Leita í fréttum mbl.is

Kvikmynd um Darwin

Ráðstefna um Darwin, sýning um Darwin, málþing um Darwin, pistill um Darwin...og nú loksins kvikmynd um Darwin. Í tilefni þess að 200 eru liðin frá fæðingu Charles Darwin hefur fólk fundið sér ýmislegt til dundurs. Yðar auðmjúkur er hér ekki undanskilinn. Í raun mætti segja að við höfum á köflum skrifað of mikið um þennan líffræðing, á kostnað annara fræðimanna og kannski það sem meira máli skipti annarra líffræðilegra viðfangsefna.

Þannig er það nú samt að manneskjur hafa áhuga á öðrum manneskjum. Þegar verið er að kenna einhver fræði er oft taldir upp forkólfar viðkomandi vísinda, Kepler, Pascal, Darwin, Haldane og Blackburn, sem gerir lærdóminn auðmeltari. Listi af staðreyndum hefur ekki sama aðdráttarafl og saga af ævintýralegum leiðöngrum, krassandi rifrildi eða ofsóknum frá hendi kirkjunar. 

Hinn hlédrægi og heimakæri Charles Darwin þætti væntanlega lítið til koma fjaðrafok vegna 200 ára afmæli hans, þótt vissulega hafi hann upplifað móðganir "tjöru og fiður"-fólks þegar hann gaf út Uppruna tegundanna. Þegar fræðin og skrif Darwins eru krufin vill það oft gleymast að hann var bara ósköp venjulegur maður, vissulega efnaður, en fjölskyldufaðir, eiginmaður og sveitungi. Þessi mannlega hlið Darwins er kjarninn í kvikmynd um æfi Darwins sem frumsýnd verður á kvikmyndahátíðinni í Toronto nú í haust.

Kvikmyndin heitir sköpun ("creation") og er byggð á bók eftir einn af afkomendum Darwins Randal Keynes ("Annie’s Box: Charles Darwin, his Daughter, and Human Evolution"). Titill myndarinnar virðist sniðinn til þess að kveikja í trúuðum, en kjarni bókarinnar er dauði Annie, 10 ára gamallar dóttur Darwin hjónnana. Dauði hennar hafði mjög sterk áhrif á Darwin, og virðist hafa valdið vissri togstreitu milli hans og Emmu eiginkonu hans (hún var trúuð en Darwin var á þeim tíma að missa leifarnar af þeirri trú sem hann tók með sér í siglinguna á Hvutta).

Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki lesið bókina um Annie, en styðst við umfjöllun Oliviu Judson um kvikmyndina og bókina. Moore og Desmond gáfu út í upphafi árs nýja ævisögu Darwins, sem kallast "Darwins sacred cause". Þeir færa rök fyrir því að andúð Darwins á þrælahaldi hafi verið kveikjan að þróunarhugmyndum hans, og að margar rannsóknir hans hafi átt rætur í spurningunni um skyldleika kynþátta. Margir af samtíðamönnum Darwins héldu því fram að hvítir menn og svartir hefðu verið skapaðir í sitt hvoru lagi, og því væri algerlega verjandi að hlekkja blökkumenn og selja í þrældóm. Samkvæmt bók þeirra er Darwin vísindamaður, sem er drifinn af trúarlegri samkennd með mönnum, sama hvernig þeir eru á litinn, byggðir eða lagaðir. 

Bæði bók Moore og Desmond og kvikmyndinni um Annie kynna Darwin sem venjulegan mann, ástríkan og breyskann. Ástæðan fyrir því að við munum betur eftir honum, en sveitungum hans er að hann hugsaði skýrar en margur og setti fram þrjár af lykilhugmyndum líffræðinnar. Breytileikinn í stofnum er það sem skiptir máli, náttúrulegt val getur útskýrt aðlaganir lífvera að umhverfi sínu og allar lífverur á jörðinni eru af sama meiði.

Eftir viku mun RÚV sýna þátt frá BBC um "kallinn" og lífsins tré.

Ítarefni:

The Creation of Charles Darwin, Olivia Judson 8 september 2009.


Ágrip fyrir líffræðiráðstefnuna

15 september næstkomandi rennur út frestur til að senda inn ágrip á líffræðiráðstefnuna.

Hún verður haldin 6 og 7 nóvember 2009, í Öskju, Norræna Húsinu og sal Íslenskrar erfðagreiningar.

Venjulega er afskaplega gaman á líffræðiráðstefnunni, margskonar yfirlitserindi og flestir af framhaldsnemunum kynna sína rannsóknir. Eðlilega spannar ráðstefnan allt frá lýsingu á nýjasta krabba Íslands til stofnfruma í hjartavöðva, með eðlilegri viðkomu í lundabyggð Látrabjargs, þorskgöngum Faxaflóa og bakteríudrepandi prótínum í lungnaþekju.

Nánari upplýsingar um form ágripa, netföng til að senda þau í og skipulag ráðstefnunar má finna á nýrri vefsíðu líffræðifélagsins (biologia.hi.is).

Hápunktur skemmtanalífs Reykjavíkurborgar og nærliggjandi sveita (ath. Mosfellsborg er undanskilin) er síðan Haustfagnaður líffræðifélagsins, sem fram fer laugardagskvöldið 7 nóvember.


Tarzan og risarottan í eldfjallinu

Sem strákur las maður ógrynni af ævintýrabókum, Fimm fræknu, ævintýrabækurnar, Tom Swift, Frank og Jóa og auðvitað Tarzan. Í Tarzanbókunum var algengt að hetjurnar okkar lentu í helli með lífverum frá Ísöld eða dal með risaeðlu. Fréttin í BBC um...

Bakteríuland

Flestir vita að bakteríur eru litlar og að sumar þeirra geta faldið sjúkdómum. Færri vita að bakteríur er ótrúlega margbreytilegar, sumar þeirra lifa í hæstu fjöllum, en aðrar djúpt í iðrum jarðar. Sumar þrauka í súlfúrmekki neðansjávarhvera á meðan...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband