Leita í fréttum mbl.is

Reykvíkingar athugið - þróun mótar menningu nútímans

Kannski er hægt að tala um fyrirlestraröð, David Solan Wilson hélt fyrirlestur á Akureyri í gær og á morgun mun hann halda fyrirlestur um þróun menningar í sal Þjóðminjasfnsins (kl. 12.10 miðvikudaginn 15. september 2010). Fyrirlesturinn er hluti af stuttu málþingi um "Þróun menningar og framtíð Íslands".

Wilson hefur verið að velta fyrir sér tilurð menningar og hvernig menning og þróun hafa tvinnast saman í sögu mannsins. Þróunarfræðingar hafa hugsað mest um breytingar á tíðni arfgerða, og hvernig eiginleikar stofna breytast samhliða. Ein mesta ráðgátan í líffræði tengist því hvernig erfðabreytileiki leiðir til breytileika í útliti eða atferli einstaklinga? Þetta er erfitt vandamál, því jafnvel þótt við vitum hvers konar prótíni viðkomandi gen skráir fyrir (t.d. amýlasa sem brýtur niður sterkju) þá velta áhrif breytinga í viðkomandi geni á mörgum þáttum (ólífrænu og lífrænu umhverfi, öðrum genum og tilviljun).

Einnig er að verki lögmálið um Emergent properties (hef ekki góða þýðingu á þessu hugtaki því miður). Heppilegast er að lýsa þessu lögmáli með dæmi. Salt er samsett úr Natríum (Na) jónum og klór (Cl) jónum. Þessi frumefni ein og sér hafa vissa eiginleika, en þegar þau bindast saman í NaCl öðlast þau nýja eiginleika. Og síðan eru áhrif saltsins (NaCl) mjög mismunandi, eftir því hvort því sé stráð á dauðann þorsk eða á bragðlauka. Saltið hjálpar til við að afvatna og varðveita hold þorskins, en skapar hressandi kenndir í huga okkar. Það sem á við um saltið á líka við um byggingu frumunnar, eiginleika dýra og samfélaga. Þótt við vitum hvernig einstakir úlfar hegða sér, hlaupa, bíta, borða, pissa og sleikja, þá þurfum við að skoða samspil úlfanna í hópnum til að átta okkur á þeim "emergent properties" sem verða til hjá slíkum hópsálum. Við erum eins og úlfarnir að því leyti að samskipti á milli einstaklinga skipta mjög miklu fyrir velfarnað okkar og sambræðra okkar.

Menn og nokkur önnur dýr geta lært hvort af öðru. Þannig getur píanófærni breiðst út í byggðarlagi, án þess að breyting á erfðasamsetningu stofnsins eigi sér stað. Þess vegna eru engin gen fyrir því að kunna á píanó, en það geta verið til erfðaþættir sem bæta hæfileika fólks til að tileinka sér tónlist.

Án þess að hafa lesið mikið eftir Wilson, þykir mér líklegt að hann ræði hið líffræðilega upplag mannsins og hvernig það hefur nýst okkur á menningarbrautinni. Einnig væri forvitnilegt að vita hvort að vor þróunarfræðilegi arfur sé til einhverra trafalla á öld stórborga og alþjóðavæðingar (globalization).

Úr tilkynningu:

Fyrirlestur Wilsons nefnist Understanding and Managing Cultural Change From an Evolutionary Perspective sem má þýða „að skilja og stjórna menningarbreytingum frá sjónarhóli þróunarfræði“. Innihaldi fyrirlestursins lýsir Wilson svo: „Þróun er oft tengd við genetíska nauðhyggju og er teflt gegn lærdómi og menningu. Samt sem áður hafa
hæfileikar manna til lærdóms og menningar komið fram við erfðaþróun og eru þeir um leið sjálfstæð og opin þróunarferli. Nýjar kenningar í þróunarfræði leitast við að sætta hið margþætta erfðaeðli mannshugans við hæfileika hans til takmarkalausra umbreytinga. Niðurstaðan er sú að nýr grundvöllur er að myndast fyrir fræðilegar rannsóknir á menningu og samfélagslegri stefnumótun. Gildir það jafnt um hið smáa,
eins og að bæta umhverfi í einstökum borgarhverfum, og hið stóra, eins og að endurhugsa hagstjórn.“

Skyldur pistill:

Það þarf erfðamengi til

Athugasemd um titil pistils. Ég ákvað að setja þetta fram sem staðhæfingu, en vitanlega er þetta ennþá opin rannsóknarspurning. Vera má að Wilson rökstyðji hana með ítarlegum dæmum, ég mun uppfæra pistilinn eftir fyrirlestur hans á miðvikudaginn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband