22.9.2010 | 16:21
Skinhelgi kristinna helgimanna
Reynir Harðarsson fjallar um Skinhelgi kirkjunnar sem hefur ótrúlega þétt tak á íslensku þjóðfélagi. Hann segir meðal annars að:
Yfirlýstir trúleysingjar vita mætavel hvaða afleiðingar það hefur að voga sér að gagnrýna stjórnarskrárvarin sérréttindi ríkiskirkjunnar, ofurlaun presta, trúboð í leik- og grunnskólum, sjálfkrafa skráningu barna við fæðingu í trúfélag og fleira.
Ég leyfi mér að fullyrða að almenningur gerir sér enga grein fyrir hvað hann er gjörsamlega gegnsósa af kenningum kirkjunnar og þeim lúmska áróðri sem hún beitir á opinberum vettvangi. Í Vantrú höfum við lengi gagnrýnt kristna trú, kirkju og málflutning kirkjunnar manna. Fyrir vikið höfum við fengið að reyna á eigin skinni andúð kirkjunnar manna og ofurkristinna. Við þekkjum skítkastið, símhringingarnar, slúðrið og áhrif á atvinnu okkar. Meirihluti landsmanna hefur hins vegar litla þekkingu á málstað okkar og málflutningi en trúir líklega tröllasögum hinna helgu manna.
Kannski er ekki von á góðu þegar það er beinlínis kennt í guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands að málflutningur Dawkins og Vantrúar grafi undan allsherjarreglu og almennu siðferði" með því að skerða málfrelsi trúaðra, andmæla almennum mannréttindum, leggja menn í einelti og fordæma minnihlutahópa á borð við gyðinga". Þegar okkur varð þetta ljóst var okkur illa brugðið, og þarf þó nokkuð til. Siðanefnd Háskólans hefur þessa kennslu nú til athugunar.
Á þeim tíma er ég vann við Chicago háskóla sóttum við töluvert í kaffistofu Guðfræðideildarinnar, út af veraldlegum kosti ekki andlegum. Kaffistofan seldi bestu skyndibita á háskólasvæðinu og guðdómlegt kaffi. "Where god drinks coffee" - var yfirskriftin á stuttermabolunum sem þeir seldu, sem er auðvitað argasta guðlast. En það er allt í lagi að því að sagt var á campus að guðfræðideildin við háskólann afkristnaði flesta sem þaðan luku námi. Allavega virðist Chicago vera með opnara og fræðilegra nám en guðfræðideild HÍ.
Málflutningur Guðmundar Inga Markússonar er næst mínum skilningi á tilurð trúarbragða. Eins og hann segir í óútkominni bók um Arfleifð Darwins:
Skilgreina má tvær meginþróunarfræðilegar tilgátur um tilurð trúarbragða. Í fyrsta lagi kenningar um trúarbrögð sem hliðarverkun líffræðilegra þátta (by product) og í annan stað kenningar um trúarbrögð sem sjálfstæða, líffræðilega aðlögun (adaptation). Seinni tilgátan kemur í tveimur tilbrigðum sem gera ráð fyrir þróun trúarbragða sem aðlögun innan hóps einstaklinga eða sem afleiðingu vals á milli hópa.
Sjá einnig pistlana:
Arfleifð Darwins: þróun menningar og trúarbragða, Þróaðist trúar "hæfileikinn"?
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 16:28 | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Athugasemdir
"Skilgreina má tvær meginþróunarfræðilegar tilgátur um tilurð trúarbragða. Í fyrsta lagi [...]
[...] þróun trúarbragða sem aðlögun innan hóps einstaklinga eða sem afleiðingu vals á milli hópa".
Þarf maður að vera líffræðingur til að skilja þetta?
Vendetta, 22.9.2010 kl. 21:51
En eftir að hafa svo smellt á linkinn og lesið footnote 1, þá skildi ég þetta. Þú mátt þess vegna hunza fyrri athugasemd. Og þessa hér líka.
Vendetta, 22.9.2010 kl. 21:57
Vendetta
Allt í lagi, þetta er kannski dulítið "kryptískt" hjá honum Guðmundi.
Munurinn er á milli tveggja gerða náttúrulegs vals. I) Val á milli einstaklinga, sem er það sem Darwin talaði um og sem álitið er veigamesti hluti lífsbaráttunar. II) Val á milli hópa, sem er hugmynd sem félagsþróunarfræðingarnir (sociobiologists) hafa mikið haldið á lofti. Þá eru það eiginleikar hópsins sem skipta máli, ekki einstaklingsins. Oftast er litið til félagslyndra (social) skordýra eins og maura og býflugna sem halda stór bú, en einnig má sjá hópamyndun hjá ljónum, úlfum, hvölum...o.s.frv.
Vandamálið er að til að eiginleiki nái yfirhöndinni í hópi, þá má hann ekki vera skaðlegur fyrir einstaklinginn. Fyrst þarf eiginleiki (og erfðaþáttur sem tengist honum) að ná yfirhöndinni í einhverjum hópi, til að hópurinn öðlist viðkomandi eiginleika.
David S. Wilson er einmitt einn forkólfsmanna félagsþróunarfræðinganna - skoðaðu endilega bækurnar hans ef þú hefur áhuga á þessum spurningum.
Arnar Pálsson, 28.9.2010 kl. 16:51
Mér líst mun betur á hugmyndina um val hópa. Menn virðast hafa vitað það frá örófi alda að til að halda hópi saman og hvetja hann að vissu marki sé trú magnað verkfæri.
Mörg illvirki hafa verið framinn í nafni trúar, vegna baráttu um auðæfi og völd.
Trú hefur líka þótt góð til að hvetja til samheldni til ,,góðs" eins og hugmynd Bandaríkjamanna um Guð sem ætlast til ákveðinnar hegðunar af fólki bæði heima og í vinnu.
Hólmfríður Pétursdóttir, 28.9.2010 kl. 17:50
Hólmfríður
Það er möguleiki að hópaval eigi sér stað en ólíklegt að það útskýri alla myndina.
Ástæðan er eftirfarandi:
Eiginleikar sem nýtast einstaklingum en ekki hópum festast auðveldlega í stofni.
Eiginleikar sem nýtast hópum en ekki einstaklingum geta EKKI festst í stofni.
Eiginleikar sem nýtast bæði hópum og einstaklingum eru sjaldgæfari en eiginleikar sem nýtast bara einstaklingum.
Þannig að það eru minni líkur á að eiginleiki (t.d. trúhneigð) sem nýtast bæði hópum og einstaklingum verða fyrir náttúrulegu vali, en eiginleiki sem eykur hæfni einstaklingsins.
Arnar Pálsson, 30.9.2010 kl. 10:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.