Leita í fréttum mbl.is

Líffræðiráðstefnan 2009

Á Íslandi er mjög fjölskrúðugar grunnrannsóknir sem spanna mörg fræðasvið. Sem líffræðingur fylgist ég mest með rannsóknum á lifverum, og tækni sem tengist rannsóknum á líffræðilegum gögnum og fyrirbærum. Sem nemandi í meistaranámi á síðasta áratug, var fátt skemmtilegra en að taka þátt í líffræðiráðstefnunni. Þar kynntist maður rannsóknum í flestum geirum fræðasviðsins og fjölmörgum snertiflötum þess við lífefnafræði, læknisfræði og umhverfisfræði.

Líffræðiráðstefnan hefur verið haldin á 5 ára fresti undanfarna áratugi.

Líffræðifélag Íslands er misjafnlega virkur félagskapur, dauða þess hefur verið lýst yfir nokkrum sinnum en alltaf finnast fjörugar nýjar blóðfrumur sem koma gömlu æðunum í æfingu. Í ár eru 30 ár frá stofnun félagsins og að því tilefni var ákveðið að halda ráðstefnu um rannsóknir í líffræði.

Ráðstefnan fer fram 6. og 7. nóvember 2009, í Öskju, Háskóla Íslands. Allir eru hvattir til þess að nýta þetta tækifæri til að kynna sínar líffræðilegu rannsóknir með erindum og/eða veggspjöldum.

Skráningarfrestur á ráðstefnuna er 15. september. Vinsamlegast sendið skráningu og útdrátt á netfangið liffraediradstefna@mail.holar.is. Þeir sem vilja kynna niðurstöður sínar er vinsamlegast bent á tilgreina hvort óskað sé eftir því að vera með veggspjald eða erindi.

Nánari upplýsingar um form ágripa og skipulag ráðstefnunar má finna á nýrri vefsíðu líffræðifélagsins (biologia.hi.is). Tilkynning á vefsíðu HÍ.

Sálir líffræðinga nærast ekki á niðurstöðum og tilgátum eingöngu, heldur þurfa þær selskap, örvandi tóna, kveðskap og "kúta-og-korklaust svall" upp á gamla mátann (Í allra heilagra bænum ekki biðja mig um nánari útlistanir). Fyrirhugað er að halda skemmtun á laugardagskvöldinu til að fagna lokum ráðstefnunar og hinum alltumlykjandi frumuhring. Verið er að smala í skemmtinefnd.


Langtíma sveiflur í þorskstofninum

Í þorskstofninum við Ísland má finna töluverðan erfðabreytileika. Hvergi er hann þó meiri en á Pan I  geninu, þar sem tvær megin gerðir A og B eru þekktar. Gerðirnar eru mjög ólíkar og vísbendingar um að þær haldist við í stofninum í fleiri hundruð þúsund ef ekki milljónir ára.

Einar Árnason og félagar sýndu nýlega fram á að AA gerðirnar halda sig á grunnsævi, á meðan BB eru mun algengari í djúpinu. Þeir arfblendnu AB finnast bæði í djúpi og grunnsævi. Þetta samband er með því sterkasta sem sést milli arfgerðar og umhverfisþáttar í náttúrunni, (sjá mynd úr grein þeirra félaga í Plos One færsla, frumheimild).

Ástæðan virðist vera sú að BB gerðin stundi lóðrétt far, þar sem fiskarnir kafa niður á mikið dýpi á milli þess sem þeir dvelja í grynnri sjó. Þessi arfgerð hlýtur sem sagt að gera fiskunum kleift að þola mikið dýpi, þannig að líklegast er að genið hafi áhrif á starfsemi sundmagans eða einhverja aðra þætti þrýstingsjöfnunar.

Guðrún Marteinsdóttir og Klara Jakobsdóttir hafa unnið einstaka rannsókn á sveiflum í tíðni Pan I gensins síðustu 60 ár. Vísindagrein um rannsóknina er ekki komin út en Guðrún ræddi þær þó í grófum dráttum í Speglinum þriðjudaginn 16 júní 2009 (viðtalið hefst nokkurn vegin um miðbik þáttarins).

Ég hvet fólk til að hlusta á viðtalið sem er bæði fróðlegt og skemmtilegt. Guðrún virðist hallast að því að veiðar hafi haft afgerandi áhrif  á tíðni A og B gerðanna í þorskinum, en er ekki jafn svartsýn á horfur stofnsins og Einar, Kristján og Ubaldo. Enginn þeirra umhverfisþátta sem þau hafa rannsakað geta útskýrt breytingarnar í tíðni A gerðanna, en þótt ekki sé hægt að útiloka að þær séu vegna óþekktra eða óskilgreindra umhverfisþátta.

Ítarefni: Vefsíða rannsóknarhóps Guðrúnar Marteinsdóttur: www.marice.is

Leiðrétting, í fyrstu útgáfu var talað um lárétt far í þriðju málsgrein, það er auðvitað lóðrétt. Jóhannesi er þökkuð ábendingin.


Maur, maur, maur, maur, maur...

Yfirmaður minn í Chicago, Marty Kreitman, sagði okkur einu sinni sögu af samræðum sem hann átti við Ed Wilson, hinn mikilsvirta náttúrufræðing. Wilson sagði að líffræðingar hefðu þrjár leiðir til vinna sér inn orðspor.* Ein leiðin er að verða mesti...

Fréttamenn bregðast frekar vegna...

Fyrsta setning fréttarinnar: Tregða karlmanna til þess að tileinka sér heilbrigðan lífsstíl og til þess að fara til læknis getur orðið til þess að mynda kynjabil þegar kemur að krabbameini og dauðsföllum. er þýdd nánast orðrétt af vef BBC. The reluctance...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband