Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Skýjaborg eða gyllta brautin til framtíðar

Sem efahyggju maður að eðlisfari og atvinnu, þá finnst mér hugmyndin um að leggja vegi með sólarsellum fjarstæðukennd. Það er alveg rétt að vegir eru dýrir og að mannkynið þarf meiri orku. En það er ekki endilega víst að skipta malbiki út fyrir sólarrafhlöður sé lausnin.

Mín fyrstu viðbrögð voru að leita á netinu með Solar roadways og criticism sem lykilorð.  Aaron Saenz skrifaði (árið 2010) að hugmyndin væri snjöll að vissu leyti en byggðist að of miklu leyti á óþróaðri tækni. Og að útfærslan, t.d. hvernig hætti að safna og veita rafmagninu væri órannsökuð. Það er viss kostur að hafa stór orkuver sem framleiða orkuna og veitukerfi sem safnar því saman. En af við þurfum greinótt safnkerfi og greinótt veitukerfi, þá eykst kostnaðurinn. Reyndar er kostnaðurinn við stóru orkuver einnig hár, en dæmið þarf að reikna til enda.

Almennt finnst mér hugmyndin um að sækja fjármagn fyrir tæknilegar framfarir og nýsköpun með hópkaupi alls ekki galinn. En málið er að hún opnar líka gátt fyrir grunlausa loddara, sem eru fyllilega sannfærðir um ágæti sinnar hugmyndar en átta sig ekki á því að hún sé tæknilega óframkvæmanleg eða efnahagslega óburðug.

Þeir sem vilja kíkja betur á málið ættu að lesa pistil Saenz.

http://singularityhub.com/2010/08/08/solar-roadways-crackpot-idea-or-ingenious-concept-video/


mbl.is Hjón virkja vegi til orkuframleiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs

Aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs var kynnt 22. maí síðastliðinn. Í áætluninni er fyrirhuguð nokkur mjög jákvæð skref fyrir nýsköpun og rannsóknir hérlendis. Nokkrir vísindamenn fjalla um þetta í grein Fréttablaðsins í dag. Hluti greinarinnar birtist hér að neðan:

-------------------------------

Aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs: Horfum jákvætt til framtíðar

22. maí síðastliðinn kynnti forsætisráðherra aðgerðaáætlun ríkistjórnarinnar um hvernig stefnu Vísinda- og tækniráðs yrði framfylgt. Aðgerðaáætlunina má finna á vef forsætisráðuneytisins http://www.forsaetisraduneyti.is/vt/. Í stuttu máli byggir áætlunin á því að efla stórlega framlög í samkeppnissjóði og jafnframt að búa til skattalega hvata sem auðvelda og hvetja fyrirtæki til að setja aukið fé í rannsóknir og nýsköpun.

Samkeppnissjóðir
Stjórnvöld hafa nú sagt að þau muni auka fjárframlög til samkeppnissjóða um 2,8 milljarða á kjörtímabilinu, það er um 800 milljónir fjárlagaárið 2015 og um tvo milljarða fjárlagaárið 2016. Það er þó nefnt að þetta sé gert með fyrirvara um fjárlagaferlið og afgreiðslu Alþingis á fjárlögum. Það er því ljóst að Vísinda- og nýsköpunarsamfélagið mun fylgjast grannt með umfjöllun Alþingis um fjárlagafrumvarpið í haust.

Aukin fjárfesting fyrirtækja
Stjórnvöld stefna á að auka fjárfestingu fyrirtækja í rannsóknum og þróun um 5 milljarða króna. Skapa á umhverfi fyrir fyrirtæki þannig að þau sjái hag í að auka hlut sinn í rannsóknar- og nýsköpunarstarfi. Sérstaklega er hér horft til skattahvata.

Háskólasamfélagið
Styrkja á fjármögnun háskólakerfisins hér á landi svo hún verði að minnsta kosti sambærileg við meðaltal aðildarríkja OECD árið 2016 og Norðurlanda árið 2020. Það er ljóst að hækkun framlags í samkeppnissjóði mun einnig styrkja fjármögnun vísindastarfs innan háskólanna. Mennta- og menningarmálaráðuneytið vinnur jafnframt að því að hækka reikniflokka háskólanna, sem er afar mikilvægt. Einnig er stefnt að auknu samstarfi háskóla og fyrirtækja.

Lokaorð
Undanfarin ár hefur þrengt mjög að vísindasamfélaginu á Íslandi með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á nýsköpun, nýliðun ungra vísindamanna og háskólasamfélagið í heild. Með nýrri stefnu og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs, undir forystu forsætisráðherra, er mörkuð braut sem ætlað er að snúa þessari óheillaþróun við. Með því að halda fast í aðgerðaáætlunina og sýna í verki að stjórnvöldum sé alvara með stefnu Vísinda- og tækniráðs verður hægt að endurvinna traust milli stjórnvalda og vísindasamfélagsins, öllum til hagsbóta.

Arnfríður Guðmundsdóttir, prófessor
Erna Magnúsdóttir, rannsóknasérfræðingur
Kristján Leósson, vísindamaður
Steinunn J. Kristjánsdóttir, prófessor
Þórarinn Guðjónsson, prófessor
Þórólfur Þórlindsson, prófessor
Þórunn Rafnar, vísindamaður stjórn Vísindafélags Íslendinga


Hvernig myndast sýklalyfjaþol?

Sýklar eru meðhöndlaðir með margskonar lyfjum en stundum verða þeir þolnir. Einnig er talað um lyfjaónæma stofna baktería. Orsökin fyrir tilurð þeirra er sú að sýklalyf eru sterkur valkraftur, sem leiðir til breytinga á stofni sýklanna. Hér er að verki náttúrulegt val, sem Charles Darwin og Alfred Wallace uppgötvuðu fyrstir manna.

Hvað er náttúrulegt val?

Þróunarkenningin hvílir á hugmyndinni um breytileika í stofni. Það er að segja að einstaklingar í stofnum eru ólíkir og með mismunandi gen. Náttúrulegt val byggir á þessari staðreynd og það útskýrir hvers vegna lífverur lagast að umhverfi sínu. Náttúrulegt val byggist á þremur atriðum.

  • Breytileika, það er einstaklingar eru ólíkir.
  • Erfðum, það er breytileiki milli einstaklinga er tilkominn vegna erfða að einhverju leyti.
  • Mismun í æxlunarárangri, það er fjöldi og gæði afkvæma skipta hér mestu.

Þessi atriði duga til að útskýra hvernig tíðni arfgerða breytist í stofni og eiginleikar stofnsins með. Darwin benti síðan á að baráttan fyrir lífinu, sem útskýrir mismun í æxlunarárangri, útskýri aðlaganir lífvera. Baráttan felst í því að einstaklingar eru misjafnlega góðir í því að leysa áskoranir lífsins. Fleira þarf ekki til að útskýra hvers vegna sýklalyfþol þróast. Náttúrulegt val er mismunandi milli hópa og tegunda, enda fer það eftir umhverfi og erfðabreytileika sem er til staðar. Valið getur stuðlað að myndun tegunda, mótað eiginleika þeirra og útskýrt tré lífsins.

Þróun sýklalyfjaþols eða lyfjaónæmis

En tökum nú nærtækara dæmi. Ímyndum okkur bakteríu sem veldur sjúkdómi í mönnum. Hugsum nú um bakteríuna sem stofn, hóp einstaklinga þar sem enginn er nákvæmleg eins. Einstakar bakteríur þola tiltekið sýklalyf misvel og þolið er arfbundið. Bakteríur með ákveðin gen, eða vissar útgáfur af einhverju geni, eru þolnari en hinar. Ef við meðhöndlum sýkingu með þessu sýklalyfi, lifa þolnar bakteríugerðir af en aðrar ekki. Ef við notum sýklalyfið stöðugt munu þolnu gerðirnar veljast úr með tíð og tíma, alveg vélrænt. Þess vegna getum við ekki gefið öllum sýklalyf alltaf. Ef það er gert, verða sýklalyfjaþolnar bakteríur allsráðandi, og sýklalyfið gagnslaust.

Kristín Jónsdóttir og Karl G. Kristinsson (2008) kortlögðu notkun kínólón-sýklalyfja hérlendis yfir tíu ára tímabil. Þau sýndu að notkunin jókst um 60% á tímabilinu og tíðni kínólónþols samhliða. Lyfjaóþol er mikið vandamál erlendis, og Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) segir að fornir fjendur séu á uppleið og nú sýklalyfjaþolnir. Það væri ekki gaman að takast á við lyfjaónæma berkla eða sárasótt.

Erfðir og darwinísk læknisfræði

Eins og Þórdís Kristinsdóttir útskýrir í svari við spurningunni Hvað eru lyfjaónæmir sýklar? er erfðafræði þolgena tvíþætt. Einn hópur þolgena er tilkominn vegna stökkbreytinga í genum bakteríunnar. Það eru breytingar á hefðbundnum genum sem gera bakteríunni kleift að þola sýklalyfið. Algengt er að breytingarnar verði í skotmarki sýklalyfsins. Ef lyfið dregur úr virkni lífsnauðsynlegs prótíns bakteríunnar með því að bindast við það, þá getur þol myndast ef stökkbreyting dregur úr þessari bindingu. Hinn hópur þolgena er mun hættulegri. Þetta eru gen sem geta ferðast á milli baktería, til dæmis á litlum hringlaga litningum sem kallast plasmíð. Slík gen geta hoppað á milli óskyldra tegunda og þannig getur þolgen hoppað úr kólígerli yfir í klebsíellu. Alvarlegast er að nú hafa fundist fjölónæmar bakteríur. Í þeim hafa nokkur ólík þolgen raðast saman á plasmíð sem gerir bakteríunum kleift að þola mörg ólík sýklalyf.

Þróunarkenningin varpar ljósi á læknisfræðina og hjálpar okkur að skilja byggingu lífvera, hvernig samskiptum sýkla og hýsla er háttað, hví erfðagallar viðhaldast í stofnum og togstreitu á milli kerfa lífverunnar. Þróunarfræði útskýrir vopnakapphlaup og þróun þolgena. Ofnotkun sýklalyfja leiðir til þróunar bakteríustofna og stuðlar að tilurð sýklalyfjaónæmra baktería. Þannig er barátta okkar við sýkla stríð til eilífðar. Sýklalyfjaþol og fjölónæmar bakteríur eru fyrirsjáanlegar afleiðingar náttúrulegra lögmála. Samantekt
  • Í stofnum baktería þróast lyfjaónæmi vegna notkunar sýklalyfja.
  • Of mikil notkun getur leit til aukinnar tíðni sýklalyfjaþols, og jafnvel fjölónæmra stofna.
  • Þróunarkenningin útskýrir hvernig sýklalyfjaþol myndast, dreifist og viðhelst í stofnum baktería.

Arnar Pálsson. „Hvernig myndast sýklalyfjaþol?“. Vísindavefurinn 2.6.2014. http://visindavefur.is/?id=67549.

Ítarefni

Hafa flóknari heilkjarna lífverur fleiri litninga en þær einfaldari?

Litningar bera erfðaefni lífvera. Fjöldi þeirra er mismunandi milli lífvera og gerðirnar einnig. Mestur munur er á byggingu litninga baktería, sem eru einnig kallaðar dreifkjörnungar, og heilkjörnunga.

Pistill þessi birtist á vísindavefnum 23. maí 2014. 

Arnar Pálsson. „Hafa flóknari heilkjarna lífverur fleiri litninga en þær einfaldari?“. Vísindavefurinn 23.5.2014. http://visindavefur.is

Upprunalega spurningin hljóðaði svona:

Fer það eftir því hversu flókin heilkjarna lífvera er hversu marga litninga hún hefur í hverri frumu?

Heilkjörnungar eru til dæmis dýr, plöntur, sveppir og frumdýr. Bakteríur eru með hringlaga litning (eða litninga) en heilkjörnungar eru með línulega litninga. Einnig er algengt að bakteríur séu með litla aukalitninga, svokölluð plasmíð. Þau bera oft sérstök gen sem geta hjálpað bakteríunni við ákveðin verkefni. Til dæmis er algengt að sýklalyfjaþol (lyfjaónæmi) erfist á plasmíðum, sem er einstaklega bagalegt því bakteríur eiga frekar auðvelt með að skiptast á plasmíðum.

Menn hafa 46 litninga (23 litningapör) en margar lífverur eru með miklu fleiri.

Heilkjörnungar eru með mismarga litninga. Menn hafa til að mynda 46 litninga. Ávaxtaflugan Drosophila melanogaster hefur fjögur litningapör, kynlitning (X og Y), tvo stóra litninga og einn litningsstubb sem inniheldur innan við hundrað gen. Kvendýr maursins Myrmecia pilosula hafa bara eitt par litninga. Á hinum enda rófsins eru vatnakarpi með 104 litninga, Agrodiaetus-fiðrildið (Agrodiaetus shahrami) með 268 og burknategundin Ophioglossum reticulatum með 1260 litninga. Svakalegustu litningatölurnar finnast meðal frumdýra. Þau eru einfrumungar og hafa mörg þeirra tvo kjarna. Annar kjarninn, kallaður smákjarni, er geymdur fram að kynæxlun og hefur venjulegan fjölda litninga. Hinn kjarninn, kallaður stórkjarni, sér um daglegan rekstur dýrsins. Í honum eru þúsundir litninga, sem verða til við að venjulegir litningar eru bútaðir niður í eins eða tveggja gena bita. Í stórkjarna frumdýrsins Oxytricha trifallax fundust til dæmis um það bil 15993 litningar. Frumdýrið er alls ekki jafn flókið og maður, en er samt með dágóðan slatta af litningum. Ef við skoðum bara fjölda litninga þá virðist sem einfaldar lífverur (bakteríur) hafi færri litninga en flóknar lífverur (heilkjörnungar). En málið er ekki alveg svona einfalt. Fjöldi litninga segir ekki allt. Ráðgátur C- og G-gildisins Um miðja tuttugustu öld voru þróaðar aðferðir til að mæla heildarmagn DNA í frumum. Þessi svokölluðu C-gildi voru reiknuð fyrir ólíkar lífverur. Það kom heilmikið á óvart að ekkert samband var á milli stærðar erfðamengisins og því hversu flókin dýrin eða lífverurnar voru. C-gildi mannsins var til að mynda mun lægra (3,5) en frosksins Necturus lewisi (120,60) og plöntunar Paris japonica (148). Þetta var kallað ráðgáta C-gildisins.

Paris japonica.

Með tilkomu raðgreiningartækni undir lok síðustu aldar var hægt að finna öll genin í erfðamengjunum, og telja þau. Í ljós kom að fjöldi gena er mjög ólíkur á milli lífvera. Bakteríur hafa flestar 4000 til 6000 gen. Gersveppurinn um 7000 stykki en ávaxtaflugur 14000. Menn hafa um 25000 gen, en sumir fiskar og plöntur helmingi fleiri. Sett var fram sú tilgáta að fjöldi gena útskýrði hversu flóknar lífverur væru en það kom í ljós að það er ekki samband á milli fjölda gena og þess hversu flóknar lífverur eru. Þetta var kallað ráðgata G-gildisins. Tilgátur um að fjöldi litninga, heildarmagn DNA og fjöldi gena útskýrðu muninn á byggingu og fjölbreytileika lífvera hafa því verið afsannaðar. Nú hallast flestir að þeirri tilgátu að munurinn á einföldum og flóknari lífverum byggist á því hvaða gen eru til staðar og hvernig þeim sé stjórnað. Genastjórn er mjög fjölbreytt, og það hefur komið í ljós að flest gen heilkjörnunga eru forskriftir að nokkrum skyldum en samt ólíkum prótínum. Slíkt finnst ekki í bakteríum og er mjög óalgengt í einföldum sveppum. Framleiðslu ólíkra prótína af þessu tagi er stjórnað af flóknu neti prótína og sameinda, sem byggja undraverð form eins og blóm Paris japonica eða auga kolkrabbans. Samantekt
  • Það er munur á fjölda litninga, gena og magns á erfðaefni milli baktería og heilkjörnunga.
  • Munur á þessum þáttum dugir samt ekki til að útskýra muninn á ólíkum og misflóknum dýrum.
  • Flestir líffræðingar telja að eiginleikar gena og stjórnkerfa frumna skipti meira máli fyrir þróun flókinna dýra eins og manns og kolkrabba.
Heimildir og mynd:

Krybburnar þagna...

Krybbur (e. crickets) eru vinalegar skepnur en geta verið ansi háværar. Þegar við bjuggum í Norður Karólínu fylltu krybburnar sumarkvöldin með braki og brestum. Karlkrybburnar (hversu kjánalega sem það nú hljómar) syngja með því að skekja vængina, og kvendýrin velja besta eða vandaðasta söngvarann og makast við hann.

En krybbur sem numu land á Hawaii hafa tapað þessu sönghæfileika, á u.þ.b. tuttugu árum. Ástæðan er sú að staðfundin sníkjufluga rennur á hljóðið og verpir eggjum í líkama karlkrybbanna. Eggin klekjast og lirfurnar éta krybbuna upp til agna á um viku.  Þetta hefur leitt til mjög hraðrar þróunar þögulla krybba á tveimur Hawaii-eyjum (Kauai og Oahu). Syngjandi krybbur eru í miklum minni hluta á eyjunum, en hinar þöglu alsráðandi.

Nýleg rannsókn skoðaði  form vængjanna á báðum eyjunum og tengda erfðaþætti. Megin niðurstöðurnar eru þessar.

1. Vængir syngjandi krybba á Kauai og Oahu eru næstum því eins í laginu.

2. Vængir þögulla krybba eru mjög ólíkir vængjum hinna syngjandi.

3. Vængir þöglu krybbana á Oahu eru mjög ólíkir vængjum þöglu krybbana á Kauai

Þetta sýnir að þróunin hefur farið ólíkar leiðir til þess að þagga í Krybbunum.(sjá myndir á vef BBC)

Hið sérkennilega er að sama svæði á litningum dýranna tengist söngnum á báðum eyjum. Þannig að þótt að útlit dýranna sé töluvert ólíkt, gæti verið að um sambærilega erfðagalla sé að ræða. Reyndar þarf frekari rannsókna við til að staðfesta tengslin milli ákveðinnar stökkbreytingar og lögunar vængjanna.

Ég fékkst einmitt við að kortleggja gen sem tengjast formi vængja í Norður Karólínu. Á myndinni hér fyrir neðan sést vængur ávaxtaflugu, með stoðæðum. Fyrir neðan eru myndir sem sýna hvaða breytingar á vængjunum eru algengastar (vinstra megin lögum miðhluta vængsins og hægra megin vængsins í heild). Fyrir miðsvæði vængsins er mest breyting í afstöðu krossæðanna tveggja. Við fundum að stökkbreyting fyrir framan EGFR genið tengist einmitt breytileika í fjarlægð á milli krossæðanna. Þannig að þið skiljið að maður espist upp, þegar maður les svona æsispennandi frásögn um vængi, og krybbur sem þagna...

wingshape.jpg

Ítarefni:

Sonia Pascoal o.fl. 2014 Rapid Convergent Evolution in Wild Crickets Current biology

dx.doi.org/10.1016/j.cub.2014.04.053

Crickets in two places fall silent to survive

Palsson A, Dodgson J, Dworkin I, Gibson G. Tests for the replication of an association between Egfr and natural variation in Drosophila melanogaster wing morphology. BMC Genet. 2005 Aug 15;6:44.


Riða, minningar og brjálæði

Riða er einn dularfyllsti sjúkdómur heims. Hún smitast á milli kinda, án þess að nota erfðaefni.

Riða og aðrir skyldir sjúkdómar, eins og Creutzfeldt-Jacobs sjúkdómurinn og brjálaða kúapestin (mad cow disease), byggjast á smitandi prótíni. Prótínin sem kölluð eru príon eru þeirri sérstöku náttúru gædd, að geta skipt á milli byggingarforma. Svona dálítið eins og transformers, nema hvað eðlilega og náttúrulega. Annað formið er starfhæft prótín, hitt formið myndar klasa sem geta byggst upp og orðið til vandræða. Smitandi prótín hvatar myndun klasa og ýtir þannig sjúkdómunum af stað. 

Riða var rannsökuð hérlendis af Birni Sigurðsyni og samstarfsmönnum á Keldum um miðbik síðustu aldar. Björn var mikill brautryðjandi í þessum rannsóknum, sem og á mæði visnu veirunni sem er skyld hinni skæðu HIV sem veldur alnæmi. Hannskilgreindi hæggenga veiru (smit) sjúkdóma fyrstur manna.

Stanley Prusiner fékk Nóbelsverðlaunin árið 1997 fyrir að sýna fram á að prótín gætu verið smitefni. En tilgátu hans var ekki vel tekið í upphafi, og það tók mörg ár þangað til uppgötvun hans var viðurkennd af vísindasamfélaginu. Sem betur fer er Prusiner mjög staðfastur og hollur sinni tilgátu, því aðrar manngerðir hefðu etv. gefist upp á mótlætinu og farið að rannsaka auðveldari hluti.

Það getur reyndar bæði verið slæmt og gott að vera staðfastur vísindamaður. Í tilfelli Prusiners hafði hann rétt fyrir sér, um príonin amk. En í mörgum öðrum tilfellum hafa vísindamenn hangið eins og hundar á roði, í tilgátum sem fyrir löngu hafa verið afsannaðar.

Prusiner gaf nú í vor út bók sem heitir Memories and Madness. Hún er á leslistanum mínum.

Ítarefni:

Zoë Corbyn The Guardian 30. maí 2014 Stanley Prusiner: 'A Nobel prize doesn't wipe the scepticism away' The neurologist whose discovery of the agent that causes CJD reveals why his finding was greeted with disbelief
 

Sigurður Sigurðarson. „Hvað er riðuveiki í sauðfé?“. Vísindavefurinn 1.8.2003. http://visindavefur.is/?id=3628.


Kynbætur fiska og fleiri erindi

Hér eru nokkrar tilkynningar um málþing, doktorsvarnir og meistarfyrirlestra.

Miðvikudaginn 28. maí ver Theódór Kristjánsson doktorsritgerð sína í búvísindum við Landbúnaðarháskóla Íslands. Verkefnið ber heitið Kynbótaskipulag fyrir eldisþorsk. Vörnin fer fram í Ásgarði (Ársal) á Hvanneyri og hefst kl. 13.

Aðalleiðbeinandi: Dr. Þorvaldur Árnason, gestaprófessor við Landbúnaðarháskóla ÍslandsUmsjónarkennari: Dr. Ágúst Sigurðsson, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands
http://lbhi.is/?q=is/doktorsvorn_i_buvisindum_theodor_kristjansson_kynbotaskipul…

Í tengslum við doktorsvörn Theódórs Kristjánssonar verður haldið málþing um kynbætur fiska þriðjudaginn 27. maí n.k. kl 13:30 til 15:30 í fyrirlestrarsal LbhÍ á Keldnaholti.
http://lbhi.is/?q=is/malthing_um_kynbaetur_fiska_keldnaholti_thridjudaginn_27_ma…
Dagskrá:

Genomics in aquaculture – Dr. Anna Soneson NOFIMA

Molecular variation in Atlantic cod – Dr. Snæbjörn Pálsson prófessor HÍ

Genetic architecture of fitness traits in Arctic charr from the Hólar breeding program – Dr. Eva Kuttner MATÍS

Applying genomics for improving disease traits in Stofnfiskur salmon breeding program – Dr. Jónas Jónasson Stofnfiski

Málþingið fer fram á ensku og málþingsstjóri er Dr. Sigurður Guðjónsson forstjóri Veiðimálstofnunar

thingvallavatndwarfeggs2010.jpgMynd, bleikjuhrogn AP haustið 2010.

Nokkrar meistaravarnir verða á næstu dögum

http://www.hi.is/vidburdir/meistarafyrirlesturenvironmental_microbial_diversity_…

http://www.hi.is/vidburdir/meistarafyrirlestur_long_term_changes_in_the_distribu…

http://www.hi.is/vidburdir/meistarafyrirlestur_humpback_whale_megaptera_novaeang…


Tengsl á milli smjörklípa og gæða dagblaða?

Tyler Vigen er snillingur. Hann fann fullt af mjög sterkum samböndum risastóru gagnasetti.

Og hann sýnir að fylgni sannar ekki orsök.

http://www.tylervigen.com/

2014-05-15_12_40_24.jpgÞúsundir tölfræðinga og vísindamanna hafa reynt að útskýra þetta fyrir fólki í rúmlega heila öld, en að mestu án árangurs.

Máli mínu til stuðnings fylgir mynd af bænabeiðu (praying mantis)...þ.e.a.s. ekkert orsaka samband er milli fjölda bænabeiða og fingra.

Við erum ótrúleg fljót að sjá mynstur milli furðulegra hluta, og jafnvel trúa því að um orsakasamband sé að ræða. Hvernig í ósköpunum haldið þið að hoppiskopp og tiktúrur töfralæknanna hafi komið til. Og helgisiðasamsull skipulagðra trúarbragða? (Trúlega er það trúlegi heilinn)

Altént, Tyler er nýja goðið mitt. Ef ég fer með nokkrar Tylerbænir og færi fórnir þá gengur næsta tilraun ...

Ég mæli eindregið með myndböndum Ze Frank sem kallast True facts (t.d. True Facts About The Dung Beetle) - nokkurn veginn Attenborough stappfullur af húmor og The Allium

Software engineer develops app that’s pretty much the same as all the other apps

Local software engineer, David Brightman (38) sat down with us Monday to tell us the remarkable story behind how he developed a revolutionary new app that mostly does stuff that all the other apps do too.

Scientists Close to Making Matter from Flour, Eggs and Milk

Scientists have reported today that they are tantalisingly close to making matter from flour, eggs and milk. “We are pretty sure we can make some matter from these ordinary household items”, said lead scientist Dr. Chris Cross.

Inter-faith marriage: Bayesian and Frequentist tie the knot

Noted Yale Bayesian Dr. Cal Culus and Harvard frequentist Dr. Poly Nomial got married Friday at what some friends said was probably, or indeed quite likely, an intimate ceremony.



mbl.is Tengsl milli smjörlíkisneyslu og skilnaða?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hráefni fyrir vísindi og velferð

Fræðimenn og vísindamenn eru drifnir áfram af forvitni, en þurfa gott umhverfi til að geta náð árangri. Þeir þurfa að fá aðstöðu og örvandi umhverfi, tækifæri til að kenna og sækja vísindafundi. Og þeir þurfa fjármagn til að framkvæma rannsóknirnar, hvort sem það eru talningar á fuglum í björgum, mælingar á þenslu kvikuhólfa, greining á félagslegum áhrifum snjallsíma eða greiningar á virkni gena sem stýra þroskun.

Hérlendis hefur fjármögnun vísinda verið í skötulíki. Miðað við aðrar vesturlandaþjóðir verjum við lítilli prósentu ríkisútgjalda til samkeppnissjóða. Samkeppnisjóðirnir styrkja verkefni í grunnrannsóknum en einnig til tækniþróunar. Sjóðirnir hafa rýrnað undanfarin ár því þeir hafa staðið í stað í krónutölu, þeir voru auknir í gegnum veiðigjald og skornir aftur þegar ný stjórn tók við (síðasta haust).

Blessunarlega virðist ríkistjórnin hafa skipt um skoðun, miðað við fréttir af aðgerðaráætlun Vísinda og tækniráðs, og loforðum forsætisráðherra.

Aðgerðaráætlunin útlistar 21 atriði sem eiga að bæta umgjörð og afrakstur vísinda og nýsköpunar hérlendis. Eins og við ræddum í gærkvöldi þá er mikil áhersla á að skapa störf og bæta tengsl við atvinnulífið. Það á að hvetja atvinnulífið til þess að leggja 5 milljarða í rannsóknir, yfir tveggja ára tímabil. Hugmyndin er að nota skattkerfið til að hvetja til fjárfestinga í nýsköpun. Það er lofsvert markmið, en því skal haldið til haga að velferðin er ekki bara tengd peningum, heldur einnig upplýstu, gagnrýnu og samheldnu þjóðfélagi. Slíkt gerist ekki að sjálfu sér, heldur þarf góða menntun, fjölmiðla, áhugamannafélög og ríkisstofnanir.

Í áætluninni eru einnig atriði um sameiningu mennta og rannsóknarstofnanna, og að fjármögnun þeirra komi að stærra leyti úr samkeppnissjóðum.

Margt í þessu er mjög jákvætt, en það má ekki gleymast að mörg vandamá íslenska rannsókna og menntakerfisins eru tengd aldarlöngu fjársvelti og brengluðum kerfum (eins og t.d. vinnumatskerfi opinberu háskólanna).

Þessari nýju áætlun bera að fagna, og við vonum að framkvæmdin gangi eins vel og hægt er.

Ítarefni:

Arnar Pálsson | 22. maí 2013 Verða framlög til vísinda og nýsköpunar efld verulega?

Lesa má aðgerðaáætl­un­ina í heild hér.

http://www.forsaetisraduneyti.is/media/vt/2014-5-22-stefna-adgerda-vt.pdf

Arnar Pálsson og Pétur H. Petersen | 31. mars 2014 Gallað vinnumatskerfi HÍ vinnur gegn gæðum vísinda  

Arnar Pálsson og Pétur H. Petersen | 18. desember 2013 Öflugir samkeppnissjóðir eru nauðsynlegir fyrir nýsköpun


mbl.is 2,8 milljarðar í nýsköpun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verða framlög til vísinda og nýsköpunar efld verulega?

Vísindi gerast ekki að sjálfu sér og né tómarúmi. Það þarf gott fólk og góða umgjörð til að þau geti blómstrað og bætt mannlegt líf. Hérlendis hefur fjármögnun vísinda rekið fyrir vindum, skorin niður í hruni, aukin í gegnum veiðigjald og skorin aftur þegar ný stjórn fílar ekki veiðigjald.

Vísinda og fræðisamfélagið tók niðurskurði á rannsóknarsjóðum og nýsköpunarkerfinu mjög illa síðasta haust, eins og við fjölluðum um hér. Sérstaklega var neyðarlegt misræmi á gjörðum og áætlunum, þegar ný stefna vísinda og tækniráðs var kynnt síðastliðið haust.

Á vef Forsætisráðaneytisins segir.

Vísinda- og tækniráð hefur það hlutverk að efla vísindarannsóknir, vísindamenntun og tækni­­þróun í landinu í því skyni að treysta stoðir íslenskrar menningar og auka sam­keppnis­hæfni atvinnulífsins.

Forsætisráðherra er formaður ráðsins, en þar sitja einnig fjármálaráðherra, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra auk 16 fulltrúa sem eru tilnefndir í ráðið af ráðuneytum, háskólum og aðilum vinnumarkaðarins, auk þess sem forsætisráðherra getur kveðið allt að fjóra ráðherra til setu í ráðinu.

Í ráðinu sitja nokkrir ráðherrar, sem virtust kippa sér lítið upp við misræmið á milli orða og aðgerða. Allavega var mjög róttækur niðurskurður samþykktur á fjárlögum, og teikn á lofti um frekari niðurskurð næstu ár á eftir.

Í kvöld komu hins vegar jákvæð merki frá fundi Vísinda og tækniráðs. Á vísir.is segir:

Á fundi Vísinda- og tækniráðs, sem haldinn var í dag, var samþykkt aðgerðaáætlun sem ætlað er að styðja við og efla samkeppnishæfni atvinnulífsins og gagnsæja nýtingu opinbers fjár en þetta kemur fram í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.

Í kjölfarið verður auknu fjármagni varið í þennan málaflokk. Stórauka á fjárveitingar til vísinda og nýsköpunar þannig að árið 2016 nái þær 3,0% af vergri landsframleiðslu (VLF) og verði sambærilegt því besta sem þekkist innan OECD. Aðgerðunum er sömuleiðis ætlað að laða fram aukna fjárfestingu fyrirtækja í vísindum og nýsköpun.

„Það er von mín að stefnan og aðgerðaáætlunin, sem nú hefur verið samþykkt, muni efla til muna nýsköpun og þróun hér á landi og hafi jákvæð og varanleg áhrif á hagvöxt og lífskjör til framtíðar litið. Það er í samræmi við áherslur stjórnvalda um nýsköpun í öllum atvinnugreinum,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og formaður Vísinda og tækniráðs. 

Í fréttinni er síðan fjallað meira um aðgerðaáætlunina og áherslur stjórnvalda. Höfuð áherslan er á atvinnuskapandi rannsóknir og hagnýtingu, sem er nákvæmlega sömu áherslur og í rannsóknaráætlun Evrópusambandsins. Sumum finnst reyndar nóg um þar, því að rannsóknir geta verið einstaklega gagnlegar fyrir þjóðir og mannkyn þótt að engin einkaleyfi hljótist af. Grunnþekking bætt og eflt mannlega þekkingu og líf á ófyrirsjáða vegu.

Engu að síður fagna ég þessari áætlun og hlakka til að sjá hvernig hún verður útfærð. Vonandi stenst vísinda og tækniráð þá freistingu að setja allt púðrið (raforkuna) í álrannsóknir.

Ítarefni:

Vísinda- og tækniráð, stefna og skýrslur

Vísir.is 22. maí 2014 Framlög til vísinda og nýsköpunar efld verulega

Arnar Pálsson | 29. október 2013  Segja sig úr vísinda og tækniráði

 

Arnar Pálsson | 5. desember 2013 Heill árgangur af vísindafólki rekinn

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband