Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Erfðabreytingar og ræktun

Ráðstefna um erfðabreytta ræktun 15. maí

Það er sérstaklega ánægjulegt að heyra ða umhverfisráðaneytið stendur fyrir ráðstefnu um erfðabreytta ræktun - 15. maí. 2012 (á Grand hótel kl 13:00-17:00, aðgangur ókeypis).

Á ráðstefnunni munu tala fulltrúar ráðaneyta og háskóla, sem fara yfir erfðatækni, áhrif þeirra á heilsu og löggjöf um erfðabreyttar lífverur. Margir fyrirlesaranna héldu erindi í námskeiði um erfðatækni, umhverfi og samfélag sem haldið var í samstarfi Háskóla Íslands, Landbúnaðarháskólans og Háskólans á Akureyri nú í aprílmánuði. Meðal efnis (úr tilkynningu ráðaneytisins):

Mikil umræða hefur verið að undanförnu um erfðabreytta ræktun, og þá sérstaklega sleppingu og dreifingu erfðabreyttra lífvera út í umhverfið. Þetta á ekki síst við lönd Evrópusambandsins þar sem skoðanir eru skiptar en nokkur Evrópuríki hafa bannað slíka ræktun innan eigin landamæra.  Með ráðstefnunni vill umhverfisráðuneytið stuðla að opinni og upplýstri umræðu um þessi mál hér á landi og gefa almenningi kost á að fylgjast með stöðu og þróun mála.

Á ráðstefnunni verður m.a. útskýrt í hverju erfðabreytt ræktun felst, farið verður yfir þau lög og reglur sem gilda um erfðabreytta ræktun hér á landi, hlutverk Umhverfisstofnunar í þessu sambandi verður útskýrt sem og hlutverk ráðgjafanefndar um erfðabreyttar lífverur. Þá verða flutt erindi um áhrif erfðabreyttrar ræktunar á heilsu, umhverfi og efnahag  og loks velt upp siðferðislegum spurningum sem kunna að vakna í tengslum við málefnið.

Dagskrá ráðstefnu um erfðabreytta ræktun, sleppingu og dreifingu (á pdf formi).


Svar við hræðsluáróðri

Landbúnaðarráðherra hefur ákveðið að sérmerkja skuli allar matarafurðir sem unnar eru úr erfðabreyttum lífverum. Það finnst mér óþarfi, svona svipað og að merkja lambið eftir því hvort háls þess var skorinn af hægri eða vinstrihandar manni eða merkja kálplöntur eftir því hvort þær séu vökvaðar með plastslöngu eða stálúðara.

Einn andstæðingur erfðafbreyttra lífvera, Sandra B. Jónsson skrifaði grein í Fréttablaðið undir fyrirsögninni: Matvælaöryggi fórnað fyrir pólitík (7. okt. 2011) og sagði meðal annars:

Því síður getur ráðuneytið hafa vanmetið heilsufarsáhrif þess að fresta gildistöku reglugerðarinnar. Fyrir fjórum mánuðum var ráðuneytið upplýst um ritrýndar niðurstöður nýrrar tímamóta heilsufarsrannsóknar við Sherbrooke-háskólasjúkrahúsið í Quebec í Kanada sem birtust í Journal of Reproductive Toxicology. Í rannsókninni fannst Bt-eitur sem splæst er í erfðabreyttar plöntur (gegn skordýrum) í blóði þungaðra kvenna og fóstra sem þær gengu með. Niðurstaða hennar var að eitur þetta kæmi úr erfðabreyttum matvælum vegna þess að mæðurnar neyttu venjulegs kanadísks fæðis, en drjúgur hluti þess inniheldur ómerkt erfðabreytt matvæli. Erfitt er að ímynda sér sterkari vísbendingar um það heilsutjón sem erfðabreytt matvæli geta valdið neytendum – eða sterkari rök fyrir merkingum erfðabreyttra matvæla.

Þessari staðhæfingu svaraði Jón Hallsteinn Hallson í Fréttablaði dagsins í dag (20. okt 2011) Hræðsluáróður gegn erfðabreyttum matvælum:

 Þann 7. október sl. birtist í Fréttablaðinu grein eftir Söndru B. Jónsdóttur þar sem hún skammar íslensk stjórnvöld fyrir seinagang við setningu reglugerðar um merkingar á erfðabreyttum matvælum. Til að undirstrika mikilvægi reglugerðarinnar vísar Sandra í niðurstöður sem nýverið birtust í tímaritinu Reproductive Toxicology (1) en þar er fullyrt að mælst hafi próteinið Cry1Ab í blóði hjá hópi kvenna í Kanada. Framsetning Söndru á þeim niðurstöðum er með slíkum endemum að ekki verður orða bundist og langar mig að benda á nokkur atriði sem betur hefðu mátt fara.

Ég skora á fólk að lesa gagnrýni Jóns, og læt eitt dæmi úr grein hans duga hér:

Sandra telur að hér hafi verið á ferðinni „tímamóta heilsufarsrannsókn”. Hið rétta er að hér var ekki um að ræða heilsufarsrannsókn þar sem niðurstöður mælinga voru ekki tengdar við heilsufar þeirra kvenna sem tóku þátt í rannsókninni. Í greininni kemur aðeins fram að konurnar, sem sumar voru þungaðar, voru heilbrigðar við sýnatöku, að engin vandamál komu fram í fæðingu og að öll börnin voru af eðlilegri stærð. Hvernig Sandra kemst að þeirri niðurstöðu að um sé að ræða heilsufarsrannsókn er mér hulin ráðgáta.

Mér þykir mikilvægt að benda á að Bt eitrið sem um ræðir er virkt gagnvart skordýrum sem herja á nytjaplöntur, eins og maís. Það hefur verið notað um áratuga skeið í hefðbundinni og lífrænni ræktun, og oft í mjög miklum mæli. Það er álitið hafa væg áhrif á hryggdýr, nema í stórum skömmtum. Með því að framleiða Bt-skordýraeitrið í plöntunni, þá þarf ekki lengur að nota jafn mikið af því og áður, og möguleg skaðleg áhrif þess á aðra náttúru væru mun minni en ella.

Ítarefni:

Bt Pesticide No Killer on Its Own, Overturning Orthodoxy

Bacillus thuringiensis


Erindi: Stofnvistfræði minksins

Föstudagsfyrirlestrar Líffræðistofnunar eru komnir á skrið eftir nokkura ára hlé. Í þessari viku mun Róbert A. Stefánsson við Náttúrustofu Vesturlands  fjalla um stofnvistfræði minksins.

Minkur var fyrst fluttur til Íslands árið 1931 en slapp fljótlega úr haldi og breiddist um landið. Veiðitölur benda til að mink hafi fjölgað allt fram yfir aldamót en að síðustu ár hafi honum af ókunnum ástæðum fækkað á ný. Róbert og félagar hafa safnað sýnum úr afla veiðimanna víða um land frá árinu 1996 og má nýta þau gögn á ýmsan hátt, m.a. til að komast nær því að skilja hvað stjórni breytingum á stofnstærð.

folk_ad_vinna_15 Föstudagfyrirlestrar Líffræðistofnunar eru öllum opnir með húsrúm leyfir og eru fluttir á íslensku (nema annað sé tekið fram).

Dagskrá í heild sinni má nálgast á vef Líf og umhverfisvísindadeildar HÍ.

Mynd af Róberti og mink af vef Náttúrustofu Vesturlands, ljósmynd og copyright: Menja von Schmalensee, 2002.

3/25/11 Stofnvistfræði minks - Róbert A. Stefánsson
4/1/11   Tengsl búsvæða og svipgerðar í stækkandi fuglstofni - Tómas G. Gunnarsson
4/8/11   Stofnfrumur og þroskun lungna - Sigríður Rut Franzdóttir
4/15/11  DNA polýmerasar og viðgerð - Stefán Þ. Sigurðsson
4/29/11  Bakteríudrepandi prótín - Guðmundur Hrafn Guðmundsson
5/6/11   Selarannsóknir við Selasetur Íslands  - Sandra Granquist
13/6/11  Galapagoseyjar: lífríki og hættur - Hafdís H. Ægisdóttir 


Um ræktun erfðabreyttra lífvera

Eiríkur Steingrímsson var í viðtali í Kastljósi í gærkvöldi vegna þingsályktunartillögu um bann við útiræktun á erfðabreyttum lífverum. Hann útskýrði sjónarmið "þessara svokölluðu erfðafræðinganna" ágætlega.

Einnig var sýnt viðtal við Þuríði Backman, fyrsta flutningsmann tillögunar.

Þuríður sagðist vilja virða varúðarregluna, því ekki sé hægt að sanna með óyggjandi hætti að erfðabreyttar lífverur valdi ekki skaða í náttúrunni.

Ef varúðarreglunni er beitt á þennan hátt, þá er eðlilegt að vænta þess að Þuríður leggi fram tillögur um að banna fleiri tækninýjungar því ekki er "hægt að sanna með óyggjandi hætti að [þær] valdi ekki skaða í náttúrunni." Með þessum rökum er eðlilegt að banna þriðjukynslóð farsíma, blue-ray diska, fésbókina, nýjustu úlpuna frá Nikita og grjónagrautinn frá MS (sem er fullur af DNA!).

Mér leikur forvitni á að vita, hver skrifaði greinagerðina með þingsályktunartillögunni?

Þuríður var mjög gagnrýnin á ríkisábyrgðina sem Íslensk erfðagreining fékk á sínum tíma. Vísbendingar eru um að lögmenn ÍE hafi verið hjálplegir ríkistjórn Davíðs Oddson við að semja ríkisábyrgðarlögin og gagnagrunnslögin. Það er því mjög forvitnilegt að vita hvaða vinnubrögð Þuríður hefur viðhaft í þessu máli.


Umfjöllun um erfðabreyttar plöntur í sjónvarpinu

Erfðabreyttar plöntur eru komnar aftur í umræðuna, vegna þingsályktunartillögu sem hefst á þessum orðum "Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa starfshóp er vinni að breytingum á lögum og reglugerðum í þeim tilgangi að banna útiræktun á erfðabreyttum lífverum eigi síðar en 1. janúar 2012."

Þrjátíu og sjö erfðafræðingar hafa lagst gegn þessari þingsályktunartillögu, m.a. vegna þess hversu illa rökstudd hún er, sbr. Athugasemd til Alþingis. 

Kastljós tók málið fyrir í gær (14. febrúar 2010) og ræddi við Hákon Már Oddsson* sem er, ef mínar heimildir eru réttar, einn forkólfa vefsíðunnar www.erfdabreytt.net. Þóra Arnórsdóttir ræddi við hann og er sjón sögu ríkari. Hann m.a. vænir vísindamenn við Landbúnaðarháskólann um ófagleg vinnubrögð og líkir vísindamönnum við viðskiptaskólamenntaða hrunverja.

Það er skemmtileg tilviljun að sama kvöld var fjallað um ORF líftækni í þætti Ara Trausta um íslensk vísindi (Þáttinn má nálgast á vef RUV - Nýsköpun íslensk vísindi).

Viðbót 16. febrúar 2011. Mér finnst Ari komast ónákvæmlega að orði, þegar hann segir að niðurstöður bendi til að EGF droparnir frá SIF cosmetics virki vel. Ég veit ekki um neinar formlegar rannsóknir á þessum dropum, aðeins samantektir um "upplifun" kúnnanna og hefðbundnar staðhæfingar fallegs fólks í auglýsingabæklingum.

*Leiðrétting. Í fyrstu útgáfu pistilsins var Hákon Már gerður Hauksson. Velvirðingar er beðist á þessum mistökum. Bestu þakkir til Aðalsteins Sigurgeirssonar sem benti á skyssuna.


Athugasemd til Alþingis

Nokkir erfðafræðingar tóku sig saman og sendu eftirfarandi athugasemd til Alþingis:

Nefndasvið Alþingis

Alþingi
150 Reykjavík
10. febrúar 2011
Um tillögu til þingsályktunar um útiræktun á erfðabreyttum lífverum, Þskj. 737 – 450. mál.

Tillaga til þingsályktunar um útiræktun á erfðabreyttum lífverum, Þskj. 737 – 450. mál, gerir ráð fyrir að skipaður verði starfshópur sem vinni að breytingum á lögum og reglugerðum með það að markmiði að banna útiræktun á erfðabreyttum lífverum. Við teljum að tillaga þessi sé með öllu óþörf enda gilda þegar ströng lög og reglur um erfðabreyttar lífverur á Íslandi. Meðal annars starfar sérstök nefnd sem fer yfir hverja erfðabreytingu fyrir sig og metur hana og áhættuna af henni í hverju tilviki á vísindalegum forsendum. Engin ástæða er til að banna útiræktun erfðabreyttra lífvera þegar engin hætta er talin stafa af slíkri ræktun. Þær áhyggjur sem lýst er í tillögunni eru byggðar að verulegu leyti á misskilningi, vanþekkingu, fordómum eða hagsmunum þeirra sem telja erfðabreyttar lífverur ógna sér eða sinni starfsemi. Við mælum því eindregið gegn því að tillaga þessi verði samþykkt af Alþingi Íslendinga.

Það er áhyggjuefni að greinargerðin með tillögunni virðist bæði vera illa unnin og að mestu leyti röng. Höfundar hennar virðast hafa mjög takmarkaðan skilning á líffræði, þróunarfræði, erfðafræði eða eðli erfðabreyttra lífvera. Í þingsályktunartillögunni er hugtökum ruglað saman auk þess sem hún styðst við álit einstaklinga sem ekki verður séð að hafi neina faglega þekkingu á því sviði sem tillagan fjallar um. Undanfarin tvö ár hafa margir, þ.á.m. sumir af höfundum þingsályktunartillögunnar, kallað eftir faglegri vinnubrögðum Alþingis. Því miður er þessi þingályktunartillaga skref í þveröfuga átt hvað það varðar. Við hvetjum því höfunda þingsályktunartillögunnar til að leita til þeirra mörgu fræðimanna sem eru vel að sér um málefnið til að afla sér áreiðanlegra upplýsinga um það.

Til að fyrirbyggja misskilning viljum við taka fram að við undirrituð störfum flest við rannsóknir. Mörg okkar nota erfðabreyttar lífverur í rannsóknum sínum. Enginn okkar vinnur hins vegar við rannsóknir sem miða að því að sleppa erfðabreyttum lífverum út í umhverfið/náttúruna og enginn okkar er hluthafi, starfsmaður eða ráðgjafi ORF líftækni eða á beinna persónulegra hagsmuna að gæta í málinu.

Sérstakar athugasemdir okkar við tillöguna eru raktar hér að neðan.

Virðingarfyllst,
Eirikur Steingrímsson, prófessor, Læknadeild, HÍ. eirikurs@hi.is, sími 820 3607.
Magnús K. Magnússon prófessor, Læknadeild, HÍ.
Már Másson, prófessor, Lyfjafræðideild, HÍ.
Ólafur S. Andrésson, prófessor, Líf- og umhverfisvísindadeild, HÍ.
Ástríður Pálsdóttir, sérfræðingur, Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum.
Guðmundur Hrafn Guðmundsson, prófessor, Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ.
Stefán Þ. Sigurðsson, dósent, Læknadeild, HÍ.
Bjarnheiður K. Guðmundsdóttir, sérfræðingur, Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, og
aðjúnkt, Læknadeild HÍ.
Unnur Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri erfðarannsókna, Íslenskri erfðagreiningu og
rannsóknar dósent, Læknadeild, HÍ.
Þórunn Rafnar, framkvæmdastjóri krabbameinsrannsókna, Íslenskri erfðagreiningu.
Pétur Henrý Petersen, lektor, Læknadeild HÍ.
Áslaug Helgadóttir, prófessor í jarðrækt og plöntukynbótum, Landbúnaðarháskóla Íslands.
Emma Eyþórsdóttir, dósent í búfjárerfðafræði, Landbúnaðarháskóla Íslands.
Bjarni Jónasson, verkefnisstjóri, Biopol sjávarlíftæknisetur
Guðmundur Óli Hreggviðsson, fagstjóri, Matís.
Arnar Pálsson, dósent, Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ.
Sigurbjörg Þorsteinsdóttir, sérfræðingur, Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum.
Edda B. Ármannsdóttir, sérfræðingur, Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum.
Bergljót Magnadóttir, sérfræðingur, Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum.
Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir hrossasjúkdóma hjá Matvælastofnun
Karl Ægir Karlsson, dósent, Tækni- og verkfræðideild, HR
Jón Hallsteinn Hallsson, lektor, Auðlindadeild Landbúnaðarháskóla Íslands
Jóhannes Sveinbjörnsson, dósent í fóðurfræði, Landbúnaðarháskóla Íslands
Jórunn E. Eyfjörð, prófessor, Læknadeild HÍ.
Jón Jóhannes Jónsson, dósent, Læknadeild HÍ.
Þórarinn Guðjónsson, dósent, Læknadeild HÍ.
Anna Kristín Daníelsdóttir, sviðsstjóri, Matís.
Helga M. Ögmundsdóttir, prófessor, Læknadeild HÍ.
Oddur Vilhelmsson, dósent, Auðlindadeild HA.
Ólafur I. Sigurgeirsson, lektor, Fiskeldisdeild Hólaskóla.
Snæbjörn Pálsson, dósent, Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ.
Kristinn P. Magnússon, dósent, Auðlindadeild HA.
Ágúst Sigurðsson, rektor og búfjárerfðafræðingur Landbúnaðarháskóla Íslands.
Guðmundur Þorgeirsson, prófessor og deildarforseti Læknadeildar, HÍ.
Sigurður Guðmundsson, forseti Heilbrigðisvísindasviðs HÍ.
Guðmundur Eggertsson, prófessor emerítus, Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. greiningar.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Hver er hættan af erfðabreyttum lífverum?

Andstæðingar erfðabreyttra lífvera hafa tilhneygingu til að mála skratta á vegginn. Vandamálið er að þeir eru lélegir málarar, og líkjast skrattarnir oft slettuverkum Jackson Pollocks frekar en nákvæmri mynd af ógn.

Í vor tók ég þátt í umræðufundi á vegum Gaiu, nemenda í umhverfis og auðlindafræði við Háskóla Íslands. Yfirskriftin var líffræðilegur fjölbreytileiki og erfðabreyttar lífverur. Flestir frummælenda voru á móti erfðabreyttum lífverum, en enginn þeirra tilgreindi nákvæmlega hvaða hætta hlytist af þeim.

Margir voru mótfallnir erfðabreyttum plöntum vegna þess að stór amerísk fyrirtæki selja erfðabreytt fræ og skordýraeitur í sama pakka. Sömu fyrirtæki eru með svo gott sem einokunarstöðu á fræmarkaði og halda bændum í nokkurskonar vistarböndum. Þar sem erfðabreyttar plöntur eru hluti af viðskiptalíkani fyrirtækisins, þá eru þær slæmar. Með sömu rökum væri hægt að halda því fram að ritmál væri hættulegt, fyrst að Adolf Hitler, Josef Stalín og Pol Pot notuðu allir ritmál.

Við höfum áður rakið hvað felst  í erfðabreytingu og fært rök fyrir því að erfðabreyttar plöntur séu í eðli sínu ekki frábrugðnar öðrum lífverum. Ræktandi getur erfðabreytt plöntu með hefðbundnum aðferðum, með því að hella nægilega miklu af blóði sínu á milljónir fræja eða með því að beita erfðatækni. Afleiðingin er sú sama, erfðasamsetning plöntunar breytist og þar með getur einhver eiginleiki sem genin hafa áhrif einnig breyst (fræin verða þolin gagnvart skordýraeitri eða þyngd þeirra eykst um 0.001 g).

Hér með óska ég eftir almennilegri skilgreiningu á hættunni sem stafar af erfðabreyttum lífverum!

Hvað haldið þið að gerist ef erfðabreyttar plöntur dreifast út í náttúruna?

Jón Bjarnason virðist vera að bregðast við þrýstingi frá hagsmunahópum. Lífræni, hráfæðis, heilsuiðnaðurinn er vissulega minni í sniðum en hefðbundinn matvælaframleiðsla, en þeirra sölumennska gengur mikið til út á að kasta rýrð á venjulegan mat, og selja síðan þeirra sérútbúnu töfralausn (hvort sem hún er Acai-berjablanda, Ópal úr hvönn eða vallarfoxgras-vellingur í kældu staupi). Rökvillan er sú að, jafnvel þótt að neysluvenjur nútímamannsins geti kynnt undir "velmegunarsjúkdóma" þá er alls óvíst að "töfralausnin" færi fólki nokkra bót. Í mörgum tilfellum hefur verið sýnt að bætiefni hafi engin, eða jafnvel skaðleg áhrif (E - vítamín t.d.).

Gamaldags einfalt matarræði (blanda ávaxta, kornmetis og dýraafurða), hófsemi og hreyfing er hins vegar  erfiðari pakki að selja. Því er mikilvægt (fyrir heilsuspekúlantana) að flækja hlutina, þyrla upp ryki og vekja hræðslu, og vera síðan með bækur, snældur, diska, pillur, hálsklúta, eyrnakerti, kristalla, blóðögðuhúðflúr og HIV-drepandi sinnepssmyrsl fyrir forhúðina til sölu fyrir "sanngjarnt" verð*. 

Snúum okkur aftur að spurningunni "Hvað haldið þið að gerist ef erfðabreyttar plöntur dreifast út í náttúruna?"

Mitt svar er: ekki neitt.

Erfðabreyttar plöntur þurfa að berjast fyrir tilvist sinni eins og aðrar plöntur. Langflestar plöntur sem notaðar eru til ræktunar eru "bæklaðar" af ræktun fyrir ákveðnum eiginleikum, og þurfa að treysta á inngrip mannsins til að lifa af á akrinum. Ef maðurinn hyrfi af jörðinni er lang-lang-lang líklegast að rætkunarplöntur okkar (og þar með þær erfðabreyttu) hyrfu á nokkrum kynslóðum, þegar illgresi, tré og aðrar plöntur ryddust inn á akra okkar og tún.

Sojabaunaplanta sem hefur verið erfðabreytt og í hana sett gen sem gerir hana þolna gegn illgresiseyði er jafn illa stödd og venjuleg sojabaunaplanta sem notuð er í ræktun. Nema þegar viðkomandi illgresiseyði er sprautað.**

Ef við gerum ráð fyrir versta tilfelli (það eru mjög mörg EF á þeirri leið) gæti orðið til eitthvað illgresi sem myndi vaða yfir allt og þola allar gerðir illgresiseyða.

Illgresi þyrfti að ná mjög umtalsverðri útbreiðslu til að verða að einhverri hættu, því það eru ekki til neinar tveggja metra háar plöntur sem ganga og slá niður fólk með eitruðum fálmurum (sbr. The Triffids). Illgresi er til trafala, en það ógnar ekki heilsu fólks eða lífi. Ágengar tegundir ógna líffræðilegum fjölbreytileika, en myrða ekki fólk í húsasundum.

Ef versta tilfelli verður að veruleika, og illgresiseitrin virka ekki á hina "hættulegu" plöntu þá er tilvist okkar stefnt í voða, sjálfvirðing okkar og tign væri horfin því við gætum þurft að gera dálítið skelfilegt.

Krjúpa og reyta arfa.

*Sanngjarnt þýðir að þú fáir laun fyrir það erfiði að búa til virkilega flókna þjóðsögu og "heilstæða" heilsumynd.

Viðbót (gleymdist í fyrstu útgáfu pistils)

** Bandarískar rannsóknir hafa fundið dæmi um erfðabreyttar plöntur í náttúrunni. Nýverið fundust í vegkanti (þ.e. náttúrunni) erfðabreyttar Canolaplöntur - sem eru þolnar gagnvart Roundup - algengum illgresiseyði. Fjallað er um þetta í frétt NY Times Canola, Pushed by Genetics, Moves Into Uncharted Territories. Miðað við andstöðuna við erfðabreyttar plöntur er viðbúið að þessi tíðindi veki upp ákveðna móðursýki, og því fannst mér mikilvægt að ræða þetta mál áður en tilfinningarnar taka völdin.

Leiðrétting: Í fyrstu útgáfu stóð Krjúpa niður og reyta arfa. Ég veit ekki um neinn sem krýpur upp.

Eldri pistlar um erfðabreyttar lífverur:

Rangfærslur um erfðabreytt bygg

Nánar um rangfærslur um erfðabreytingar

Umræða um erfðabreyttar lífverur

Erfðabreyttar lífverur, efasemdum svarað

Kæra fjölskylda


mbl.is Skylda að merkja sérstaklega erfðabreytt matvæli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maís með fleiri gen en maður

Maís er eitt af undrum landbúnaðar. Á nokkrum árþúsunum tókst forfeðrum okkar að beisla villtar plöntur og velja úr afbrigði sem gáfu miklar afurðir. Bændurnir nýttu sér grundvallaratriði þróunarlögmáls Darwins, mannkyninu til hagsbóta.

Tilurð maís úr villtu plöntunni Teosinte er dæmi um mikilfenglegar breytingar vegna ræktunar.

25_EVOW_CH11 Munurinn er mjög afdrifaríkur eins og sjá má mynd úr kennslubók Barton og félaga, teosinte er vinstra megin, maís hægra megin, og blendingur í miðið (www.evolution-textbook.org).

Nú er svo komið að erfðamengi maísplöntunar hefur verið raðgreint að mjög stórum hluta, sjá greinar í Science vikunnar. Erfðamengi hennar er með um 32000 gen, sem er um 7000 fleiri en það sem finna má í erfðamengi mannsins.

Lengi vel var talið að fyrst að maðurinn væri svona flókinn og fullkominn hlyti hann að vera með 100000 gen.

ZeaMaysScience

Myndin hér til hliðar er af forsíðu Science þar sem nokkrar greinar um erfðamengi og breytileika í Maís voru birtar í dag.

Maís hefur lengi verið eftirlæti erfðafræðinga, þeirra þekktust er e.t.v. Barbara MacClintock sem fann í þeim stökkvandi gen (transposable genes - einnig kallað stökklar á íslensku) - og hlaut Nóbelsverðlaunin 1983 fyrir uppgötvun sína.

Stökklar taka þátt í að mynda hina ævintýralegu litadýrð sem einkennir indjánakornið (indian corn). Þakkir hafi þeir fyrir "gjörðir" sínar.

Ítarefni:

Schnable o.fl. The B73 Maize Genome: Complexity, Diversity, and Dynamics Science 20 November 2009: Vol. 326. no. 5956, pp. 1112 - 1115

Uppruni hænsna og nautgripa


Þraut sem þarf að leysa

Hrun í býflugnastofnum víða um heim hefur vakið mikla undrun. Á sumum svæðum hafa heilu búin lagst af, en annarstaðar fækkar í þeim um fleiri prósent.

Hvað gæti verið orsökin, eða orsakirnar?

Í frétt mbl.is er rætt um alþjóðlega býfluguráðstefnum sem fram fer í Frakklandi. Þar kynna vísindamenn niðurstöður rannsókna, þar sem leitast er við að kasta ljósi á ráðgátuna. Prófaðar eru tilgátur um sýkingar, afrán, stofnerfðafræðilegt hrun (vegna ónógs kynlífs) og þar fram eftir götunum.

Ég vill benda fólki á að það er ENGINN á þessari ráðstefnu að velta alvarlega fyrir sér þeim möguleika að erfðabreyttar plöntur eigi þar hlut að máli. Ástæðan er sú að þeirri tilgátu hefur verið hafnað með óyggjandi rökum (sjá meðan annars opið bréf Ólafs Andréssonar og frumheimild Duan JJ, Marvier M, Huesing J, Dively G, Huang ZY (2008) A Meta-Analysis of Effects of Bt Crops on Honey Bees (Hymenoptera: Apidae). PLoS ONE 3(1): e1415. doi:10.1371/journal.pone.0001415).

Engu að síður lifir þessi meinloka, erfðabreyttar plöntur drepa býflugur, góðu lífi.

Okkar hlutverk er að benda á slík mistök, rétt eins og við bendum vinum okkar á að kvef sé orsakað af veirum (en sé ekki karma) og neysla frauðplasts sé ekki heppileg leið til megrunar (í tilefni föstudagsins verð ég að benda á dúndur myndband á lauknum - "non food diet").


mbl.is Hvers vegna hrynja býflugnasamfélögin?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klónaðir bananar

Velflestar bananaplöntur sem ræktaðar eru í heiminum hefur verið fjölgað með græðlingum, en ekki með fræi. Vísindamenn hafa lengi varað við hættunni af þessu, því slík einræktun veldur því að lítill breytileiki finnst í stofninum. Ef enginn breytileiki er til staðar þá er allur stofninn í hættu, ef pestir ná fótfestu.

Þess vegna eru það mjög alvarlegar fréttir að tvær plágur herji nú á bananaekrur í Afríku. Erfðabreytileiki er ekki bara áhugamál þróunarfræðinga og vistfræðinga, heldur lífsnauðsynleg auðlind.

Ítarefni:

Banana diseases hit African crops  Thursday, 27 August 2009

Lack of Sex Life Threatens Banana Crops Steve Conner The Independent July 27, 2001 (af vef national geograpic)


mbl.is Bananauppskera í Afríku í hættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband