóbelsverðlaunahafanum Elizabeth Blackburn til landsins. Hún heldur fyrirlestur 21. maí um litningaenda og öldrun, fyrirlesturinn heitir LANGLÍFI OG LITNINGAENDAR Telomeres and Telomerase: How do they Affect human Health and Disease? Elizabeth er ein af hetjunum mínum, framúrskarandi vísindamaður og öndvegis fyrirlesari. Ég geri henni betri skil í næstu viku.


Erindi: Galapagoseyjar: lífríki og hættur

Síðasti föstudagsfyrirlestrar Líffræðistofnunar þetta vorið verður fluttur af Hafdísi Hönnu Ægisdóttur plöntuvistfræðingi og forstöðumanni Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Fyrirlesturinn Galapagoseyjar: lífríki og hættur verður fluttur 13. maí 2011, í Öskju Náttúrufræðahúsi HÍ (stofu 131, kl. 12:30).
Hafdís Hanna Ægisdóttir mun fjalla um einstakt lífríki Galapagoseyja og þær hættur sem steðja að eyjunum. Galapagoseyjar er afskekktur eyjaklasi, staðsettur tæplega 1000 km undan strönd meginlands Suður-Ameríku. Eyjarnar voru gerðar að þjóðgarði árið 1959 og hafa verið á heimsminjaskrá UNESCO frá árinu 1978. Þrátt fyrir að eyjarnar séu einn best varðveitti eyjaklasi í heiminum, þá á lífríki eyjanna í vök að verjast, m.a. vegna ágengra tegunda og miklum fjölda ferðamanna. Í fyrirlestrinum mun Hafdís Hanna segja frá persónulegri reynslu sinni af eyjunum og velta upp þeirra spurningu hvort eyjarnar séu paradís í hættu.

hhae_mynd3.jpgLjósmyndasýning Hafdísar á slóðum Darwins stendur nú yfir í Öskju. Þar sýnir hún ljósmyndir af lífríki Galapagoseyja, sem hún tók á meðan hún stundaði rannsóknar þar árið 2007 (sjá meðfylgjandi mynd af sæljóni - copyright Hafdís H. Ægisdóttir).

Hafdís er einn ritstjóra bókarinnar Arfleifð Darwins, sem hið Íslenska bókmenntafélag gaf út á haustmánuðum 2010.

Föstudagfyrirlestrar Líffræðistofnunar eru öllum opnir með húsrúm leyfir og eru fluttir á íslensku (nema annað sé tekið fram). Dagskrá vorsins má sjá á vef Líf og umhverfisvísindadeildar HÍ.


Nýliði á bleikjuslóð

Sem pjakkur fór ég oft með frændum mínum á Þingvöll til veiða. Það var hið mesta sport fyrir nýliða í veiðimennsku, fullt af smáfiski sem nartaði og beit. Ferðirnar á Þingvöll voru ákaflega skemmtilegar, en einhvernveginn náði veiðibakterían ekki fótfestu og ég lagði stöngina á hilluna á unglingsárum.

Síðan atvikaðist það fyrir nokkrum árum að samstarfsmenn mínir, líffræðingarnir Sigurður Snorrason og Zophonías O. Jónsson, stungu upp á rannsókn á erfðafræði bleikjunnar. Sigurður hefur rannsakað Þingvallableikjuna um árabil, ásamt Pétri M. Jónassyni og Skúla Skúlasyni, Hilmari Malmquist og fleira góðu fólki. Skólafélagi minn Bjarni K. Kristjánsson hafði fyrir nokkru hafið rannsóknir á dreifingu og vistfræði dvergbleikju á Íslandi. Saman tókst okkur að tvinna saman fjölþætt rannsóknarverkefni, með fjölbreytileika bleikjunar í forgrunni.

thingvallavatndwarfeggs2010.jpgVið lögðum upp með að finna erfðaþætti og þroskunarkerfi sem tengdust hinum mikla fjölbreytileika í útliti og stærð íslenskrar bleikju. Í Þingvallavatni má t.d. finna fjögur afbrigði af bleikju, dverg, kuðungableikju, sílableikju og hina goðsagnarkenndu murtu. Hrognum var safnað á vettvangi (sjá mynd), þau frjóvguð og alin upp á Hólum í Hjaltadal. Þar var ungviði murtu, dvergs og eldisbleikju safnað, á nokkrum þroskastigum, fyrir könnun á genatjáningu.

Ég viðurkenni auðmjúkur að ég er nýliði á bleikjuslóð, vistfræðingarnir eru sífellt að kenna mér eitthvað nýtt um fiskinn og búsvæði hans (t.d. um útlitseiginleika, hryggningarstöðvar og fæðuval). Einnig lærir maður helling af reyndum veiðimönnunum, í fjölskyldunni er t.d. einn þaulvanur Þingvallavatni sem einmitt kenndi manni að beita og kasta í denn.

Lífið fer sjaldnast í hring, en það er gaman að rifja upp fortíðina þegar tækifæri gefst.


mbl.is Bleikjustofnar gefa eftir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðurkenningar til vísindamanna

Akkuru stundar fólk vísindi? Fyrst ber að nefna forvitni. Við erum hnýsnar skepnur, spyrjum fólk regulega út úr, njósnum um nágranna okkar, veltu við steinum og fetum framandi stigu bara til að svala forvitni okkar. Þekkingarleit vísindanna byggir á þessari forvitni, en er kannski orðin aðeins skipulagðari og agaðari en nálgun rassálfanna í sögu Astridar Lindgren um Ronju Ræningjadóttir, sem spurðu linnulítið "Akkuru, akkuru, akkuru...". Leiðir okkar til að svala forvitninni hafa tekið breytingum í gegnum aldirnar og nú höfum við þróað aðferð vísinda, sett af reglum og leiðbeiningum sem beitt er í rannsóknum (saga þess er sérkapituli sem við víkjum vonandi að síðar).

Margir leiðast út í vísindi af hugsjón, þeir vilja skilja heiminn og gera hann betri. Margskonar hættur steðja að mannfólki, sjúkdómar, faraldrar, mengun umhverfis og hættur frá öflum jarðar og geims, og vísindin bæta okkur skilning á þessum fyrirbærum. Með eigum við möguleika á að meta hætturnar, eðli þeirra og orsakir, og e.t.v. finna leiðir til að stemma stigu við þeim (það er miserfitt, við getum e.t.v. komist fyrir flensufaraldra en tæplega stöðvað loftstein*).

Sumir fara í vísindi til að auðgast, en þar er ekki á vísan að róa. Vissulega eru laun háskólakennara yfir landsmeðaltali, en dreifingin er nokkuð víð. Hins vegar eru fáir vísindamenn með virkilega há laun, nema þeir sem starfa við bestu háskóla eða rannsóknastofnanir heims, hafa stofnað fyrirtæki, eða vinna hjá fyrirtækjum sem borga vel.

Því verður þó ekki að neita að aðrar ástæður eru fyrir því að fólk leggur fyrir sig vísindi. Þangað leita t.d. metnaðargjarnir einstaklingar, eilífðarstúdentar, sjálfstætt fólk sem illa þolir yfirmenn, furðufuglar, og siðblindir sérhagsmunaseggir**. Metnaður er oft sterkur þáttur, það að birta góða vísindagrein blæs lífi í köflótta egóið, sem og að vera valinn til að halda erindi eða yfirlitserindi á merkri ráðstefnu.  Og það að vinna til verðlauna eða hljóta viðurkenningar skiptir fólk einnig miklu máli. Stundum er talað um kapphlaup um Nóbelsverðlaun, t.d. um byggingu DNA eða einangrun HIV veirunnar.

Það er ekki eini tilgangur viðurkenninga að gæla við metnað vísindamanna, og hvetja þá áfram. Þær þjóna einnig þeim tilgangi að vekja athygli á því sem vel er gert, skilgreina lykil framlag og vekja athygli almennings á vísindastarfi.

Á undanförnum vikum hafa tvær merkar vísindakonur fengið verðlaun. Fyrst ber að nefna Þóru Ellen Þórhallsdóttur, sem hluat náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti fyrir helgi. Þessi verðlaun eru veitt einstaklingum með mikilsvert framlag til náttúruverndarmála. Í fréttatilkynningu segir: 

Fram kom í máli umhverfisráðherra að Þóra Ellen Þórhallsdóttir væri vísindamaður sem hefði unnið merkar rannsóknir á gróðri Íslands og miðlað þekkingu sinni, ekki bara til stúdenta, heldur til þjóðarinnar allrar með fyrirlestrum og fjölmiðlaþátttöku. Hún væri óhrædd við að koma fram með vísindaleg rök til verndar náttúru Íslands, þó það hafi ekki alltaf fallið að ríkjandi skoðunum. Þá hafi vinna hennar við landslagsmat markað tímamót varðandi vernd náttúru hér á landi.**

Í fréttablaði dagsins í dag er sagt frá því að "Hilma Hólm framkvæmdastjóri klínískra rannsókna hjá Íslenskri erfðagreiningu, fékk verðlaun úr Verðlaunasjóði í læknisfræði sem afhent voru á ársfundi Landspítalans í gær [5. maí 2011]". Fréttablaðið birti langa og skemmtilega grein byggða á viðtali við Hilmu, þar sem hún segir meðal annars:

Þegar spurt er um rannsóknarverkefnið sem Hilma vinnur að um erfðafræði hjartasjúkdóma er ljóst að sú spurning hugnast henni betur en þær sem eru persónulegs eðlis. Eftir stutt en afar gagnlegt hraðnámskeið situr eftir í huga blaðamanns að ekki er um einstakt verkefni að ræða sem á sér endapunkt. "Við setjum okkur engar skorður og takmörkum okkur ekki. Við ákveðum ekki hvað finnst, heldur sjá náttúran og vísindin um það."

...En hvað finnst henni sjálfri um það lof sem á hana er borið? "Ég hef fyrst og síðast verið mjög heppin að hafa villst inn í þetta umhverfi og hafa þess vegna getað nýtt mína þekkingu á sjúkdómum í bland við erfðafræðina. Ef ég hefði ekki fengið tækifæri til að starfa með fólkinu hér innan dyra og öðrum samstarfsmönnum væri ég ekki í þessum rannsóknargeira. Hlutirnir hafa vissulega gengið vel og við höfum fengið margar greinar birtar sem lýsa okkar rannsóknarniðurstöðum. En það er eingöngu vegna samvinnu fjölmargra vísindamanna, þátttöku Íslendinga í okkar rannsóknarverkefnum og þeirrar vinnu sem búið er að vinna innan ÍE undanfarin áratug sem hefur lagt grunninn að öllum okkar rannsóknum. Hér er ekkert sem takmarkar mig, heldur hef ég þvert á móti tækifæri til að ná langt vegna þess umhverfis sem ég hef fengið að starfa í," segir Hilma. Hún bætir því við að auðvitað verði allir að hugsa um sinn eigin hag og sinn eigin starfsferil en þá sé hollt að hafa í huga að persónulegur frami sé háður því að njóta stuðnings annarra.

Hilma lagði áherslu á að vísindamenn þurfa að vinna saman til að ná árangri. Vísindin líða fyrir það ef metnaður einstaklings kemur í veg fyrir að hann vinni með öðrum, og deili af reynslu sinni og þekkingu.

Ég veit ekki hvað beindi Þóru Ellen eða Hilmu í rannsóknir, hvort það voru forvitni, hugsjónir eða metnaður. Hitt er ljóst að þær eru báðar góðar fyrirmyndir þeirra sem gætu hugsað sér rannsóknir í líffræði eða erfðafræði.

*En hver veit, í síðustu viku minntist Galen Gisler á planetary defense conference. Hann hélt erindi við HÍ á ráðstefnu um ofurtölvur í síðustu viku.

**Svartir sauðir finnast meðal vísindamanna, en þeir eru flestir dagfarsprúðir og tregir til að sprengja plánetur.

***Í frétt mbl.is misritaðist nafn vísindamannsins, fyrra nafn Þóru Ellenar datt út í einni línunni.

Leiðrétting: Í fyrstu útgáfu ruglaði ég saman rassálfum og grádvergum, og meðtek fordæmingu hlutaðeigandi af auðmýkt og iðrun.


mbl.is Fengu umhverfisviðurkenningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glímir geðlæknisfræðin við hugmyndafræðilega kreppu?

Við höfum fylgt eftir skrifum Steindórs J. Erlingssonar um geðlæknisfræðina, bæði hérlendis og erlendis. Steindór er vaskur vísindasagnfræðingur en hefur um áratugabil tekist á við þunglyndi. Undanfarin ár hefur hann einhent sér í rannsóknir á uppruna geðlæknisfræðinnar, tíðni geðsjúkdóma og lyfjanotkun hérlendis og ytra.

Hann birti nýverið ritrýnda yfirlitsgrein í Tímariti félagsráðgjafa, sem heitir "Glímir geðlæknisfræðin við hugmyndafræðilega kreppu? Um vísindi og hagsmuni".

Ágrip greinarinnar (greinina í heild sinni má nálgast á vefsíðu Steindórs):

Á undanförnum árum hefur sú mynd framfara, sem dregin hefur verið af geðlæknisfræðinni undanfarna þrjá áratugi, sætt vaxandi gagnrýni. Sumir geðlæknar ganga raunar svo langt að tala um að hugmyndafræðileg kreppa ríki innan greinarinnar. Er þetta m.a. rakið til ofuráherslu á líffræðilegar skýringar á orsökum geðraskana og mikillar notkunar geðlyfja. Flokkunarkerfi geðlæknisfræðinnar virðist einnig vera hluti af vandanum. Það virðist hafa valdið því að fjöldi þeirra einstaklinga, sem hægt er að greina með geðröskun, hefur aukist verulega og við það hefur markaður lyfjafyrirtækja vaxið mjög. Á undanförnum áratugum hefur lyfjaiðnaðurinn farið fram með slíkum þunga við markaðssetningu nýrra lyfja að vísindalegur heiðarleiki hefur alltof oft vikið fyrir markaðshagsmunum. Með þessu móti hefur heilbrigðisstarfsfólk verið afvegaleitt, að ekki sé talað um almenning og þá sem neyta lyfjanna. Í þessari umfjöllun verður litið nánar á þessa þróun og kannað hvað hæft er í kreppuhugmyndinni. 

Aðrir pistlar og greina um þetta og skyld efni.

Fyrst ber að nefna greinar Steindórs um þessi efni - haldið til haga á vefsíðu hans.

Pistlar okkar, flestir skrifaðir í tengslum við greinar Steindórs (sjá viðeigandi tengla við hvern pistil)

Þunglyndislyf og léleg tölfræði

Geðröskun og lyfleysa

Lyfjafyrirtæki og blekkingar

Börn og geðlyf

Er ADHD ofgreint?


Erindi: Þjórsá, morgunbirta, hamir, selir og sýkimáttur

Nokkrir fyrirlestrar um líffræðileg málefni verða í höfuðborginni í þessari viku.

Fræðslufundur HÍN verður fluttur í dag, mánudaginn 2. maí 2011 (kl 17:15 í stofu 132 í Öskju, náttúrufræðahúsi HÍ). Erindi Magnúsar Jóhannssonar vatnalíffræðings heitir fiskstofnar Þjórsár og göngur þeirra

Þjórsá er annað vatnsmesta vatnsfall landsins á eftir Ölfusá. Í Þjórsá lifa allar þær fisktegundir sem algengar eru í fersku vatni á Íslandi, þ.e. lax, urriði, bleikja, hornsíli og áll. Lax og urriði eru ríkjandi tegundir laxfiska í Þjórsá. 

Dr. Josephine Arendt, prófessor emeritus við Rannnsóknasetur um lífklukkuna við Heilbrigðis- og læknavísindasvið Háskólans í Surrey flytur fyrirlestur um Mikilvægi morgunbirtunnar, dægursveiflur og melatónín í stofu 132 í Öskju miðvikudaginn 4. maí kl. 12:00. Úr auglýsingu:

Virkni lífklukkunnar er taktbundin og sveiflan er lengri en 24 klst. ef engin ytri merki um tíma sólarhrings berast líkamanum (t.d. við algera einangrun). Birtan er mikilvægust til að skorða dægursveiflurnar við 24 klst. langan sólarhringinn og birtan þarf að vera nægilega sterk og af réttri bylgjulengd. En mestu máli skiptir hvenær dagsins birtan er ríkjandi. Hormónið melatónín sveiflast og hefur hæst gildi um miðja nótt, þegar eðlilegar aðstæður ríkja, þ.e. vaka á daginn og svefn að nóttu. Með hliðsjón af hormónastyrknum má afla upplýsinga um hvernig lýsing hefur áhrif á dægursveiflurnar. Þegar melatónínstyrkurinn eykst síðla kvölds, veldur sterk lýsing seinkun lífklukkunnar, en að morgni þegar styrkurinn fellur að ný hefur lýsing áhrif til að flýta klukkunni. 

Kristinn Haukur Skarphéðinsson, dýravistfræðingur á Náttúrufræðistofnun, flytur erindi sitt  Saga geirfuglsins á Hrafnaþingi seinna sama dag, kl. 15:15 í húsakynnum Náttúrufræðistofnunar að Urriðaholtsstræti 6-8 í Garðabæ (sjá kort).

Í fyrirlestrinum mun Kristinn Haukur rekja sögu geirfugl[s]ins hér á landi og segja frá uppsetta fuglinum sem keyptur var á uppboði í London og varðveittur er á Náttúrufræðistofnun Íslands.

Föstudaginn 6. maí heldur Sandra Grön Granquist fyrirlestur á vegum líffræðistofnunar (kl 12:30, í stofu 131 í Öskju, náttúrufræðahúsi HÍ).

Fyrirlesturinn mun fjalla um þær selarannsóknir sem fara fram á Selasetri Íslands, í samstarfi við Veiðimálastofnun og Háskólinn á Hólum. Rætt verður meðal annars um rannsóknir á samspil sela og ferðamanna, ásamt verkefni þar sem áhrif sela á laxfiska er rannsakað.

Seinna sama dag fer fram doktorsvörn við Læknadeild Háskóla Íslands. Þá ver Bryndís Björnsdóttir doktorsritgerð sína „Sýkingarmáttur Moritella viscosa - seyti og samspil hýsils og sýkils“. Athöfnin fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands í Aðalbyggingu og hefst klukkan 13:00. Úr tilkynningu.

Smitsjúkdómar í eldisfiski eru einn af þeim meginþáttum sem hamla arðbærni í fiskeldi. Megin markmið doktorsverkefnisins var að rannsaka sýkingarmátt bakteríunnar Moritella viscosa sem veldur vetrarsáraveiki í laxfiskum og þorski. Sjúkdómurinn herjar á eldisfisk í norðanverðu Atlantshafi og veldur miklu tjóni. Skilningur á sýkingarmætti bakteríunnar er forsenda öflugra sjúkdómsvarna.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband