2.3.2011 | 12:04
Stórkostlegur fyrirlestur John Ioannidis
John Ioannidis (sjá mynd af vef Stanford Háskóla) er vísindalegur krossfari. Hann horfir gagnrýnum augum á starf og niðurstöður vísindamanna og hefur afhjúpað brotalamir og innbyggða galla í hinni vísindalegu framkvæmd.
Árið 2001 kom út einföld grein í Nature genetics Replication validity of genetic association studies - eftir hinn þá lítt þekkta Ioannidis. Leiðbeinandi minn prentaði greinina út fyrir alla í rannsóknarhópnum og sagði að þetta væri skyldulesning. Nú hefur verið vitnað í greinina 1100 sinnum og Ioannidis hefur unnið stórkostlegt starf á snertifleti tölfræðinnar og erfða- og læknisfræði. Í greininni frá 2001 benti hann á að mannerfðafræðingar hefðu um árabil oftúlkað fylgnigreiningar á einstökum genum. Á tímabili vissu mannerfðafræðingar ekki í hvorn fótinn átti að stíga, því erfðatengsl birtust og hurfu eins og blikkandi umferðaljós. Gagnrýni Ioannidis og framfarir í erfðamengjafræði leiddu til þess að vinnubrögð mannerfðafræðinga eru nú mun betri, fleiri hópar eru skoðaðir, tölfræðin betri og niðurstöðurnar eru traustari.
Magnús S. Magnússon sendi nýverið grein úr Newsweek á póstlista starfsmanna háskólans, Why Almost Everything You Hear About Medicine Is Wrong (eftir Sharon Begley January 24, 2011). Í henni er fjallað um starf Ioannidis, en hann hefur nú tekið til við að skoða aðrar læknisfræðilegar greinar finnur dæmi um sömu oftúlkanir og hjá mannerfðafræðingum fortíðar. Þessar niðurstöður eru einnig kynntar í fyrirlestri sem hann hélt við NIH árið 2008. John ræðir vissa annmarka á rannsóknum og nálgunum mjög vel í fyrirlestrinum. Það er of oft sem fólk leyfir sér að skipta um vinkil í miðri rannsókn - bara til þess að finna einhverja jákvæða niðurstöðu. Mig grunar að þetta sé mannlegt vandamál, að við heillumst frekar að jákvæðum niðurstöðum en neikvæðum. Krafan hans er um betri tölfræði og heiðarlegri nálgun á vandamálin, eins og forskráning á lyfjaprófum sem krafist er nú (þótt útfærslan mætti vera betri!)
Það er bráðnauðsynlegt að horfa gagnrýnið á læknisfræðilega þekkingu. Einnig er mikilvægt að Ioanndis, eða aðrir krossfarar reyni að finna út hversu útbreitt vandamálið er (hvaða önnur fræðasvið er plöguð af sömu pest?. Einnig þarf að meta gagnrýnið þau kerfi sem notuð er til að útdeila rannsóknarfé og í lýðheilsu. Það kann að vera að við (sem samfélag og vísindasamfélag) höfum veitt fé of glannalega í ákveðin málefni, en vanrækt önnur. Félagi minn í Chicago fór í doktorsnám í hitabeltissjúkdómum, sem var lengi vel algerlega vanrækt svið. Það eru örugglega fleiri slík, sem núverandi kerfi mun ekki finna af því að yfirmenn NIH er með sínar áherslur og áhyggjur (gamlir, feitir, hvítir kallar - sem vilja hvorki skalla né krabbamein). Mikilvægast er að finna leiðir til að bæta úr, og skerpa á vísindalegri þjálfun ungs fólks.
Mig grunar að lausnin sé sú að vísindamenn temji sér vandaðari vinnubrögð og sérstaklega betri tölfræði. Það er ekki nóg að fá marktækt p-gildi, því uppsetning tilraunar og fjöldi þátta sem athugaðir voru skipta öllu máli.
Þessi fyrirlestur og greinar Ioannidis um kvikul erfðatengsl verða skyldulesning nemenda sem skrá sig í mannerfðafræði og erfðamengjafræði í haust.
Ítarefni:
Replication validity of genetic association studies Nature Genetics 29, 306 - 309 (2001) doi:10.1038/ng749
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 12:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
1.3.2011 | 18:25
Sviptur doktorsnafnbót
Karl-Theodor zu Guttenberg var sviptur doktorsnafnbót af háskólanum í Bayreuth, en hann varði ritgerð þar árið 2006. Það er ekki nákvæmt að segja (sbr. frétt mbl.is) að hann hafi "sagt af sér í kjölfar ásakana um að stór hluti doktorsritgerðar hans hefði verið fenginn úr öðrum ritum án þess að heimilda hefði verið getið".
Hann stundaði RITSTULD - gögnin eru óumdeilanleg (http://www.sueddeutsche.de/app/subchannel/politik/guttenberg/). Ritstuldur er e.t.v. ekki glæpur í augum ritstjórnar mbl.is en litið mjög alvarlegum augum í Þýskalandi. Um 23000 þýskir vísindamenn sendu Angelu Merkel bréf, vegna þess að hún hafði lýst yfir stuðningi við Karl-Theodor, og kröfðust afsagnar hans.
zu Guttenberg, nú kallaður Googleberg í Þýskalandi, virðist samt ekki vera tilbúinn að játa glæp sinn. Hann sagði (í enskri þýðingu) "I did not deliberately cheat, but made serious errors," Hann sagði ítrekað síðustu vikur að gallar í heimildavinnu hefðu komið til vegna álags og skorts á vandvirkni. Hvernig í ösköpunum er hægt að klippa og líma heilu málsgreinarnar inn í ritgerðina sína og segja að það hafi ekki verið af ásetningi? Maður glutrar ekki textabrotum inn í rafræn skjöl, eins og sultu á morgunblaðið.* Það sem hann gerði rétt var að biðja skólann um að afturkalla doktorsprófið sitt og segja af sér.
zu Guttenberg er bara toppurinn á ísjakanum.
Það er öruggt að hellingur af fólki hafi útskrifast með doktorspróf og meistarapróf á síðustu árum, og að ritgerðir þeirra séu stolnar að meira eða minna leyti. Vandamálið er margþætt og viðbrögðin, hingað til a.m.k. frekar aumingjaleg. Ég vil bara bæta við tvennu í þessu samhengi. Fyrir áramót las ég pistil um leigupenna, sem skrifar lokaritgerðir fyrir ameríska nemendur gegn vægu gjaldi. Það sem var skelfilegast við þetta voru bréfin sem kúnnanir sendu leigupennanum, þau afhjúpuðu letina, siðleysið, vankunnáttuna og skeytingarleysið.
Í öðru lagi þá skiptir prófið sjálft ekki öllu máli, heldur það hvað fólk gerir við sína þjálfun. Þú getur fengið vinnu út á virðulegt próf og fallega ferilskrá, en þú þarft að sanna þig til að halda þeirri vinnu. Einhverjir myndu telja það ásættanlega áhættu að "fegra" ferilskránna sína með uppdikteruðu prófi eða "fita" meistarariterðina sína með efni frá traustari heimild til þess að fá góða vinnu, en ég myndi reka svoleiðis manneskju á stundinni.
Ítarefni
Charles Hawley The Downfall of Defense Minister Guttenberg Der Spiegel - international version. 03/01/2011
Helen Pidd German defence minister resigns over plagiarism row The guardian 03/01/2011
Ed Dante The Shadow Scholar The man who writes your students' papers tells his story The Chronicle of higher education November 12, 2010
*Ég gæti skilið þetta ef hann væri ásakaður um að hafa misst hindberjasultu en ekki bláberjasultu á Fréttatímann sinn.
Leiðrétting: setti "til þess að fá góða vinnu" inn í siðustu setninguna.
![]() |
Guttenberg segir af sér |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt 2.3.2011 kl. 11:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
28.2.2011 | 22:15
Arfleifð Darwins: námskeið
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.2.2011 | 10:51
Aðalfundur Líffræðifélag Íslands 28. febrúar
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 10:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó