Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Erindi og ráðstefnur

Erindi: Nóbelsverðlaun, erfðabreytt hveiti og opinn aðgangur

Nokkur forvitnileg erindi eru í boði í vikunni. Fyrst ber að nefna erindi Guðbjargar Aradóttur líffræðings um erfðatækni (Erfðabreytt hveiti og samfélagsumræðan)

Mánudaginn 22. október kl. 15 mun Guðbjörg Inga Aradóttir (Gia Aradóttir) líffræðingur halda fyrirlestur í húsi Landbúnaðarháskóla Íslands á Keldnaholti um rannsóknir á erfðabreyttu hveiti við Rothamsted rannsóknarstofnunina í Bretlandi. Gia var nokkuð í fréttum síðast liðið sumar vegna þátttöku sinnar í þessari rannsókn sem komst í fjölmiðla þegar hópur sem kallaði sig ‚Take the flour back‘ hótaði að skemma tilraunareiti með hveitinu. Rannsóknahópurinn brást við þessu með nýstárlegum hætti þegar hann sendi frá sér myndband á YouTube til þess að skýra sína hlið málsins og óskaði jafnframt eftir samræðum við hópinn sem hótað hafði skemmdarverkum.

Á fimmtudaginn mun Guðrún Valdimarsdóttir lektor, lífefna-og sameindalíffræðistofu, Lífvísindasetri læknadeildar fjalla um Nóbelsverðlaunin í lífeðlis og læknisfræði 2012. (25. október 2012 - 12:20 til 13:00 á Keldum)

Nóbelsverðlaunin í lífeðlis- og læknisfræði árið 2012 skiptast á milli tveggja vísindamanna, Dr. John B. Gurdon, University of Cambridge, og Dr. Shinya Yamanaka, Kyoto University. Verðlaunin eru veitt fyrir þá uppgötvun að þroskaðar, sérhæfðar frumur er hægt að endurforrita í fjölhæfar stofnfrumur. Uppgötvun þeirra breytti þeirri almennu skoðun að starfsemi og eiginleikar líkamsfruma (somatic cells) væru óafturkræf. Dr. Gurdon klónaði fyrstur manna  frosk þar sem hann flutti kjarna úr sérhæfðri líkamsfrumu úr froski í kjarnalaust egg  og sýndi  fram á að erfðaupplýsingarnar úr líkamsfrumunni nægðu til að mynda halakörtu  (1962). Dr. Yamanaka varð fyrstur til að umbreyta sérhæfðri líkamsfrumu beint í fjölhæfa stofnfrumu (2006).  Í erindinu verða rannsóknir þeirra raktar og fjallað um notagildi þeirra í læknisfræðilegum tilgangi.

Á föstudaginn verður haldið upp á viku opins aðgangs með örmálþingi í Öskju 

Í tilefni af alþjóðlegu Open Access vikunni (http://www.openaccessweek.org) verður haldið örmálþing um opið aðgengi (OA) að birtu fræðiefni, með þáttöku LUVS, Heilbrigðisvísindabókasafns LSH og Rannís. Kl. 12:30 - 13:30 í stofu 130.


Erfðatækni, umhverfi og samfélag

Í framhaldi af námskeiði um erfðatækni og samfélag, í samstarfi LBHI, HI og HA, hefur nú verið ákveðið að bjóða upp á 3 endurmenntunarnámskeið sem spanna notkun erfðatækni í landbúnaði, matvælaiðnaði og áhrif hennar á heilsu. Áhugasömum er bent á tilkynningu frá LBHI.

Erfðatækni, umhverfi og samfélag 

Í samstarfi við Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri og Matvælastofnun

Stök námskeið á sviði erfðatækni sem henta þeim sem vilja efla og dýpka þekkingu sína á erfðatækni á einn eða annan máta. Námskeiðin geta t.a.m. nýst vel þeim sem vinna við fjölmiðla, almenningsfræðslu, kennurum á mismunandi skólastigum, starfsfólki í heilbrigðisgeiranum, þeim sem vinna við landbúnað sem og þeim sem vinna við lyfja - og matvælaframleiðslu. Á námskeiðunum verður farið yfir hvað felist í erfðatækni og hvernig megi nýta þessa tækni í grunnrannsóknum, læknisfræði, landbúnaði og matvælaiðnaði. Lögð verður áhersla á að fjalla um málið frá öllum hliðum og kynntir verða bæði möguleikar og takmarkanir við beitingu tækninnar, þ.m.t. hugsanlegar hættur fyrir heilsu manna og umhverfið.

Hagnýting erfðatækni í landbúnaði

Kennarar: Áslaug Helgadóttir prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands, Jón Hallsteinn Hallsson dósent við Landbúnaðarháskóla Íslands, Arnar Pálsson dósent/Zophonías Jónsson dósent við Háskóla Íslands og Guðni Elísson prófessor við Háskóla Íslands.

Tími: Fim. 1. nóv., kl. 12:30-17:00 hjá LbhÍ á Keldnaholti í Reykjavík

Hagnýting erfðatækni í matvælaiðnaði

Kennarar: Oddur Vilhelmsson dósent við Háskólann á Akureyri, Helga Margrét Pálsdóttir sérfræðingur hjá Matvælastofnun, Arnar Pálsson dósent/Zophonías Jónsson dósent við Háskóla Íslands og Guðni Elísson prófessor við Háskóla Íslands.

Tími: Fim. 8. nóv., kl. 12:30-17:00 hjá LbhÍ á Keldnaholti í Reykjavík

Hagnýting erfðatækni í heilbrigðisvísindum og áhrif erfðabreyttrar fæðu á heilsu

Kennarar: Magnús Karl Magnússon prófessor við Háskóla Íslands, Eiríkur Steingrímsson prófessor við Háskóla Íslands, Arnar Pálsson dósent/Zophonías Jónsson dósent við Háskóla Íslands og Guðni Elísson prófessor við Háskóla Íslands.

Tími: Fim. 15. nóv., kl. 12:30-17:00 hjá LbhÍ á Keldnaholti í Reykjavík.

Ef þátttakandi skráir sig á öll námskeiðin þrjú, þá er veittur 20% afsláttur af heildar­reikningi og því einungis greitt 23.760kr. Einnig er hægt að skrá sig á staka daga og kostar þá hver dagur 9.900kr. Skráningar: endurmenntun@lbhi.is (fram komi nafn, kennitala, heimili, sími og nafn námskeiðs) eða hafa samband í síma: 433 5000


Tenging vistkerfa og hagkerfis með tilvísun í samgöngur

María Hildur Maack doktorsnemi í Umhverfis og auðlindafræði við HÍ mun ræða auðlindanýtingu í þágu framfara í erindi föstudaginn 12. október 2012. Fyrirlesturinn heitir, Tenging vistkerfa og hagkerfis með tilvísun í samgöngur (The connection between ecosystems and economics with reference to transport in Iceland) og verður fluttur á íslensku. Ágrip erindis:

Velferð ræðst ekki einungis af tekjum og prísum. Traustir innviðir og dreifikerfi sem nýtast öllum þegnum, menntun sem gefur fólki tækifæri til að velja starf, góð heilsa og efnhagslegur jöfnuður (eða kostnaðarjöfnuður) sem gerir jafnvel lægri tekjuhópum kleift að njóta sæmilegra lífskjara setur mark sitt á samfélagsþróunina.  Í stuttu máli er talað um að samfélög styðjist við 5 mismunandi auðlindir:  mannauð, félagsauð, náttúruauðlindir, manngert umhverfi auk fjármagns. Maðurinn er háður náttúrunni og hagfræði er í raun vistfræði mannsins.

Verkefnið er sett upp til að sýna hvaða aðferðum má beita til að meta breytingar á öllum þessum þáttum þegar ætlunin er að bæta mannlíf. Stungið er upp á aðferðum og þær prófaðar til að meta hvað gæti breyst við það að nýta íslenska orku í stað olíu í samgöngum.

Önnur erindi líffræðistofu haustið 2012 verða auglýst á vef Líf og umhverfisvísindastofnunar.

Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir með húsrúm leyfir. Nemendur eru sérstaklega hvattir til að mæta.


Þróunarlegur skyldleiki kræklinga á suðurhveli

Dr. Kristen Marie Westfall mun fjalla um rannsókn á þróunarlegum skyldleika kræklinga á suðurhveli í erindi föstudaginn 5. október næstkomandi. Fyrirlestur hennar kallast Exploring evolutionary relationships among Southern hemisphere blue mussels og verður fluttur á ensku.

Kristen er nýdoktor við Vör Sjávarrannsóknarsetur við Breiðafjörð og er einnig í samstarfi við Líf og umhverfisvísindastofnun Háskóla Íslands. Hún lauk nýlega doktorsprófi frá Viktoríu háskóla í Wellington á Nýja Sjálandi. Rannsóknir hennar snúast aðallega um stofnerfðafræði og líflandafræði sjávarlífvera.

Kristen mun fjalla um rannsóknir sínar á vistfræði og tegundaauðgi bláskelja á suðurhveli. Hún nálgast viðfangsefnið á mismunandi stærðargráðum, frá könnun á fjölbreytileika bláskelja í litlum flóa á Nýja Sjálandi til athugunar á uppruna og skyldleika kræklingategunda á suðurhveli. Gögn hennar afhjúpa flókna þróunarsögu, kynblöndun tegunda og misræmi milli svipfars og erfðafræðilegra gagna.

Mynd: Kristen M. Westfall við veiðar. Picture copyright Kristen M. Westfall.

Föstudagur, 5 október, 2012 - 12:30 til 13:10. Askja Stofa 130. Önnur erindi líffræðistofu haustið 2012 verða auglýst á vef Líf og umhverfisvísindastofnunar. Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir með húsrúm leyfir.

Gen fyrir gangi hesta

Lífvísindasetur Háskóla Íslands (BMC) og framhaldsnám í lífvísindum (GPMLS) tilkynna:

Fyrirlestur um gen sem ræður gangi hesta.

Úr tilkynningu:

Þann 4. október næstkomandi mun Dr. Leif Andersson, prófessor við Uppsalaháskóla halda fyrirlestur um nýlegar rannsóknir sínar á erfðum gangs í hestum.

Rannsóknahópur Dr. Andersson við Uppsalaháskóla og Sænska Landbúnaðarháskólann hefur, ásamt samstarfsfólki, fundið breytileika í einum erfðaþætti (geni) í hrossum sem hefur úrslitaáhrif á getu þeirra til góðgangs, sem er jafnframt veigamikill þáttur í árangri hrossa í kerrukappakstri á brokki og skeiði. Íslenski hesturinn var lykillinn að því að breytileiki þessi fannst. Tilraunir með þennan erfðaþátt í músum hafa leitt í ljós nýja grunnþekkingu á taugaboðleiðum þeim er stýra hreyfingum útlima. Rannsóknin markar tímamót í skilningi á taugaboðleiðum í mænu, og hvernig þær stýra hreyfimynstrum hryggdýra. Rannsóknin var nýlega birt í hinu virta vísindariti Nature. Leif mun einnig ræða erfðaþætti sem ráða stærð hanakambsins en þar kom íslenska landnámshænan við sögu.


Svefn, vaka og genatjáning í zebrafiskum

Dr. Karl Ægir Karlsson mun fjalla um rannsóknir á svefni Zebrafiska í föstudagsfyrirlestri líffræðistofu (28. september 2012, kl. 12:30).

Karl er dósent í heilbrigðisverkfræði við Háskólann í Reykjavík. Hann er með BA. próf í sálfræði frá HÍ, reynslu af fiskveiðum og meistara og doktorsprófi í atferlis-taugalíffræði (behavioral-neuroscience) frá University of Iowa. Hann starfaði sem nýdoktor við Californíaháskóla í LA (UCLA) áður en hann hóf störf við HR. Hann er einnig samstarfsaðilli Lífvísindaseturs HÍ. Karl lýsir rannsóknum sýnum á þennan hátt.

Við erum að rannsaka áhrif röskunar svefns á zebrafiska, með DNA örflögu tækni sem greinir breytingar í genatjáningu alls erfðamengsins. Með heimatilbúnu tæki (www.3zpharma.com) er svefni fiskanna raskað, á tvo vegu (með mildu rafstuði og ljósi). Fyrsti samanburður var á fimm hópum fiska, viðmiðunarhóp, fjórar gerðum svefnröskunar eða svefnlengingar (stanslaust myrkur). Spurt var hvort að röskunin veldur stressi með því að skoða atferli og greina cortisól í líkamsvef. Svefnröskunin virðist ekki stressa fiskana. Hins vegar sást mikill munur í genatjáningu vakandi og sofandi fiska. Þau kerfi sem eru ræst samfara svefni tengjast fitubúskap og húshaldi frumunnar, en í vöku eru fleiri taugamóta og boðefnisgen tjáð. Þótt zebrafiskar sýni ekki öll einkenni svefns, eins og við þekkjum hann úr spendýrum, tjá þau erfðamengi sitt á svipaðan hátt og spendýr á milli svefns og vöku.

Erindið heitir Sleep-wake characteristics and modulation of genetic expression in zebrafish og verður flutt á ensku.

Önnur erindi líffræðistofu haustið 2012 verða auglýst á vef Líf og umhverfisvísindastofnunar.

Þau eru í stofu 130 í Öskju, náttúrufræðihúsi HÍ. Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir með húsrúm leyfir. Nemendur eru sérstaklega hvattir til að mæta.


Hnattræn umhverfismál

Hvaða áhrif hafa hnattrænar loftslagsbreytingar á lífverur, vistkerfi og samfélög?

 

Þessi spurning verður rædd á afmælishátíð Líf- og umhverfisvísindastofnunar HÍ í tilefni af Degi íslenskrar náttúru. Fyrst verður fjallað um áhrif loftslagsbreytinga á samfélagið. Sérstaklega verður rætt um tíðari heimsóknir skemmtiferðaskipa til strandsvæða eins og Íslands, og samfélagsleg og hagræn áhrif sem stafa af slíkri ferðamennsku. Einnig verður fjallað um afleiðingar umhverfisbreytinga á lífríki norðurslóða á síðustu áratugum, og sagt frá rannsókn sem reynir að meta væntaleg áhrif hlýnunar í náinni framtíð. Að endingu verður kafað í fortíðina, til að reyna að skilja hvernig t.d. sveiflur í hitastigi samhliða ísöldum og hlýskeiðum hafa mótað sögu og útbreiðslu lífvera á norðurslóð.

Fyrir ári var Dagur íslenskrar náttúru haldinn hátíðlegur í fyrsta sinn, á afmælisdegi Ómars Ragnarsonar 16. september. Þá var Líf- og umhverfisvísindastofnun HÍ stofnuð og nú heldur hún upp á eins árs afmæli sitt með hátíð föstudaginn 14. September 2012 (14:00 til 16:00). Hilmar B. Janusson forseti Verkfræði og náttúrufræðisviðs HÍ mun opna fundinn. Þrír sérfræðingar stofnunarinnar fjalla um hnattræn umhverfismál hver frá ólíku horni.

Anna Karlsdóttir lektor í land- og ferðamálafræði fjallar um rannsóknir á samfélagslegum og hagrænum áhrifum loftslagsbreytinga á norðurslóðum. Samfara hlýnun aukast möguleikar á umferð skemmtiferðaskipa um norðurslóðir, sem eru bersýnileg í tíðari heimsóknum slíkra skipa í íslenskar hafnir. Anna fjallar bæði um samfélagsleg og efnahagsleg áhrif fleiri heimsókna skemmtiferðaskipa á strandsvæði eins og Ísland.

Ingibjörg S. Jónsdóttir prófessor í vistfræði skýrir frá stórri alþjóðlegri rannsókn á áhrifum hlýnunar á vistkerfi norðursins. Í rannsókninni var líkt eftir loftslagsbreytingum á túndrusvæðum víða um heim. Notast er við sérstök opin harðplastsskýli og hitastig þar hækkað um eina til þrjár gráður að jafnaði sem er svipað og flestar spár um hlýnun jarðar gera ráð fyrir. Niðurstöðurnar, frá 61 túndrusvæðum víða um heim, benda til að ólík gróðurlendi túndru bregðist misjafnlega við hlýnandi loftslagi. En á viðkvæmum túndrusvæðum geta samanlögð áhrif hækkandi hita á gróður til langtíma orðið mun meiri en talið hefur verið hingað til.

Snæbjörn Pálsson dósent í stofnalíffræði kynnir rannsóknir á uppruna, sögu og útbreiðslu nokkurra dýrategunda á norðurslóð. Hann hefur t.d. beitt aðferðum erfðafræði og þróunarfræði til að kanna uppruna einstakrar ferskvatns-marflóar sem finnst eingöngu á Íslandi. Niðurstöðurnar sýna að tegundin lifði hér af undir jökli á kuldaskeiðum síðustu ísaldar. Líklegast er að tegundin hafi borist hingað þegar Ísland var enn tengt Grænlandi með landbrú.

Nánari dagskrá og upplýsingar:

Vefsíða Líf- og umhverfisvísindastofnunar HÍ: luvs.hi.is.

Ítarefni:

Frétt um rannsókn Ingibjargar Svölu Jónsdóttur og félaga.

Gróðurbreytingar á túndru í kjölfar hlýnunar

Frétt um rannsókn Snæbjarnar Pálssonar og félaga.

Rannsókn HÍ sýnir að íslensk marfló lifði ísöldina af


Erindi: Kerfislíffræði og sameindaræktun

Mig langar til að benda fólki á tvö erindi um líffræði í þessari viku, bæði um mjög framsækin efni.

Einar Mäntylä frá ORF líftækni mun fjalla um Sameindaræktun í erindi fimmtudaginn 13. september, kl. 12:20, í bókasafni Tilraunastöðvarinnar.

Með sameindaræktun er venjulega átt við notkun plantna sem framleiðslulífvera fyrir verðmætar sameindir, einkum prótein, með hjálp erfðatækni. Í erindinu verður fjallað um ýmsar hliðar sameindaræktunar  og uppbyggingu sameindaræktunar hér á landi. Margvíslegur árangur hefur náðst frá því að menn fyrst sáu fyrir sér hagkvæma framleiðslu stórsameinda með þessum hætti. Eins og aðrar greinar líftækni byggir sameindaræktun á bæði grunn- og hagnýtum rannsóknum í lífvísindum.  Leiðin frá grunnrannsóknum, um tækniyfirfærslu til hagnýtingar í atvinnulífi og verðmætasköpunar í samfélaginu getur verið löng og torfær. En hún er fær.

 

Síðan mun Steinn Guðmundsson fjalla um efnaskiptalíkön, byggð á blágrænþörunginum Synechocystis í föstudagsfyrirlestri líffræðistofu (14. september 2012, kl 12:30, í stofu 130 í Öskju Náttúrufræðahúsi HÍ).
Steinn er lektor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild HÍ og stundar rannsóknir sínar á kerfislíffræðisetri HÍ. Þar hefur að undanförnu verið unnið að rannsóknum á þörungum þar sem markmiðið er að nota þá til að binda koldíoxíð í útblæstri jarðvarmavirkjana og framleiða jafnframt verðmæt efni. Þetta má gera á hagkvæman máta með því að nýta ljósdíóður (LED) til lýsingar.
Við rannsóknirnar eru m.a. notuð stærðfræðileg líkön af efnaskiptum lífveranna, þ.á.m. ljóstillífun. Í þessum fyrirlestri mun Steinn lýsa gerð líkans af efnaskiptum blágrænþörungsins Synechocystis PCC6803 og hvernig nota megi líkanið til að spá fyrir um áhrif ljósmagns á vöxt, afleiðingar þess að slá út gen ofl. Í lokin mun hann fjalla um hvernig slík líkön geta nýst við að hönnun á erfðabreyttum lífverum.
steinng_likan_ljostillifun.pngMynd af líkani um ljóstillífun, himnur, prótín og efnaskipti er fengin frá Steini Guðmundssyni (höfundarréttur er hans).

Önnur erindi líffræðistofu haustið 2012 verða auglýst á vef Líf og umhverfisvísindastofnunar.

Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir með húsrúm leyfir. Nemendur eru sérstaklega hvattir til að mæta.


Steingervingur frá Svalbarða afhjúpar sögu hvítabjarna

Hvítabirnir lifa á norður heimskautinu, á íshellunni og einnig á föstu landi hluta ársins. Ólafur Ingólfsson prófessor í jarðfræði við Háskóla Íslands og nemendur hans, fundu fyrir nokkrum árum steingerðan kjálka hvítabjarnar á Svalbarða (sjá meðfylgjandi mynd Ólafs). Í ljós kom að beinið var um 110.000-130.000 ára gamalt.

IsbjarnarKjalki_OlafurIngolfsson

Í kjölfarið hóf Ólafur samstarf við erlenda erfðafræðinga, sem tókst að einangra DNA úr beininu og þar með að kanna uppruna og sögu hvítabjarna. Nýverið birtu Ólafur og samstarfsmenn rannsókn sem sýnir að hvítabirnir komu fram fyrir 4-5 milljónum ára. Hún leiðir einnig í ljós að stórfelldar loftslagsbreytingar og flæði erfðaefnis milli hvítabjarna og brúnbjarna hafa haft mikil áhrif á þróun hvítabjarna.

Ólafur mun rekja sögu þessara rannsókna í erindi 7. september 2012. Erindið kallast "From dirt to DNA - A chance fossil find on Svalbard sheds light on the natural history of the Polar Bear" og verður flutt á ensku.

Erindið er undir formerkjum líffræðistofu, Líf og umhverfisvísindastofnunar HÍ. Önnur erindi líffræðistofu haustið 2012 verða auglýst á vef Líf og umhverfisvísindastofnunar.

Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir með húsrúm leyfir. Nemendur eru sérstaklega hvattir til að mæta.

Skyldir pistlar.

Ættartré tegunda, einstaklinga og gena
Ísbirnir og pöndur að fornu og nýju  

Þróun í hellum

Rannsóknir á þróun lífsins eru stundaðar á margvíslegan hátt. Hægt er að kanna hvernig skyldar tegundirnar eða stofnar breytast vegna umhverfisþátta. Nálgunin byggist á því að fylgjast með þróuninni þegar hún gerist.

Spurningin sem eftir stendur er hvort að þróunin leiti alltaf á sömu brautir, eða hvort að það geti verið tilviljun háð hvaða lausn verður ofan á. Þetta má skýra með dæmi. Hvað gerist þegar stofn fiska kemur í nýtt umhverfi, þar sem lítil fæða er í boði og hitinn lágur? Búast má við hraðari kynþroska, að fiskarnir verði minni og e.t.v. breytingum á formi þeirra.

Þetta er einmitt það sem gerist í bleikjustofnum hérlendis, í litlum tjörnum og hellum. Bjarni Kr. Kristjánsson, Prófessor við Hólaskóla, hefur rannsakað dvergbleikjur hérlendis undanfarin ár, og nú byrjað að kanna hellableikjuna við Mývatn sem Árni Einarsson og félagar við Náttúrurannsóknarstöðina á Mývatni hafa kortlagt.

Hellableikjan er sérstök að því leyti að umhverfis Mývatn eru margar tjarnir í hraunhellum, og í mjög mörgun finnast dvergvaxta hellableikjur. Þetta er sérstaklega heppilegt fyrir rannsóknir á þróun, af því að mögulegt er að í hverjum helli hafi einangrast stofn sem þróist sjálfstætt. Hellableikjan gæti því verið nokkurskonar náttúruleg tilraun í þróunarfræði, svona dálítið eins og þegar fólk gerir tilraunir í 10 aðskildum túbum af bakteríum á tilraunastofunni.

Fyrstu niðurstöður úr rannsókn Bjarna og félaga voru ræddar í fréttum Rúv 26. ágúst síðastliðinn (Hellableikja rannsökuð í Mývatni.). Þar segir Bjarni frá því að  erfðafræðilegur munur hafi fundist milli hellana (25 voru skoðaðir), sem bendir til þess að í þeim séu "erfðafræðilega aðgreindir stofnar af bleikju, þeir eru margir hverjir mjög litlir (50 veiddir)". Fiskarnir eru einnig frekar svipaðir að útliti, sem er vísbending um að samskonar aðlaganir hafi orðið í mismunandi hellum við vatnið.

Spurningarnar sem fyrirhugað er að rannsaka í framhaldinu (með orðum fréttamans RÚV) er "Hvenær og hvernig bleikjan komst í hellana?" og "Hvernig eru hún erfðafræðilega skyld bleikjunni í vatninu og innbyrðis?"

Bjarni er ungur og upprennandi vísindamaður sem fékk einmitt nýstirnisverðlaun Líffræðifélagsins árið 2011.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband