12.5.2010 | 09:27
Erindi: Litnisumbreytiflókar í gersveppnum
Gen liggja á litningum. Um er að ræða keðjur af bösum (A, C, G og T), sem mynda DNA helixinn (sjá mynd af wikimedia commons). Hvert gen er samasett af röð hundruða eða þúsunda basa. Í ýktustu tilfellunum spanna gen milljónir basa.
Röð basanna ákvarðar eiginleika gensins. Hluti gensins er afritaður í RNA sem er mót fyrir myndun prótína. Hinn hlutinn eru raðir basa sem eru nauðsynlegar til að RNA sé myndað, á réttum tíma og stað í lífverunni. Þetta eru stjórnraðir.
Heilkjörnungar eru einnig með aðra leið til að stýra afritun og þar með tjáningu gena. Þeir pakka erfðaefni sínu í litni, sem bæði minnkar umfang þess og gerir það óaðgengilegt ensímum sem afrita DNA (svokölluðum RNA fjölliðurum). Þetta er ekki varanlegt ástand því fruman er einnig með ákveðna leið til að opna og pakka saman litni. Það eru svokallaðir litnisumbreytiflókar, kallaðir flókar af því að þeir innihalda mörg mismunandi prótín sem vinna saman.
Katrín Briem mun síðdegis halda fyrirlestur um meistaraverkefni sitt, sem fjallaði einmitt um þessa flóka, sem stýra m.a. aðgengi RNA fjölliðaranna að DNA og þar með afritun (einnig kallað umritun - transcription).
Fyrirlesturinn "Litnisumbreytiflókar í gersveppnum Schizosaccharomyces pombe" verður kl 16:00 í stofu 132 í Öskju, sbr tilkynningu:
Gott aðgengi að genum er hornsteinn genatjáningar í heilkjörnungum og nauðsynlegt til að umritun geti átt sér stað. Svo að gen verði aðgengileg þarf að opna litnið og breyta byggingu þess. Þessum breytingum er stjórnað af ýmsum ensímum sem yfirleitt starfa sem hlutar af stórum próteinflókum, svokölluðum litnisumbreytiflókum. Eftirmyndun DNA, eftirlit með varðstöðum og viðgerð á brotnum litningum er einnig háð því að gen séu aðgengileg. Margir litnisumbreytiflókar hafa verið skilgreindir í ólíkum lífverum, t.d. mönnum, ávaxtaflugunni og gersveppnum Saccharomyces. cerevisiae. Þessir flókar hafa ekki verið skilgreindir gersveppnum Schizosaccharomyces pombe en
S. pombe er mikilvæg tilraunalífvera og er mjög fjarskyld S. cerevisiae. Markmið verkefnisins var að skilgreina litnisumbreytiflókana INO80, SWR1 og NuA4 í gersveppnum S. pombe.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Erindi og ráðstefnur | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Athugasemdir
Gaman að þessu.
Dingli, 12.5.2010 kl. 10:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.