Leita í fréttum mbl.is

Óþægilegar staðreyndir um háskólamál

Hörður Filipusson, prófessor í lífefnafræði við HÍ, skrifaði grein í Fréttablaðið (birt 8 mars 2010), undir fyrirsögninni "Háskólakerfi í kreppu".

Þar leggur hann út frá fyrirhuguðum 25% niðurskurði til Háskólastigsins á Íslandi.

Spurningarnar sem hann setur fram og ræðir eru

Hvað þarf marga háskóla á Íslandi?

Á að sameina ríkisháskólana?

Hvað þarf mörg háskólapláss á Íslandi?

Ályktun Harðar er þessi:

Verði 25% skorin af fjárveitingum til háskóla hlýtur annað hvort undan að láta, magn eða gæði. Flatur niðurskurður rýrir gæði menntunar í öllum skólum og er því óviðunandi lausn. Óhjákvæmilegt verður fyrir ríkið að fækka nemendaplássum og skólum en jafnframt þarf að viðhalda kjarnastarfsemi ríkisháskólanna. Í þeim er að finna frjómagn framtíðaruppbyggingar Íslands.

Það er mikilvægt að stjórnendur og starfsmenn Háskólanna skipuleggi þennan niðurskurð, en sitji ekki stjarfir og bíði fallaxarinnar (eins og dádýr í geisla aðvífandi flutningabíls).

Mikilvægustu markmið háskóla eru kennsla og rannsóknir. Fyrsta krafan hlýtur að vera að vernda þessa kjarnastarfsemi. Ef skera á 20% í kennslu þá á að skera 40% af stjórnsýslu.

Einnig er mikilvægt að nemendur og nemendafélög berjist fyrir gæðum síns náms, en séu ekki bara að eltast við bílastæðagjöld eða aðra smáhagsmunagæslu. Nemendur í háskólum ættu að hafa meiri áhuga á því að útskrifast með gott próf, en hvort þeir hafi efni á 6 eða 10 kippum af bjór þann mánuðinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Davíðsson

Áhugaverð færsla Arnar. Næsta hrun (eða þarnæsta) á Íslandi verður vegna offjárfestingar í menntunarmöguleikum þessarar fámennu þjóðar. Það gæti að vísu verið sóknarmöguleiki í að fá erlent námsfólk hingað sem borgar full skólagjöld. Það er bara ekki alveg að fara að gerast enda njóta íslendingar ókeypis menntunar víða um Evrópu og vandséð hvernig við ætlum að rukka fyrir það sem við fáum ókeypis þar, t.d. í HÍ. 

Allt frá því ég var í háskóla hefur mér fundist hagsmunabarátta stúdenta vera á nokkrum villigötum. Það er sorglegt hvernig fulltrúar stúdenta haga málflutningi sínum varðandi bílastæði.

Það eru til lög sem segja að eigi að tryggja jafnrétti allra til náms óháð efnahag en það eru engin lög sem segja að eigi að tryggja öllum ókeypis bílastæði við háskóla. Í lögum er reyndar ekkert sem segir að ókeypis bílastæði eigi að vera megin mannréttindamál íslensku þjóðarinnar eins og raunin er í dag. Það er hægt að leita að orðum í lagasafni alþingís og þar geta menn séð að hugtakið bílastæði koma ekki oft fyrir. Frægasta dæmið er í skipulagsreglugerð.

Mynd af töflu í skipulagsreglugerð með kröfum um  fjölda bílastæða. 

Ég hef reynt að spyrja eftir því en ég ekki fundið einn einasta háskóla hvorki vestan hafs né austan þar sem bílastæði eru ókeypis fyrir nemendur en finna má einhver dæmi um það fyrir kennara. Enda minnir HÍ meira á verslanamiðstöð í úthverfi en á háskóla.

Árni Davíðsson, 10.3.2010 kl. 09:54

2 identicon

Í framhaldi af bílastæðaumræðum má nefna að nemendasamtök berjast hatrammlega gegn skóla- og skráningargjöldum hverskonar.  Sú barátta á eftir að koma mjög illa niður á HÍ.  Ef við tökum sem dæmi þá mundi 100.000 króna gjald á 15.000 nema skila 1,5 milljarði til HÍ.  Þetta gjald er ekki hátt í samanburði við margt annað sem nemendum og foreldrum þeirra þykir sjálfsagt að borga.  Flestir nemendur koma í skólann á bíl. Hvað kostar að reka bíl á ári?  Flestir eru með farsíma - hann kostar tugi þúsunda á hverju ári.  Ótrúlega mörg heimili eru með áskrift að stöð 2 en það kostar 84.000 á ári!  Og hversu margir nemendur greiða áskrift að líkamsræktarstöðvum sem eru aldrei undir 30.000 á ári og oftast meira.  það er því ljóst að íslenskum nemendum þykir sjálfsagt að borga bensín og farsímanotkun, en menntun þeirra á á vera ókeypis.  Fá menn ekki alltaf það sem þeir borga fyrir?

MacCarthy (IP-tala skráð) 10.3.2010 kl. 11:51

3 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk fyrir góðan punkt Árni.

Enda minnir HÍ meira á verslanamiðstöð í úthverfi en á háskóla.

Alveg sammála, og manni verður hreinlega flökurt yfir brælunni stundum.

Takk einnig MacCarthy fyrir innleggið.

Þetta gjald er ekki hátt í samanburði við margt annað sem nemendum og foreldrum þeirra þykir sjálfsagt að borga.

Ég er reyndar á báðum áttum með skólagjöldin. Hluta af mér finnst að menntun eigi að vera (næstum) ókeypis, sjálfsögð réttindi allra en ekki bara efnafólks.

Á hinn bóginn finnst mér óréttlátt að HÍ skuli vera í samkeppni við RÍKISSTYRKTA einkaskóla sem rukka veruleg skólagjöld. Það er ekki samkeppni/kapítalismi að mínu skapi.

Einnig á hinn bógin grunar mig að ef nemendur HÍ myndu greiða hófleg skólagjöld, þá myndi það skerpa einbeitingu þeirra í náminu.

Arnar Pálsson, 11.3.2010 kl. 10:19

4 Smámynd: Arnar

Hluta af mér finnst að menntun eigi að vera (næstum) ókeypis, sjálfsögð réttindi allra en ekki bara efnafólks.

Eins og MacCarthy bennti á þá virðast nemar hafa fjármuni og vera tilbúnir að eyða þeim í allskonar 'vitleysu' (sem mér fannst reyndar alveg bráðnauðsynleg þegar ég var í HÍ).  Bara spurning um forgangsröðun og aðhald í peningamálum á samt reynslu að því að velja og hafna væri líka góður undirbúningur fyrir líf eftir skóla.

Einnig opna skólagjöld fyrir 'skilyrta námstyrki', þe. sveitarfélag úti á landi getur styrkt nemendur í td. læknis nám geng því að þeir starfi sem læknar í minnst 5 ár í sveitarfélaginu.  Hef heyrt að slíkt fyrirkomulag sé í gangi víða erlendis.

Arnar, 11.3.2010 kl. 11:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband