Leita í fréttum mbl.is

Hver er hættan af erfðabreyttum lífverum?

Andstæðingar erfðabreyttra lífvera hafa tilhneygingu til að mála skratta á vegginn. Vandamálið er að þeir eru lélegir málarar, og líkjast skrattarnir oft slettuverkum Jackson Pollocks frekar en nákvæmri mynd af ógn.

Í vor tók ég þátt í umræðufundi á vegum Gaiu, nemenda í umhverfis og auðlindafræði við Háskóla Íslands. Yfirskriftin var líffræðilegur fjölbreytileiki og erfðabreyttar lífverur. Flestir frummælenda voru á móti erfðabreyttum lífverum, en enginn þeirra tilgreindi nákvæmlega hvaða hætta hlytist af þeim.

Margir voru mótfallnir erfðabreyttum plöntum vegna þess að stór amerísk fyrirtæki selja erfðabreytt fræ og skordýraeitur í sama pakka. Sömu fyrirtæki eru með svo gott sem einokunarstöðu á fræmarkaði og halda bændum í nokkurskonar vistarböndum. Þar sem erfðabreyttar plöntur eru hluti af viðskiptalíkani fyrirtækisins, þá eru þær slæmar. Með sömu rökum væri hægt að halda því fram að ritmál væri hættulegt, fyrst að Adolf Hitler, Josef Stalín og Pol Pot notuðu allir ritmál.

Við höfum áður rakið hvað felst  í erfðabreytingu og fært rök fyrir því að erfðabreyttar plöntur séu í eðli sínu ekki frábrugðnar öðrum lífverum. Ræktandi getur erfðabreytt plöntu með hefðbundnum aðferðum, með því að hella nægilega miklu af blóði sínu á milljónir fræja eða með því að beita erfðatækni. Afleiðingin er sú sama, erfðasamsetning plöntunar breytist og þar með getur einhver eiginleiki sem genin hafa áhrif einnig breyst (fræin verða þolin gagnvart skordýraeitri eða þyngd þeirra eykst um 0.001 g).

Hér með óska ég eftir almennilegri skilgreiningu á hættunni sem stafar af erfðabreyttum lífverum!

Hvað haldið þið að gerist ef erfðabreyttar plöntur dreifast út í náttúruna?

Jón Bjarnason virðist vera að bregðast við þrýstingi frá hagsmunahópum. Lífræni, hráfæðis, heilsuiðnaðurinn er vissulega minni í sniðum en hefðbundinn matvælaframleiðsla, en þeirra sölumennska gengur mikið til út á að kasta rýrð á venjulegan mat, og selja síðan þeirra sérútbúnu töfralausn (hvort sem hún er Acai-berjablanda, Ópal úr hvönn eða vallarfoxgras-vellingur í kældu staupi). Rökvillan er sú að, jafnvel þótt að neysluvenjur nútímamannsins geti kynnt undir "velmegunarsjúkdóma" þá er alls óvíst að "töfralausnin" færi fólki nokkra bót. Í mörgum tilfellum hefur verið sýnt að bætiefni hafi engin, eða jafnvel skaðleg áhrif (E - vítamín t.d.).

Gamaldags einfalt matarræði (blanda ávaxta, kornmetis og dýraafurða), hófsemi og hreyfing er hins vegar  erfiðari pakki að selja. Því er mikilvægt (fyrir heilsuspekúlantana) að flækja hlutina, þyrla upp ryki og vekja hræðslu, og vera síðan með bækur, snældur, diska, pillur, hálsklúta, eyrnakerti, kristalla, blóðögðuhúðflúr og HIV-drepandi sinnepssmyrsl fyrir forhúðina til sölu fyrir "sanngjarnt" verð*. 

Snúum okkur aftur að spurningunni "Hvað haldið þið að gerist ef erfðabreyttar plöntur dreifast út í náttúruna?"

Mitt svar er: ekki neitt.

Erfðabreyttar plöntur þurfa að berjast fyrir tilvist sinni eins og aðrar plöntur. Langflestar plöntur sem notaðar eru til ræktunar eru "bæklaðar" af ræktun fyrir ákveðnum eiginleikum, og þurfa að treysta á inngrip mannsins til að lifa af á akrinum. Ef maðurinn hyrfi af jörðinni er lang-lang-lang líklegast að rætkunarplöntur okkar (og þar með þær erfðabreyttu) hyrfu á nokkrum kynslóðum, þegar illgresi, tré og aðrar plöntur ryddust inn á akra okkar og tún.

Sojabaunaplanta sem hefur verið erfðabreytt og í hana sett gen sem gerir hana þolna gegn illgresiseyði er jafn illa stödd og venjuleg sojabaunaplanta sem notuð er í ræktun. Nema þegar viðkomandi illgresiseyði er sprautað.**

Ef við gerum ráð fyrir versta tilfelli (það eru mjög mörg EF á þeirri leið) gæti orðið til eitthvað illgresi sem myndi vaða yfir allt og þola allar gerðir illgresiseyða.

Illgresi þyrfti að ná mjög umtalsverðri útbreiðslu til að verða að einhverri hættu, því það eru ekki til neinar tveggja metra háar plöntur sem ganga og slá niður fólk með eitruðum fálmurum (sbr. The Triffids). Illgresi er til trafala, en það ógnar ekki heilsu fólks eða lífi. Ágengar tegundir ógna líffræðilegum fjölbreytileika, en myrða ekki fólk í húsasundum.

Ef versta tilfelli verður að veruleika, og illgresiseitrin virka ekki á hina "hættulegu" plöntu þá er tilvist okkar stefnt í voða, sjálfvirðing okkar og tign væri horfin því við gætum þurft að gera dálítið skelfilegt.

Krjúpa og reyta arfa.

*Sanngjarnt þýðir að þú fáir laun fyrir það erfiði að búa til virkilega flókna þjóðsögu og "heilstæða" heilsumynd.

Viðbót (gleymdist í fyrstu útgáfu pistils)

** Bandarískar rannsóknir hafa fundið dæmi um erfðabreyttar plöntur í náttúrunni. Nýverið fundust í vegkanti (þ.e. náttúrunni) erfðabreyttar Canolaplöntur - sem eru þolnar gagnvart Roundup - algengum illgresiseyði. Fjallað er um þetta í frétt NY Times Canola, Pushed by Genetics, Moves Into Uncharted Territories. Miðað við andstöðuna við erfðabreyttar plöntur er viðbúið að þessi tíðindi veki upp ákveðna móðursýki, og því fannst mér mikilvægt að ræða þetta mál áður en tilfinningarnar taka völdin.

Leiðrétting: Í fyrstu útgáfu stóð Krjúpa niður og reyta arfa. Ég veit ekki um neinn sem krýpur upp.

Eldri pistlar um erfðabreyttar lífverur:

Rangfærslur um erfðabreytt bygg

Nánar um rangfærslur um erfðabreytingar

Umræða um erfðabreyttar lífverur

Erfðabreyttar lífverur, efasemdum svarað

Kæra fjölskylda


mbl.is Skylda að merkja sérstaklega erfðabreytt matvæli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já, en ef erfðabreyttir fiskar ganga á land og erfðabreyttast í fjörfætlinga sem erfðabreyttast í fremdardýr og erfðabreytingar valda því að menn verða til og þeir eyðileggja jörðina! Hvað þá?

Betri polymerasa, það er það sem við þurfum! 

PHP (IP-tala skráð) 11.8.2010 kl. 09:06

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk PHP fyrir frábært innslag.

Ef...þá verðum við að stefna náttúrulögmálunum og hendingunni fyrir að gera okkur svona gölluð úr garði. 

Ég held að þú sért komin með slagorð á stuttermabol, eða skilti sem viðra má á Austurvelli.

Arnar Pálsson, 11.8.2010 kl. 09:34

3 Smámynd: Morten Lange

Sæll Arnar,

Umræða um þessi mál eru nauðsýn, og eðlilegt að fólk hafi ólíka sýn. Það er líka eðlilegt að fólk með sérfræðiþekkimh og menntun telji sér hafa mesta vitið.  En margir segja að alvöru viska felist í því að viðurkenna hversu lítið maður veit fyri visst, og vera opinn fyrir rökum sem stangast á við viðtekin sannindi.

Mig langar að líma inn athugasemd  sem ég setti við bloggfærslu Dofra.  Snýr að hluta að umræðna um ORF, og kannski er það bara við hæfi. 

-------------

(...)

En í málinu um erfðabreyttar plöntur held ég að það þurfi klárlega að fara með gát.  Það er svo mikið í húfi.  Og vísindamenn eru langt frá því að vera sammála um að það sé ráðlegt að "sleppa" erfðabreyttar plöntur (út í / eða við náttúrunni) .  Orðalagið sleppa kemur úr opinberri málnotkun á þessu sviði, bara svo það sé haldið til haga. 

Ég hvet alla sem hafa minnsta áhuga á efninu að kíkja á :

http://www.twnside.org.sg/title/gmo-cn.htm

http://www.i-sis.org.uk/FAQ.php 

http://video.google.com/videosearch?q=vandana%20shiva%20gmo

En það er sennilega þannig að upphrópanir um ORF sem miða við reynslu af meðal annars Monsanto, eiga varla við.  Menn eru að fullyrða hlutir sem virðist ganga of langt.  En það er ekki í anda leitar að sannleikanum að afskrifa stóru meginsjónarmiði vegna þess að sumir af þeim sem eru að tala mál þess, séu að standa sér illa, eða jafnvel ýkja hlutina.  Í leit að sannleika á maður að leita að bestu rökunum og mótrökunum ekki þeim lélegustu. 

Já það er nóg af verðugum verkefnum, og fræðsla um GMO / erfðabreyttar lífverur er eitt af því mikilvægara. 

Þetta er pínulítið á handahlaupum hjá mér , en hér er að lokum smá úrdráttur úr FAQ -greininni :

"The process of insertion is uncontrollable and entirely random. The genetic engineer cannot yet target the insert to a specific site in the genome, nor preserve the intended structure of the insert itself. This results in many unpredictable and unintended effects. Depending on where in the genome and in what form the foreign genetic material is inserted, the resultant GMO will have distinctly different properties. The insert could jump into a gene of the host and disrupt its function, or the strong promoter signals in the construct could lead to inappropriate over-expression of host genes."

-----

Svo að lokum : Telur þú ekki eðlilegt að fólki fái að taka upplýsta ákvörðun um hvort það vilji leggja sér erfðabreytt  fæði til munns, eins og er í ESB og að manni skilst með enn strangari reglum í Noregi ? 

Morten Lange, 12.8.2010 kl. 10:55

4 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæll Mortein, takk fyrir innslagið

Auðvitað geri ég mér grein fyrir því að margir fræðimenn hafa rangt fyrir sér. Þess vegna reyni ég að ræða málin í grunnatriðum, og rökstyðja ályktanir mínar. Og ég tek undir orð þín

Í leit að sannleika á maður að leita að bestu rökunum og mótrökunum ekki þeim lélegustu

Það er það sem ég reyndi (að hluta) í greininni hér að ofan, að lýsa verstu mögulegu útkomu.

Auðvitað er það staðreynd að viska felur bæði í sér að vita og að vita hvað það er sem maður veit ekki.

Önnur staðreynd, það sem maður veit ekki skaðar mann ekki, en það sem maður veit (en er rangt) getur leitt til algerra óskapa (fræg tilvitnun, illa þýtt og umorðuð).

Það er líka staðreynd að þeir sem vita minnst eru með minnsta hæfileika til að meta eigin fávisku, og visku annarra.

Varðandi athugasemd þína:

En í málinu um erfðabreyttar plöntur held ég að það þurfi klárlega að fara með gát.  Það er svo mikið í húfi

Nákvæmlega hvað heldur þú að sé í húfi? Hver er hættan? Hvers vegna er umræða um GMO verðugari en umræðan um NMR-einhverfu lygavefinn, ofnotkun Ritalíns hérlendis eða um hættuna sem sálarlífi álftarinnar stendur af dægurtónlist frá Hull.

Varðandi FAQ - greinina, þá er parturinn sem þú vitnar í alveg réttur. Þegar við erfðabreytum lífverum þá vitum við ekki hvað gerist. Þetta á bæði við um hefðbundnar og óhefðbundnar (erfðatækni) aðferðir við ræktun. Þegar Mayar og Aztekar völdu fyrir stórum maískólfum vissu þeir EKKERT um gen, DNA eða þær einstöku breytingar sem jukust í tíðni í maísstofninum. Niðurstöður þeirra voru  "unpredictable" og áhrifin "unintended effects".

Þessi rök um ófyrirsjáanleg áhrif af gjörðum mannana dugir ekki sem regla til að meta hættuna af nýrri tækni. Við verðum að framkvæma tilraunir og meta áhættuna.  Það hefur verið gert og hún virðist vera hverfandi.

Það er mikilvægt að taka upplýstar ákvarðanir um vafamál. En það er einnig mikilvægt að skilgreina hvaða mál eru mikilvæg og hver ekki. Ekki viljum við eyða formúgu, mannárum og andlegum þrótti fjölda fólks í að ræða þá sérkennilegu tilgátu mína að tónlist The Housemartins (sem voru frá Hull) leiði til andlegrar depurðar hjá álftinni!

Arnar Pálsson, 12.8.2010 kl. 16:41

5 Smámynd: Arnar Pálsson

Illa þýdda tilvitnunin átti að koma til skila inntakinu í tilvitnun úr Darwin

“False facts are highly injurious to the progress of science, for they often endure long; but false views, if supported by some evidence, do little harm, for every one takes a salutary pleasure in proving their falseness."

Arnar Pálsson, 12.8.2010 kl. 16:43

6 Smámynd: Morten Lange

Takk fyrir ansi málefnalegt og jákvætt svar, Arnar.

Mér finnst reyndar að þú sért að bera saman tvennu sem er mjög ólíkt og segja að sömu hljótiað gilda fyrir báða (gróft séð).

Það sem er gert þegar menn ( í gegnum aldirnar) hafa kynbætt nytjaplöntur, er ferli sem liggur ansi nálægt því sem hefur þróast / viðgengist í náttúrunni í miljónum ára.  Erfðatæknin er glæný, það er enginn mjög stutt reynsla af henni í samamburð, og hún er sem sagt miklu róttækari og hraðskreiðari breyting hvað varða ferlin og breytingarnar á frumunum. Við erum að "brúa"  bíl á milli tegunda sem gátu aldrei átt afkvæmi, og pörum saman genum sem mundu ekki geta þróast með kynbætur. ( Að ég tel)  Auk þess erum við mannfólkið þegar búnir að breyta svo miklu, og ég tel að sumar af þessum breytingum geta hlaðist ofaná hvort öðru. 

Nýlegt dæmi frá öðru sviði : Skógareldar í Rússlandi hafa verið, loftslagsbreytingar hafa verið, kjarnorkuver hafa verið,  en gerum þá öflugara ( Í tilfelli kjarnorkuversins: veikara vegna aldurs, lélegu viðhaldi ofl. ) og pörum þeim saman, og við getum hugsanlega fengið banvæna blöndu. 

Næ ekki að skrifa meira núna, en spyr aftur hver afstaða þín sé til þess sem frétt mbl.is sem þú tengdir í  ( um merkingu á matvæli með GMO)  sé.

Morten Lange, 12.8.2010 kl. 17:16

7 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæll aftur Morten

Ég hef rökstutt áður þá ályktun mína að erfðabreytingar með líftækni og erfðabreytingar með gamaldags eða hefðbundinni ræktun eru ekki í eðli sínu ólík ferli. Í báðum tilfellum erum við að nýta erfðabreytileika en munurinn liggur bara í því hvaðan hann er sóttur.

Í hefðbundinni ræktun, eins og hún varð í kjölfar þess að lögmál Mendels og stofnerfðafræðinnar urðu ljós, er notast við erfðabreytileika í stofnum, undirtegundum og stundum skyldum tegundum. Hefðbundna ræktunin hefur líka notast við samruna á milli fruma fjarskyldari tegunda, til að flytja erfðaefni á milli tegunda. Slíkar aðferðir eru ómarkvissar, en geta flutt gen á milli tegunda, jafnvel mjög fjarskyldra tegunda.

Þannig það er ekki rétt að erfðatæknin brúi bil sem venjulegir ræktendur komast ekki yfir. Munurinn er bara sá að erfðatæknin er nákvæmari (markvissari) - þú flytur þau gen sem þú vilt flytja, ekki önnur gen.

Að auki eru fjöldamörg dæmi um að náttúran sjálf brúi þetta bil. Hliðlægur flutningur gena (horzontal gene transfer) gerist af sjálfu sér. Hann er mörgum sinnum algengari í bakteríum en heilkjörnungum, fjölónæmir sýklar eru einmitt tilkomnir á þennan hátt. Það eru samt sem áður dæmi um flutning gena á milli eða inn í heilkjörnunga, með veirusýkingum, stökklum og öðrum ferjum.

Erfðatækni er ekki ónáttúruleg, frekar en það að vökva plöntur í gróðurhúsi er ónáttúrulegt.

Varðandi skógarelda og kjarnorkudæmið.  Ég geri ráð fyrir að þú sért að segja að samspil þátta getur haft óæskilegar afleiðingar. Í dæminu þínu eru skógareldar vandamál, og kjarnorkuver eru ákveðið vandamál. Ég lít svo á að erfðabreyttar lífverur séu hvorki vandamál fyrir umhverfið né fyrir heilsu fólks. Ef þú telur að svo sé, þá bið ég þig um að tilgreina nákvæmlega hvað þú heldur að sé vandamálið við erfðabreyttar plöntur.

Ég verð að biðja þig um að útskýra síðustu spurninguna aðeins betur.

Arnar Pálsson, 13.8.2010 kl. 14:02

8 identicon

Held að hann eigi við spurninguna:

Viltu eða viltu ekki að erfðabreytt matlvæli séu sérmerkt í verslunum?

Jóhannes (IP-tala skráð) 13.8.2010 kl. 16:42

9 Smámynd: Morten Lange

Takk. Ágætis umræða.

Tek fyrir nokkrum punktum :

1. Þú segir :  "Munurinn er bara sá að erfðatæknin er nákvæmari (markvissari) - þú flytur þau gen sem þú vilt flytja, ekki önnur gen."  ( mín áhersla )

Ekki er það eini munurinn ?  Mætti ekki telja upp amk 3-4 önnur atriði ( sum koma fram hérna fyrir neðan ) 

2.  Tek undir að þetta sé er ekki svart og hvítt, hvað varðar færsla gena á milli tegunda í náttúrunni og með erfðatækni. Ég hef fyrir nokkru gert mér grein fyrir því. En samt held ég að megi segja að það sé munur hvað varðar hraða þróuninnar, og  hugsanlega umfangið sem þetta "óvenjulega" er að gerast í, hvað varðar akkúrat þær plöntur sem við leggjum okkur til munns. 

3. Stutt og almennt um áhættuna og hvort þetta sé ónáttúrulegt : Erfðabreyttar plöntur eru eitthvað nýtt og að hluta óþekkt stærð, í einhverjum skilningi. Reynslan af þeim er mjög stutt, meir að segja miðað við lífsskeið manna. Ég og margir í líffræði (sjálfur er ég mentaður í eðlisfræði og smá vísindaheimspeki og umhverfisfræði fyrir margt löngu)  eru á því að varkárnisreglan / precautionary principle hafi mjög margt til síns máls. það skiptuir líka máli að ekki "keyra yfir" stórum hópi fólks sem hefur áhyggjur, og sem finnst að þeirra áhyggjur séu ekki teknar alvarlega.

Svo er það líka þannig að röng notkun og meðferð á vatni geti alveg haft alvarlegar afleiðingar. Til dæmis eu suð-vestur-BNA menn í miklum vanda með grunnvatnið. Lítið af því og mengað.  Meðal annars vegna þess að of geyst hafi verið farið í að vökva, bera áburð og nota skordýraeitur. 

Alveg eins og hnivar  geta gert gagn og banað fólki má segja að öll tækni séu tvíeggja sverð.  Við þurfum að umgangast tæknina með varúð, sérstaklega á meðan hún er ný.

4. Ábendingar um sértækar hættur eru í linkunum.   Margt af því snýr að hluta að meðferð tæknina og misbeitingu valds með aðstoð tækninnar ekki síður en beinar ógnir af tæknina sjálfa. 

Þú hlýtur líka að hafa heyrt um margs konar tilraunir sem hafa bent til slæma heilsuáhrifa af GMO fæðis ?  Mig langar aftur að benda á misnotkun á tæknina. Það er í senn ómálefnalegt á vissan hátt að bendla alt GMO við það slæma sem Monsanto og mörg önnur fyrirtæki gera, en að sama skapi eru forsvarsmenn erfðatækni ekki trúverðugar ef þeir hjálpa ekki til með að taka til í "eigin garð", með svipuðum hætti og kirkjan verði ótrúverðug þegar hún ekki tekur á síendurteknum kynferðisafbrotum margra presta.

5. Spurningin í lokin var mjög illa orðuð, og óyfirlesin... Sorrí. 

En í fyrstu athugasend spurði ég með hliðsjónar af frétt mbl.is  sem þú linkar í hér : 

"Telur þú ekki eðlilegt að fólki fái að taka upplýsta ákvörðun um hvort það vilji leggja sér erfðabreytt  fæði til munns, eins og er í ESB og að manni skilst með enn strangari reglum í Noregi ? "

6. Nú hef ég ekki kynnt mér rökfærslu þeirra sem fengu í gegn bann (ekki algjört að mér skilst) gegn útiræktun GMO  í ESB + Noregi.  Getur einhver frætt mig um bestu rök sem voru borin fram  með og á móti ? 

Morten Lange, 13.8.2010 kl. 16:46

10 Smámynd: Morten Lange

Rétt Jóhannes :-)  Vel athugað

Morten Lange, 13.8.2010 kl. 17:02

11 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæll Morten

1. Við getum farið að elta smáorð. Ég var að lýsa afleiðingunum fyrir  erfðasamsetningu stofnsins eða afbrigðisins sem ræktað var og að leggja áherslu á að munurinn væri smávægilegur. Vissulega, það hefði mátt vera nákvæmar orðað hjá mér. En samt, snúðar smakkast eins, hvort sem þeir séu framreiddir með hægri eða vinstri hendi.

2. Hvað á hraði þróunar að koma því við hvernig maturinn smakkast? Það er heilmikill munur á arfgerð kinda, en þetta er allt saman lambakjöt. Ég veit ekki dæmi þess að erfðagalli gerir lamb óætt - en það væri forvitnilegt að vita um slíkt. Ef þú notar erfðatækni til að búa til rollu, og hún er óæt, þá er ekkert vit í að setja hana á markað!

3. Þú segir:

Erfðabreyttar plöntur eru eitthvað nýtt og að hluta óþekkt stærð, í einhverjum skilningi.

Ég sagði að erfðabreyttar plöntur séu EKKI ónáttúrulegar, þótt vissulega sé ólíklegt að þær verði til að sjálfu sér. En það er vegna þess að allar stökkbreytingar eru ólíklegar, líka flutningur á genum á milli tegunda. Stökkbreytingar sem geta aukið hæfni álftarinnar eru líka ólíklegar, en á þróunarlegum tíma hafa slíkar breytingar orðið.

Umorða má setningu þína fyrir allar nýjungar sem maðurinn býr til, lakkrís-sushi, upphækkaða bíla, skyrdrykki o.s.frv... Ég er fylgjandi varúðarreglunni, en það er ekki nóg að vísa til óljósrar hættu. 

Þess vegna kallaði ég eftir skýrum hugmyndum um hættuna af erfðabreyttum lífverum...og hef enga fengið.

Þú segir:

það skiptuir líka máli að ekki "keyra yfir" stórum hópi fólks sem hefur áhyggjur, og sem finnst að þeirra áhyggjur séu ekki teknar alvarlega.

Ég er fylgjandi málfrelsi og vil ekki keyra yfir neinn. En ég vil fá að heyra nákvæmlega hverjar áhyggjurnar eru! Það er ekki nóg að vísa í að fólk hafi áhyggjur, og að áhyggjur einhverns hóps sé nóg til að útiloka beitingu ákveðinnar tækni. 

Ímyndum okkar að 1000 íslendingar tryðu þeirri dellu að dægurtónlist (frá Hull eða annarstaðar) leiði til andlegrar depurðar hjá álftinni. Eigum við þá að banna dægurtónlist, á meðan frekari rannsóknir fara fram?

4. Hætta af tækninni. Þú segir:

Þú hlýtur líka að hafa heyrt um margs konar tilraunir sem hafa bent til slæma heilsuáhrifa af GMO fæðis ? 

Ég hef ekki séð neitt birt í ritrýndu tímariti sem sýnir að GMO plöntur séu verri en aðrar plöntur til neyslu. Það hafa birst "hræðslufréttir" - iðullega byggðar á takmörkuðum gögnum, sem síðan hafa ekki reynst áreiðanleg eða hreinlega rangtúlkuð.

Þú eyðir mestu púðri í að ræða misnotkun tækninar. Erfðafræðingar ræddu ítarlega mögulega hættu af erfðatækni, þegar tæknin kom fram á sjónarsviðið. Þá skortir ekki siðferðisvitund. Erfðatækni nýtist á marga vegu, og það er ekki hægt að hengja vísindamenn fyrir að útbúa tækni sem einhver iðnjöfur misnotar. Ef eitthvert séníð ákveður að nota frútínu í eitursprengjur, þá mun enginn stefna mjólkursamsölunni.

5. Takk fyrir að umorða spurninguna. Ég tel enga þörf á því að merkja matvæli sérstaklega sem innihalda erfðabreyttar plöntuafurðir, ekki frekar en ég tel nauðsynlegt að vita hvort grasið sem mjólkurkýrnar nærðust á var slegið með Fendt eða Massa Ferguson.

6. Ég hef ekki lesið röksemdafærsluna sem lá að baki þessari ákvörun. En mér finnst vísindamenn hafi sýnt mikið langlundargeð gagnvart þessum umkvörtunum, og gefið gagnrýninni of mikið vægi, líklega í pólitísku skyni (það er vilja ekki skaða ímynd sína með því að taka afgerandi afstöðu með GMO). Mig grunar að ákvörðunin sem var tekin af ESB sé aðallega til að verja evrópskan landbúnað fyrir amerískri samkeppni.

Arnar Pálsson, 16.8.2010 kl. 15:51

12 identicon

Ég vil aðeins blanda mér í umræðuna ef ég má. Ég er ekki líffræðingur þannig að ég er ekki sérfræðingur í þessu sviði þó ég hafi fylgst með þessar umræðu með áhuga. Ég held að Arnar hafi ekki nógu gott ímundarafl til þess að sjá hvaða slæmu afleiðingar erfðabreyttar lífverur geta haft. Ég vil taka það fram að ég hef engar stórar áhyggjur en sem komið er af þessari tækni.

Nú hefur fyrirtæki á íslandi ræktað erfðabreytt bygg ef ég man rétt sem framleiðir eitthvað hormón, eða lyf. Ég hef ekki stórar áhygjjur af því. En ímyndum okkur ef eitthvað fyrirtæki fer að framleiða lúpinu sem framleiðir íbúfen (eða eitthvað annað sem við viljum að dreifist ekki í náttúrunni). Ef lúpina sleppur út í náttúruna þá gæti það haft slæmar afleiðingar. Þó þessi erfðabreytta lúpina (eða ónáttúrulega lúpinan eins og einhver gæti orða það:) myndi ekki ryðja annari lúpinu úr vegi þá gæti hún samt átt sér sinn stað í náttúrunni og þar með mengað vatn með íbúfeni.

 Það getur verið stór munur á kynbótum og erfðabreytingum. Hefur Arnar engar áhyggju ef við erum t.d. að færa erfðaefni úr dýrum yfir í plöntu, eða milli mjög óskyldra tegunda. Ég spyr sérfræðingin, er engin hætta á að það get leitt til að sjúkdómar fari milli tegunda sem hefði annars ekki gert það?

Það er kannski rétt að það eru ekki miklar líkur á að eitthvað slæmt gerist, en ef það gerist þá er kannski ekki aftur snúið. Það er því miður oft þannig að umhverfisverndarsinna máli skrattan á veggin vegna þekkingarleysis, en það kemur einnig fyrir að andstæðingar þeirri geri of lítið úr hættunni eins og mér sýnist Arnar gera.

En sem komið er hef ég ekki séð ástæður til að óttast það að borða erfðabreyttan mat og geri það líklegast í einhverju magni. Ég myndi hinsvegar forðast hann því það eru góðar líkur Monsanto græði á því. En ég gæti alveg eins leyft mér að versla við siðblindan fjöldamorðingar (kannski Hitler) eins og versla við það fyrirtæki, ef ég má taka dálítið sterkt til orða :).

Gísli Jónsson (IP-tala skráð) 17.8.2010 kl. 10:27

13 Smámynd: Arnar Pálsson

Vertu velkominn Gísli

Þú segir:

Ég held að Arnar hafi ekki nógu gott ímundarafl til þess að sjá hvaða slæmu afleiðingar erfðabreyttar lífverur geta haft.

Ætli þetta sé ekki mitt vandamál, að vera of jarðbundinn þegar líffræði og erfðafræði er annars vegar. Mér finnst of mikið að við þurfum að sérprenta umbúðir vegna þess að fólk gefur ímyndunaraflinu lausan tauminn.

Dæmið sem þú dregur upp er vissulega forvitnilegt. Ef við breyttum plöntu þannig að hún framleiði virk eða eitruð efni, værum við þá í einhverjum vanda. Í fyrsta lagi finnst mér ólíklegt að einhver myndi vilja nota plöntu til að framleiða Ibúfen eða arsenik. Í öðru lagi þá er fullt af eitruðum plöntum í náttúrunni, þær framleiða ótrúlegt magn virkra og eitraðra efna, sem við pössum okkur á að borða ekki! Það er ástæðan fyrir því að fólk borðar ekki fræ af Gullregni og sýður kartöflur!

Þú spyrð um afleiðingar erfðabreytinga

er engin hætta á að það get leitt til að sjúkdómar fari milli tegunda sem hefði annars ekki gert það

Auvitað er aldrei hægt að segja að það sé ENGIN hætta. En eins og þú segir, þá er hún að öllum líkindum mjög litil.

Spurningin er hversu slæmt er slæmt?

Í pistlinum mínum dró ég upp slæmar afleiðingar, sem ég tel samt vera aðleysanlegt vandamál.

Þú segir:

en það kemur einnig fyrir að andstæðingar þeirri geri of lítið úr hættunni eins og mér sýnist Arnar gera.

Mér þætti vænt um að þú rökstyddir þessa ályktun.

Þú segir um erfðabreyttan mat:

Ég myndi hinsvegar forðast hann því það eru góðar líkur Monsanto græði á því.

Þetta eru þá siðferðileg rök, en ekki læknisfræðileg (GMO matur er hættulegur heilsu) eða vistfræðileg (GMO lífverur eru hættuleg umhverfinu). Það má e.t.v. færa siðferðileg rök fyrir merkingum á fæðu, en sanngirnissjónarmiðið krefst þess að eitt þurfi yfir alla fæðuframleiðendur að ganga. Þú þyrftir að útbúa kerfi sem leggði mat á siðferðilega einkunn fæðutegunda, (framleiðenda, starfsfólks, fyrirtækja sem selja matvælaframleiðendum tæki, vörur, hráefni, eiturefni, umbúðaframleiðendur, flutningafyrirtæki, verslanakeðjur og sorpfrágang o.s.frv.). Gangi þér vel.

Annars virðist fólk ekki hugsa mikið um siðferðilega þáttinn þegar það er að versla. Við kaupum heilmikið af ódýrum vörum frá einræðisríkjum (Kína þar efst á blaði), notum bensín (olíuvinnslunar eyðleggja náttúruna - það er staðreynd, ekki eitthvað sem við þurfum að ímynda okkur), kaupum plast í löngum bunum (þrátt fyrir þá staðreynd að það eyðist ekki í náttúrunni og safnast upp, lífríkinu til ama)...og svo mætti lengi telja.

Mér finnst fólk beina kröftum sínum í ranga átt þegar það er að agnúast út í erfðabreyttar lífverur. Það er nóg af raunverulegum ógnum, sem steðja að vistkerfum, heilsu fólks og umhverfinu í heild. Getum við ekki sameinast um þau verkefni frekar en að elta ímyndanir?

Arnar Pálsson, 18.8.2010 kl. 12:22

14 Smámynd: Morten Lange

Tilvitnun

"Þú segir:

 en það kemur einnig fyrir að andstæðingar þeirri geri of lítið úr hættunni eins og mér sýnist Arnar gera.
Mér þætti vænt um að þú rökstyddir þessa ályktun."

Lúpinu-dæmið ?  Ekki búið að "afgreiða" það.

Eða segjum gras eða bláber  með lúmsku eitri með langtíma-áhrif ?

Morten Lange, 20.8.2010 kl. 00:07

15 Smámynd: Arnar Pálsson

Morten

Ég bað Gísla um að rökstyðja þá skoðun sína að ég geri of lítið úr hættunni af erfðabreyttum lífverum.

Varðandi lúpínudæmið, þá getum við alveg ímyndað okkur alls konar hluti. Ibufen er lyf með virka efninu ibuprófen. Það fer eftir því hversu mikið er af efnum í náttúrunni hvort það sé skilgreint megnun eða ekki. Blý, kvikasilfur og geislavirkar sameindir finnast víða, en bara í mjög LITLU magni. Það verður ekki mengun fyrr en það verður í mjög miklu magni, og á greiðan aðgang að vatnsbólum eða inn í fæðukeðjuna.

Ef þú setur fram ímyndað dæmi sem slíkt, vil ég biðja þig um að reikna út hversu mikið af íbúprófeni þurfi að vera í grunnvatni til að hafa líffræðilegáhrif á menn. Hversu margar erfðabreyttar lúpínuplöntur þurfa að vera í nágrenni Gvendarbrunna til að "menga" vatnsból borgarbúa?

Ég vill leggja áherslu á að plöntur, þar á meðal lúpínur, framleiða NÁTTÚRULEGA efni sem virka eins og eitur á dýr, þar á meðal okkur. Við tökumst á við það með því að beita skynsemi, og borða ekki eitraðar plöntur. Eins forðumst við að borða krækling sem hefur borðað of mikið af eitruðum þörungum o.s.frv.

Arnar Pálsson, 20.8.2010 kl. 11:10

16 Smámynd: Morten Lange

Arnar, ég hef verið upptekin ní öðru, og svo fór ég að efast um tilganginn við að reyna að rökræða við þig.  Min tilfinning var að þú værir frekar í kappræðum en rökræðum og leit að sannleika. ( Ég veit... sannleiki er eiginlega of stórt orð) Vonandi hafi ég rangt fyrir mér, bæði v. hættur af GMO og hversu opin huga þú hefur í þessum efnum.

En hér er smá tilvitnun (á ensku) sem ég var að sjá á netinu :

off topic, but there are various legitimate scientific concerns re GM:

1) genes move across species and kingdoms to some degree but the more we move genes artificially from eg: bacteria to plants, the more we risk uncontrolled movement of eg: herbicide resistance genes into unexpected species, populations etc

2) there has been work done by CSIRO that shows that a protein expressed in one organism can express differently (in this case causing lung problems) in another species

3) at least in the past antimicrobioal resistance was used for selecting transformed cells. These resistance genes stay put, and may contribute to the development of antibiotic-resistant super bugs.

Just a quick taster.

Frá The Guardian / Comment is Free

Morten Lange, 26.8.2010 kl. 09:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband