Leita í fréttum mbl.is

Munur á kristnifræði, trúarbragðafræði og trúboði

Umræðan um tillögur mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar sýnir í hnotskurn hversu lélegri við íslendingar erum í því að ræða saman málefnalega.

Frá því að tillögurnar voru kunngjörðar hefur umræðan verið mjög fjörug, en því miður lituð af fordómum, miskilningi, rangtúlkunum og sleggjudómum. Örn Bárður blés til sóknar í síðustu viku (grein á pressunni:Gildahlöður og menningarbylting) og sagði meðal annars:

Hvað má gera með börnum? Hvað má kenna í skólum? Við þurfum að taka það allt til endurskoðunar, einkum í ljósi þess, að nú er hamast á kirkju og kristni sem aldrei fyrr og boðskapurinn um frið og kærleika sem þaðan kemur er af fámennum hópi talinn hættulegur börnum þessa lands.

Kristinn Theodórsson hakkar þessa þvælu í sig:

Hér er um tvær rökvillur/útúrsnúninga að ræða.

Það þarf ekki að taka „allt“ til endurskoðunar þótt eitthvað eitt sé tekið til endurskoðunar. Það vitum við vel og þetta er bara óheiðarlegt orðaskak.

Og „boðskapurinn um frið og kærleika“ er ekki talinn „hættulegur börnum þessa lands“, þetta eru hreinir útúrsnúningar hjá Erni Bárði og afskaplega lágkúrulegir. Þyki einhverjum boðskapur kristninnar hættulegur eða óheppilegur þá er það að sjálfsögðu ekki sjálfur boðskapurinn um „frið og kærleika“ sem þykir vondur. Ég veit ekki hvernig yfirlýstur fylgismaður boðorðanna tíu fær sig til að skrifa svona undirförla þvælu og birta í fjölmiðlum undir nafni.

Örn Bárður heldur áfram og röksemdafærslan verður sífellt furðulegri. Fyrst dregur hann upp bein tengsl milli tillaga mannréttindaráðsins og menningarbyltingarinnar í Kína, síðan fetar hann beint út í það kviksyndi að segja að allt sé gildishlaðið og því megi gildishlaðið trúboð Kirkjunnar viðgangast.

Viljum við kannski þjóðfélag í anda menningarbyltingarinnar í Kína á dögum Maós formanns sem reyndi að þurrka allar skoðanir og háttsemi út nema eina skoðun og einn klæðnað?

Allt er gildishlaðið. Engin kennsla er hlutlaus og verður aldrei. Hvernig á til dæmis að kenna sögu í skólum, menningu, trúarbrögð, tungumál, félagsfræði? Hvar ætla þau sem vilja kirkju og kristni út úr öllum skólum að draga mörkin? Krafa þeirra um að „gerilsneyða“ skóla, af boðskap kristinnar trúar, vekur upp spurningar um allt sem fram fer í skólum, einnig í ríkisreknum fjölmiðlum og víðar.

Mínar skoðanir eru mjög nálægt þeim sem Guðmundur I. Markússon setti fram í Fréttablaðinu 22. október  2010. :

Opið bréf frá trúlausu foreldri

Sæll Örn Bárður. Ég er foreldri með tvö börn á grunnskólaaldri. Ég er einnig trúarbragðafræðingur og skrifa þér þetta bréf með báða hatta á höfði.

Grein þín hér í blaðinu "Gildahlöður og menningarbylting" um samskipti kirkju og skóla olli mér vonbrigðum. Í stað þess að tala málefnalega og virða að þeir sem þú ert ósammála hafi raunverulegar áhyggjur, sem í það minnsta kalli á skynsamleg skoðanaskipti, talar þú um þá í sömu andránni og blóðþyrsta kúgara. Einföld breyting á skólastarfi í Reykjavík er skyndilega sett út á blóðakur menningarbyltingar Maós. En látum kyrrt liggja. Tökum gífuryrðin út af borðinu. Ég er trúlaus en ég er ekki "andstæðingur kristinnar trúar". Ég hef lengi staðið utan trúfélaga en ég er ekki "að hamast á kirkju og kristni". Og fyrst ég er byrjaður er ég hvorki í Vantrú né Siðmennt og hef aðeins átt góð kynni af kirkjunnar fólki.

Þú spyrð margra spurninga í greininni, Örn Bárður, m.a. hvort við viljum sögukennslu út úr skólakerfinu. Ég segi "?!" Hér er verið að tala um að skólastarf skuli ekki blandast trúarlegum tilgangi. Hvernig getur "engin sögukennsla" verið næsta skref? En í allri sanngirni segir þú áður að öll kennsla sé gildishlaðin - líka sögukennsla. Meira að segja bestu sögukennarar hafa skoðanir. Alveg rétt. En það er ekki þar með sagt að hægt sé að leggja boðun trúar og sögukennslu að jöfnu. Gildin (merkingin) sem koma fram í sögukennslu og samfélagsfræði eiga að byggjast á rannsóknum sagnfræðinga og samfélagsfræðinga. Ekki trúarhugmyndum. Því gildi, eins og þú ýjar að, eru ekki jafnrétthá. Við viljum að kennsluefnið eigi rætur við Suðurgötuna en ekki í Hádegismóum.

Þetta er kjarni málsins um tengsl trúar og skóla. Trúarbragðafræðin er veraldlegt fag með rætur í hug- og félagsvísindum. Trúarbragðafræðin á að fræða um trúarbrögð sem mannlegt fyrirbæri - eitthvað sem fólk gerir og hugsar. Heimsóknir presta og annarra fulltrúa trúfélaga eiga heima innan þessa ramma - sem innlegg í trúarbragðafræðslu. Sömu sögu er að segja um heimsóknir í kirkjur og önnur musteri, sem og föndur trúartákna - ekki í trúartilgangi heldur þeim að uppfræða. Hér á kristindómurinn sinn sess og þannig fræðast börn þjóðkirkjufólks, múslíma, trúleysingja og annarra um kristna trú og önnur trúarbrögð. Ekki er hægt að kenna Íslandssögu án þess að kirkjan spili þar stóra rullu. Því eru áhyggjur þínar, Örn Bárður, og annarra um "gerilsneydda" skóla ástæðulausar. Þú spyrð hvar eigi að láta staðar numið. Svarið er einfalt: látum skólann gegna sínu hlutverki. Hann á ekki að boða trú heldur fræða um trú. Þetta svarar einnig áhyggjum þínum um þöggun - fræðsla og upplýsing eru andstæður þöggunar og þröngsýni.

Látum það liggja á milli hluta að mannréttindi eru fyrst og fremst til þess að vernda minnihlutann. Þetta ættu kristnir að skilja manna best. En þetta er ekki aðalatriðið. Skólakerfið er opinbert og veraldlegt og þar má ekki mismuna. Með því að blanda trú inn í skólastarf er verið að víkja frá hlutverki skólans sem fræðslustofnunar. Og það getur ekki verið að neinn íhugi í alvöru þá "lausn" að taka börn "þessa fólks" út úr hópnum - varla eftir alla þá umræðu sem verið hefur um einelti. Finnst þér, Örn Bárður, að þú hafir rétt til þess að gera lítið úr lífsskoðunum foreldra í mínum sporum og taka fram fyrir hendurnar á þeim um uppeldi eigin barna? Finnst þér að þú hafir meiri rétt til minna eigin barna en ég sjálfur? Svona snýr þetta við mér sem trúlausu foreldri sem sendir börnin sín til fræðslu í hverfisskólanum. Og hvers vegna þarf skólinn að vera vettvangur trúarinnar? Kirkjur eru víða. Ég sé a.m.k. eina út um stofugluggann. Þar er blómlegt barnastarf oft í viku. Ég er sammála þér þegar þú segir að "í fjölhyggjusamfélagi þarf fólk að læra að virða og meta skoðanir annarra". Þetta er háleitt en raunsætt markmið. Leyfum skólanum að sinna sínu hlutverki og kirkjunni sínu. Leyfum kristnum að láta sín börn koma til Krists - leyfum börnum trúlausra að vera börn foreldra sinna. Þetta er engin bylting, aðeins lítið sanngirnismál.


mbl.is Jón Gnarr fylgjandi kristinfræðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mjög góð bók

Ég kynntist fyrst skrifum Unnar þegar ég las bók hennar Mannkynbætur: hugmyndir um bætta kynstofna hérlendis og erlendis á 19. og 20. öld. Hún reyndist mér ágæt heimild um það hvernig íslendingar tóku hugmyndum um mannkynbætur, sérstaklega þar sé ég var að skrifa um erfðasjúkdóma og þróun mannsins fyrir bókina um Arfleifð Darwins (ágrip úr kaflanum mínum má finna á darwin.hi.is).

Í bókinni "Þar sem fossarnir falla" fjallar hún um hugmyndir landans um fossa  og nýtingu þeirra. Þetta er mjög lærdómsrík lesning, sama hvaða skoðanir sem fólk hefur á nýtingu vatnsafls, jarðvarma og náttúruvernd.

Þetta er einmitt dæmi um grandvara og yfirvegaða vinnu fræðimanns, sem í fullkomnum heimi myndi færa umræðuna um nýtingu og náttúruvernd upp á æðra plan. En eins og því miður eru of mörg dæmi um, þá einkennast íslenskar umræður um deilumál af upphrópunum, sleggjudómum og rangfærslum.


mbl.is Fossarnir hafa alltaf verið í lykilhlutverki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Arfleifð Darwins: Ljósmyndasýning og tilboð í bóksölu

Hafdís Hanna einn ritstjóra bókarinnar Arfleifð Darwins fór til Galapagoseyja fyrir nokkrum árum til að stunda rannsóknir. Hún tók ógrynni ljósmynda og ætlar að sýna nokkrar þeirra í Te og Kaffi í Eymundsson: Ljósmyndasýningin "Á slóðum Darwins" verður...

Erindi: Þekkingaröflun hornsíla og sníkjudýr

Nú í vikulokin verða þrjú meistarverkefni varin við Líf og umhverfisvísindadeild HÍ. Í öllum tilfellum er um að ræða nemendur Guðbjargar Ástu Ólafsdóttur , sem ásamt Bjarna K. Kristjánssyni skrifaði kafla um tilurð tegunda í bókina Arfleifð Darwins ....

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband