Leita í fréttum mbl.is

Tilviljun og tilgangur í lífi og eilífð

Þekking á hvaða náttúrulögmálum gæti hjálpað okkur að skilja eðli og eiginleika mannsins sem tegundar? Eru það sömu lögmál og móta aðrar lífverur og vistkerfi jarðar? Hafa örlög okkar verið ákveðin eða veltur velferð okkar á tilviljun einni? Eru eiginleikar okkar og hegðan mótuð af erfðum, umhverfi eða tilviljun? Spurningar af þessu tagi brenna á fólki í dag, rétt eins og fyrir 2.500 og jafnvel 25.000 árum. Vísindin gera okkur kleift að varpa ljósi á svona spurningar, og þannig bæði á eiginleika manna og krafta náttúrunnar. Erfðafræðin getur t.d. metið áhrif erfða, umhverfis og tilviljunar á eiginleika lífvera, og hefur sýnt fram á flókið samspil allra þessara þátta. Hún sýnir líka að áhrif erfða eru missterk á ólíka þætti, frjósemi hefur lágt arfgengi en fingraför erfast auðveldlega.
Í þessari grein verður fjallað um stórar spurningar um vísindi og tilgang lífsins í ljósi bókar Jacques Lucien Monod (1910–1976) Tilviljun og nauðsyn, rit um náttúrulega heimspeki nútímalíffræði. Hún kom út árið 1969 í Frakklandi, en hérlendis haustið 2012 í ljómandi góðri þýðingu Guðmundar Eggertssonar. Í henni fjallar Monod um eðli lífsins, nýjar uppgötvanir í sameindalíffræði og hlutverk vísinda í samfélaginu. Tilviljun og nauðsyn er stórmerkilegt verk fyrir fólk með áhuga á lífi, heimspeki og stórum spurningum. En hvað felur hin nýja sameindakenning í sér fyrir líffræði og veröld manna?

Monod og hin smásæja veröld
Veröld smásærra lífvera og innviðir frumunnar vöfðust fyrir náttúrufræðingum nítjándu aldar og héldu margir þeirra að sjálfstæður lífskraftur, óháður lögmálum efna- og eðlisfræði, byggi í öllum lífverum eða að líf kviknaði af sjálfu sér. Tilraunir Louis Pasteur (1822–1895) og nokkura annarra brautryðjenda örverufræðinnar sýndu að líf væri komið af lífi og kváðu þar með niður hugmyndir um sjálfskviknun lífs. Jafnvel örsmáir gerlar fjölga sér með skiptingum, af einum gerli spretta tveir og svo koll af kolli. Þannig mjakaðist líffræðin smám saman undan oki gamalla hugmynda. Það gerðist meðal annars með innleiðslu tilraunavísinda og aðferða efna- og eðlisfræðinnar, en sú þróun hófst um aldarmótin 1900. Ýmsar fræðigreinar, þ. á m. örverufræðin, lífefnafræðin og erfðafræðin, lögðu síðan grunninn að sameindakenningunni í líffræði, sem oft er miðuð við uppgötvun James Watson (f. 1928) og Francis Crick (1916–2004) á byggingu erfðaefnisins árið 1953. Hin nýju fræði gjörbreyttu í kjölfarið líffræði, læknisfræði og skyldum greinum.

Saga Monods er að vissu leyti saga þessarar byltingar.

Þannig hefst greinarkorn okkar Tilviljun og tilgangur í lífi og eilífð: Um Tilviljun og nauðsyn eftir Jacques Monod sem birtist í Hug ( 26. Árg, 2014 Bls. 233–246)


Hrakningar Náttúruminjasafnsins halda áfram

Náttúruminjasafn Íslands er lokað í dag, eins og alla aðra daga. Safnið er til samkvæmt lagabókstaf, en ekki sem eiginlegur staður þar sem íslendingar og ferðamenn geta komið og fræðst og forvitnast um náttúru landsins.

Í miðbæ Reykjavíkur eru einkarekin söfn sem gera sérstaklega út á forvitni ferðamanna um náttúru Íslands, norðurljósa safn, eldgosaminjar og fuglasafn.

En íslenska ríkið hefur ekki þor til að byggja upp almennilegt safn - sem þjónar ferðamönnum, íslendingum og rannsóknum, eins og alvöru náttúrminjasöfn í Evrópskum og amerískum stórborgum (Smithsonian, Náttúruminjasafnið í London, Field Mueseum í Chicago).

Náttúruminjasafn Íslands hefur undanfarin ár haft aðstöðu í Loftskeytastöðinni við Suðurgötu fyrir starfsemi sína, en RÚV skýrði frá að samningi safnsins hefði verið sagt upp.

Forsagan er sú að safnið og Loftskeytastöðin heyrði undir þjóðminjasafn - en Forsætisráðherra ákvað að færa safnið undir Háskóla Íslands. Mínir heimildarmenn vita ekki hver röksemdin fyrir tilflutningum sé, eða hver hafði frumkvæði að gjörningnum.

En veruleikinn er sá að nú hefur HÍ sagt upp húsnæðissamningnum við Náttúruminjasafnið - aftur án skýringa. Þannig að óbreyttu verður starfsemi þess á götunni eftir 6. mánuði.

RÚV 9. feb. 2015. Náttúruminjasafnið í húsnæðishraki

Á þessari síðu höfum við oft fjallað um hrakningar Náttúruminjasafnsins. Einnig er rétt að geta þess að nýlega hófum við samstarf við Náttúruminjasafnið um rannsóknir á rostungum.

27/01/2015 Samstarfssamningur Líffræðistofu við Náttúruminjasafn Íslands

 


Hvar eru rauðhærðir algengastir?

Í hvaða landi eða landsvæði eru rauðhærðir algengastir? Hvar er Ísland í röðinni hvað varðar hlutfall rauðhærðra? Er hægt að sjá með DNA-rannsókn hvaðan rauðhærðir Íslendingar koma? Arnar Pálsson. „ Hvar eru rauðhærðir algengastir? “....

Breytir ný tækni því hvernig við hugsum um náttúruna?

Breytir ný tækni því hvernig við hugsum um náttúruna? Geta nýjungar í öflun og meðferð gagna bætt náttúruvernd og auðveldað ákvarðanatöku? Mun ný samskiptatækni færa fólk nær náttúrunni og auka skilning á verndun hennar? William Adams spyr spurninga sem...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband