Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Erindi og ráðstefnur

Vísindadagar Keldna og fyrirlestur um stofngerð í vatnasviði

Næstkomandi föstudag (30 apríl 2010) verður nóg um að vera. Haldnir verðar vísindadagar Keldna (rannsóknarstöð Háskóla Íslands í meinfræði) og Michael Morrissey heldur fyrirlestur um stofngerð lífvera sem búa í ákveðnu vatnasviði.

Vísindadagana setur Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra kl 8:45:

Starfsmenn Tilraunastöðvarinnar og nemendur í rannsóknanámi verða með fyrirlestra um ýmis verkefni í príon-, veiru, bakteríu-, sníkjudýra-, sameinda- og ónæmisfræðum.

Auk þess verður veggspjaldasýning en þar verða kynnt fjölbreytileg verkefni á sömu fræðasviðum. Fyrirlesararnir, sem skýra frá rannsóknaniðurstöðum og túlka þær, eru margir hverjir með áratuga reynslu af vísindastarfi. Auk þess eru yngri vísindamenn, s.s. nemendur í rannsóknanámi, með kynningu á verkefnum sínum en hlutur þeirra í starfi Tilraunastöðvarinnar hefur farið vaxandi á síðastliðnum árum.

Fjallað verður um þær fjölþættu rannsóknir sem stundaðar eru á Keldum. Meðal þess sem rætt verður er þróun sérvirka ónæmiskerfisins inflúensu í svínum og áður ókunnar tegundir sníkjudýra á Íslandi.

Sama dag, kl. 10:00, mun Michael Morrissey halda fyrirlestur í boði Líffræðistofnunar sem kallast The population genetics of dendritic systems, sem gæti útlagst sem stofnerfðafræði árkerfa. Viðfangsefni hans er erfðabreytileiki í lífverum sem byggja vatnakerfi.

Meginhugmyndin er sú að greinótt uppbygging vatnasviða, þar sem ár og lækir sameinast í einn stofn, getur leitt til frávika frá hefðbundnum líkönum um breytileika í stofnum. Ástæðan er sú að einstaklingar æxlast ekki handahófskennt innan vatnasviðs, heldur eru meiri líkur á að lífverur í einni á æxlist við aðra einstaklinga í sömu á. Eftir því sem ég kemst næst mun Michael ræða þetta vandamál og afleiðingar þess.

Ágrip úr erindi hans fylgir fyrir þá sem heimavanir eru í stofnerfðafræði:

Nearly all freshwater landscapes are dendritically arranged. This dendritic arrangement is a result of variation in elevation, and this variation in elevation is bound to promote asymmetric migration. Population-genetic models of asymmetric migration in dendritic metapopualtions yield very different results than more classic genetic models of spatial variation in genetic parameters.  Generally, asymmetric migration erodes genetic variation, except in dendritic landscapes, where asymmetric migration can greatly promote the maintenance of genetic variation.  Feed-back processes within dendritic systems can even promote the maintenance of genetic variation in otherwise isolated populations, i.e. headwaters.  I will present theoretical results in the context of novel empirical predictions and the need to re-evaluate perceptions of the consequences of variation in genetic diversity from a conservation context.

Fyrirlesturinn verður haldinn í stofu N-131 í Öskju og hefst kl. 10:00.


Varnir gegn sýkingum

Sýkingar eru töluvert vandamál í fiskeldi, líklega vegna þess hversu þétt fiskar eru í kví eða keri.

Leiðirnar til að verjast slíkum sýkingum eru nokkrar, bólusetningar, efnavarnir, val fyrir þolnum afbrigðum fiska og notkun á varnarefnum úr plöntum og öðrum lífverum.

Í dag verður fjallað um leiðir til að nota örverur sem vörn í fiskeldi. Um er að ræða fræðsluerindi á vegum Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að
Keldum. Úr tilkynningu:

Fyrirlesari: Prófessor Brian Austin örverufræðingur, forstöðumaður Institute of Aquaculture, University of Stirling, Skotlandi. Heiti erindis: The use of probiotics and medicinal plants for the control of diseases in aquaculture. Erindið verður haldið fimmtudaginn 8. apríl, kl. 12:20 á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.

Probiotics, which are regarded as live or dead micro-organisms or their products with health benefits to the host, are steadily gaining use in aquaculture for disease control, supplementing or even in some cases (e.g. in Ecuador) replacing the use of antimicrobial compounds. 

Því miður hef ég ekki heppilega þýðingu á orðinu Probiotics, hvað með lesendur? Dr Austin er komin hingað til lands vegna doktorsvarnar Rannveigar Björnsdóttur við læknadeild HÍ. Verkefni hennar heitir "Bakteríuflóra á fyrstu stigum lúðueldis". Vörnin verður á morgun kl 13:00. Úr tilkynningu:

Niðurstöður doktorsverkefnisins varpa skýrara ljósi á þróun bakteríuflóru á fyrstu stigum lúðueldis og hugsanleg áhrif samsetningar flórunnar á lifun og þroska frá frjóvgun eggja til loka startfóðrunar. Mikil og skyndileg afföll eru vandamál á þessum fyrstu og viðkvæmustu stigum eldisins og ekki hvað síst fyrstu vikurnar í fóðrun þegar lirfurnar þurfa á lifandi fóðurdýrum að halda. Niðurstöður sýna enn fremur að breytingar á umhverfisþáttum höfðu veruleg áhrif á fjölda og samsetningu bakteríuflórunnar þar sem unnt reyndist að örva ósérhæft ónæmi lirfa við meðhöndlun fæðudýra með vatnsrofnum fiskipróteinum og bætt lifun fékkst við meðhöndlun fóðurdýra með bakteríustofnum sem voru ríkjandi í meltingarvegi lirfa með góða afkomu. Niðurstöður benda einnig til þess að ríkjandi hluti flóru lirfa og fóðurdýra þeirra geti að stórum hluta verið ræktanlegur.


Veðurfarsbreytingar og lífríki sjávar á Íslandi

Næstkomandi mánudag 29. mars mun Dr. Ólafur S. Ástþórsson, sjávarlíffræðingur hjá
Hafrannsóknarstofnuninni, fjalla um veðurfarsbreytingar og lífríki sjávar. Erindið á vegum Hins íslenska náttúrufræðifélags og hefst kl. 17:15 í stofu 132 í Öskju, Náttúrufræðihúsi
Háskóla Íslands.  Aðgangur er öllum heimill og ókeypis.
Ágrip erindisins fylgir hér:
Á jaðarsvæðum heitra og kaldra sjógerða líkt og á hafsvæðinu við Ísland hafa umhverfisskilyrði veruleg áhrif á lífríki sjávar. Í hafinu umhverfis Ísland og á nálægum hafsvæðum í Norður Atlantshafi hafa á seinustu 100 árum verið áberandi hlýviðrisskeið á árunum 1925-1945, kuldaskeið á árunum 1965-1971 og hlýviðrisskeið frá 1996 til dagsins í dag. Í erindinu verður vikið að straumakerfi og langtímasveiflum í umhverfisskilyrðum í hafinu við Ísland og á hvern hátt veðurfar getur haft áhrif á lífverur sjávar. Þá verður greint frá því sem vitað er um breytingar á lífríki sjávar frá hlýjum árum milli 1925-1945 og frá köldum árum milli 1965-1971. Loks verður fjallað um þær breytingar á lífríkinu í sjónum við Ísland sem tengja má hlýnuninni síðan 1996. Frá seinasta tímabilinu er vitneskjan ítarlegust og á því hafa m.a. orðið verulegar tilfærslur í útbreiðslu og stofnstærðum margra hryggleysingja, nytjafiska og sjaldséðra fisktegunda, sjófugla og spendýra. Þá hafa á undanförunum árum fundist við landið margar nýjar tegundir bæði fiska og hryggleysingja sem greint verður frá

Varnir og starfsemi lungnaþekju

Lungu hryggdýra er stórmerkileg fyrirbæri. Við drögum inn í okkur loft, og tökum upp súrefni í lungnablöðrunum, sem síðan er flutt til vefja með blóðrásinni.

Lungun sjálf eru því berskjölduð fyrir öllum þeim óhreinindum og sýklum sem í loftinu leynast. Örsmáar agnir, bakteríugró og jafnvel fullvaxtabakteríur (þær eru mjög smáar) geta borist með lofti niður í lungun og gert óskunda.

Ef við lítum sérstaklega til baktería og annara sýkla (sveppa og veira) þá hafa þær ágætan aðgang að safaríku blóði rétt handan þekjufrumna lungnanna. Því er mikilvægt að varnirnar þar séu í lagi.

Þessar varnir voru viðfangsefni Skarphéðinn Halldórssonar líffræðings, sem nú á föstudaginn ver doktorsritgerð um frumulíkan af vörnum og starfsemi lungnaþekju ( ”Modelling bronchial epithelial defense mechanisms”).

liffraedi_frumur.jpg Fyrirlesturinn verður föstudaginn 19 mars, í sal 132, Öskju og hefst klukkan 13:00.

Úr ágripi:

Lungnaþekjan gegnir hlutverki fremstu varnarlínu gegn sýkingum í öndunarfærum. Samheldni hennar varnar örverum aðgengi að innviðum líkamans á meðan seyttir þættir á borð við örverudrepandi peptíð hindra vöxt og viðgang sýkla á yfirborði hennar. Með lyfjagjöf má hafa áhrif á varnarmátt lungnaþekjunnar, hvort heldur sem er samheldni hennar eða seytingu örverudrepandi þátta. Eins geta sýkingar eða aðrir sjúkdómar raskað náttúrulegu jafnvægi lungnaþekjunnar og veikt varnarmátt hennar. Frumulíkön af heilbrigðri lungnaþekju geta verið gagnleg áhöld til rannsóknar á varnarhlutverki þekjunnar og samspili hennar við örverur eða lyf.

Í þessu verkefni var berkjufrumulína sem sérhæfist í bifhærða lungnaþekju skilgreind og notuð til áframhaldandi rannsókna. Sýnt var fram á að bakterían Pseudomonas aeruginosa sem veldur illvígum lungnasýkingum í ónæmisskertum einstaklingum seytir sértækum sýkingarþáttum sem riðla samheldni þekjunnar.

Myndina tók Skarphéðinn og lánaði okkur góðfúslega til kynningarstarfs.


Háskóladagurinn 20 febrúar

Laugardaginn 20 febrúar verður kynning á Háskólanámi, í Ráðhúsi Reykjavíkur og á Háskólatorgi Háskóla Íslands.

visindavaka_2332.jpgKynningin í HÍ verður frá 11 til 16, og eins og sjá má á námskynningasíðu og frétt um grunnnám við HÍ.

Að þessu tilefni munum við í líffræðinni opna tilraunastofurnar okkar í Öskju.

Þar getur hver sem er, ekki bara væntanlegir háskólanemar, komið og kynnst viðfangsefnum líffræðinnar.

Í fyrra vorum við með dæmi um tilraunir í grasafræði, örverufræði, dýrafræði og sameindalíffræði. Nemendurnir okkar fá að gera allskonar kúnstir, sumir eru að skoða lífríki hafsins (myndina skaffaði Fannar Þeyr Guðmundsson í Eyjafirði) en aðrir kafa í leyndardóma erfðaefnisins (mynd af vísindavöku, tekin af yðar æruverðugum).Hveljurannsoknir_FannarTheyr

Vefsíða líf og umhverfisvísindadeildar HÍ

Eldri kynningarsíða um Líffræðinám við Háskóla Íslands


Erindi: Mótefnavaki

Fimmtudaginn 4. febrúar 2010 mun Haraldur Björnsson halda erindi um mótefnavaka í Moritella viscosa, bakteríu sem veldur vetrarsárum í eldisfiski.

Verkefnið snérist um að einangra mótefnavaka, sem er sá hluti bakteríu sem ónæmiskerfi fisksins þekkir og bregst við. Einangrun slíkra mótefnavaka gefur möguleika á að hægt verði að þróa bóluefni gegn bakteríum.

Nánari lýsingu á verkefninu má finna á vef HÍ.

Fyrirlesturinn verður í stofu 132 í Öskju, náttúrufræðihúsi HÍ, og hefst erindið kl 15:00.

Titill erindisins er "Einangrun og lýsing á ytri himnu próteini í Moritella viscosa".

Leiðbeinendur í verkefninu voru Eva Benediktsdóttir, dósent við Háskóla Íslands og Dr. Viggó Þór Marteinsson, fagstjóri hjá Matís.


Þakkir fyrir árið 2009

Á nýliðnu ári voru tímamót í vísindasögunni. Tvö stórmenni vísindasögunnar áttu merk afmæli. Annar þeirra var Charles Robert Darwin, sem setti fram þróunarkenninguna og hinn Galileo Galilei sem beindi fyrstur sjónauka að stjörnunum. Hinu alþjóðlega ári stjörnufræðinnar hefur verið gerð góð skil af stjörnufræðivefnum, (einnig www.2009.is) en afmæli Darwins og bókar hans um uppruna tegundanna, var gerð skil hér og á vefnum darwin.hi.is.

DarwinVeggspjaldHér verður stiklað á stærstu viðburðum Darwin daganna 2009 hérlendis.

Á 200 ára afmælisdegi Charles Darwin þann 12 febrúar 2009 var haldið málþing undir yfirskriftinni Hefur maðurinn eðli?

Þá voru einnig veitt verðlaun í ritgerðasamkeppni sem efnt var til meðal framhaldskólanema. Fyrstu verðlaun fékk Kári Gautason, tvítugur Vopnfirðingur sem nam við M.A.

Á haustmánuðum hófst fyrirlestraröð undir merkjum Darwin daganna. Dagskrá fyrirlestraraðarinnar:

6 júlí - Montgomery Slatkin - Neanderthalsmaðurinn: erfðamengi og stofnerfðafræði

29 ágúst - Peter og Rosemary Grant - Finkur Darwins og þróun

3 október - Guðmundur Eggertsson - Uppruni lífsins

24 október -  Ólafur Ingólfsson og Ingibjörg Svala Jónsdóttir - Steingervingar og þróun lífs

31 október - Joe Cain - Rannsóknir Darwins á vitsmunalífi mannsins

7 nóvember - Hrefna Sigurjónsdóttir og Sigurður Snorrason - Þróun atferlis

14 nóvember - Einar Árnason - Sterkt val á Pan I geninu í þorski vegna veiða: spá um hrun fiskirís.

21 nóvember - Hafdís Hanna Ægisdóttir - Lífríki og þróun á eyjum

28 nóvember - Linda Partridge - Hin nýja líffræði öldrunar

5 desember - Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir og Bjarni K. Kristjánsson - Uppruni tegunda á Íslandi

12 desember - Snæbjörn Pálsson - Þróun kynæxlunar

Darwinbolur1Hagsmunafélag líffræðinema lét búa til boli af þessu tilefni. Þeir eru enn til sölu.

Erindin voru öll hin frambærilegustu, umræður fjörugar og aðsóknin ljómandi fín (ég á eftir að telja hausa í gestabókinni, en geri það fyrir lokauppgjör). Allir íslensku fyrirlesararnir hafa skrifað kafla um sínu hugðarefni sem munu birtast í ritgerðarsafni síðar á þessu ári...meira um það síðar.

Fyrirlestraröðin var styrkt af rektor Háskóla Íslands (sem einnig setti fyrirlestraröðina), Líffræðistofnun HÍ, Mennta og menningarmálaráðaneyti Íslands, Líffræðifélagi Íslands, Gróco ehf, Landbúnaðarháskóla Íslands, Náttúrustofu vestfjarða, Vísindafélagi Íslendinga og Háskólanum á Hólum. Við erum styrktaraðillum ákaflega þakklát. Einnig kom fjöldi fólks að skipulagningu og framkvæmd, bæði fyrirlestraraðar og málþings. Þeim verður aldrei fullþakkað.

Einnig stóðu Hólaskóli og Háskólinn á Akureyri fyrir ráðstefnu 24 nóvember 2009, þegar 150 ár voru liðin frá útgáfu uppruna tegundanna. Dagskráin var hin glæsilegasta og erindin (öll nema mitt) voru reglulega góð.

Skipuleggjendur Darwin daganna draga sig hér með í hlé, hverjum langar að bera kyndil líffræðilegs fjölbreytileika? Nú er runnið upp árið 2010, ár líffræðilegs fjölbreytileika.

Aðstandendur:

Arnar Pálsson - Háskóla Íslands

Bjarni Kristófer Kristjánsson - Háskólanum á Hólum

Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir - Fræða og rannsóknasetur HÍ á vestfjörðum

Hafdís Hanna Ægisdóttir - Landbúnaðarháskóla Íslands

Snæbjörn Pálsson - Háskóla Íslands

Steindór J. Erlingsson - vísindasagnfræðingur

Fagleg ráðgjöf: Einar Árnason - Háskóla Íslands


Erindi: Mjölhaus á föstudaginn

Bogi Andersen vinnur við Læknisfræði- og Lífefnafræðideildir Kaliforníuháskóla í Irvine (Departments of Medicine and Biological Chemistry, University of California, Irvine).

Hann hefur verið að rannsaka myndun þekjufruma, sem koma m.a. að þroskun hársekkja, mjólkurkirtla og augnaloka. Rannsóknirnar hafa leitt hann að umritunarþættinum Grainyhead (sem er kveikjan að titli pistilsins), og hann mun halda erindi næsta föstudag (18. des. 2009 kl 13:00 í 132 í Öskju). Titill erindisins er Grainyhead: an evolutionarily conserved transcription factor for epithelial barrier formation.

virgin2.jpgMyndin hér til hliðar er af mjólkurkirtlum 6 vikna gamallar músar. Mjólkurgangarnir eru litaðir með bláu, og þeir þræðast inn í vefinn og munu þannig geta safnað saman mjólk sem myndast allsstaðar í músabrjóstinu. Myndin er af síðu rannsóknastofu Boga og félaga.

Bogi er sannur íslendingur og tileinkar hluta vefsíðu rannsóknarhópsins sögunni, sýnir m.a. myndir af bernskuslóðunum í Vestmannaeyjum.

Tilkynning á vef HÍ.

Vefur rannsóknastofu Boga Andersens.


Erindi: Krabbar, eyjur og nóbelsverðlaun

Mig langar til að benda ykkur á þrjú erindi um líffræðileg efni sem verða á næstunni.

Miðvikudaginn næsta (kl 16:00 í stofu 132) mun Óskar Sindri Gíslason flytja fyrirlestur til meistaraprófs í líffræði. Titillinn er grjótkrabbi (Cancer irroratus) við Ísland: tímgun, lirfuþroskun og uppruni.

Grjótkrabbi er nýr landnemi við Ísland. Þessi norður-ameríska tegund fannst fyrst hér við land árið 2006, en fyrir þann tíma fannst tegundin aðeins við austurströnd Norður-Ameríku. Krabbinn hefur líklega borist hingað til lands á lirfustigi í kjölfestuvatni og miðað við stærð einstaklinga í stofninum hefur landnámið líklega átt sér stað fyrir a.m.k. 10 árum. Erfðabreytileiki íslenska stofnsins bendir til þess að hann hafi borist hingað frá Halifax eða Nýfundnalandi í Kanada.

19. nóvember, kl. 12:20. mun Sigurður Ingvarsson forstöðumaður Rannsóknastöðvarinnar á Keldum halda erindi um Nóbelsverðlaunin í líf- og læknisfræði 2009: Litningaendar og telómerasi.

Nóbelsverðlaunin í líf- og læknisfræði 2009 skiptust jafnt á milli Elizabeth H. Blackburn (University of California, San Francisco), Carol W. Greider (John Hopkins University School of Medicine, Baltimore) og Jack W. Szostak (Harvard Medical School Boston; Howard Hughes Medical Institute). Verðlaunin voru veitt fyrir uppgötvun á byggingu og starfsemi litningaenda og ensímsins telómerasa.

Sjá eldri pistil um nóbelsverðlaunin í læknifræði 2009, og nánari umfjöllun.

Í þriðja lagi mun Hafdís Hanna Ægisdóttir halda fyrirlestur laugardaginn 21 nóvember (kl 13:00) um Lífríki eyja

Allt frá tímum Darwins og heimsóknar hans til Galapagoseyja hafa eyjar vakið athygli fyrir sérstætt plöntu- og dýralíf. Tröllvaxin skriðdýr og skordýr, ófleygir fuglar og sérstæðar plöntur finnast á mörgum eyjum. Þessi sérkenni lífríkja eyja gera þær að vinsælum vettvangi þróunarfræðirannsókna.


Lífríki eyja: sérstaða og þróun

Þann 21. nóvember mun Hafdís Hanna Ægisdóttir halda erindi er nefnist Lífríki eyja: sérstaða og þróun. Allt frá tímum Darwins og heimsóknar hans til Galapagoseyja hafa eyjar vakið athygli fyrir sérstætt plöntu- og dýralíf. Tröllvaxin skriðdýr og skordýr, ófleygir fuglar og sérstæðar plöntur finnast á mörgum eyjum. Þessi sérkenni lífríkja eyja gera þær að vinsælum vettvangi þróunarfræðirannsókna.

Hvernig dreifast tegundir til einangraðra úthafseyja? Hvað veldur því að yfirleitt fáar tegundir lifa á litlum úthafseyjum og af hverju er hlutfall einlendra tegunda oft hærri þar en á næsta meginlandi? Af hverju þróast jurtkenndar plöntutegundir í trjákenndar á úthafseyjum? Þessum spurningum og mörgum fleirum verður reynt að svara í fyrirlestrinum. Sérstök áherslu verður lögð á brautryðjandi hugmyndir Darwins um lífríki eyja, sem hann kynnti í Uppruna tegundanna.

 

Hafdís Hanna er plöntuvistfræðingur og vinnur hjá Landbúnaðarháskóla Íslands sem verkefnistjóri þróunarverkefnis um Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Rannsóknir hennar hafa aðallega beinst að æxlunarkerfum plantna á heimskauta- og háfjallasvæðum en einnig á afskekktum eyjum Galapagoseyjaklasans.

Erindið er hluti af fyrirlestraröð í tilefni 200 ára afmælis Charles Darwin sem fram fer haustið 2009. Dagskrá má nálgast á darwin.hi.is. Erindið er öllum opið og verður flutt á íslensku.

Stund: 21. nóvember 2009, kl. 13:00

Staður: Stofa 132 í Öskju, náttúrufræðihúsi HÍ.

Allir velkomnir.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband