Leita í fréttum mbl.is

Hin kenning Darwins

Charles Darwin er þekktastur fyrir þróunarkenninguna. Hún felur í sér að allar lífverur á jörðinni séu af sama uppruna og myndi eitt risastórt þróunartré. Darwin og samtímamaður hans Alfred Wallace settu einnig fram hugmyndina um náttúrulegt val, sem útskýrir hvernig lífverur aðlagast umhverfi sínu og breytast í tímans rás. Náttúrulegt val byggist á því að í stofni lífvera eru mismunandi einstaklingar, munurinn á milli þeirra er arfgengur að hluta, og þeirri staðreynd að einstaklingar eignast mismörg afkvæmi (eða lifa mislengi). Þar að auki er barátta fyrir lífinu, og saman tryggja þessar forsendur að í stofni lífvera muni, með tíð og tíma, ákveðnar gerðir veljast fram yfir aðrar og stofninn breytast. Hann lagast að umhverfi sínu.

Hin kenning Darwins er tilbrigði við náttúrulegt val, og byggist á togstreitu á milli kynjanna. Þetta kallaði Darwin sexual selection, sem hefur verið þýtt sem kynjað val eða kynval á íslensku.

Grundvöllurinn er sá að hjá mörgun dýrum er mikill munur stærð kynfruma. Kvendýr búa til fáar stórar kynfrumur en karldýr fleiri og minni. Einnig er algengara að kvendýr sinni ungviðinu. Þar af leiðir fjárfesta kvendýr yfirleitt meira í afkvæmum sínum og kenning Darwins spáir því að kvendýrin séu vandfýsnari á maka en karldýrin. Og sú er raunin.

Einnig spáir kenningin því að togstreita sé milli karldýra og kvendýra eftir frjóvgun, karlávaxtaflugur sprauta t.d. eiturefnum í kvensunar sem dregur úr kynáhuga þeirra (svo þær fari nú ekki að sprella með einhverjum örðum köllum - flugur geta geymt sæði í nokkra dag og helst það merkilega ferskt).

Í náttúrunni þekkjast nokkur dæmi þar sem karldýrin fjárfesta meira en kvendýrin, sæhestarnir og hornsíli eru kannski þekktust. Kenning Darwins um kynjað val spáir því að við slíkar kringumstæður, þá kjósi karldýrin maka af meiri kostgæfni, en kvendýrin hegði sér meira eins og "venjuleg" karldýr.

Sæhestar og pípufiskar geta borið nokkur egg í sekk sínum, og alið þannig fyrir nokkrum afkomendum í einu.

800px-Green_pipefish

Það sem Kimberly A. Paczolt & Adam G. Jones sýndu í grein sinni (og ljómandi myndbandi) var að karldýrin eru ekki bara að velja kvendýr, heldur velja þeir einnig að fjárfesta minna í að ala upp egg kvendýra sem þeir telja "minna spennandi". Í þeirra tilfelli eru stærri kvendýr spennandi en rýrir og litlir fiskar ekki (dálítið á skjön við sýn ritstjóra Vogue).

Mynd af wikimedia commons.


mbl.is Karlarnir sjá um meðgönguna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég hélt þú ætlaðir að tala um Pangenesis þegar ég las fyrirsögnina. Þetta er nú meira svona undirkenning við þróunarkenninguna.

Annars er gaman að  geta þess að hornsíli og sæhestar frekar skyldar tegundir. Eru af sama ættbálki held ég (Gasterosteiformes).

Það er mikill fjölbreytileiki í foreldraumönnun í þessum ættbálki og oft er það hængurinn sem sér um uppeldið. Held að það sé allur skalinn til í þessu hjá hængunum frá því að verja hrognin upp í það að ganga með þau í poka.

Jóhannes (IP-tala skráð) 20.3.2010 kl. 01:33

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæll Jóhannes

Ég játa að titillin var ekki mjög nákvæmur. Darwin setti fram kynjað val sem ferli sem virka samhliða náttúrulegu vali. En þú veist líklega jafnvel og ég að nútildags er litið svo á að kynjað val sé sértilfelli af náttúrulegu vali.

Pangenesis er síðan svarti sauðurinn í skrifum Darwins, tilgátan um erfðir sem reyndist þvæla.

Ég vissi ekki um skyldleika hornsíla og sæhestanna, mjög athyglisvert. Það væri gaman að lesa meira um það.....einhver!?!?

Arnar Pálsson, 21.3.2010 kl. 13:06

3 Smámynd: Arnar Pálsson

Davíð Gíslason var með góðan vinkil á þetta mál Hornsíli eru súper pabbar

Kíkið einnig samskipti hans og Jóhannesar.

Arnar Pálsson, 24.3.2010 kl. 16:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband