Leita í fréttum mbl.is

Endurvinnsla mótefna

Ónæmiskerfi okkar búa yfir margskonar leiðum til að finna og drepa sýkla. Mótefni (antibody) gera líkamanum kleift að greina muninn á sínum eigin frumum og framandi lífverum. Við sýkingu fjölgar framandi lífvera, t.d. baktería af gerðinni Staphylococcus aureus, sér í líkamanum. Frumur ónæmiskerfisins framleiða mótefni af næstum því óteljandi mismunandi gerðum, og einhver þessara gerða getur bundist yfirborði bakteríunar. Þær frumur sem bindast best við bakteríuna fjölga sér rækilega og hjálpa líkamanum að vinna bug á sýkingunni. Þegar sýkingin er um garð gengin tekur frumum sem mynda nákvæmlega þessa gerð mótefna að fækka, en þær verða samt aldrei jafn sjaldgæfar og þær voru í fyrir sýkingu. Það leiðir til þess að næst þegar þetta afbrigði Staphylococcus aureus "reynir" að sýkja viðkomandi getur líkaminn hrundið árásinni. Líkaminn er ónæmur fyrir viðkomandi bakteríustofni.

Þetta er kennslubókarútgáfan af ónæmisfræði, en í raun eru rannsóknir í faginu komnar miklu miklu lengra. Einn þeirra sem stundar rannsóknir á þessu sviði er líffræðingurinn Gestur Viðarsson. Hann starfar við Amsterdam háskóla (Dept. Experimental Immunohematology  Sanquin Research, and Landsteiner Laboratory   Academic Medical Center, University of Amsterdam).

Gestur mun halda erindi um rannsóknir sínar fimmtudaginn 15 júlí, kl 16:00 (í stofu 132 í Öskju, náttúrufræðihúsi Íslands). Fyrirlesturinn nefnist  A human IgG3 variant with increased half-life and theraputic potency (ágrip af vef HÍ).

Fjallað verður um (IgG) mótefni, hvernig mótefni eru endurunninn og hvaða
áhrif það hefur á helmingunartíma þeirra í líkamanum. Þetta ferli er mjög mikilvægt, m.a. í lyflækningum þar sem ný lyf eru að ryðja sér á markaðinn sem öll eru byggð á IgG1 sem hefur langan helmingunartíma og góða virkni. Skýrt verður frá því hvernig og afhverju einn undirflokkur mótefna (IgG3), sem hefur almennt betri virkni en IgG1, verður undir í samkeppni í þessu endurvinnsluferli og hefur því stuttan helmingunartíma. Sýnt verður fram á einfalda leið til þess að vinna gegn hröðu niðurbroti þessa undirflokks. Þessa þekkingu er hægt að nota t.d. gegn sýkingum eða krabbameinum, því einfallt og öruggt er að umbreyta IgG1 mótefnum í IgG3 með betri virkni og lengri helmingunartíma. Dæmi um hvort tveggja í mönnum og músum verður kynnt.

Svar Þuríðar Þorbjarnardóttur á vísindavefnum:Hvernig vinnur ónæmiskerfið? Er hægt að verða ónæmur fyrir kvefi?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vendetta

Ef helmingunartími eins og ég skil það, sá tími sem tekur helminginn af ónæmisfrumunum hverju sinni að deyja, ætti þá ekki að standa: "Skýrt verður frá því hvernig og afhverju einn undirflokkur mótefna (IgG3), sem hefur almennt betri virkni en IgG1, verður undir í samkeppni í þessu endurvinnsluferli vegna þess að það hefur stuttan helmingunartíma." ?

Vendetta, 10.7.2010 kl. 12:22

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Vendetta.

Það er örlítill munur á setningunni í ágripinu og útgáfunni þinni, og það skiptir öllu hvað varðar orsakir og afleiðingar.

Í fyrra tilfellinu er styttri helmingunartími IgG1 afleiðing þess að það er ekki endurnýtt í sama mæli og IgG3.

Í því síðara er helmingunartími IgG1 styttir og þess vegna gengur IgG3 betur í endurvinnslukerfinu.

Ég er ekki nægilega sleipur í ónæmisfræði til að vita hvort sé rétt, en veit að himnubundin prótein eins og mótefni er gleypt af frumunni, og sum þeirra endurunnin og send aftur út á yfirborð hennar. Þannig getur fruman nýtt sama próteinið aftur og aftur. Ég veit ekki hvort mótefni sem frumur seyta eru endurnýtt á svipaðan máta.

Arnar Pálsson, 12.7.2010 kl. 13:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband