Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Froða og sápukúlur

Læknablað fór í hundana

Læknablöð eru hinir virðulegustu pappírar. Þar er sagt frá nýjum uppgötvunum, teknar saman niðurstöður margra rannsókna og sérkennileg tilfelli kynnt. Allt staðlað, vandað, prófarkalesið, ritrýnt, gagnrýnt og fjarska þurrt aflestrar.

Ástæðan er sú að læknisfræði, eins og margar fræðigreinar hafa komið sér upp miklum þekkingarbanka þar sem merking hugtaka er vandlega skilgreind og vitneskjan þannig varðveitt á bærilega aðgengilegu formi.

Einstaka sinnum lyfta læknar, eða í þessu tilfelli, læknablöð sér upp. Forsíða tímarits bandarísku læknasamtakana (Journal of the American  medical association, JAMA) var í 50 ár prýtt listaverkum. En í sumar ákváðu ritstjóranir að setja æsispennandi efnisyfirlit á forsíðuna. En fyrir sérstök hefti leyfa þér sér þann munað að birta myndir á forsíðu.

Nýjasta hefti JAMA er helgað læknisfræðimenntun, og það prýðir stórfínt verk af hundalæknum að lækna hund. Einhver sagði þetta væru dýralæknar að dýralækna dýrahund, en JAMA er of virðulegt tímarit fyrir viðlíka skott-lækningar. Myndin er endurprentuð hér að neðan af vef NPR.

jama_med_ed-7aa701fd4c1af011f2dfb659fe2b7380846c92f1-s4-c85Við ritun þessa pistils var stuðst í meira lagi við frétt af vef NPR -  Medical Journal Goes To The Dogs

Reyndar hefur mér alltaf fundist hundamyndlist stórlega vanmetin, og ekki síður málverk af gulrótum. Eðalpenninn og pensillinn Richard  Scarry laumaði stórkostlegum málverkum af gulrótum inn í myndlistabækur sínar. Hver man ekki eftir gulrót í slökun úr stóru orðabókinni,  og kanínur fara í frí með gulrótina sína úr stóru bílabókinni? Ég gæfi amk 3000 krónur íslenskar fyrir fallegt málverk af gulrót, helst appelsínugulri.


Óperur bæta líðan eftir hjartaígræðslu

Að minnsta kosti ef þú ert mús. Japanskir vísindamenn framkvæmdu hjartaígræðslur á músum, og könnuðu óperur hefðu áhrif á batahorfur músanna. Og viti menn, mýsnar sem hlýddu á óperurnar jöfnuðu sig betur en þær sem fengu engar óperur.

Ig nóbelsverðlaunin snúast um að verðlauna snjallar rannsóknir, eða amk rannsóknir sem hafa spaugilegan vinkil.

Það er auðvelt að afneita Ig nóbelnum sem kjánaskap, og jafnvel gagnrýna að þau séu í raun vísindasirkus. En aðstandendur gæta þess að velja ekki bara fyndnar rannsóknir, heldur einnig rannsóknir með forvitnilega ef ekki hagnýta vinkla.

Í samfélagi nútímans er reyndar kappnóg af skemmtan, og sumir segja að minni áhugi fólks á þjóðfélagsmálum, menningu og vísindum sé að hluta til vegna þess að afþreyingar gleypi allan tíma. Susan Jacoby segir amk í The age of American unreason, að helsta afurð bítlatímans sé einmitt minnislaus poppkúltúr sem drekki upplýstri umræðu.

Ef til vill er eina leiðin til miðla mikilvægi vísinda að klæða vísindamennina í búninga og láta þá koma fram í risastórri grínóperu. Einmitt eins og Ig Nobelinn var í gær. Í tilefni af rannsóknarinnar á hjartaígræðslum, var verðlaunaathöfn Ig Nóbelsins skipulögð sem ópera í 4 þáttum, með stuttum innslögum þar sem sigurvegararnir tóku við verðlaunum.

Hægt er að horfa á sirkusinn á vef Ig Nobel - Improbable research.

Emma-Bell-Violetta-in-La--012

Mynd af vef The Guardian.

Ítarefni:

2013 Ig® Nobel Prize Ceremony & Lectures - Improbable Research

Alok Jha The Guardian 13. sept. 2013. Ig Nobel prize for discovery that opera is good for a mouse's heart

Fréttaskot frá Associated Press http://www.youtube.com/watch?v=QcqVVbjiXOE

Masateru Uchiyama, Xiangyuan Jin, Qi Zhang, Toshihito Hirai, Atsushi Amano, Hisashi Bashuda and Masanori Niimi Auditory stimulation of opera music induced prolongation of murine cardiac allograft survival and maintained generation of regulatory CD4+CD25+ cells Journal of Cardiothoracic Surgery, vol. 7, no. 26, epub. March 23, 2012.


mbl.is Bjór rannsókn hlýtur Ig Nóbelinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bévítans krækiber í nefi

Sakleysislegt stopp við foss og berjabrekkur breyttist í fjölskylduharmleik. Undir bláhimni glittaði á svartar perlur í lynginu, krækiber voru byrjuð að þroskast. Ekki voru þau stór, og sæt voru þau varla, en ekki er að slíku spurt þegar berjaveiðieðlið er vaknað.

Við týndum nokkrar handfyllir og í gáfum nokkur þeirra yngispiltnum tæplega tvævetra í plastmáli. Drengur kunni kostinum vel og tíndi berin upp í sig af miklum móð, en kapp er best með forsjá. Þegar upp á heiðina var komið heyrðist harmakvein úr aftursætinu. Piltungur hafði ruglast á pípum. Það tókst að losa tvö krækiber úr nösinni með lipurð. Því miður sat eitt ber eftir í nefholinu, sallarólegt og ekki líklegt til hreyfa sig af sjálfsdáðun.

Nefsugan var grafin upp þegar heim var komið, en hún reyndist ekki nægilega öflug. Næst ráðfærðum við okkur við Dr. Google, sem leiddi okkur á greinina: The ‘Parent's Kiss’: An Effective Way to Remove Paediatric Nasal Foreign Bodies. Þar er lýst "foreldrakossi" (parents kiss), aðferð til að losa hluti úr barnanefum. Aðferðin er í stutt máli þessi.

Leggðu fingur yfir nös þeim megin sem aðskotahluturinn er ekki í.

Settu varir þínar yfir munn barnsins.

Andaðu þéttingsfast upp í munn barnsins.

Við þetta myndast þrýstingur í munni og hluturinn þrýstist út úr nösinni, stundum í fylgd með horslummu.

ATHUGIÐ: Mælt er með að hafa samband við heilsugæslu, hjúkrunarfræðing eða lækni þegar barn er með aðskotahlut í nefi. Ekki er víst að þetta henti í öllum tilfellum. Samkvæmt greininni var mælt með að hámarki 5 tilraunum. Óreglulegir hlutir hreyfast trauðla við gust þennan.

Samkvæmt greininni reyndist þetta vel í 60% tilfella (31 barn tók þátt í rannsókninni), og best á hringlótta og litla hluti. Hið himneska krækiber uppfyllti það skilyrði. Reyndar gerðist ekkert í fyrstu atrennu, en pjakki líkaði atlotin og bað um "Meia". Þá komst hreyfing á krækiberið og það tyllt í sér í nasagættina. Piltungur var fullsáttur, og reyndi að bera sig eftir berinu (en við hentum þvi safnhaugakassann).

Á næstu vikum:

Hvernig á að framkvæma nýrnaskipti í heimahúsi.

Fjaðraígræðsla milli gæsar og manns sem vörn gegn skalla.

Rakstur á líkamshárum með alnáttúrulegum hraunhellum.

Stígvél full af kúamykju koma í veg fyrir fótavörtur.

Heimildir:

The ‘Parent's Kiss’: An Effective Way to Remove Paediatric Nasal Foreign Bodies
Neeraj Purohit, Shalina Ray, Tom Wilson, and OP Chawla Ann R Coll Surg Engl. 2008 July; 90(5): 420–422. doi:  10.1308/003588408X300966 

Ávaxtafluga leitar að maka

Ég lenti í tölvuveseni og tímahraki, með þeim skelfilegu afleiðingum að ég vanrækti bloggið.

Mín auma tilraun til yfirbótar er að deila þessari "skrýtlu".

Drosophila_seeks_mate.jpg

 


Svalur á milli góðra bóka

Í sumarleyfinu datt ég niður á Sval og Val á dönsku. Ég hafði svo gott sem lokið við Musicophiliu Olivers Sacks, snilldarlega framreiddar frásagnir af undarlegustu tónlistar-sjúkdómsfellum sögunar, og var að byrja á Zen og listin að gera við mótorhjól eftir Robert M. Pirsig, eina mest tilvitnuðu bók seinni ára. Fyrstu síðurnar benda til að mótorhjólazenið muni taka á mínar taugar og lesþol, en meira um það síðar og vonandi Musciophiliuna sem fær mín bestu meðmæli.

Langhundsviðvörun. Pistillinn var nokkra stund í fæðingu og varð fyrir vikið lengri en efni stóðu til. Lesendur eru beðnir velvirðingar, þeir sem ekki geta lengur lesið nema 4-6 setningar á hverri vefsíðu er bent á að slökkva á netinu og spreyta sig á bók, jafnvel einhverju jafn einföldu og teiknimyndasögu (til að þjálfa einbeitinguna).

Frá því að bókaforlagið Iðunn hætti að gefa út Sval og Val, einhverntímann á síðustu öld, hafa komið út þó nokkrar sögur um þá félaga erlendis. Skemmst er frá að segja að eftir að hafa vafrað inn í Vindla Faraós (á Skindegade í miðborg Kaupmannahafnar) og út aftur með búnka af ferskum Sval og Val teiknimyndasögum kvaddi ég bæði tíma og rúm. Þær sögur sem danskar krónur barna minna lentu í voru Kuldakastið, París sekkur, maðurinn sem vildi ekki deyja, Svalur og Valur í Tókýó, Uppruni Z, Árás Zorkónanna, Örvænting á Atlantshafi og safnhefti með þremur bókum eftir Franquin (3-4 Sval og Val bækur eru nú endurútgefnar saman í nokkrum heftum í danmörku, hvert verðlagt á 129 danskar í Vindlum Faraós - skora á alla að nýta sér tilboðið).

splint_panikpaaatlanterhavet.jpgNú verður að viðurkennast að yðar auðmjúkur hefur alltaf haft, allt að því sjúklega fíkn í. teiknimyndasögur, sérstaklega Ástrík fyrir dauða Goscinny og Sval og Val. Þegar Andre Franquin hafði fullskapað Sval og félagar (gorminn þarmeð talinn) var loksins hægt að skilgreina snilld. Sköpunin tók sinn tíma þó, og heilmikill byrjendabragur er á eldri bókum Franquins. Sval og Val fanatíkerar voru fæstir ánægðir með Fournier, vegna yfirnáttúrunnar og geimveranna kannski, en tóku gleði sína á ný þegar Tome og Janry tóku við pennum og söguþráðum (Aðrir hafa gert sögu Svals og Vals betri skil, sbr. pistil eftir Stefán Einarsson, vandaða wikipedia síðu) og blogfærslu um Sval bækur.

Kveikjan að enduruppgötvuðum áhuga mínum á Sval og Val er að íslenska teiknimyndablaðið Neoblek prentar nú hluta af nýrri Sval og Val sögu, "leðurblökuaðgerðin" í þýðingu Stefáns Einarssonar. Hann segir:

Þessi sérútgáfuflokkur bar nafnið "Une aventure de Spirou et Fantasio par..." (ísl. Ævintýri Svals og Vals eftir...) en hefur verið breytt í "Le Spirou de..." (ísl. Saga Svals eftir...). Í þessum flokki hafa mismunandi höfundar fengið að spreyta sig. Auk sögu þeirra Vehlmann og Yoann hafa komið sögurnar Les marais du temps (ísl. ) eftir Frank LeGall, Le tombeau des Champignac(ísl. Grafir Sveppaborgar) eftir Yann og Fabrice Tarrin, Journal d'un ingénu(ísl. Dagbók ungstyrnis) eftir Emily Bravo og hlaut sú saga verðlaun á Angoulême myndasögu hátíðinni og fær einnig mín bestu meðmæli. Le groom vert-de-gris(ísl. Leðurblökuaðgerðin) eftir Yann og Schwartz en myndasagan er byggð á handriti eftir Yann sem hann skrifaði fyrir Chaland en ritstjórnin hafnaði því. Yann valdi Schwartz til að teikna þar sem að stíll hans er líkur stíl Chalands. En þessi myndasaga er birt í íslenskri þýðingu í blaðinu NeoBlek

Sumarleyfissyndin mín voru semsagt Sval og Val bækur eftir nokkra höfunda, flestar eftir Moravan og Munero, sem voru bæði hressandi og hryllilegar í senn. Kannski er þetta áþekkt því að hlusta á nýjustu plötu Bob Dylan eða endurflutning einhverra glanseygðra ungliða á gullaldargersemum the Waterboys? Það örlar á kunnuglegum stefum, mörg hver skemmtileg eða spennandi, en síðan fer allt í allsherjarrugl.

Veröld Svals og Vals er náttúrulega fáranlegur karlaheimur, örfáar kvenpersónur finnast í bókunum. Tome and Janry léku sér með kvenleg element, gerðu Val þunglyndan af ást, sendu Sval og Val á diskótek með glanspíum, en sögurnar fullornuðust samt ekki. Það er sanngjörn spurning hvort maður vilji að Svalur giftist, eignist börn og eldist? Fyrir einhverjum árum las ég bókina Tintin in the New World: A Romance eftir Frederic Tuten. Þar segir frá því þegar hinn eitilharði fulltrúi réttvísinnar, fer að þreytast á flandrinu, tekur upp drykkjusiði Kolbeins og leggur lag sitt við hitt kynið (sem sjaldnast deildi ramma með hinum toppótta í bókum Herges). Það er í sjálfu sér forvitnileg upplifun að fara í ferðalag með persónu úr svona velskildreindri veröld, eins og Tinnabókunum, inn í heim hinna fullorðnu.

Í nýju Sval og Val bókum er engin Gormur, sbr. sérstakt klúður í "teiknimyndasögunni". Með orðum Eyrúnar Hjörleifsdóttur úr ágætum ritdómi um Sval og Val í Tókíó.

Franquin og Dupuis skildu að skiptum og upp frá því var forlaginu bannað með lögum að nota gorminn í Svals og Vals sögunum. Þess í stað var hleypt af stokkunum gúrkulega leiðinlegri seríu um líf Gorms í frumskóginum. Þær bækur eru skelfileg og samhengislaus leiðindi – Gormur veiðir fisk, Gormur passar börnin sín, Gormur lemur erkióvin sinn blettatígurinn svo hann fær stóra kúlu á hausinn. Ég hugsa til þess með djúpri sorg og reiði að Svalur og Valur hafi verið rændir gorminum og nafn hans svívirt á þennan hátt. 

Ég held að allir lesendur Sval og Val bókanna hafi heillast af gorminum, fjaðurmagnaðri og uppátækjasamri skepnu, sem lumbraði á óþokkum og gleypti allt (ætt sem óætt). Sem praktíserandi líffræðingi er manni skylt að ofbjóða, það er ekki möguleiki að venjuleg hryggdýra bein eða vöðvar gætu afrekað þessi ósköp, né að mallakútur gormsins gæti rúmað 100 piranafiska eða tonn af iðandi rauðum maurum. En gormurinn er eins og DNA, ófullkominn en samt stórkostlegur.

E.s. Mig langaði afskaplega mikið til að flétta goðið og dvergasmíðina Viggó Viðutan inn í pistillinn en gat það ekki með góðu móti. Kannski er það viðeigandi að Viðutaninn sé utan við.

Beðist er velvirðingar á mistökum, fyrst lenti færslan í Vísindi og tækni en á sannarlega ekki heima þar.


Ástríkur ofbeldisfulli

Í 35 Ástríksbókunum eru 704 tilfelli um alvarlega höfuðáverka. Grein í tímaritinu European Journal of Neurosurgery, Acta Neurochirurgica, fjallar um þetta á hávísindalegan hátt. The Guardian fjallar um greinina. Þar kennir margra góðra mistilteina:

...discovering that of the 704 victims, 698 were male and 63.9% were Roman. One hundred and twenty were Gauls, 59 were bandits or pirates, 20 were Goths, 14 were Normans, eight were Vikings, five were Britons and four were extraterrestrials....

The majority of injuries were caused by the indomitable Gauls (87.1%), with Asterix and his large sidekick Obelix themselves responsible for more than half (57.6%). Only 32 head injuries were caused by Romans, write the researchers, led by Marcel A Kamp from Heinrich Heine University, and just one by a pirate....

"a doping agent called 'the magic potion'" was found to have been taken by the perpetrators of 83% of the injuries. "This substance contained mistletoe and was believed to give superhuman strength. In fact, characters who took the magic potion before traumata caused significantly more severe traumatic brain injuries," the academics discovered.

They note that a component of mistletoe, lectin, has been shown to have effects on brain tumours, but say that its role in the treatment of traumatic brain injuries "needs to be clarified by further studies".

Nútildags þarf maður að lesa nýjustu Ástríksbækurnar upp á ensku, sem er hálfdapurlegt því þýðingarnar Þorsteins Thorarensen voru stórkostlegar (þótt Egill Helgason sé ekki á sama máli). Reyndar eru bækur Uderzo frekar daprar, miðað við sögurnar sem skrifaði með Goscinny.

Ítarefni:

Aðdáendum Ástríks, Steinríks, Krílríks, Óðríks og allra hinna er bent á síðu helgaða nöfnum á hetjum vorum.

The Guardian, Alison Flood Asterix books contain 704 victims of brain injury, study finds

Neoblek - fyrir íslenska myndasögufíkla.


Hár af Elvis Presley hefur lækningamátt

Á plánetu langt í burtu, eftir milljarð ára og tilurð lífs, mannvera og rokktónlistar. Þær fregnir ganga fjöllum hærra að hár úr handakrika mesta klassíska tónskáldi Finnlandíu Elvinus Preiisleiiunomi hafi lækningamátt.

Handakrikalækningafélagið tók þetta benti hinsvegar á að ekki væri um að ræða hár úr krika Elvinus sjálfs heldur sonum hans Kýrhausinus og Nautheimskus. Hvorugur þeirra hafði verið klónaður eins og Elvinus sjálfur, og því ómögulegt að hár úr handakrikahölum þeirra gætu læknað nokkurn þróaðan (eða óskapaðan) hlut.

Myndarleg ekkja með barn á hnénu sagði hjartnæma sögu af því hvernig hár Elvinusar (reyndar Kýrhausinus og Nautheimskus) læknuðu kvef sem hafði plagað hana í 54 klst samfleytt og var þess fullviss að hárin dyggðu til að lækna heilablæðingu og fótaóeirð, hitasótt og kynkulda, svitaböð og hjartasorg. Það skipti engu máli þótt faraldsfræðingar sýndu fram á að hárin væru hin mesta meinsemd, og orsökuðu lungnakrabba ef þau væru reykt, magasár væri þeirra neytt og heilaskemmdir ef þeim væri undir varir troðið. Hárin seldust eins og heitar lummur, og Abbakúkar í krukkum urðu að víkja sem helsti lukku og lækningargripur plánetunar.

Að endingu varð ljóst að handakrikar Elvinusar gamla hefðu tæplega geta staðið undir framleiðslu og sölu á þeim 15.000.000 rúmmetrum af Elvinusarhári sem seldir voru á plánetunni á hverju ári. 

Og ekkert breytist.

Eftirskrift, lesist í samhengi við frett mbl.is.


mbl.is Kjöt af klónuðu nauti á markað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pastaóður Kristins

Þið verðið að kíkja á óð Kristins Theodórssonar til fljúgandi spaghetti skrímslisins.

Kveikjan að þessu er vitanlega skrif og samræður (frekar en rökræður!) Kristins og félaga við sköpunarsinna og "trúarfugla" eins og hann kallar þá (sjá t.d. Um heimildanotkun trúfugla - fyrsti hluti).

 

Kraftaverkalyf, laukurinn og grefillinn

Fyrst þetta alvarlega, af vef vantrúar

Innerlight supergreens - Kraftaverkalyf?

Síðan skopið

Af vef grefilsins - þessi síða er algert æði

Heilaþveglar, Karlakrækjan, Skoðanaskiptir

Og síðan nýklassík af lauknum.

Scientists Successfully Teach Gorilla It Will Die Someday - ok þetta er  frekar dapurlegt grín en samt merkilega fyndið.

NASA Scientists Plan To Approach Girl By 2018 - dapurlega fyndið á annan hátt, sérstaklega fyrir þá okkar sem spyrja fyrst og kyssa svo.

NASA Delays Shuttle Launch Out Of Sheer Habit


DNA fyrir ofan arininn og í eldhúsinu

DNA er eitt þekktasta tákn vísinda nútímans.

dna_double_helix_vertikal.png

Mynd af wikimedia commons.

DNA er tvíþátta sameind, fósfóríbósakeðja með viðhangandi basa (A, C, G og T). Basarnir snúa inn í sameindina og parast á þar tveir og tveir (G með C og A með T).

DNA er skoðað með því t.d. að senda sýni í gegnum hlaup. Þau flytjast í gegnum hlaupið (kallað gel) vegna rafstraums, sem togar í DNAið (sameindin er neikvætt hlaðin).

Litlar DNA sameindir ferðast hraðar en stórar í gegnum hlaupið, af sömu ástæðu og krakkarnir stinga mann af í Kringlunni (þau smjúga auðveldar í þröngu rými).

Myndir af DNA sem dregið hefur verið á geli er nú orðið að list/markaðsvöru. Stíllinn er frekar einfaldur og útfærslan er sú að setja mismunandi liti á frekar einföld gel, sbr dæmi hér að neðan og gallerí  fyrirtækisins Yonder biology.

duet-dna-art.jpg

superhero.jpg

Næst má maður búast við því að fólk fari að blanda DNA í eldhúsinu heima...heyrðu það er nú þegar að gerast Do-It-Yourself Genetic Engineering. 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband