Leita í fréttum mbl.is

Erindi: Eitt um nýru, annað um skemmdan fisk

Að minnsta kosti tvö erindi af líffræðilegum toga verða nú vikunni.

Fimmtudaginn 14. janúar verður fyrirlestur um nýrnasjúkdóma á vegum Læknadeildar og GPMLS (miðstöð framhaldsnáms í lífvísindum). Læknagarður 3.hæð, kl 11:15. Erindið flytur Dr. Karl Tryggvason, deildarstjóri og prófessor við Karólinsku stofnunina í Stokkhólmi (Department of Medical Biochemistry and Biophysics, Karolinska Institute). Karl leiðir þar stóran og vígalegan hóp fólks, og hefur mörg járn í eldinum. Rauði þráðurinn í rannsóknum hans virðist vera grunnhimna, sem gegnir mikilvægum hlutverkum í mismunandi vefjum. Röskun á grunnhimnu getur leitt til allskonar vandræða, m.a. röskunar á starfsemi nýrna. Fyrirlesturinn heitir, Systems Biology approach to the kidney and its diseases og verður að öllum líkindum fluttur á ensku.

Hinn fyrirlesturinn fer fram 15. janúar, kl 13:00. Um er að ræða doktorsvörn Eyjólfs Reynissonar líffræðings, Breytingar á örverusamfélögum í skemmdarferli fiskafurða. Sameindalíffræðileg rannsókn ásamt þróun hraðvirkra greiningarprófa á sérvirkum skemmdarörverum. Fyrirlesturinn verður í Öskju, náttúrufræðihúsi HÍ. Úr tilkynningu:

Í verkefninu voru skemmdarferlar fiskafurða skoðaðir með notkun sameindalíffræðilegra aðferða til að skoða samsetningu og breytingar á örveruflórunni við geymslu og verkun fiskafurða. Fyrsti hluta verkefnisins beindist að þróun hraðvirkra greiningaraðferða á óæskilegum bakteríum s.s Salmonella og bakteríum sem valda niðurbroti matvæla (skemmdarbakteríur). Með nýju aðferðafræðinni er greiningatíminn styttur úr 3 dögum niður í 5 klst sem getur komið að góðum notum við eftirlit og gæðastýringu í matvælaframleiðslu.

"Skemmdur fiskur" fær mig alltaf til að hugsa til Gaulverjabæjar. Fisksalinn Slorríkur (á ensku Unhygenix og amerísku Epidemix) veigraði sér ekki við að selja þrælúldinn fisk, bara ef hann kom frá Lútetíu. Ryðríkur rann ætíð á lyktina, og eftir fjörugar en stuttar umræður voru málin útkljáð á siðaðann hátt.

Vonandi ákveður einhver sem rannsakar örverur sem valda úldnun fisks að nefna slíkan geril eftir Slorríki? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband