Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2013

Dó ... en lifir að eilífu

Í einhverri þjóðsögunni átti sopi úr hinum heilaga kaleika að veita eilíft líf. Óttinn við dauðann er ekki bundinn við mannfólk, flestar lífverur með bærilegt miðtaugakerfi forðast stefnumót við dauðann - þó sannarlega séu til undantekningar (sbr. karlköngulær sem bjóða sig köngulóakerlingum til átu).

Meðalaldur mannfólks hefur verið að lengjast en við getum ekki lifað að eilífu*. En frumur manna geta, fræðilega séð amk, lifað um aldir alda. Frumur líkamans geta fjölgað sér endalaust undir réttum aðstæðu. Þær þurfa góða og næringaríka lausn, enga samkeppni, og helst eiginleika krabbameinsfruma.

Ein mannvera a.m.k. lifir áfram eftir dauða sinn, sem hópur fruma á tilraunastofu.

Fimm barna móðirin Henríetta Lacks

Henrietta Lacks var tóbaksbóndi, móðir fimm barna, og lést úr krabbameini árið 1951. Frumur úr æxli hennar voru ræktaðar á tilraunastofu og ganga undir nafninu HeLa frumur. Þessar frumur urðu ótrúlega mikilvægar og notadrjúgar, því þær gerðu fólki kleift að rannsaka eiginleika mannsins - í tilraunaglasi.

Líffræðingar þekkja þessar frumur, margir hverjir úr sínum eigin rannsóknum eða úr frægum tímamótarannsóknum. Aðrar frumulínur, úr æxlum eða fósturstofnfrumum eru einnig þekktar og mikið notaðar.

Saga hinna ódauðlegu frumna Henriettu er full af lærdómum fyrir hina ungu sameindalíffræði og lífsiðfræði. 

Börnin frétta af framhaldslífi móður sinnar

Frú Lacks átti fimm börn, en þau fréttu ekki af framhaldslífi frumnanna fyrr en 2 áratugum eftir dauða hennar. Í bók Rebeccu Sklott um æfi Henríettu Lacks, frumnanna og fjölskyldu hennar, segir frá því þegar dóttir hennar fær að sjá frumurnar í fyrsta skipti.

Þarna situr miðaldra blökkukona yfir smásjá, horfir á frumurækt á skál, og talar til frumnanna/móður sinnar.

Afkomendur frú Lacks eru stoltir af því að frumurnar séu notaðar til rannsókna, og vilja endilega að þær verði að gagni. En þeir hefðu vitanlega átt að vera spurðir álits í upphafi, hvort í lagi væri að nota frumurnar úr deyjandi móður þeirra.

Spurningar um einkalíf og friðhelgi

HeLa frumurnar vekur margar spurningar um upplýst samþykki og rétt einstaklinga.

Hvaða rétt hafa afkomendur frú Lacks varðandi mögulega takmörkun á notkun á frumunum? Eru þær komnar úr þeirra höndum, eða geta þeir takmarkað notkun á þeim?

Hvað þurfa margir afkomendur að vera mótfalnir notkun á frumnanna til að hætt verði að nota þær?

Er nóg að eitt barnabarn lýsi sig mótfallið, eða gildir einfaldur meirihluti?

Væri vægi atkvæða bundið skyldleika, hafa börn helmingi meira vægi en barnabörn o.s.frv.?

Erfðamengi HeLa frumanna og Henríettu Lacks

Nýjasti vinkillinn á málinu eru tíðindi þess efnis að erfðamengi HeLa frumanna hafi verið raðgreint. Það þýðir að allt erfðamengi þeirra var lesið og hægt er að bera það saman við aðra menn og konur, og sjá hvar í erfðamengi Henríettu Lacks eru ákveðnar stökkbreytingar með tiltekin áhrif. Þessi vísindi eru reyndar ung og mikil óvissa um áhrif flestra stökkbreytinga, en samt er hægt að læra margt. Erfðamengi HeLa fruma myndi örugglega staðfesta afrískan uppruna Henríettu, og mögulega einhverja alvarlega erfðagalla.

En sorglegi vinkillinn er að Steinmetz og félagar við EMBL sem raðgreindu erfðamengi HeLa frumanna, höfðu ekki samband við afkomendur Henríettu Lacks. Sameindalíffræðingar nútímans eru álíka glórulausir og frumulíffræðingar síðustu aldar, sem hugsuðu ekki út í siðfræðilegar hliðar rannsókna sinna.

Góðu fréttirnar eru þær að margir vísindamenn og aðrir létu í sér heyra þegar þessi tíðindi bárust og erfðamengi HeLa frumnanna var fjarlægt úr opnum gagnagrunnum.

Nú þurfum við, sem samfélag vísindamanna og leikmanna að takast á við þessar spurningar um aðgengi að erfðaupplýsingum, friðhelgi þeirra og skyldleika þeirra sem hlut eiga að málum.

Kemur það mér við hvað frændsystkyni mín gera við sínar erfðaupplýsingar?

Eiga börnin mín rétt á því að takmarka aðgengi annara að erfðaupplýsingum mínum, ef ég vill setja þær á netið?

Að síðustu vil ég þakka Jóhannesi fyrir að segja mér frá og lána mér bókina um Henriíettu Lacks.

Ítarefni:

REBECCA SKLOOT The Immortal Life of Henrietta Lacks, the Sequel NY Times March 23, 2013   

Rebecca Skloot The Immortal Life of Henrietta Lacks

Tilkynning frá EMBL. 11. mars 2013. Havoc in biology’s most-used human cell line

* enda spurning hvort að það sé æskilegt ástand.


Röng eða rétt ákvörðun á augnabliki

Maðurinn er stundum kallaður kóróna sköpunarverksins af trúuðu fólki (eða skáldlegu). Á hinn bóginn setja trúleysingjar og efahyggjufólk andlega hæfileika mannsins einnig á stall, sem stundum birtist sem manngyðistrú.

En þessi fullkomnasta lífvera jarðar er hið mesta ólíkindatól. Líffræðingar og læknar kortlagt veikleika og takmarkanir mannfólks. Við höfum ekkert í blettatígur á hlaupum eða ísbjörn á sundi. Við þolum geislun verr en kakkalakkar, hita verr en sumar fornbakteríur og gagnrýni verr en T. rex.

Tilraunir Kahneman og Tverskys

Sálfræðingar hafa undanfarna áratugi rannsakað veikleika mannlegs atferlis. Daniel Kahneman og Amos Tversky könnuðu hvernig fólk tekst á við óvissu, þegar það stendur frammi fyrir tapi eða gróða. Þeir settu upp tvær tilraunir.

Stúdentum voru gefnir tveir kostir, 1) að fá $3,000 eða 2) hafa 80% líkur á að vinna $4,000 (þá voru 20% líkur á að vinna ekkert!). Flestir nemendur tóku örugga kostinn $3,000.

Öðrum hópi stúdenta voru gefnir aðrir kostir, 1) að tapa $3,000 eða 2) að tapa $4,000 með 80% likum (Þannig að það voru 20 prósent líkur á að tapa engu). Í þessu tilfelli voru fleiri sem völdu áhættusamari kostinn.

Með orðum Vikas Bajaj í New York Times "fólk er tilbúið að taka meiri áhættu í þeirri von að varðveita peninga en til að græða". (á frummálinu "In other words, they were willing to take a bigger risk to avoid losing money than they were when they stood to make more money.")

Þarna er afhjúpaður veikleiki mannlegrar "skynsemi". Líkurnar voru jafn miklar í báðum dæmum, en samt var fólk frekar tilbúið að veðja þegar það sá fram á tap. Skynsamlegra væri að veðja þegar þú sérð fram á gróða.

Ef maður myndi spila svona leik í 10 skipti, þá myndi maður græða meira á því að veðja á kostinn með 80% líkur á $4000, en að velja alltaf $3000.

Röng ákvörðun á augnabliki

200px-Thinking,_Fast_and_SlowÁstæðan fyrir þessu er sú að maður tekur ákvarðanir áður en maður hugsar. Það er fjölmörg dæmi sem sýna að skoðun myndast á augnabliki, löngu áður en viðkomandi hefur minnsta tækifæri til að leggjast ítarlega yfir málið og meta það frá öllum hliðum.

Skýrasta dæmið er fyrstu kynni. Útlit, fas og skapgerð ráða ákaflega miklu um það hvort okkur líkar við persónu sem við vorum að hitta eða ekki. Á örfáum sekúndum myndum við okkur skoðun um persónur, áður en við höfum í raun kynnst þeim eða ígrundað kosti þeirra og galla.

Kahneman tíundar fjölmörg dæmi um aðra veikleika í mannlegri hugsun, í bók sem hann kallar Thinking fast and slow (ritdómur í the Guardian).

Rétt ákvörðun á augnabliki 

Aðrir hafa bent á að þessi hæfileiki, að taka ákvörðun á örskotsstundu, getur reynst vel.

images?q=tbn:ANd9GcRQ6syCUo7fjFLzhDilPB33txVj1mxfET1O4kpH1YXordrayizGpgMalcom Gladwell skrifaði leiftrandi skemmtilega bók um þetta, sem kallast Blink - the power of thinking without thinking. Í fyrsta kafla bókarinnar lýsir hann því  þegar forkólfar Getty safnsins í Kaliforníu keyptu gríska styttu. Efnamælingar sýndu að styttan var hjúpuð calcíti, sem var merki um að gripurinn væri mörg hundruð ef ekki þúsundir ára gamall. Safnið borgaði um 10 milljónir dala fyrir styttuna, sem var álitin vera frá sjöttu öld fyrir krist.

Sagan verður fyrst verulega krassandi þegar sérfræðingar í grískum styttum sáu gripinn - og fengu kláða. Það var eitthvað að. Þeirra fyrsta viðbragð var tortryggni, og nákvæmar athuganir staðfestu að styttan var seinni tíma smíð (e.t.v. hreinræktuð fölsun).

Þetta er kjarninn í bók Gladwells, sérfræðingar geta tekið réttar ákvarðanir á örskotsstundu. Jafnvel án þess að vita hvernig þeir komust að réttri niðurstöðunni.*

Bókin er léttilega skrifuð og er byggð að miklu leyti upp á sögum af persónum og viðburðum. Það er ljómandi frásagnarmáti, og mun aðgengilegri en margar alvarlegri vísindabækur.  Á móti kemur að röksemdafærslan er á köflum dálítið losaraleg, og mörgum spennandi spurningum er ósvarað.

Kostir hraðrar hugsunar

Hin hraða og ómeðvitaða hugsun getur bæði haft jákvæðar og slæmar hliðar. Við getum fallið auðveldlega í gildrur, eins og að kjósa pólitíkusa út frá útliti, brosi eða glansandi loforði. Eins getur snör hugsun sérfræðinga bjargað mannslífum eða leyst erfiðustu þrautir.

Ég held að hröð hugsun sé greinilega kostur. Ímyndum okkur mann sem þarf að ígrunda hverja einustu aðgerð sem hann framkvæmir, persónu sem hann hittir eða viðburð sem yfir hann dynur. Slíkur maður myndi sligast af þreytu, heilinn myndi aldrei tjónka við slíkt álag.

En ég vill einnig leggja áherslu á að hæg og vönduð hugsun er burðarás í samfélagi nútímans. Á öld hraða og flæðis upplýsinga þá tel ég mikilvægt að sem flestir þroski hina hægu hugsun, aga, rökvísi og heillindi. Ein leið til þess atarna er að lesa bækur Gladwells eða Kahnemans, í rólegheitum.

--------------------

*Fyndni vinkillinn er vitanlega sá að það halda svo margir að þeir séu sérfræðingar, jafnvel fólk sem er á öndverðum meiði.

Skyldir pistlar.

Trúlega er það trúlegi heilinn umfjöllun um Believing Brain eftir Michael Shermer.

Heili 1 og heili 2

Texti úr eldri pistli um Ótta og græðgi var endurnýttur hér að ofan.


Halldór Þormar skrifar um sögu mæði-visnu veirunnar

Halldór Þormar stundaði rannsóknir á mæði-visnuveirunni eftir að Björn Sigurðsson réð hann til Tilraunastöðvar Háskólans að Keldum árið 1957. Þá höfðu mæði og visna herjað á íslenskt sauðfé, og Björn sett fram þá tilgátu að orsakirnar væru hæggengar veirur. Halldór lýsti, í erindi sem hann hélt á líffræðiráðstefnunni 11. nóvember 2011, rannsóknum sem sýndu að visna væri vegna veirusmits. Í nákvæmum tilraunum smitaði hann kindafrumur í rækt með síuðu floti úr heilum sýktra kinda. Veiruagnir voru einangraðar úr ræktinni og sýnt fram á að þær dugðu til að smita kindurnar aftur af visnu.

Halldór hlaut heiðursverðlaun líffræðifélagins árið 2011, og að sama tilefni fékk Bjarni K. Kristjánsson viðurkenningu fyrir góðan árangur ungs vísindamanns. Mynd tók Arnar Pálsson.

Yfirlitsgrein Halldórs, byggð á þessu erindi og öðrum gögnum, birtist í tímaritinu Current HIV research nú í upphafi árs (2013). Þar rekur Halldór rannsóknirnar á mæði-visnu, og setur í samhengi við rannsóknir nóbelsverðlaunahafanna Harald zur Hausen, Françoise Barré-Sinoussi, og Luc Montagnier á HIV, sem er veira af svipaðri gerð.

Greinin er sérstaklega vel skrifuð og forvitnileg á alla kanta.

 
 

Síldardauðinn í Kolgrafafirði

Guðmundur J. Óskarsson sérfræðingur á Hafrannsóknastofunun mun fjalla um síldardauðann í Kolgrafafirði, í erindi á vegum Líffræðistofu HÍ þann 22. mars 2013.

Meginhluti íslenska sumargotssíldarstofnsins hefur haft vetursetu víðsvegar í sunnanverðum Breiðafirði frá haustinu 2006. Veturinn 2011/2012 varð hennar fyrst vart í verulega magni innan brúar í Kolgrafafirði og aftur í desember 2012, eða samkvæmt bergmálsmælingum um 300 þús. tonn í hvoru tilviki. Aðeins tveimur dögum eftir að bergmálsmæling á stofninum fór fram, eða þann 14. desember 2012 varð ljóst að mikill síldardauði hafði átt sér stað í innanverðum firðinum. Viðlíka síldardauði átt sér svo aftur stað 1. febrúar 2013. Í erindinu verður gert grein fyrir rannsóknum Hafrannsóknastofnunar á umfangi síldardauðans, á umhverfisaðstæðum í firðinum í kjölfar atburðanna, og fleira tengt þessum mikla dauða. Þá verðar þær niðurstöður raktar að dauðinn hafi líklegast orsakast af súrefnisskorti.

Mynd af vef Náttúrustofu Vesturlands - picture copyright Robert A. Stefansson.

Sjá einnig umfjöllun RUV 1. febrúar 2013 um síldardauðann.

Önnur erindi líffræðistofu vorið 2013 verða auglýst á vef Líf og umhverfisvísindastofnunar.

Erindið verður flutt á íslensku, í stofu 131 í Öskju, náttúrfræðahúsi HÍ. Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir með húsrúm leyfir.

Nemendur eru sérstaklega hvattir til að mæta.

*Leiðrétting 19. mars 2013 - eftir athugasemd var ritun Kolgrafafjarðar leiðrétt í titli og fyrstu málsgrein.


mbl.is Botndýr rekur á land
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Darwin bjargar mannslífum

Ofnotkun sýklalyfja leiðir til þróunar bakteríustofna, og stuðlar að tilurð sýklalyfjaónæmra baktería. Þetta er algerlega fyrirsjáanleg afleiðing náttúrulegra lögmála, sem Charles Darwin og Alfred Wallace settu fram fyrstir manna.

Lögmálið um þróun byggist á fjórum grunnatriðum. Ef

i) lífverur í stofni eru mismunandi,

ii) munur á milli þeirra er arfgengur að einhverju leyti,

iii) ef þær æxlast mishratt, og

iv) þar sem lífverurnar berjast fyrir lífinu,

þá munu sumar gerðir veljast úr, náttúrulega!

Ef við ímyndum okkur stofn baktería sem veldur sjúkdómum í mönnum. Einstakar bakteríur eru misþolnir gagnvart sýklalyfjum. Ef við notum sýklalyf til að meðhöndla sýkinga vegna þessara bakteríu, þá veljast úr þær gerðir sem eru þolnar. Ef við beitum sýklalyfinu stöðugt, mun með tíð og tíma sýklalyfjaþolnu gerðirnar veljast úr, alveg vélrænt.  

Kastljós var með ítarlega og vandaða umfjöllun um Lífshættulegar og ónæmar ofurbakteríur
(12. Mar 2013). Vandamálið er aðkallandi og mun kosta líf og fjármagn. 

Það er hægt að draga úr vandanum og reyna að komast fyrir hann á nokkra vegu.

1. Draga úr notkun sýklalyfja, sérstaklega í léttvægum tilfellum (bólum eða til að friða fólk með veirusýkingar).

2. Fræða fólk um mikilvægi þess að klára sýklalyfjaskammta.

3. Draga úr notkun sýklalyfja í landbúnaði, sérstaklega eins og gert er í BNA þar sem lyf eru notuð til að auka framleiðni (ekki bara til að meðhöndla veik dýr).

4. Veita fjármagni í þróun nýrra lyfja.

5. Ef til vill má losa um regluverk vegna nýrra sýklalyfja, eða meðhöndlana gegn sýklalyfjum og setja ávísanir á ný lyf upp sem blinda tilraun (Randomized control trial), eins og t.d. Ben Goldacre hefur mælt fyrir.

6. Auka skilining heilbrigðisstétta á lögmálum þróunar, því þau skipta öllu máli fyrir tilurð og viðhald ónæmra og fjölónæmra bakteríustofna.

Ítarefni.

Kastljós Lífshættulegar og ónæmar ofurbakteríur (12. Mar 2013)

Skýrsla alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (World Health Organization) 2012 - The evolving threat of antimicrobial resistance - Options for action

Mikilvægi þróunkenningarinnar fyrir læknisfræði

Bakteríuland

Ónæmi fyrir býflugum og sýklalyfjum?


Lífríki gjánna við Þingvallavatn

Bæði jarðfræði og lífríki Þingvallavatns eru einstök. Vegna hreyfinga jarðskorpunnar eru margar gjár og glufur norðan vatnsins, og þar streymir grunnvatn inn á klakstöðvar bleikjunnar.

Þótt ítarlegar rannsóknir hafi farið fram á bleikjum og urriða í vatninu er lífríki gjánna að mestu ókannað. Jónína Herdís Ólafsdóttir líffræðinemi og kafari mun ræða þetta í erindi á vegum Líffræðistofu HÍ, föstudaginn 15. mars. 2013. divethenorth_is_silfru.jpg

Erindið verður flutt á ensku og kallast Ecological and geographical mapping in submersed fissures in Iceland through diving (íslensk snörun gæti verið Vistfræðileg og landfræðileg kortlagning á grunnvatnsfylltum gjám á Íslandi með köfun). Enskt ágrip erindis fylgir hér:

Scuba diving in Iceland offers a unique opportunity to visit a world of wildlife and geology in a country where the rock itself is very much alive, creating a dive experience different from anything else on this planet. The groundwater filled fissures are widely considered among the most beautiful dives to be done and their extensive caverns later brought me to the challenging sport of Cave diving. The submersed fissures are largely unexplored and little is known about their ecology. The main objective of this project is to explore and geographically and ecologically map groundwater filled fissures in Iceland.

Mynd er af vef Divethenorth.is. Picture © http://www.divethenorth.is.

Önnur erindi líffræðistofu vorið 2013 verða auglýst á vef Líf og umhverfisvísindastofnunar.

Erindið verður flutt á íslensku, í stofu 131 í Öskju, náttúrfræðahúsi HÍ. Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir með húsrúm leyfir.

 

Hver hefði trúað þessu?

Fyrir nokkrum árum hélt Helgi Torfason forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands erindi um stöðu safnsins. Safnið hafði verið stofnað með sérstökum lögum, en hafði nánast ekkert fjármagn (laun tveggja starfsmanna) og ekkert húsnæði. Þar að auki voru deilur um aðgengi safnsins að gripum Náttúrufræðistofnunar íslands og fjarska lítill áhugi stjórnvalda eða almennings á málinu.

Þótt við hefðum mikin áhuga á því að sjá almennilegt náttúruminjasafn hérlendis, verður að viðurkennast að mér fannst harla ólíklegt að það kæmist á koppinn í náinni framtíð.

En með ötulu starfi, ákalli fagfélaga og líklega beinskeyttum lobbíisma breyttist málið algerlega.
Tilkynnt var að safnið verður í Perlunni, samningur um leigu hefur verið undirritaður, og nú berast tíðindi af því að safnið verði opnað eftir rúmt ár (haustið 2014).

Trex_SueÞað er ólíklegt að safnið nái þeim hæðum sem Náttúruminjasafnið í London (The national natural history museum), Ameríska náttúruminjasafnsins  (American Museum of Natural History) í New York, Field Museum í Chicago eða Smithsonian í Washington, en hér er gott tækifæri.

Mynd tók pistlahöfundur af Tyrannosaurus Rex beinagrindinni Sue, sem sýnd er í náttúruminjasafninu í Chicago. Sue er heillegasta eintak af T. rex sem fundist hefur og ég fann til auðmýktar og smæðar þegar ég stóð í skugga hennar.

Ítarefni:

Náttúruminjasafn Íslands

Safnið sem gleymdist, þjóðarhneisa Arnar Pálsson | 25. nóvember 2011


mbl.is Náttúra Íslands til sýnis í Perlunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fegurð og leyndardómar fiðrilda

Fiðrildi kveikja undarlegar tilfinningar hjá fólki. Fíngerð og formfögur, litrík með letilegan limaburð, höfða þau jafnt til barna sem stórskálda.

Reyndar eru íslensk fiðrildi og fetar harla dauf í útliti, en við miðbaug finnst stórkostlegur  fjölbreytileiki í litum og formum. Litamynstrin eru ekki tilviljanakennd, þau skreyta vængina samkvæmt ákveðnum reglum sem spretta úr þroskun fiðrildisins. Stoðæðar og taugar setja upp hnitakerfi í vængnum, sem síðan nýtist til að raða fallegum hringjum, litríkum rákum og fleira skrauti á vænginn.

En fjölbreytileika fiðrilda má einnig útskýra með  áhrifum umhverfis, í gegnum náttúrulegt val. Hér verður fjallað sérstaklega um hermun (mimicry). Í hermun verður vængmynstur einnar tegundar áþekkt mynstri annara tegundar á sama landsvæði. Tvær megin gerðir hermunar eru best þekktar, kenndar við náttúrufræðinganna Henry Walter Bates og Fritz Müller sem báðir störfuðu í frumskógum Amasón á nítjándu öld.

703px-batesplate_arm.jpg

Fiðrildamynd Bates er af wikimedia commons (Plate from Bates (1862) illustrating Batesian mimicry between Dismorphia species (top row, third row) and various Ithomiini (Nymphalidae) (second row, bottom row)).

Batsísk hermum (Batesian mimicry) gengur út á að stofn óeitraðra fiðrilda græðir á því að líkjast eitruðum fiðrildum af annari tegund. Í þessu tilfelli nýtir ein tegund sér þá staðreynd að önnur tegund er eitruð. Slík hermun finnst oft í náttúrunni, t.a.m. hjá snákum í Norður Ameríku.

Mullersk hermun (Mullerian mimicry) gengur út á að stofnar tveggja eitraðra fiðrilda sem búa á sama svæði hagnast á því að líkjast hvor öðrum. Ungir afræningjar, sem myndu óvart borða einstakling einnar tegundar myndu þá læra að forðast hina tegundina. Náttúrulegt val leiðir til þess að fiðrildategundirnar sameinist um litamynstur sem kennir afræningjum að forðast eitruð fiðrildi.

Erfðafræðilegar rannsóknir hafa sýnt að genin sem byggja litamynstrin eru mörg hver þau sömu í ólíkum tegundum fiðrilda. Rannsókn Owen MacMillan við Smithsonian Tropical Research Institute og félaga hans, sýnir að genið optix er tengd sama rauða litarmynstri í nokkrum tegundum Heliconius fiðrilda.

Rannsóknir á litaerfðum fiðrilda sýna einnig að sum genin hafa flakkað á milli náskyldra tegunda, og að þau mynda stundum gengi gena sem starfa saman. Fræðimenn höfðu spáð fyrir um tilvist slíkra súpergena, en það skipti máli að skoða rétta eiginleika til að finna þau.

Þannig getur erfðafræðin kastað ljósi á gamlar ráðgátur í líffræði, og þekking á náttúrufræði fært erfðafræðina fram veginn.

Ítarefni:

Bates, H. W. (1861). "Contributions to an insect fauna of the Amazon valley. Lepidoptera: Heliconidae". Transactions of the Linnean Society 23: 495–566.; Reprint: Bates, Henry Walter (1981). "Contributions to an insect fauna of the Amazon valley (Lepidoptera: Heliconidae)". Biological Journal of the Linnean Society 16 (1): 41–54. doi:10.1111/j.1095-8312.1981.tb01842.x.

Robert D. Reed ofl. optix Drives the Repeated Convergent Evolution of Butterfly Wing Pattern Mimicry Science 2011 DOI: 10.1126/science.1208227

S.B. Carroll 2013 12. mars. New York Times Solving the Puzzles of Mimicry in Nature


Háskóladagur: DNA, Dýr, mosar og frumur í Öskju 9. mars 2013

Síðustu fjögur ár höfum við í líffræðinni opnað tilraunastofur okkar í Öskju á Háskóladeginum.

Í ár kynnum við BS nám í líffræði og BS nám í sameindalíffræði og lífefnafræði í samstarfi við Raunvísindadeild HÍ.

Hveljurannsoknir_FannarTheyr

SaraPipettar

 

Staður og stund: 12 til 16 þann 9. mars í Öskju - Náttúrufræðihúsi HÍ.

Tilraunastofur verða opnar gestum.

Hægt verður að sjá lifandi fiska

einangrun á DNA úr lauk

margvíslegar örverur

einangrun prótína 

höfuðkúpur mismunandi dýra, frá hrefnu til Neanderdalsmanns

erfðabreytta sveppi og kynjaplöntur

verkfæri og aðferðir sem notaðar eru við rannsóknir á fiskistofnum

DNA örflögum til að skoða allra 25.000 gena mannsins

fuglshami, furðulega hryggleysingja og tanngarð úr hákarli

dsimulans_dsechellia_lottetal2007_s.jpg

Nemendur og kennarar í líffræði, lífefnafræði og sameindalíffræði verða til taks og útskýra uppbyggingu námsins, helstu áherslur og framtíðarmöguleika að námi loknu.

Háskóladagurinn í HÍ verður í fleiri byggingum og í Öskju bætast við félagar okkar á Verk og náttúruvísindasviði.  

Mynd 1. Fannar Þeyr Guðmundsson - tekin í Eyjafirði við rannsóknir. Mynd 2. Sara Sigurbjörnsdóttir klónar gen. Mynd 3. Genatjáning í fóstrum ávaxtaflugunar á ~3 klst. þroskunar - mynd úr grein Lott og félaga 2007 í PNAS.


Google-kort yfir efnaskipti mannsins

Efnaskipti fruma er meiriháttar flókin. Þegar ég hóf meistaranám, hékk á vegg tilraunastofu í sameindalíffræði kort af efnaskiptum kóligerilsins. Myndun amínósýra, kjarnsýra  og fitusameinda, auk efnaskipta og orkumyndunarferla, í risastóru neti með hundruði eininga og örva.

Efnaskiptum má lýsa myndrænt, en einnig með stærðfræðilegum hætti. Það er viðfangsefni kerfislíffræði, (systems biology) sem er afkvæmi stærðfræði, fræðilegrar líffræði og lífefnafræði. Kerfislíffræðingar koma úr mörgum áttum, nú tildags margir úr verkfræði vegna þess að þar er góð kennsla í reikniritum og stærðfræði.

Nýverið var samþykkt að stofna tvær nýjar línur í framhaldsnámi við HÍ, á sviði lífupplýsingafræði (bioinformatics) og lífverkfræði (bioengineering). Þær verða í boði frá og með haustinu 2013, nánari upplýsingar síðar.

Við Háskóla Íslands er kerfislíffræðisetur, sem hefur það m.a. að markmiði að kortleggja efnaskipti mannafruma. Önnur útgáfa slíks korts var kynnt fyrir skemmstu.

Um það er fjallað í nýlegri fréttatilkynningu frá HÍ:

Rannsóknahópur við Kerfislíffræðisetur Háskóla Íslands undir forystu Ines Thiele, dósents við Verkfræði- og náttúruvísindasvið háskólans, hefur ásamt hópi erlendra samstarfsmanna víða um heim búið til yfirgripsmesta reiknilíkan af efnaskiptaferlum mannslíkamans sem til er. Vonir standa til að efnaskiptalíkanið geti nýst til að finna orsakir sjúkdóma á borð við sykursýki, krabbamein og jafnvel tauga- og geðsjúkdóma og jafnframt til þess að finna nýjar aðferðir til að takast á við þá. Grein um afrek hópsins birtist nýverið í nýjasta hefti Nature Biotechnology, einu virtasta tímariti á sínu sviði í heiminum.  

Miðað við hversu margir erlendir miðlar hafa veitt þessu eftirtekt, átti ég von á að íslenskar fréttastofur myndu  segja frá þessu framfaraskrefi. En þær þurfa líklega bara einhverja hvatningu.

Umfjöllun erlendra miðla um efnaskiptakort mannsins (http://humanmetabolism.org).

Time

ScienceDaily

Wired


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband