Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Erindi og ráðstefnur

Spá um hrun fiskirís

Næsti fyrirlestur á Darwin dögunum 2009 verður fluttur af Einar Árnasyni. Erindið nefnist sterkt val á Pan I geninu í þorski vegna veiða: spá um hrun fiskirís.

 

Darwin kenndi okkur að skilja náttúrlegt val. Tæknivæddur, er maðurinn mikilvirkur afræningi og afrán hans getur virkað sem máttugur valkraftur. Það gildir um nútíma fiskveiðar. Pan I genið í þorski hefur tvö allel og arfgerðir gensins tengjast svipgerðum sem velja sér búsvæði eftir dýpi. Sterkt val vegna fiskveiða, sem beinast í ríku mæli að fiski á ákveðnu búsvæði, finnst á geninu. Valið er óbeint og verður vegna þess að fiskur velur sér búsvæði eftir arfgerð og fiskveiðar eru mestar í ákveðnu búsvæði. Mat á hæfnistölum er gerð. Hæfnismat er notað til að spá fyrir um breytingar á samsetningu stofnsins. Spáin er að arfgerðir fisks sem eru lagaðar að grunnsævi hverfi fljótt úr stofninum ef fram heldur sem horfir. Afleiðingin kann að verða hrun fiskveiða úr stofninum.

Einar Árnason er prófessor í þróunarfræði við Háskóla Íslands. Hann hefur rannsakað atferli kjóans, breytileika í brekkubobbum, náttúrulegt val í ávaxtaflugum, en mesta áherslu hefur hann lagt á rannsóknir á fjölbreytileika og erfðasamsetningu nytjastofna við Ísland og í Atlanshafi.

Erindið er hluti af fyrirlestraröð í tilefni 200 ára afmælis Charles Darwin sem fram fer haustið 2009. Dagskrá má nálgast á darwin.hi.is. Erindið er öllum opið og verður flutt á íslensku.

Stund: 14. nóvember 2009, kl. 13:00
Staður: Stofa 132 í Öskju, náttúrufræðihúsi HÍ.

Ítarefni:

Grein Einars og félaga í PLoS One Intense Habitat-Specific Fisheries-Induced Selection at the Molecular Pan I Locus Predicts Imminent Collapse of a Major Cod Fishery

Aðlögun að dýpi


Líffræðiráðstefnan 2009

Í tilefni af 30 ára afmæli Líffræðifélags Íslands og 35 ára afmælis Líffræðistofnunar háskólans verður haldin ráðstefna dagana 6. og 7. nóvember 2009.

augndiskurTaugastilkur sem tengir augnbotn við heilabú ávaxtaflugu, myndina tók Sigríður R. Franzdóttir.

Íslenskir líffræðingar stunda öflugar rannsóknir á mörgum sviðum líffræði, læknisfræði og umhverfisfræði. Á líffræðiráðstefnunni 2009 verða 105 erindi sem lýsa til að mynda rannsóknum á þróun þorskstofnsins, lífríki Surtseyjar, smádýrum sem lifðu af ísöldina og tvíkynja hesti. Í sérstökum yfirlitserindum verður fjallað um framfarir í mannerfðafræði, vistkerfi norðurslóða, þroskun taugakerfisins, mikilvægi náttúruverndar og þróun atferlis. Vísindafólk úr fjórum íslenskum háskólum, fjölda stofnana og náttúrufræðisetra, sem og íslenskir vísindamenn sem starfa erlendis munu kynna niðurstöður sínar á ráðstefnunni.

Ráðstefnan fer fram í aðalsal Íslenskrar erfðagreiningar, Öskju Náttúrufræðihúsi HÍ (stofum 132, 131 og 130) og sal Norræna húsins. Setning föstudaginn er kl 8:20 6. nóvember í sal Íslenskrar erfðagreiningar.

Fimm yfirlitserindi verða haldin á ráðstefnunni.

Föstudaginn 6. nóvember:

Samspil plantna og dýra á norðurslóðum - Ingibjörg Svala Jónsdóttir (kl. 8:40 í ÍE)

Erfðir algengra og flókinna sjúkdóma: deCODE verkefnið Unnur Þorsteinsdóttir (kl. 9:20 í ÍE)

Laugardaginn 7. nóvember:

Ferðalög fruma við þroskun taugakerfisins - Sigríður Rut Franzdóttir (kl. 8:40 í 132 Öskju)

Vistkreppa eða náttúruvernd - Hjörleifur Guttormsson (kl. 9:20 í 132 Öskju)

Þróun atferlis - Sigurður S. Snorrason og Hrefna Sigurjónsdóttir (kl. 13:00 í 132 Öskju)

Ráðstefnugjald er kr. 2000 (500 f. nema). Skráningu ber að senda á netfangið liffraediradstefna@mail.holar.is. Þeir sem kynna rannsóknir sínar með veggspjöldum eða erindum eru sjálfkrafa skráðir. Í ráðstefnugjaldi er innifalinn miði á haustfagnað Líffræðifélags Íslands sem haldinn verður 7. nóvember í Gyllta sal Hótel Borgar.

Sjá nánar á heimasíðu Líffræðifélags Íslands, biologia.hi.is.




Erindi: Mús í kerfi

Fræðileg líffræði hefur gengið í gegnum mismunandi skeið, og tekist á við margskonar fyrirbæri. Stofnerfðafræðin var örugglega fyrsta grein líffræðinnar sem tók stærðfræði í sína þjónustu, en síðan þá hafa stærðfræðilíkön verið  notuð til að rannsaka allt frá vistkerfum til genastjórnunar í frumum.

Nýjasta form fræðilegrar líffræði er svokölluð kerfislíffræði (systems biology). Rætur hennar eru nokkrar, en stærsti snertiflöturinn er milli líffræði og verkfræðilegrar hugsunar og aðferða. Algengast er að kerfislíffræðingar rannsaki eiginleika efnaskiptaferla eða prótínmengis frumunnar, en önnur tilbrigði eru þekkt.

Í dag mun Rudi Balling, halda fyrirlestur um leiðin frá músarannsóknum yfir í kerfislíffræði. Hann vann sér gott orð fyrir rannsóknir á músum, sérstaklega Pax6 geninu, en leggur nú áherslu á það að magn líffræðilegra upplýsinga er orðið svo yfirdrifið að við þurfum nýjar nálganir til að skilja þær.

Erindið verður kl 16:00, í stofu 131 í Öskju. Ágrip má lesa á heimasíðu HÍ.


Steingerðar lífverur og óravídd jarðsögunar

Eitt veigamesta gagnrýnin sem Charles Darwin fékk á kenningu sína var sú að jarðsagan væri of stutt til að þróun gæti búið til þann fjölbreytileika lífvera sem fyrir augu bar.

Darwin las á ferðum sínum á Hvutta (the Beagle) nýja bók um jarðfræði eftir Charles Lyell. Þar var lagður fram hinn nýji skilningur jarðfræðinnar, á því hvernig landið verður til fyrir sífellda starfsemi náttúrulegra ferla, rofs, rigninga, frost, eldgosa o.s.frv. Þessi kraftar eru sífellt að verki og með tíð og tíma geta þeir fyllt heila firði af mold og sandi (búið til setlög), sorfið dali úr sléttum (t.d. með endurteknum ísöldum) og hlaðið upp jarðlögum (með endurteknum eldgosum).

Darwin hafði mikinn áhuga á jarðfræði og kannaði setlög í Suður Ameríku, varð vitni að stórbrotnum áhrifum jarðskjálfta í borginni Concepcion í Chile, og setti fram kenningu um tilurð kóralrifja.

Megin lærdómurinn var samt sá að jörðin hlyti að vera gömul, sem gæfi þá um leið tækifæri á miklum breytinugm á jörð og LÍFRÍKI.

Nokkru eftir að Uppruni tegundanna kom út gagnrýndi merkasti eðlisfræðingur Englands, Lord Kelvin kenningu Darwins á þeirri forsendu að jörðin gæti í mesta lagi verið nokkur hundruð milljón ára gömul*. Kelvin byggði mat sitt á kólnun bergs, og þar með jarðar, sem gaf honum efri mörk á aldri hennar. Gagnrýni Kelvins olli Darwin vandræðum, sérstaklega þar sem eðlisfræðin var lengstum talin fræðigrein æðri líffræðinni.

Gegn rökum Kelvins stóð sú staðreynd að í jarðlögum mátti greina forfeður og fulltrúa núlifandi tegunda. Beinagrindur af öpum og mannöpum voru í nýlegum jarðlögum, en í eldri lögum fundust leifar forfeðra allra spendýra, og enn eldri risaeðlur og milliform sem sýndu hvernig úr risaeðlunum spratt sá fallegi flokkur sem fuglar eru. Í nokkur hundruð ára gömlum jarðlögum finnast síðan frumstæðustu dýrin, forverar hryggdýra, hryggleysingja, sem og leifar plantna og þörnga.

Síðar kom í ljós að reikningar Kelvins voru á röngum forsendum byggðar, og eins og við vitum nú er jörðin er um 4.550.000.000 ára gömul. Það gefur nægilegan tíma fyrir þróun lífs, allavega einu sinni.

Ólafur Ingólfsson mun kynna jarðsöguna, steingervinga og þróun lífs í fyrirlestri á morgun, kl 13:00 í Öskju náttúrufræðihúsi HÍ.

*Leiðrétt eftir góða athugasemd púkans.


Steingervingar og rannsóknir á svipbrigðum

Charles Darwin gaf út tímamótaverk á nítjándu öld, sem gjörbreytti hugsun okkar um hegðun, eðli og tilfinningar. Hér er ekki um að ræða Uppruna tegundanna, sem var vissulega mikilvægt framlag til skilnings okkar á tilurð mannsins og eiginleikum hans. Bókin sem um ræðir The expression of the emotions in man and animals kom út árið 1872.

eema1.jpg

Þann 31 október mun vísindasagnfræðingurinn Joe Cain fjalla um rannsóknir Darwins á svipbrigðum, sem eru ein okkar besta leið til að skilja tjáningu og tilfinningar lífvera. 

Mörg af þeim viðbrögðum sem við sýnum við áreiti eru áþekk því sem sjá má hjá dýrum, grettur byggja á vöðvum sem eru eins (eða mjög áþekkir) í okkur og simpönsum.

Viðfangsefni Cains eru rannsóknir Darwins á því sem kalla má "æðri eiginleikum" (higher faculties), sem virðast skera mannin frá öðrum dýrum. Cain leggur áherslu á að fyrirlesturinn sé ekki mjög fræðilegur, og hlustendur þurfi ekki að vera sagnfræðingar til að kunna að meta hann "you don't need to be a historian!"

Fyrirlesturinn er hluti af fyrirlestraröð sem efnt er til vegna þess að 200 ár eru liðin frá fæðingu Charles Darwin og þess að 150 verða í nóvember frá því að bók hans um uppruna tegundanna kom út.

Nú á laugardaginn (24 október) mun Ólafur Ingólfsson flytja erindi í sömu fyrirlestraröð, um steingervinga og þróun lífs (Ólafur var í viðtali á Útvarpi sögu síðasta þriðjudag, heyra má upptöku hér - þáttur 47).


Fréttabréf Hins íslenska náttúrufræðafélags

Nýútkomið er fréttabréf Hins íslenska náttúrufræðafélags, og er það aðgengilegt á pdf-formi. Félagið varð 120 ára í júlí og er stefnt að því að halda fund um stöðu náttúruminjasafnsins í nóvember.

Einnig er frábært að nú skuli tímarit félagsins, Náttúrufræðingurinn vera aðgengilegur í þeirri gullkistu sem er timarit.is. Öll tölublöð Náttúrufræðingsins (nema frá síðustu 5 árum) verða aðgengileg þar.

Annars eru nokkur erindi á döfunni í vetur, hið fyrsta verður erindi Jónu Bjarkar Jónsdóttur um gróðurframvindu í Skaftáreldahrauni. Þetta er meistaraverkefni Jónu sem hún varði á vormánuðum.

Mánudaginn 26. október 2009. Gróðurframvinda í Skaftáreldahrauni og áhrif hraungambra á landnám háplantna. Jóna Björk Jónsdóttir, líffræðingur og kennari við Menntaskólann að Laugarvatni.

Mánudaginn 30. nóvember 2009. Jöklar á Íslandi við upphaf 21. aldar og framtíðarhorfur. Dr. Helgi Björnsson, jöklafræðingur og vísindamaður við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands.

Mánudaginn 25. janúar 2010. Hugsanleg áhrif hlýnandi veðurfars á líffræðilega eiginleika íslensks jarðvegs. Dr. Rannveig Guicharnaud, jarðvegsfræðingur og lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands.

Mánudaginn 22. febrúar 2010. Binding kolefnis í bergi. Dr. Sigurður Reynir Gíslason, jarðvegsfræðingur og prófessor við H.Í.

Mánudaginn 29. mars 2010. Veðurfarssveiflur og lífríki hafsins við Ísland. Dr. Ólafur Ástþórsson, líffræðingur á Hafrannsóknastofnuninni.

Mánudaginn 26. apríl 2010. Lundastofn Vestmannaeyja. Dr. Erpur Snær Hansen, sviðstjóri hjá Náttúrustofu Suðurlands.

Næstu fræðsluerindi HÍN verða haldin í fyrirlestrasal Menntaskólans við Sund að Gnoðarvogi 43 og hefjast erindin klukkan 17:15.


Erindi: vörn gegn veirum

Á morgun föstudaginn 9 október fer fram doktorsvörn um varnir gegn veirum. Stefán Ragnar Jónsson hefur rannsakað ensímið APOBEC3, sem stuðlar að niðurbroti RNA erfðaefnis t.d. úr retroveirum. Veiran hefur varnir gegn árásum þessa prótíns, sem er prótínið Vif, sem stuðlar að niðurbroti á APOBEC prótínum. Algengt er að finna slíka þróunarlega togstreitu á milli varna hýsils og vopnabúrs veira og sýkla.

Aðalleiðbeinandi Stefáns er Valgerður Andrésdóttir sameindaerfðafræðingur, sem vinnur á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Fyrirlesturinn verður í Öskju (stofu 132) kl 14:00. Sjá nánar á vef HÍ og úrklippu úr fréttatilkynningu hér að neðan:

Lífverur hafa frá örófi alda þróað með sér varnir gegn retróveirusýkingum. Dæmi um slíkt eru APOBEC3 próteinin en þau eru fjölskylda af-aminasa sem einungis er að finna í spendýrum. Mörg þessara próteina geta hindrað retróveirur með því að af-aminera cýtósín í úrasil í erfðaefni veirunnar meðan á víxlritun stendur. Lentiveirur, m.a. HIV hafa þróað mótsvar við þessu, próteinið Vif (virion infectivity factor) sem stuðlar að niðurbroti APOBEC3 próteina. Í þessu verkefni voru APOBEC3 gen og prótein klaufdýra (nautgripa, kinda og svína) klónuð og virkni og sértækni þeirra athuguð. APOBEC3 prótein klaufdýra gátu hindrað eftirmyndun HIV-1 og reyndust ónæm fyrir áhrifum Vif próteins HIV-1.

Raðgreining erfðamengja manna og músa hefur leitt í ljós mikinn mun í fjölda APOBEC3 gena milli dýrategunda, frá einu í músum til sjö í mönnum. Leitað var í DNA söfnum sem innihéldu litninga DNA klaufdýra og APOBEC3 gen þessara tegunda fullraðgreind. Reyndust kindur og nautgripir hafa þrjú APOBEC3 gen en svín tvö. Þessar niðurstöður benda til þess að sameiginlegur forfaðir klaufdýra hafi haft þrjú APOBEC3 gen og þriðja genið hafi tapast snemma í þróun suidae ættkvíslarinnar.


Náttúrustofuþing

Úr fréttatilkynningu:

Náttúrustofuþing 2009
 
Þann 8. október næstkomandi munu Samtök Náttúrustofa á Íslandi (SNS) standa fyrir  náttúrustofuþingi. Þetta er í fimmta skipti sem slíkt þing er haldið í tengslum við ársfund félagsins.
Að þessu sinni sér Náttúrustofa Reykjanes í Sandgerði um undirbúning þingsins og verður það haldið í Samkomuhúsinu í Sandgerði. Dagskráin hefst klukkan 09.30 með ávarpi umhverfisráðherra og stendur til 17:00 eins og meðfylgjandi dagskrá sýnir.

Þingið er öllum opið, bæði á allt þingið eða einstaka fyrirlestra.

Meðal þess sem fjallað verður um er

Alvarleg áhrif B-vítamínsskorts meðal fugla: Gunnar Þór Hallgrímsson

Hvernig hefur Morsárjökull það eftir berghlaupið 2007?: Þorsteinn Sæmundsson

Hvað er líkt með mýi?: Þóra Hrafnsdóttir


Erindi: sýklalyfjaþolnar bakteríur

Næst komandi mánudag mun Þórunn Rafnar Þorsteinsdóttir fjalla um rannsóknir sínar á "Sýklalyfjaónæmi baktería í búfénaði á Íslandi". Hún hefur einnig rannsakað hvort möguleiki sé á að slíkar bakteríur flytjist frá húsdýrum til manna.

Fyrirlestur hennar hefst kl 13:00 í Hátíðarsal aðalbyggingar HÍ. Sjá nánari upplýsingar á vef HÍ.


Uppruni lífsins eftir viku

Eftir rétta viku, 3 október 2009, mun Guðmundur Eggertsson halda fyrirlestur um uppruna lífsins.

Allar lífverur á jörðinni eru af sama meiði, það vottar innribygging þeirra, DNA, prótínmyndunarkerfi, og efnaskipti. En hvernig varð lífið til? Til að svara þeirri spurningu hafa verið settar fram mjög, mjög, mjög margar tilgátur. Vandamálið er að prófa tilgáturnar, þær þurfa að vera nægilega nákvæmar til að hægt sé að framkvæma tilraunir eða gera athuganir til að sannreyna þær (eða hrekja!).

LeitinAdUpprunaLifsGuðmundur mun fjalla um þessa stærstu spurningu líffræðinnar, og styðjast við að hluta bók sem hann gaf út árið 2008 (Leitin að uppruna lífs, líf á jörð, líf í alheimi - Bjartur). Bókin hefur ekki fengið mikla umfjöllun hérlendis, þrátt fyrir að vera tilnefnd til verðlauna Hagþenkis. Atli Harðarson birti þó lofsamlega umsögn um bókina.

Sjá einnig grein Guðmundar í Náttúrufræðingnum, endurprentuð á Stjörnufræðivefnum.

Erindið verður kl 13:00 í Öskju, náttúrufræðihúsi HÍ, stofu 132 og er öllum opið, engin aðgangseyrir.

Fyrirlesturinn er hluti af fyrirlestraröð í tilefni afmælis Charles Darwins, sjá dagskránna á darwin.hi.is.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband