Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Erindi og ráðstefnur

Frá skarði í væng ávaxtaflugunnar til krabbameinslyfja

Laugardaginn 14. nóvember kl 14-16 munu Samtök um Krabbameinsrannsóknir á Íslandi, SKÍ, fagna 20 ára afmæli sínu með opnu húsi í Iðnó.

Allir eru velkomnir til að fræðast um krabbameinsrannsóknir og fagna með félaginu.

Dagskrá:

Ávarp formanns SKÍ - Margrét Helga Ögmundsdóttir

Örerindi kl. 14.15 - 15.15:

Stofnun Samtaka um krabbameinsrannsóknir á Íslandi

Helga M. Ögmundsdóttir - Prófessor við Læknadeild HÍ

Hvað er Krabbameinsskráin og hvernig er hægt að nota hana?

Laufey Tryggvadóttir - Framkvæmdastjóri Krabbameinsskrár

Frá skarði í væng ávaxtaflugunnar til krabbameinslyfja

Eiríkur Steingrímsson - Prófessor við Læknadeild HÍ

Rannsóknir í krabbameinshjúkrun

Sigríður Gunnarsdóttir - Framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítala

Læknisfræðirannsóknir í krabbameinsfræðum

Magnús Karl Magnússon - Forseti Læknadeildar HÍ

Samtakamáttur

Gunnhildur Óskarsdóttir - Formaður styrktarfélagsins Göngum saman

 

Veggspjöld þar sem vísindamenn kynna rannsóknir sínar

Kaffi og kökur í boði - Allir velkomnir!

 afmaelisveisla_ski.jpg


Hvernig þekkir maður þorska í sundur?

„Hvernig þekkir maður þorska í sundur?“

Hlynur Bárðarson flytur erindi á vegum Hins íslenska náttúrufræðifélags. Erindið verður flutt mánudaginn 26. október kl. 17:15 í stofu 132 í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands. Aðgangur er öllum heimill og ókeypis.

Ágrip af erindi:

„Rannsóknir á þorski (Gadus morhua) í Atlantshafi benda til þess að uppbygging stofna sé mun flóknari en áður hefur verið talið. Íslenski þorskstofninn er byggður upp af mörgum hrygningarhópum og erfðafræðilega mismunandi vistgerðum (e. ecotypes) sem sýna mismunandi farhegðun, ástand og vöxt sem leiðir til munar í kynþroskaaldri. Áhrif af veiðum geta hugsanlega leitt til ólíks veiðiálags milli hópa. Það getur haft alvarlegar afleiðingar að leiða hjá sér og taka ekki tillit til slíks stofnbreytileika. Það gæti leitt til fækkunar á hrygningarhópum, að smærri og viðgangsminni hópar hverfi og að erfðabreytileiki minnki. Af þessum sökum er mikilvægt fyrir fiskveiðistjórnun að innleiða aðferð til að greina á milli hópa.
Í doktorsverkefni sínu kannaði Hlynur hvort hægt væri að nýta útlit kvarna til slíkrar aðgreiningar á vistgerðum íslenska þorskstofnsins. Þetta var gert með því að hanna aðferðina með kvörnum úr gagnamerktum (e. Data Storage Tagged) þorskum sem, þar til nú, eru einu þorskarnir sem er hægt að greina til vistgerða. Aðferðin var einnig sannreynd með því að kanna samband milli kvarnaútlits og Pantophysin-erfðamarksins sem finnst í mismunandi tíðni milli vistgerða.
Niðurstöðurnar voru jákvæðar og aðferðin árangursrík í aðgreiningu vistgerða og opna þær á möguleikann á að greining á kvarnaútliti sé þar með hagnýtt af vísindamönnum við greiningar á íslenska þorskstofninum. Í þessu verkefni var einnig sýnt fram á að brotnar kvarnir geta verið nýttar til rannsókna á aðgreiningu stofna með því að líma þær saman aftur.“

Hlynur Bárðarson fæddist 1982 og ólst upp á Selfossi. Hann lauk stúdentsprófi af náttúrufræðibraut og eðlisfræðibraut frá Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi 2002 og B.Sc. gráðu í líffræði frá Háskóla Íslands 2006 og M.Sc. gráðu í umhverfis- og auðlindafræði frá sama skóla 2009. Hlynur varði doktorsverkefnið sitt við Háskóla Íslands 3. september síðastliðinn.


Nóbel 2015: Sníkjudýr og vanræktir sjúkdómar

Vísindafélagið stendur í haust fyrir fyrirlestraröð um Nóbelsverðlaunin
í ár.

Sigurður Guðmundsson prófessor og sérfræðingur í smitsjúkdómum mun halda
fyrirlestur kl. 12:00 fimmtudaginn 15. október í sal Þjóðminjasafnsins:

Nóbelsverðlaun í lífeðlis- og læknisfræði 2015: Sníkjudýr og vanræktir
sjúkdómar í brennidepli.

Meðfylgjandi er ágrip af erindinu og slóð á atburðinn er eftirfarandi:
https://www.facebook.com/events/1535459543432229/


Nýsköpun í náttúruvernd á stafrænni öld

Breytir ný tækni því hvernig við hugsum um náttúruna?

Geta nýjungar í öflun og meðferð gagna bætt náttúruvernd og auðveldað ákvarðanatöku?

Mun ný samskiptatækni færa fólk nær náttúrunni og auka skilning á verndun hennar?

William Adams spyr spurninga sem þessara. Bill Adams er prófessor við Cambridgeháskóla og heldur erindi við HÍ 5. febrúar nk. Kl. 16:00 í stofu 132 í Öskju.

Dr. Adams rannsakar og skrifar um náttúruvernd og sjálfbæra þróun. Erindi hans fjallar um áhrif stafrænnar tækni á náttúruvernd.

Ágrip af erindi hans:

Með tilkomu stafrænnar tækni opnast fjölmargir nýir möguleikar á sviði náttúruverndar. Tæknin breytir því hvernig gagna er aflað, einfaldar stjórnsýslu og auðveldar samskipti við almenna borgara. En gæti stafræn tækni breytt sjálfu inntaki náttúruverndar – því hvernig við hugsum um náttúruna og höfum samskipti við hana, eða haft áhrif á náttúruverndarpólitík? Hvaða þýðingu gæti hin áhrifamikla sýndarveruleikatækni haft á náttúruverndarmál, eða tilkoma nýrra kerfa fyrir öflun, geymslu, greiningu og framsetningu gagna? Og ef í ljós kemur að náttúruvernd tekur breytingum með stafrænni tækni, breytir það þá einhverju?

Um fyrirlesarann:

W.M. Adams er prófessor og forseti landfræðideildar Cambridgeháskóla í Bretlandi. Hann hefur lengi rannsakað náttúruverndarmál og sjálfbæra þróun, bæði í Afríku og Evrópu. Rannsóknir hans fjalla einkum um samþættingu samfélagsþróunar og náttúruverndar og árekstra þar á milli. Rannsóknir hans um þessar mundir snúast m.a. um stjórnmál og náttúruvernd, og um hlutverk myndlíkinga á borð við „þjónustu vistkerfa“ í stefnumótun um verndun náttúrunnar. Adams hefur skrifað fjölmargar bækur og greinar um þessi efni. Meðal bóka hans eru Future Nature (2003), Against Extinction (2004), Green Development (2009) og Trade-offs in Conservation (2010). Hann heldur einnig úti bloggsíðu um hugðarefni sín: http://thinkinglikeahuman.com/


Rannsóknir á sauðfé bættu skilning á HIV

Fjallað var um erindi og rannsóknir Halldórs Þormar á Bylgjunni og í Fréttablaðinu.

Halldór Þormar var ráðin til Rannsóknastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, til að prófa tilgátur um að mæði og visna væri orsökuð af veirusýkingum. Honum og samstarfsmönnum tókst að staðfesta tilgáturnar og um leið afla mikilvægrar þekkingar á eðli hæggengra veirusjúkdóma, en þekktasta veiran í þeim flokki er HIV. Erindið tilheyrði nýrri fyrirlestraröð sem kallast vísindi á mannamáli.

Fréttin í Fréttablaðinu (21. janúar 2015 Rannsóknir á sauðfé bættu skilning á HIV):

Tímamótarannsóknir íslenskra vísindamanna á veirusjúkdómum í sauðfé stuðluðu að auknum skilningi manna á alnæmisveirunni HIV, og nýtast enn til þess að varpa ljósi á líffræði HIV og alnæmis.

Þetta kom m.a. fram í hádegisfyrirlestri Halldórs Þormar, prófessors emeritus í frumulíffræði við Háskóla Íslands, í gær. Þar sagði Halldór frá rannsóknum við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum sem sýndu fram á að sauðfjársjúkdómarnir illvígu visna og mæði væru sprottnir af afbrigðum af sama sjúkdómsvaldi, mæði-visnuveirunni (MVV).

Halldór rakti þá ólíkindasögu þegar hingað til lands var flutt karakúlfé, upprunnið í Úsbekistan, til kynbóta árið 1933 með þeim afleiðingum að fimm fjárpestir skutu rótum og ollu miklu tjóni. Þessa sögu þekkja margir og þá ógn sem sauðfjárbúskap í landinu stafaði af henni.

Í einföldustu mynd má segja að tekist hafi að uppræta sjúkdómana með skipulögðum niðurskurði sem stóð fram yfir 1950.

Síður eru rannsóknir á sjúkdómunum þekktar sem voru í höndum íslenskra vísindamanna frá upphafi og til þessa dags; ekki síst Björns Sigurðssonar, fyrsta forstöðumanns Tilraunastöðvar Háskóla Íslands, Halldórs og fleiri, sem prófuðu þá tilgátu, og sönnuðu, að visna væri veirusjúkdómur. Framhaldsrannsóknir sýndu einnig að visnu- og mæðiveirur væru afbrigði af sömu veirunni. Síðar kom í ljós að sú veira er náskyld hinni alræmdu HIV-veiru sem veldur alnæmi í fólki.

Spurður hvort vísindamenn, sem fyrstu árin börðust gegn HIV-veirunni, hafi þekkt til verka íslenskra vísindamanna svarar Halldór því til að svo hafi vissulega verið, þótt annað hafi verið í forgrunni þeirra vinnu. Skyldleikinn komi vel fram í heiti veirunnar á meðal vísindamanna.

Í hádegisfréttum Bylgjunar - Halldór Þormar, prófessor emeritus í frumulíffræði, flytur erindi í Háskóla Íslands.

Mynd af Halldóri Þormar er úr safni Keldna, ártal óljóst.

Thormar H. The origin of lentivirus research: Maedi-visna virus. Curr HIV Res. 2013 Jan;11(1):2-9.
 


Vísindi á mannamáli: Mæði-visnuveirur í hádeginu

Vísindauppgötvanir á Íslandi tengdar veirusjúkdómum í sauðfé og mikilvægi þeirra fyrir skilning á alnæmisveirunni eru meginefni erindis sem Halldór Þormar, prófessor emeritus í frumulíffræði við Háskóla Íslands, flytur í Hátíðasal Háskóla Íslands, þriðjudaginn 20. janúar nk. kl. 12.10. Um er að ræða þriðja erindið í nýrri fyrirlestraröð
á vegum Háskóla Íslands sem nefnist Vísindi á mannamáli.

Alnæmisveiran HIV fannst snemma á níunda áratug tuttugustu aldar í sjúklingum með forstigseinkenni alnæmis. Rannsóknir sýndu að HIV veldur sjúkdómnum og í ljós kom að veiran var svokölluð lentiveira, sú fyrsta sinnar tegundar sem fannst í mönnum.
Nærri 30 árum áður höfðu veirur af þessum flokki fundist hér á landi í sauðfé við rannsóknir að Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Halldór Þormar, sem tók þátt í þessum tímamótarannsóknum, mun segja frá þeim í erindi sínu.

mvv_growth_visnavirus.jpgMynd: Mæði-visnuveirur valda samruna fruma í rækt. Mynd úr grein Halldórs Þormar og félaga.

Halldór Þormar á að baki glæsilegan feril sem vísindamaður við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, sem prófessor í frumulíffræði við Háskóla Íslands og við rannsóknir í háskólum og rannsóknastofnunum víða um heim.

Um fyrirlestraröðina
Vísindi á mannamáli er ný fyrirlestraröð Háskóla Íslands sem efnt er til að frumkvæði Lífvísindaseturs og Líffræðistofu Háskóla Íslands. Markmiðið er að varpa ljósi á það hvernig vísindamenn háskólans reyna að afhjúpa leyndardóma náttúrunnar og hvaða þýðingu vísindarannsóknir hafa fyrir daglegt líf fólks.

Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Nánari upplýsingar má finna á slóðinni:
www.hi.is/visindi_a_mannamali


Fyrirlestur um Nóbelinn 2014: GPS-kerfi heilans 23. okt

Fræðsluerindi á vegum Vísindafélags Íslendinga, Háskólans í Reykjavík og Lífvísindaseturs Háskóla Íslands

Nóbelsverðlaun í lífeðlis- og læknisfræði 2014: GPS-kerfi heilans

Karl Ægir Karlsson doktor í taugavísindum kynnir rannsóknir handhafa Nóbelsverðlauna í lífeðlis- og læknisfræði 2014

Dagsetning: Fimmtudagur, 23. okt. kl. 12:00

Staðsetning: Salur Þjóðminjasafns Íslands

Ágrip: Um aldir hafa verið uppi spurningar um hvernig dýr skynja og rata um umhverfið. Nú í ár deila John O´Keefe, Edvard og May-Britt Moser með sér Nóbelsverðlaunum fyrir uppgötvanir sem gerðu það kleift að svara þessum spurningum. O´Keefe fyrir uppgötvun á staðsetningarfrumum og Moser og Moser fyrir uppgötvun á hnitfrumum. Samvirkni þessara frumna skýrir hvernig umhverfið er táknað í heilanum. Í þessum fyrirlestri verður leitast við að gera grein fyrir bakgrunni þessara uppgötvana, skýra rannsóknaraðferðir og niðurstöður.

Um fyrirlesara: Karl Ægir Karlsson er doktor í taugavísindum og dósent við Tækni og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík, hópstjóri í Lífvísindasetri Háskóla Íslands og Forseti Taugavísindafélags Íslands.

Fundarstjóri: Sigurbjörg Þorsteinsdóttir, ónæmisfræðingur

Aðrir fyrirlestrar og viðburðir á döfunni.

24. október Ute Stenkewitz - sníkjudýr í rjúpunni (erindi á ensku)

25. október Nýjasta tækni og vísindi: opnir fyrirlestrar

30. október Nóbel í eðlisfræði: Ljóstækni til hagsbóta fyrir mannkyn í Þjóðminjasafni kl 12:00.


Vísindi á mannamáli: Brjóstakrabbamein á Íslandi og leitin að bættri meðferð

Jórunn Erla Eyfjörð, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands, fjallar um rannsóknir á krabbameinum og möguleika á að nýta nýja þekkingu til bættrar læknismeðferðar í hádegiserindi í Hátíðasal Háskóla Íslands þriðjudaginn 21. október kl. 12.10. Erindið er hluti af nýrri fyrirlestraröð sem Háskóli Íslands hleypir nú af stokkunum og ber heitið Vísindi á mannamáli. Fyrirlesturinn er öllum opinn.

Jórunn Erla hefur verið mjög virk í rannsóknum á brjóstakrabbameini og átt í öflugu alþjóðlegu samstarfi. Rannsóknir hennar og samstarfsmanna hafa m.a. snúið að tilteknum genum og breytingum á þeim. Genin nefnast  BRCA1 og BRCA2 en þau uppgötvuðust í alþjóðlegum rannsóknum um síðustu aldamót sem íslenskir vísindamenn tóku virkan þátt í. Arfgengir gallar í genunum auka hættu á brjóstakrabbameini, bæði hjá konum og körlum, og tengjast einnig aukinni áhættu á öðrum krabbameinum. Mikill fjöldi stökkbreytinga hefur fundist í þessum genum um allan heim.

Í erindi sínu hyggst Jórunn fjalla um rannsóknir sínar og samstarfsfélaga tengdar þessum tilteknu genum en rannsóknir á brjóstakrabbameini í körlum hér á landi leiddu til þess að stökkbreyting fannst í BRCA2 geninu. Þessi stökkbreyting er nokkuð algeng meðal kvenna og karla með sjúkdóminn og hefur einnig áhrif á eggjastokka-, blöðruháls- og briskrabbamein. Áhrif stökkbreytingarinnar eru mismunandi milli fjölskyldna m.t.t. krabbameinsáhættu, alvarleika sjúkdóms og tegunda krabbameina.

Arfbundnir gallar í BRCA1 geninu eru aftur á móti mun sjaldgæfari hérlendis en hins vegar hafa rannsóknir sýnt að genið er óvirkt í brjóstaæxlisvef í nokkuð stórum hópi sjúklinga. Greining á erfðaefni brjóstakrabbameina sýnir enn fremur að mun stærri hópur sjúklinga en arfberar þessara BRCA-stökkbreytinga hefur svipuð merki um breytileika í æxlisvef, þ.e. hefur BRCA-líkan sjúkdóm.  

Auk þess að fjalla um þýðingu þessara rannsókna fyrir skilning á eðli krabbameina mun Jórunn fjalla um hvernig rannsóknir beinast m.a. að því að finna sértæka meðferð fyrir sjúklinga með þessar tegundir krabbameina.

Um Jórunni Erlu Eyfjörð
Jórunn Erla lauk doktorsprófi í sameindaerfðafræði árið 1976 frá Háskólanum í Sussex í Bretlandi. Frá 1977 hefur hún kennt við Læknadeild og Raunvísindadeild Háskóla Íslands og verið prófessor við Læknadeild frá árinu 2005. Frá árinu 1988 stýrði hún erfðafræðirannsóknum á Rannsóknastofu Krabbameinsfélags Íslands í sameinda- og frumulíffræði þar til rannsóknastofan flutti starfsemi sína til Læknadeildar Háskóla Íslands árið 2007 þar sem hún er enn. Eftir Jórunni liggur fjöldi vísindagreina í mörgum af virtustu vísindaritum heims en auk þess hefur hún tekið virkan þátt í stjórnunarstörfum innan Háskóla Íslands og setið í fagráðum sænsku og finnsku Vísindaakademíanna.

Um fyrirlestraröðina
Vísindi á mannamáli er ný fyrirlestraröð  Háskóla Íslands sem efnt er til að frumkvæði Lífvísindaseturs og Líffræðistofu Háskóla Íslands. Markmiðið er að varpa ljósi á það hvernig vísindamenn háskólans reyna að afhjúpa leyndardóma náttúrunnar og hvaða þýðingu vísindarannsóknir hafa fyrir daglegt líf fólks, t.d. baráttu við sjúkdóma eða náttúruöflin eða til að auka lífsgæði og takast á við nýjar áskoranir tengdar breytingum í umhverfinu.

Kerfi efnaskipta mannsins

Haldin verður fundur um ERC verkefni sem unnið hefur verið að á kerfislíffræðisetri HÍ undanfarin ár, núna á föstudaginn. Tilkynningin birtist hér að neðan.
 
Systems Biology of Human Metabolism
  
Föstudaginn 12. september 2014, Hátíðarsalur 13:15-16:00

Í tilefni af lokum rannsóknaverkefnisins Systems Biology of Human Metabolism verður málþing þar sem helstu niðurstöður verða kynntar og farið yfir farinn veg. EInnig verður rætt um mögulega notkun kerfislíffræði-líkana við einstaklingsmiðaða læknisþjónustu.  Þetta verkefni var styrkt af Evrópska rannsóknaráðinu (ERC, European Reseach Council) með einum stærsta rannsóknastyrk sem veittur hefur verið til Háskóla Íslands. 

Now that the ERC project Systems Biology of Human Metabolism is coming to an end, a symposium will be held and its results and the lessons learned presented.  The possible use of systems biology models in personalised medicine will also be discussed. This project  funded by the ERC, European Research Council, by one of the biggest grants received by the University of Iceland. 

Dagskrá/Program:

13:15 Kristín Ingólfsdóttir, rektor,  setur málþingið

13:30 Ines Thiele, Computational modelling of human metabolism
Luxembourg Centre for Systems Biomedicine, University of Luxembourg.

14:00 Ronan M Fleming,  Generalised monotonicity meets systems biochemistry
Luxembourg Centre for Systems Biomedicine, University of Luxembourg.

14:30 Giuseppe Paglia,   Metabolomics: Analytical Tools for Understanding Biological Phenomena
Istituto Zooprofilattico Sperimentale di Puglia e Basilicata, Foggia, Italy

15:00 Óttar Rolfsson,  Functional genomic applications of metabolic networks
Rannsóknasetur í kerfislíffræði, Háskóla Íslands

15:30 Bernhard Pálsson,  Towards Personalized Systems Biology Models
UC San Diego, USA og gestaprófessor við Háskóla Íslands

16:00 Léttar veitingar - Refreshments


Þróun plöntuerfðamengja könnuð með næstu kynslóðar raðgreingartækni

Háskóli Íslands Málstofa Lífvísindaseturs verður haldin fimmtudaginn 11. september kl. 12:00-12:40 í stofu 343 í Læknagarði

Dr. Sæmundur Sveinsson nýdoktor og sérfræðingur við byggkynbætur við Landbúnaðarháskóla Íslands mun fjalla um doktorsverkefni sitt við grasafræðideild háskólans í Bresku Kólumbíu í Vancouver, Kanada; Þróun plöntuerfðamengja könnuð með næstu kynslóðar raðgreingartækni

Útdráttur: Þær gríðarlegu framfarir sem hafa orðið á DNA raðgreiningar tækni á undanförnum fimm árum hafa gert vísindamönnum kleift að nálgast ýmsar líffræðilegar spurningar, sem fyrir einungis nokkrum árum sýndust óraunhæf rannsóknaverkefni. Í doktorsrannsókn minni notaðist ég við raðgreiningar tækni sem kennd er við Illumina, til þess að kanna ýmsa þætti varðandi þróun plöntuerfðamengja. Í fyrirlestri mínu mun ég fjalla um fornfjöllitnun í lín ættkvíslinni (Linum), þróunarlegan uppruna endurtekinna raða í grænukorna erfðamengjum smára (Trifolium) og þróun umfangsmikilla enduraðanna í grænukornaerfðamengjum fimm náksyldra belgjurta ættkvísla (Trifolium, Pisum, Lathyrus, Lens og Vicia).

http://lifvisindi.hi.is/events/bmc-seminar-dr-saemundur-sveinsson

Hvenær hefst þessi viðburður: 
Thursday, September 11, 2014 - 12:00 to 12:40
Nánari staðsetning: 
Room 343

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband