Leita í fréttum mbl.is

Njótum náttúrunnar en lærum á hana án snertingar

Hér er endurprentaður pistill af síðu Kennarafélags Íslands (Njótum náttúrunnar en lærum á hana án snertingar). Pistillinn er ritaður af stjórn Samtaka líffræðikennara (sem blogghöfundur er hluti af).

---------------

Dagur íslenskrar náttúru var 16. september sl. Markmið dagsins er að beina sjónum landsmanna að hinni einstöku náttúru landsins, gögnum hennar og gæðum. Fyrr í haust sendi Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hvatningu til Íslendinga um að fagna deginum. Það er ánægjuefni að stjórnvöld sýni náttúru landsins áhuga. Því miður endurspeglast þessi áhugi ekki í menntakerfinu þó að fögrum orðum sé farið um viðfangsefnið í námskrám. Áralangur niðurskurður veldur líffræðikennurum áhyggjum og fól aðalfundur Samlífs, samtaka líffræðikennara, 20. apríl 2013 stjórninni að senda frá sér eftirfarandi ályktun:

Samlíf, samtök líffræðikennara hvetja mennta- og menningarmálaráðherra eindregið til þess að gaumgæfa vel uppbyggingu í raungreinakennslu með áherslu á verklega kennslu til að tryggja að nemendur nái tilsettum hæfnimarkmiðum. Áhyggjur eru af sívaxandi niðurskurði í skólakerfinu sem leiðir til stærri hópa. Fjölgun í nemendahópum bitnar á verklegri kennslu og þar með gæðum menntunar. Áhersla námskrár um hæfniviðmið er í andstöðu við sístækkandi nemendahópa.

Mennta- og menningarmálaráðherra er hvattur til að tryggja að ekki verði frekari niðurskurður í raungreinum í framhaldsskólum. Í námskrá (1999) fækkaði einingum í raungreinum í kjarna úr 12 í 9 á bóknámsbrautum öðrum en náttúrufræðibraut en náttúrufræðibrautum var einingum í raungreinum fækkað úr 36 í 21. Samræmist fækkun raungreinaeininga í framhaldskólum markmiðum um fjölgun nemenda í raungreina og tækninámi? Mikilvægt er að tryggja rými til að raungreinar (líffræði, efnafræði, eðlisfræði og jarðfræði) verði veigamikill hluti af námi í íslenskum framhaldsskólum.

Fækkunin úr 12 einingum í 9 einingar (NÁT103, NÁT113 og NÁT123) á bóknámsbrautum sem tilgreind er hér að ofan varð til þess að eðlis- og efnafræði var blandað saman í einn áfanga. Þetta hefur leitt til þess að í flestum tilfellum kennir efnafræðingur áfangann og því er lítið fjallað um eðlisfræði. Álíka gáfulegt væri að spyrða saman ensku og dönsku og gefa fyrir einkunn í erlendum tungumálum. Gefum raungreinum tíma og rúm í íslensku menntakerfi svo að komandi kynslóðir kunni að fagna Degi íslenskrar náttúru og njóta.


Undur lífsins

Ríkisútvarpið sýnir þessa dagana stórbrotna þætti frá BBC um undur lífsins (wonders of life). Ég vil þakka RÚV kærlega fyrir að taka þessa þáttaröð til sýningar, hún er að mínu mati hreinasta afbragð.

Í þáttunum er fjallað um eiginleika lífvera og hvernig þeir spretta úr lögmálum eðlisfræðinnar.

Í fyrsta þættinum sem sýndur var hérlendis - stærð skiptir máli* - var fjallað um þær skorður sem lögmál eðlisfræðinnar setja lífverum. Byrjað var á að ræða hvernig stærð trjáa ræðst af samspili þyngdaraflsins og hárpíplukraftsins. Þann síðarnefnda nota tré  til að flytja vatn upp bolinn. Eðlisfræðin setur lífinu strangar skorður.

Einnig var sýnt hvernig lögmál stærðar leiða til breytinga á byggingu og hreyfimöguleikum dýra. Lærleggur risavambans í Ástralíu var 5x lengri en venjulegs vamba. En hann var 40X þykkari, vegna þess að risavambinn var um tvö tonn á móti 20 kg venjulegs vamba.

Einnig fannst mér stórkostlegt sjá myndir af minnstu skordýrum sem þekkt eru.** Það eru litlar sníkjuvespur sem þrátt fyrir smæð sína, eru með 10.000 taugafrumur í taugakerfi sínu. En þær eru færar um heilmikið atferli, geta flogið um og tekið mikilvægar ákvarðanir varðandi líf sitt.

Í þætti gærdagsins var fjallað um uppruna lífsins og um orkuna sem býr í efnafræði jarðhitahvera. Það voru færð rök fyrir því að líf hefði kviknað við neðansjávarhveri, þar sem basískt útstreymi komst í snertingu við súrann sjó. Í þessum muni á sýrustigi liggur orka, sem sýnd var á mjög flottan hátt í þættinum (hann dugði til að drífa rafmagnsviftu). 

Í frumunum heilkjörnunga er svona stigull, frá súru yfir í basískt, notaður í orkukornum (hvatberum) til að  framleiða orkusameindir. Orkusameindirnar, kallaðar ATP, eru helsti gjaldmiðil framkvæmda í frumunum.

Þættirnir tveir hafa verið ljómandi skemmtilegir. Efnið er framsækið, ekki er verið að segja einfaldar sögur af fjölbreytileika lífsins eða dæmisögur úr lífsbaráttunni. Heldur er verið að fjalla um grundvallaratriði lífsins, og frásagnarmátinn er lifandi og myndefnið fyrirtak. Mér þætti reyndar gaman að heyra hvað fólki finnst. Er ég svona hrifinn af því að bakgrunnur minn er líffræði, eða kveikir þátturinn í öðrum?

*reyndar er sá þáttur fjórði  í röðinni, þegar serían var fyrst sýnd á BBC two.

** OK, ég er með flugublæti, enda rannsakaði ég þær í 8 ár meðan ég bjó í Bandaríkjunum.

Ítarefni:

Wonders of Life á vef BBC two

Undur lífsins á vef RÚV


Ályktun um niðurskurð í raungreinum í framhaldsskólum

Til: Mennta- og menningarmálaráðherra Efni: Ályktun um niðurskurð í raungreinum í framhaldsskólum Samlíf, samtök líffræðikennara hvetja mennta- og menningarmálaráðherra eindregið til þess að gaumgæfa vel uppbyggingu í raungreinakennslu með áherslu á...

Ákall vegna Náttúruminjasafns Íslands

Stjórnir nokkurra félaga og fræðisamtök á sviði náttúrufræða og náttúruverndar, til Mennta- og menningarmálaráðherra Illuga Gunnarssonar, vegna Náttúruminjasafni í Perlunni. Bréfið er hér prentað í heild sinni. Undirrituð samtök hvetja menntamálaráðherra...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband