Leita í fréttum mbl.is

Snákaolía og lyfleysa

Við stöndum frammi fyrir svakalegri spurningu um heilsu og lækningar. HVERJU GETUM VIÐ TREYST?

Það gildir einu hvort fjallað sé um notagildi eða hættuna af ritalíni, broddmjólk eða Dr. Atkins-kúrnum, við þurfum leiðir til að meta áhrifin. Einnig þurfum við að vita hvar finna má rétt svör og hlutlaus.

  • Ég mæli ekki með því að treysta kalli í hvítum sloppi, bara af því að hann er í hvítum sloppi og með meirapróf.
  • Ég myndi frekar treysta á niðurstöður stórra og vandaðra rannsókna, en rannsókna á litlum hópi eða frásögnum einstaklinga.
  • Ég myndi frekar vantreysta niðurstöðum þeirra sem hafa beina hagsmuni af sölu lyfs, meðferðar, pillu, heilsubókar eða líkamsræktartækis.

Hvaða fyrirbæri sem við höfum virkilega áhuga á ætti að meta með vandaðri vel uppsettri rannsókn. Þar sem einstaklingum (tilraunadýrum) er útdeilt í viðmiðunarhóp og meðhöndlunarhóp af handahófi, hvorki tilraunadýrin né athugandinn viti hvort um sé að ræða ekta lyf eða lyfleysu (double-blind) og síðan verður auðvitað að endurtaka herlegheitin. Jákvæðar niðurstöður geta nefnilega dúkkað upp fyrir tilviljun, og verið mistúlkaðar ef ekki er vandað til verka. 

Eins er vitað að lyfleysur (placebo) hafa jákvæð áhrif á sjúklinga. Sjúklingar bregðast jákvætt við, sama hvort þeim sé gefið lyf eða ekki. Eftirvæntingin um lækningu er það sterk að fólkinu,annað hvort batnar eða líður eins og því sé að batna. Lyfleysu áhrifin eru alþekkt í læknisfræði, og virðast vera kjarninn í óhefðbundnum "lækningum" eins Freyr Eyjólfsson þáttagerðarmaður á Rás 2 fjallaði um í Lyf og lyfleysur:

Maður að nafni Dr. Edzard Ernst sem starfar við Exeter háskólann í Englandi hefur í mörg ár rannsakað óhefðbundar lækningar. Hann hefur sjálfur lært þær og tileinkað sér þær án þess þó að stunda þær af neinu kappi. Nú hefur afraksturinn af 18 ára rannsóknarvinnu hans litið dagsins ljós: Almennur leiðarvísir um óhefðbundnar lækningar. Það sem vekur mesta athygli er að 95% af því sem er í boði virðist ekki virka neitt! Dr. Edzard Ernst  hefur borið saman lyfleysur, eða svokallaðar placebo töflur sem eru ekkert annað meinlausar sykurtöflur og óhefðbundar lækningar. Niðurstaðan: Mest allt af óhefðbundnum lækningum, eða 95%, hefur sömu virkni og lyfleysur.

Freyr tekur undir með Dr. Ernst og segir "[e]n ef fólki líður virkilega betur eftir heilun og andalækningar – helgar þá tilgangurinn ekki meðalið?". Sannarlega mega hefðbundnar lækningar leggja meiri áherslu á líðan sjúklings, en óhefðbundnar lækningar geta haft tvennt slæmt í för með sér.

  • Fólk eyðir peningum í óhefðbundnar lækningar - sem það hefði annars eytt í mikilvægari hluti.
  • Mögulegt er að fólk sem leiti í óhefðbundnar lækningar sé tregara til að leita sér hefðbundinna lækninga.

Í lokinn ætla ég að klikkja út með sleggjudómi. Samfélagið er að drukkna í sjálfskipuðum lífstíls og næringapostulum, það er ofgnótt kúra og meðferða á markaðnum, pillur og fjölvítamín í löngum bunum, töfralausnir og leyndarmáladrykkir seldir fyrir fúlgur fjár, allt undir áru heilsuvakningar og æskudýrkunar. Það er alveg sérkapituli hversu viljugt fólk er að kaupa sér lausnir; pillur, detox, sílikonpúða, þorskapúða, plastdúkkur, lífstílsbækur. Það liggur við að manni langi til að skrifa bókina "Töfralausn sem fær fólk til að hætta að kaupa bækur með töfralausnum*".

Að nútímamanninum steðja margskonar hamfarir og hættur, margar þeirra afleiðingar okkar eigin lífstíls og fæðuvals. Til að greina áhættuþættina og skilgreina bestu mögulegu fæðu, hreyfingu og umhverfisaðstæður þurfum við að beita aðferðum vísinda. Fólk blótar yfirleitt og ragnar þegar minnst er á tölfræði og p-gildi, box-plott og fervikagreiningar, en þetta eru verkfærin sem við getum notað til að greina kjarnann frá hisminu. Við þurfum vísindalæst fólk til að takast á við þessar spurningar og helst einhverja meðvitund í samfélaginu um mikilvægi tölfræði. Því annars munu staðreyndir málsins drukkna í söluræðum næringapostulanna og markaðsmanna lyfjanna.

Pistillinn er innblásinn af samskiptum við Vendetta (meðal annars um næringarpostulann Dr. Mercola) og pistli Freys Eyjólfssonar um Lyf og lyfleysur.

*Sem er svona setningaskrímsli í anda furðuverksins Momus "If looks could kill I'd kill the men, whose looks would kill you if looks could kill" úr laginu A Complete History of Sexual Jealousy Parts 17-24


Harðsoðið undraland og heimsendir

Fyrst bókin sem ég las eftir Murakami var Hard-boiled wonderland and the end of the world, sem vinurinn Guðmundur Erlingsson lánaði mér. Titill bókarinnar gæti jafnvel átt við Japan og atburðina í Fukushima.

Um var að ræða tveggja þráða bók, annars vegar algera fantasíu um minnislausan mann sem lendir í mjög undarlegu þorpi, og hins vegar mann sem starfar í hátækni-upplýsinga-geira framtíðarinnar, þar sem heilinn hans er annað hvort verkfæri eða leyndarmál (ég var aldrei almennilega viss). Báðar sögurnar rekja dularfulla atburði, báðar veraldir eru á mörkum hins raunverulega og samskipti allra persóna eru mjög óræð. Óvissa, leyndardómar og fyrirbæri á mörkum hins skiljanlega einkenna skrif Murakamis, á milli þess sem hann fjallar um núðlur, konur og popptónlist.

Bókin er meistaralega skrifuð og í kjölfarið mjálmaði ég fleiri Murakami bækur út úr Guðmundi eða keypti sjálfur, og las með áfergju, Norwegian wood, Dance dance dance, A wild sheep chase, The elephant vanishes, Wind up bird Chronicle og Sputnik sweetheart. Þær eru reyndar allar góðar, en mér fannst Norwegian wood angurværust, rolluleitin skemmtilegust og Wind up bird Chronicle dularfyllst. Síst fannst mér Sputnic sweetheart, en það gæti verið vegna þess að ég var orðin mettaður af Murakami. Hann, eins og líklega flestir höfundar, skrifa oftast svipaðan stíl ef ekki áþekkar sögur. Sömu þemu og einkenna Harðsoðna undralandið má finna í öllum hinum bókunum, og verða því óhjákvæmilega leiðigjörn til lengdar. Á tímabili taldi ég Murakami eiga skilið að fá Nóbelsverðlaun í bókmenntum, en efast um það nú. Kannski dæmi ég hann of hart, af því ég las hann of stíft og í of mikilli hrifningu.


mbl.is Murakami gagnrýnir kjarnorkustefnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gerill er ekki veira

Kólígerillinn, Eschericia coli , er baktería en ekki veira. MBL hefur annað hvort rangt eftir Daniel Bahr heilbrigðisráðherra Þýskalands: Við getum ekki staðfest að veiran sé á undanhaldi en eftir greiningu á nýjustu gögnum höfum við ástæðu til að vera...

Saga um fallandi sæði

Árið 1992 birtist rannsókn sem benti til þess að sæðisframleiðsla karlmanna hefði verið að dragast saman, yfir fimm áratuga skeið. Rannsóknin var birt af dönskum rannsóknarhópi, sem dró saman upplýsingar úr ýmsum áttum, þjóðum og aldursflokkum. Einnig...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband