Leita í fréttum mbl.is

Þróun atferlis

Næsti fyrirlestur á vegum Darwin daganna 2009 skarast við líffræðiráðstefnuna. Það er ekki tilviljun, enda eru þróunarfræðin mikilvægur hluti af líffræðirannsóknum nútímans. Erindið heitir þróun atferlis, og kemur í kjölfar leiftrandi erindis sem Joe Cain flutti síðasta laugardag um rannsóknir Darwins á vitsmunum mannsins. Það verður flutt af Hrefnu Sigurjónsdóttur og Sigurði Snorrasyni.

Atferlisfræðin er eitt áhugaverðasta en um leið eitt flóknasta svið líffræðinnar. Viðunandi skilningur á atferli dýra byggist á að það sé skoðað frá sjónarhóli erfða- og þroskunarfræði, lífeðlisfræði, vistfræði, þróunarsögu og þróunarlíffræði. Í fyrirlestrinum munu Sigurður og Hrefna leitast við að skýra þessa samþættu sýn og setja hana í sögulegt samhengi. Áhersla verður lögð á sjónarhorn atferlisvistfræðinnar þar sem leitast er við að útskýra hegðun út frá vistfræði og settar fram tilgátur um aðlögunargildi hegðunar. Fræðilegum líkönum sem sett hafa verið fram til að útskýra þróun hegðunar verður stuttlega lýst og vísað í dæmi um prófun þeirra. Í erindinu verður stuðst við dæmi um skemmtilega og fróðlega hegðun dýra eins og sýningar fasana, bardagahegðun klaufdýra, samhæfða hegðun sem byggist á samskiptum, farhegðun, foreldraumönnun, sníkjuvarp, fæðuhegðun, óðalshegðun og komið inn á gáfnafar dýra.

 

Hrefna hefur kennt líffræðinemum HÍ dýraatferlisfræði í fjölda ára og verðandi líffræðikennurum við KHÍ dýrafræði, atferlisfræði, vistfræði, umhverfisfræði o.fl. Hún lauk doktorsprófi í greininni 1980, frá Háslólanum í Liverpool, og hefur lagt stund á æxlunarhegðun mykjuflugna og bleikju og síðustu 12 árin á félagshegðun hesta. Hún er prófessor við HÍ.

 

Sigurður lauk doktorsprófi í dýrafræði frá Háskólanum í Liverpool árið 1982. Hann hefur verið kennari í líffræðiskor HÍ um árabil og kennt dýrafræði, vistfræði, atferlisfræði og þroskunarfræði. Rannsóknir Sigurðar hafa aðallega beinst að myndun afbrigða og tegunda hjá ferskvatnsfiskum, einkum hvernig þessi þróunarferli tengjast breytileika í atferli og útliti svo og hvernig má rekja þennan breytileika til þroskunarferlis.

 

Stund: 7. nóvember 2009, kl. 13:00

Staður: Stofa 132 í Öskju, náttúrufræðihúsi HÍ.

Erindið er öllum opið - þótt það sé einnig hluti af líffræðiráðstefnunni.


Mannætuljónin á visi.is

Óli Tynes fjallar um mannætuljón í frétt á vísi.is í dag.

Tvö frægustu mannætuljón heims eru nú til sýnis í náttúrufræðisafninu í Chicago. Kannski rétt að taka fram að þau eru uppstoppuð.

Þessi ljón drápu og átu tugi indverskra verkamanna  á níu mánaða tímabili árið 1898 þegar verið var að byggja járnbrautarbrú yfir Tsavo fljótiið í Kenya.

Ekki er alveg á hreinu hversu marga menn ljónin drápu. Nefndar hafa verið tölur frá sjötíu og tveimur og upp í hundrað þrjátíu og fimm.

Þessi saga var kveikjan að kvikmyndinni The Ghost and the Darkness með þeim Michael Douglas og Val Kilmer í aðalhlutverkum.

Trex_SueTyrannosaurus rex steingervingur kenndur við stofnanda safnsins Sue Hendrickson.

Náttúrufræðisafnið í Chicago (the Field Museum) er ævintýralegur staður, sem við heimsóttum því miður ekki nægilega oft þegar við bjuggum þar. Ég man ekki til þess að hafa séð Tsavo ljónin á sýningu þar, enda var sýningin sett upp 2007 eftir að við fluttum.

Náttúrufræðisafnið í Chicago var stofnað 1896 til að halda utan um gripi úr heimsýningunni 1893 sem haldin var í Chicago. Nafn safnsins er virðingarvottur við Marshall Fields, viðskiptajöfur í Chicago sem studdi safnið með ráð, dáð og líklega fjárframlögum.

Saga Náttúruminjasafns Íslands er því miður ekki jafn glæsileg. Hún er frekar saga vonbrigða og áfalla, eins og Hilmar Malmquist rakti í grein í morgunblaðinu árið 2006 (af vef HIN). Nú er mál að linni, og að íslenska þjóðin öðlist samastað fyrir sína náttúrulegu arfleið.


Forskráning á líffræðiráðstefnuna

Ráðstefna um líffræðirannsóknir á Íslandi verður haldin 6. og 7. nóvember næstkomandi. Nú hafa 103 erindi verið staðfest, 5 yfirlitserindi og 107 veggspjöld. Drög að dagskrá eru komin á vef Líffræðifélags Íslands og þar er einnig hægt að fá upplýsingar...

Tveir kostir

Joe Cain flutti hreint stórkostlegan fyrirlestur í gær, um rannsóknir Darwins á vitsmunum mannsins. Því miður brást tæknin okkur, en annars hefðum við getað boðið upp á fyrirlesturinn á myndformi. Vonandi tekst okkur að bjarga því fyrir næsta fyrirlestur...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband