Færsluflokkur: Erindi og ráðstefnur
18.5.2012 | 10:51
Vísindabloggarinn PZ Myers á Íslandi
Einn af uppáhalds bloggurunum mínum er PZ Myers, kennari við Minnesotaháskóla í Morris. Hann heldur úti síðu undir nafninu Pharyngula (www.pharyngula.com), sem er nafn á ákveðnu stigi þroskunar hryggdýra. Á því stigi sjást tálknbogar í fóstrunum, jafnvel þeim sem ekki eru með tálkn. Það undirstrikar hvernig greina má skyldleika lífvera, með því að rýna í þroskaferla þeirra. Tálknbogarnir eru sameinandi eiginleiki hryggdýra, rétt eins og seilin sem liggur undir taugapípunni á ákveðnu stigi þroskunar.
Myers skrifar jafnt um líffræðilegar rannsóknir um þróun og þroskunm, en einnig um snertifleti vísinda og samfélags. Hann er einarður gagnrýnandi sköpunarsinna og hindurvitna af öðru tagi. Pistlar hans eru á köflum óþarflega hvassyrtir, og stundum örlar á sleggjudómum í formi alhæfinga. En hann setur allavega puttann á mikilvæga togstreitu milli trúarlegra öfgamanna og vísinda. Pistlar hans kortleggja m.a. hina fjölskrúðugu og illskeyttu atlögu að vísindum og upplýstu samfélagi sem hægri öfgamenn og sumir evangelistar standa fyrir í Bandaríkjunum. Myers er þekktur fyrirlesari, og fékk meðal annars alþjóðlegu Húmanistaviðurkenninguna 2011.
Nú hafa þau gleðilegu tíðindi borist að PZ Myers muni halda fyrirlestur hérlendis í lok mánaðar. Siðmennt stendur fyrir herlegheitunum, sem verða 29. maí 2012. Erindi Myers heitir Vísindi og trúleysi. Erindið verður klukkan 19:30 í stofu HT-102 á Háskólatorgi Háskóla Íslands. Aðgangseyrir 1000 krónur.
Erindi og ráðstefnur | Breytt s.d. kl. 10:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
14.5.2012 | 12:24
Ráðstefna um erfðabreytta ræktun 15. maí
Það er sérstaklega ánægjulegt að heyra ða umhverfisráðaneytið stendur fyrir ráðstefnu um erfðabreytta ræktun - 15. maí. 2012 (á Grand hótel kl 13:00-17:00, aðgangur ókeypis).
Á ráðstefnunni munu tala fulltrúar ráðaneyta og háskóla, sem fara yfir erfðatækni, áhrif þeirra á heilsu og löggjöf um erfðabreyttar lífverur. Margir fyrirlesaranna héldu erindi í námskeiði um erfðatækni, umhverfi og samfélag sem haldið var í samstarfi Háskóla Íslands, Landbúnaðarháskólans og Háskólans á Akureyri nú í aprílmánuði. Meðal efnis (úr tilkynningu ráðaneytisins):
Mikil umræða hefur verið að undanförnu um erfðabreytta ræktun, og þá sérstaklega sleppingu og dreifingu erfðabreyttra lífvera út í umhverfið. Þetta á ekki síst við lönd Evrópusambandsins þar sem skoðanir eru skiptar en nokkur Evrópuríki hafa bannað slíka ræktun innan eigin landamæra. Með ráðstefnunni vill umhverfisráðuneytið stuðla að opinni og upplýstri umræðu um þessi mál hér á landi og gefa almenningi kost á að fylgjast með stöðu og þróun mála.
Á ráðstefnunni verður m.a. útskýrt í hverju erfðabreytt ræktun felst, farið verður yfir þau lög og reglur sem gilda um erfðabreytta ræktun hér á landi, hlutverk Umhverfisstofnunar í þessu sambandi verður útskýrt sem og hlutverk ráðgjafanefndar um erfðabreyttar lífverur. Þá verða flutt erindi um áhrif erfðabreyttrar ræktunar á heilsu, umhverfi og efnahag og loks velt upp siðferðislegum spurningum sem kunna að vakna í tengslum við málefnið.
Dagskrá ráðstefnu um erfðabreytta ræktun, sleppingu og dreifingu (á pdf formi).
14.5.2012 | 12:11
Erindi: Áhrif loftslagsbreytinga á þroskunarferli plantna
Ég vil benda fólki á meistaravörn í Umhverfis- og auðlindafræði 15. maí 2012. Guðrún Lára Pálmadóttir flytur erindi um verkefni sitt, sem kallast: Áhrif loftslagsbreytinga á þroskunarferli plantna. Samanburður á blómgunartíma tveggja heimskautaplantna í mismikilli hæð við Snæfellsjökul.
Erindið er í stofu 131 í Öskju, nátturfræðahúsi HÍ. Úr tilkynningu á vef HÍ.
Blómgunartími er talinn næmur líffræðilegur mælikvarði á hnattrænar loftslagsbreytingar og rannsóknir erlendis hafa sýnt að hlýnun síðustu áratuga hefur flýtt blómgun margra plöntutegunda. Markmið rannsóknarinnar var að greina möguleg viðbrögð íslenskra plöntustofna við hlýnandi loftslagi með því að bera saman hegðun stofna í mismikilli hæð yfir sjó. Rannsóknasvæði voru sett upp í 30, 250 og 500 m hæð í norður og suðurhlíðum Snæfellsjökuls og (1) blómgunartími skráður hjá lambagrasi (Silene acaulis L) og grasvíði (Salix herbacea L) (2) stofnvistfræðilegir þættir (stærðardreifing, kynjahlutfall, þéttleiki, blómgunartíðni og æxlunarátak) bornir saman fyrir lambagras. Lambagras blómgaðist að jafnaði 2,8 dögum fyrr og blómgunartímabil þess styttist um 2,0 daga miðað við hæðarfallanda sem samsvaraði 1°C hlýnun. Grasvíðir blómgaðist einnig fyrr á láglendi en til fjalla. Leiddar eru líkur að því að með hækkandi hitastigi við Snæfellsjökul aukist þéttleiki lambagrass, plöntur blómgist fyrr, beri fleiri blóm en færri aldin og að stærðarþröskuldur fyrir blómgun lækki.
Leiðbeinendur: Guðmundur Ingi Guðbrandsson, Kristín Svavarsdóttir og Þóra Ellen Þórhallsdóttir sem jafnframt var umsjónarkennari.
Erindi og ráðstefnur | Breytt s.d. kl. 12:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.5.2012 | 11:54
Ritstuldur
Ritstuldur er að eigna sér orð annara, með því að afrita heilar setningar eða málsgreinar. Það er einnig ritstuldur að taka málsgreinar og umorða þær, en halda inntaki og lykilatriðum. Fjallað verður um ritstuld í vísinda- og fræðaskrifum á málfundi Vísindafélags Íslendinga. Til að varast ritstuld er lögð áhersla að eftirfarandi texti er úr tilkynningu.
------
Hann verður haldinn miðvikudaginn 2. maí kl. 16:00 í sal Norræna hússins. Málfundurinn er haldinn í tengslum við aðalfund félagsins.
15.00 15.45 Aðalfundur Vísindafélags Íslendinga
15.45 16.00 Kaffi
Fundarstjóri: Þór Eysteinsson forseti Vísindafélags Íslendinga
Málfundur um ritstuld í vísinda- og fræðaskrifum
16.00-16.05 Inngangsorð. Steinunn J. Kristjánsdóttir, fornleifafræðingur og dósent við HÍ
16.05-16.30 Ritstuldur: afbrigði og úrræði. Eyja Margrét Brynjarsdóttir, heimspekingur við HÍ
16.30-16.55 Ritstuldur frá sjónarhorni samkeppnissjóða. Eiríkur Stephensen, nátturufræðingur og sérfræðingur hjá Rannís
16.55-17.30 Pallborðsumræður
17.30-18.00 Léttar veitingar
Fundarstjóri: Steinunn J. Kristjánsdóttir, fornleifafræðingur
4.4.2012 | 14:40
Kortlagning erfðaþátta í vorskriðnablómi
Bjarni Vilhjálmsson stærðfræðingur og lífupplýsingafræðingur vann við Gregor Mendel Institute við Vínarháskóla en er nýráðin á tilraunastofu Alkes Price við Harvard Háskóla (Price laboratory)). Hann mun fjalla um kortlagningu erfðaþátta í vorskriðnablómi (Arabidopsis thaliana) í erindi 11. apríl 2012 (kl. 11:00-11:45).
Erindið verður flutt á ensku.
Erindið heitir: Erfðamengjaskimun fyrir þáttum sem hafa áhrif á marga eiginleika í uppskiptum stofni (A mixed-model approach for genome-wide association studies of correlated traits in structured populations).
Samhliða skimun fyrir áhrifum hundruða þúsunda breytinga í erfðamenginu á ákveðna eiginleika er núna möguleg fyrir nokkrar lífverur. Eitt megin vandamál slíkra rannsókna er fylgni á milli einstaklinga eða eiginleika. Fylgni milli einstaklinga kemur til af stofngerð, ef stofninn er uppskiptur og æxlast ekki handahófskennt. Fylgni á milli eiginleika sprettur úr þroskunarfræði og lífeðlisfræði lífverunnar, sem veldur því að t.d. hæð og breidd fylgjast að. Bjarni hefur notað blönduð líkön (mixed models) til að reyna að sundurliða slíka fylgni og greina áhrif stökkbreytinga á fleiri en einn eiginleika í uppskiptum stofnum (ítarlegra enskt ágrip fylgir).
Mynd af tölfræðilegum tengslum yfir marga litninga. Á X ás eru mismunandi litningar, og á Y ás eru tölfræðileg tengsl (- log af p-gildi). Fengin frá B. Vilhjálmssyni.
ATHUGIÐ þessi fyrirlestur Líffræðistofnunar verður haldinn í fundarherbergi Jarðvísindastofnunar á 3. hæð Öskju, náttúrufræðahúsi HÍ. Erindið er einnig á miðvikudegi, ekki föstudegi eins og hefð er fyrir.
Dagskrá vorsins má nálgast á vef Líf og umhverfisvísindadeildar HÍ.
Enskt ágrip:
Due to decreasing costs of sequencing and genotyping, genome-wide association studies (GWAS) are becoming a standard approach for studying the genetics of natural variation. A major problem in such studies is that the complicated dependence-structure of the data ? between loci as well as between individuals ? makes estimating the effect of an individual locus challenging. Mixed models have emerged as a general and flexible approach for dealing with this problem. Here we extend this approach to carry out GWAS of correlated phenotypes. One application is dealing with traits that are biologically related: using human cohort data, we demonstrate greatly increased power to detect pleiotropic loci that effect more than one type of blood lipid. A second application is dealing with the same trait measured in multiple environments: using Arabidopsis data, we demonstrate the identification of loci whose effect depends on the environment.
6.3.2012 | 09:26
Kortlagning á arfbreytileikum sem tengjast krabbameinsáhættu
Þórunn Rafnar yfirmaður krabbameinsrannsókna hjá Íslenskri erfðagreiningu mun fjalla um kortlagninu erfðaþátta sem tengjast krabbameinsáhættu í erindi föstudaginn 9. mars 2012 (kl. 12:30-13:10).
Erindi hennar kallast Kortlagning á arfbreytileikum sem tengjast krabbameinsáhættu (Identification of genetic variants that associate with risk of cancer). Erindið verður flutt á ensku.
Mannerfðafræðin hefur tekið stórstígum framförum á síðustu 10 árum, með raðgreiningu erfðamengisins og nýjum aðferðum til að greina breytileika í byggingu þess. Margar gerðir krabbameina eru arfgengar, þ.e. ef foreldri hefur greinst með krabbamein, eru auknar líkur á að börnin greinist einnig. Tilraunir til að kortleggja þætti í erfðamenginu sem auka eða draga úr áhættunni á krabbameinum hafa afhjúpað mörg gen á undanförnum árum. Þórunn mun fjalla um það hvernig Íslensk erfðagreining hefur kortlagt suma af þessum þáttum og þau líffræðilegu ferli sem hlut eiga að máli.
Föstudagsfyrirlestrar Líffræðistofnunar eru haldnir í stofu 130 í Öskju, náttúrufræðahúsi HÍ og eru öllum opnir.
Dagskrá vorsins má nálgast á vef Líf og umhverfisvísindadeildar HÍ.
28.2.2012 | 17:22
Erindi: Landnám framandi grjótkrabba
Erindi hans kallast flutningur framandi lífvera og landnám grjótkrabba (Cancer irroratus) við Ísland (The transport of non-indigenous species and colonization of the Atlantic rock crab (Cancer irroratus) in Icelandic waters).
Landnám framandi tegunda er eitt af alvarlegustu umhverfis- og efnahagslegu vandamálum sem blasa við heimsbyggðinni í dag. Flutningur sjávarlífvera í kjölfestuvatni skipa er talin ein meginástæða þess. Á síðastliðnum árum hafa nokkrar tegundir sjávarlífvera numið land við Ísland, þar á meðal hinn norður-ameríski grjótkrabbi (Cancer irroratus). Farið verður yfir helstu flutningsleiðir sjávarlífvera auk þess sem greint verður frá landnámi grjótkrabbans hér við land.
Erindið er að hluta byggt á meistaraverkefni Sindra, sem hann vann í samstarfi við Jörund Svavarsson, Halldór P. Halldórsson í Sandgerði og Snæbjörn Pálsson.
Mynd af grjótkrabba er úr safni Líffræðistofnunar (höfundaréttur - copyright). Fleiri myndir af grjótkröbbum og aðrar myndir Sindra má finna á Flickr síðunni Sindrinn.
Föstudagsfyrirlestrar Líffræðistofnunar eru haldnir í stofu 130 í Öskju, náttúrufræðahúsi HÍ og eru öllum opnir. Erindin eru flutt á íslensku, nema annað sé tekið fram.
Dagskrá vorsins má nálgast á vef Líf og umhverfisvísindadeildar HÍ.
13.2.2012 | 16:20
Vibrio cholerae í alþjóðlegu og íslensku samhengi - FRESTAÐ
Erindinu hefur verið frestað af óviðráðanlegum ástæðum. Það verður flutt í mars eða apríl.
Eva Benediktsdóttir dósent við Líf og umhverfisvísindadeild HÍ mun fjalla um Vibrio cholerae í alþjóðlegu og íslensku samhengi föstudaginn 17. febrúar 2012 (kl. 12:30-13:10).
Vibrio cholerae er baktería sem veldur kóleru, viss afbrigði valda slæmum faröldrum en önnur hafa valdið stöku tilfellum af magakveisum, eyrnabólgum o. fl. einkennum. Bakterían finnst í volgum hálfsöltum sjó eða vötnum á og í ýmsum lífverum. Menn greinir á hvort kólerusýkingar eigi uppruna sinn í bakteríum sem eðlilega lifa í sjónum, eða hvort bakterían dreifist um heiminn með saurmengun. Á Íslandi hefur kólerubakterían fundist víða við strendur þar sem jarðhitavatn streymir í flæðarmálið. Niðurstöður athugana á V. cholerae á Íslandi verða sýndar og ræddar. Þeir stofnar sem hér finnast framleiða ekki aðaleitur bakteríunnar, en marga aðra sýkiþætti. Þeir eru ekki af einum klón eða stofni, sem bendir til þess að bakterían sé hér eðlilegur hluti náttúrunnar og hafi verið hér um aldir. Fundur V. cholerae hér, þar sem kólera hefur aldrei greinst í mönnum, rennir stoðum undir það að bakterían lifi eðlilega í sjónum og saurmengun af mannavöldum hafi ekkert að gera með dreifingu hennar.
Föstudagsfyrirlestrar Líffræðistofnunar eru haldnir í stofu 130 í Öskju, náttúrufræðahúsi HÍ og eru öllum opnir. Erindin eru flutt á íslensku, nema annað sé tekið fram.
Dagskrá vorsins má nálgast á vef Líf og umhverfisvísindadeildar HÍ.
Erindi og ráðstefnur | Breytt 16.2.2012 kl. 12:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.2.2012 | 10:12
Gengur skrímslið laust? Líftækni í ljósi bókmennta
Úlfhildur Dagsdóttir bókmenntafræðingur mun fjalla um tengsl líftækni og bókmennta í erindi föstudaginn 10. febrúar 2012 (kl. 12:30-13:10).
Erindið heitir Gengur skrímslið laust? Líftækni í ljósi bókmennta og verður byggt á bókinni Sæborgin: Stefnumót líkama og tækni í ævintýri og veruleika (2011). Bókin fjallar um um sæborgir (svo sem gervimenni, vélmenni, klóna) í bókmenntum og myndmáli. Líftækni er skoðuð í ljósi bókmennta og kvikmynda og kannað hvernig orðræða skáldskapar mótar hugmyndir okkar um líftækni. Tengsl tækni og menningar eru könnuð og þá sérstaklega birtingarmyndir þeirra í skáldskap. Hvaða áhrif hefur tæknin á einstakling og samfélag? Hvaða áhrif hefur tæknin á hugmyndir um mennsku? Hver er framtíð mannkyns í tæknivæddu samfélagi?
Föstudagsfyrirlestrar líffræðinnar haldnir í stofu 130 í Öskju, náttúrufræðahúsi HÍ og eru öllum opnir. Erindin eru flutt á íslensku, nema annað sé tekið fram.
Dagskrá vorsins má nálgast á vef Líf og umhverfisvísindadeildar HÍ.
Úlfhildur stendur einnig að sýningu á myndverkum og munum tengdum Sæborginni í Gerðasafni út febrúarmánuð. Úr tilkynningu:(fylgið tenglinum á myndir)
Sæborgin: Kynjaverur og ókindur
Þema sýningarinnar byggir á nýútkominni bók Úlfhildar Dagsdóttur bókmenntafræðings, Sæborgin: Stefnumót líkama og tækni í ævintýri og veruleika\\\". Bókin fjallar um þá ímynd er tæknimenning og líftækni taka á sig í vitund almennings. Þema sýningarinnar eru sæborgir í íslenskri myndlist, eins og þær birtast í meðförum 20 íslenskra myndlistarmanna. Þeir eru: Anna Hallin, Birgir Snæbjörn Birgisson, Bjarni Hinriksson, Davíð Örn Halldórsson, Erró, Finnbogi Pétursson, Gabríela Friðriksdóttir, Guðrún Vera Hjartardóttir, Helga Þórsdóttir, Hugleikur Dagsson, Inga María Brynjarsdóttir, Jóhann Ludwig Torfason, Jón Gunnar Árnason, Markmið, Olga Bergmann, Ólöf Nordal, Páll Thayer, Sara Björnsdóttir, Sigurður Örlygsson, Valgerður Guðlaugsdóttir.
Í stuttu máli endurspegla verkin á sýningunni hrifningu okkar og ótta við vélina og nærveru hennar í menningu nútímans. Í þeim getur meðal annars að líta kynjaverur og ókindur orðnar til við samruna ólífrænna og lífrænna efna, verur sem eru í senn lifandi og vélrænar.
Á sýningunni eru einnig myndbönd Bjarkar Guðmundsdóttur, gripir og bækur frá versluninni Nexus, Star Wars leikföng, ljósmyndir og myndbönd frá CCP auk stoðtækja frá Össuri.
Sýningarstjórar Helgi Hjaltalín Eyjólfsson myndlistarmaður og Úlfhildur Dagsdóttir.
Ljósmynd útvegaði Úlfhildur Dagsdóttir - hennar er prentrétturinn (picture copyright Ulfhildur Dagsdottir).
Viðbót 15. feb. 2012.
Fjallað var um myndasýninguna í Djöflaeyjunni af Goddi.
Erindi og ráðstefnur | Breytt 15.2.2012 kl. 15:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.2.2012 | 16:03
Þroskunarfræðilegur grunnur afbrigðamyndunar bleikju
Fræðsluerindi á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Fyrirlesari: Sigurður Snorrason, prófessor við líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.
Í íslenskum vötnum hafa forvitnileg afbrigði bleikju ítrekað myndast frá lokum síðustu ísaldar. Ferlin virðast tengd skilyrðum á hverjum stað. Þannig hafa orðið til fjölmargir dvergbleikjustofnar í lindum og í stöðuvötnum má oft finna tvö afbrigði eða fleiri sem nýta mismunandi búsvæði. Svipfarsbreytileiki sá sem afbrigðin markast af er að þónokkru leyti tengdur erfðum og því blasir við að spyrja hvaða gen eða genakerfi það eru sem liggja til grundvallar. Rannsóknir þær sem kynntar verða í fyrirlestrinum miða að því að kanna tengsl milli náttúrulegs breytileika í beinum og vöðvum og mismunar í tjáningu gena milli afbrigða á mismunandi stigum þroskaferilsins. Aukinn skilningur á þessum tengslum mun varpa nýju ljósi á gangvirki aðlögunar og afbrigðamyndunar.
Erindið verður haldið fimmtudaginn 9. febrúar kl. 12:20, í bókasafni Tilraunastöðvarinnar.
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó