Leita í fréttum mbl.is

Hnattræn umhverfismál

Hvaða áhrif hafa hnattrænar loftslagsbreytingar á lífverur, vistkerfi og samfélög?

 

Þessi spurning verður rædd á afmælishátíð Líf- og umhverfisvísindastofnunar HÍ í tilefni af Degi íslenskrar náttúru. Fyrst verður fjallað um áhrif loftslagsbreytinga á samfélagið. Sérstaklega verður rætt um tíðari heimsóknir skemmtiferðaskipa til strandsvæða eins og Íslands, og samfélagsleg og hagræn áhrif sem stafa af slíkri ferðamennsku. Einnig verður fjallað um afleiðingar umhverfisbreytinga á lífríki norðurslóða á síðustu áratugum, og sagt frá rannsókn sem reynir að meta væntaleg áhrif hlýnunar í náinni framtíð. Að endingu verður kafað í fortíðina, til að reyna að skilja hvernig t.d. sveiflur í hitastigi samhliða ísöldum og hlýskeiðum hafa mótað sögu og útbreiðslu lífvera á norðurslóð.

Fyrir ári var Dagur íslenskrar náttúru haldinn hátíðlegur í fyrsta sinn, á afmælisdegi Ómars Ragnarsonar 16. september. Þá var Líf- og umhverfisvísindastofnun HÍ stofnuð og nú heldur hún upp á eins árs afmæli sitt með hátíð föstudaginn 14. September 2012 (14:00 til 16:00). Hilmar B. Janusson forseti Verkfræði og náttúrufræðisviðs HÍ mun opna fundinn. Þrír sérfræðingar stofnunarinnar fjalla um hnattræn umhverfismál hver frá ólíku horni.

Anna Karlsdóttir lektor í land- og ferðamálafræði fjallar um rannsóknir á samfélagslegum og hagrænum áhrifum loftslagsbreytinga á norðurslóðum. Samfara hlýnun aukast möguleikar á umferð skemmtiferðaskipa um norðurslóðir, sem eru bersýnileg í tíðari heimsóknum slíkra skipa í íslenskar hafnir. Anna fjallar bæði um samfélagsleg og efnahagsleg áhrif fleiri heimsókna skemmtiferðaskipa á strandsvæði eins og Ísland.

Ingibjörg S. Jónsdóttir prófessor í vistfræði skýrir frá stórri alþjóðlegri rannsókn á áhrifum hlýnunar á vistkerfi norðursins. Í rannsókninni var líkt eftir loftslagsbreytingum á túndrusvæðum víða um heim. Notast er við sérstök opin harðplastsskýli og hitastig þar hækkað um eina til þrjár gráður að jafnaði sem er svipað og flestar spár um hlýnun jarðar gera ráð fyrir. Niðurstöðurnar, frá 61 túndrusvæðum víða um heim, benda til að ólík gróðurlendi túndru bregðist misjafnlega við hlýnandi loftslagi. En á viðkvæmum túndrusvæðum geta samanlögð áhrif hækkandi hita á gróður til langtíma orðið mun meiri en talið hefur verið hingað til.

Snæbjörn Pálsson dósent í stofnalíffræði kynnir rannsóknir á uppruna, sögu og útbreiðslu nokkurra dýrategunda á norðurslóð. Hann hefur t.d. beitt aðferðum erfðafræði og þróunarfræði til að kanna uppruna einstakrar ferskvatns-marflóar sem finnst eingöngu á Íslandi. Niðurstöðurnar sýna að tegundin lifði hér af undir jökli á kuldaskeiðum síðustu ísaldar. Líklegast er að tegundin hafi borist hingað þegar Ísland var enn tengt Grænlandi með landbrú.

Nánari dagskrá og upplýsingar:

Vefsíða Líf- og umhverfisvísindastofnunar HÍ: luvs.hi.is.

Ítarefni:

Frétt um rannsókn Ingibjargar Svölu Jónsdóttur og félaga.

Gróðurbreytingar á túndru í kjölfar hlýnunar

Frétt um rannsókn Snæbjarnar Pálssonar og félaga.

Rannsókn HÍ sýnir að íslensk marfló lifði ísöldina af


Erindi: Kerfislíffræði og sameindaræktun

Mig langar til að benda fólki á tvö erindi um líffræði í þessari viku, bæði um mjög framsækin efni.

Einar Mäntylä frá ORF líftækni mun fjalla um Sameindaræktun í erindi fimmtudaginn 13. september, kl. 12:20, í bókasafni Tilraunastöðvarinnar.

Með sameindaræktun er venjulega átt við notkun plantna sem framleiðslulífvera fyrir verðmætar sameindir, einkum prótein, með hjálp erfðatækni. Í erindinu verður fjallað um ýmsar hliðar sameindaræktunar  og uppbyggingu sameindaræktunar hér á landi. Margvíslegur árangur hefur náðst frá því að menn fyrst sáu fyrir sér hagkvæma framleiðslu stórsameinda með þessum hætti. Eins og aðrar greinar líftækni byggir sameindaræktun á bæði grunn- og hagnýtum rannsóknum í lífvísindum.  Leiðin frá grunnrannsóknum, um tækniyfirfærslu til hagnýtingar í atvinnulífi og verðmætasköpunar í samfélaginu getur verið löng og torfær. En hún er fær.

 

Síðan mun Steinn Guðmundsson fjalla um efnaskiptalíkön, byggð á blágrænþörunginum Synechocystis í föstudagsfyrirlestri líffræðistofu (14. september 2012, kl 12:30, í stofu 130 í Öskju Náttúrufræðahúsi HÍ).
Steinn er lektor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild HÍ og stundar rannsóknir sínar á kerfislíffræðisetri HÍ. Þar hefur að undanförnu verið unnið að rannsóknum á þörungum þar sem markmiðið er að nota þá til að binda koldíoxíð í útblæstri jarðvarmavirkjana og framleiða jafnframt verðmæt efni. Þetta má gera á hagkvæman máta með því að nýta ljósdíóður (LED) til lýsingar.
Við rannsóknirnar eru m.a. notuð stærðfræðileg líkön af efnaskiptum lífveranna, þ.á.m. ljóstillífun. Í þessum fyrirlestri mun Steinn lýsa gerð líkans af efnaskiptum blágrænþörungsins Synechocystis PCC6803 og hvernig nota megi líkanið til að spá fyrir um áhrif ljósmagns á vöxt, afleiðingar þess að slá út gen ofl. Í lokin mun hann fjalla um hvernig slík líkön geta nýst við að hönnun á erfðabreyttum lífverum.
steinng_likan_ljostillifun.pngMynd af líkani um ljóstillífun, himnur, prótín og efnaskipti er fengin frá Steini Guðmundssyni (höfundarréttur er hans).

Önnur erindi líffræðistofu haustið 2012 verða auglýst á vef Líf og umhverfisvísindastofnunar.

Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir með húsrúm leyfir. Nemendur eru sérstaklega hvattir til að mæta.


Eins árs afmæli LUVS

Fyrir ári síðan var Dagur íslenskrar náttúru haldinn hátíðlegur í fyrsta sinn, á afmælisdegi Ómars Ragnarsonar 16. september. Á þeim degi var Líf- og umhverfisvísindastofnun HÍ stofnuð, og nú heldur hún upp á eins árs afmæli sitt með dagskrá föstudaginn...

Decode hvað, ENCODE er miklu stærra

Við íslendingar erum mörg hver stolt af íslenskri erfðagreiningu, fyrir að vera framarlega í erfðafræðirannsóknum (þrátt fyrir skjöldótta sögu áætlaðs samþykkis, taps margra á gráa markaðnum með bréf decode og gjaldþrots fyrir nokkrum árum). Hluti af...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband