Leita í fréttum mbl.is

Traust á vísindalegum niðurstöðum

Læknisfræðin eru raunvísindi, í þeim skilningi að settar eru fram tilgátur, þær prófaðar og metnar. Þekking okkar á eðli sjúkdóma er sífellt að aukast, vegna vísindalegra rannsókna á smitberum, sjúklingum, umhverfisþáttum og erfðum. Á sama hátt reyna heilbrigðisvísindamenn og líffræðingar að finna leiðir til að meðhöndla sjúkdóma, lækna eða a.m.k. milda einkenni þeirra. Ný meðferðarúrræði eða lyf þarf alltaf að meta með hliðsjón af bestu fáanlega meðferð. Það skiptir engu þótt ný meðferð sé betri en læknisfræði nítjándu aldar, mið verður að taka af stöðu dagsins í dag.

Lyfjafyrirtækin þurfa að fá leyfi fyrir því að markaðssetja ný lyf, eða gömul lyf sem svar við öðrum sjúkdómum. Til þess að meta notagildi lyfja er framkvæmd lyfjapróf, þar sem eiginleikar lyfjanna eru kannaðir og svörun sjúklinga við þeim. Slík lyfjapróf eru mjög fjárfrek, enda er sterk krafa um að einungis nothæf lyf séu sett á markað og að aukaverkanirnar séu litlar (eða ásættanlegar).

Því miður er að koma í ljós að lyfjafyrirtæki hafa stundað margskonar bellibrögð til þess að fegra niðurstöður lyfjaprófa og markaðsset lyf sem annað hvort virka illa eða hafa alvarlegar aukaverkanir. Þetta er einna skýrast í tilfelli geðlæknisfræðinnar. Steindór J. Erlingsson hefur skrifað ítarlega um þessi mál á undanförnum tveimur árum. Nú fyrir helgi birtist grein eftir hann á Pressunni, þar sem hann reifar þessi svik lyfjafyrirtækjanna og meðvirkni læknasamfélagsins. Hann vísar í leiðara British Medical Journal, sem vill "endurvekja trúna á fyrirliggjandi vísindagögn“ í læknisfræðinni. Úr grein Steindórs:

Rannsóknir hafa leitt í ljós að lyfjapróf sem fjármögnuð eru af lyfjafyrirtækjum (í dag eru rúmlega 70% af lyfjaprófum fjármöguð af þeim) eru mun líklegri til þess að sýna marktækan mun á lyfi og lyfleysu eða samkeppnislyfi en þegar þau eru fjármögnuð af óháðum aðilum. Vandamálið snýst um að lyfjafyrirtækin halda öllum gögnum, takmarka þannig aðgang rannsakenda að þeim og láta oft „draugahöfunda“ skrifa vísindagreinar.

Ein alvarlegasta birtingarmynd þessa er þegar lyfjafyrirtæki birta ekki niðurstöður neikvæðra lyfjaprófa eða birta þau sem „jákvæð“. Með þessu móti er dregin upp röng mynd af mögulegri virkni lyfja. Þessari aðferð hefur verið beitt við markaðssetningu ýmissa þunglyndislyfja sem komið hafa á markað á undanförnum rúmum tuttugu árum.....

Af framansögðu má ljóst vera að læknar hafa ekki síður en sjúklingar verið blekktir. Þeir geta hins vegar ekki fríað sig ábyrgð. Í bók lífsiðfræðingsins Carls Elliott, White Coat, Black Hat: Adventures on the Dark Side of Medicine (2010), er fjallað um þennan vanda sem læknisfræðin stendur frammi fyrir. Eitt af því sem hann gerir að umtalsefni eru samskipti lækna við lyfjaiðnaðinn. Elliott segir læknasamfélagið hafa deilt áratugum saman um hvort auglýsingar, gjafir, námsferðir eða önnur hlunnindi sem lyfjaiðnaðurinn og fulltrúar hans láta læknum í té hafi áhrif á lyfjaávísanir þeirra. Í dag liggur hins vegar ljóst fyrir að þessi samskipti hafa oft bein áhrif á hvernig og hvaða lyfjum læknar ávísa, enda segir Elliott endurteknar rannsóknar hafa staðfest þetta.

Í ljósi þess sem fram hefur komið þá hlýt ég að spyrja:

Af hverju halda læknar áfram að eiga bein samskipti við fulltrúa lyfjaiðnaðarins?

Af hverju leyfði Geðlæknafélag Íslands fulltrúum lyfjaiðnaðarins að sitja fyrir gestum á vísindaþingi félagsins í vor?

Af hverju tóku íslenskir geðlæknar þátt í skipulagningu fundar í vor þar sem til stóð að fulltrúi lyfjafyrirtækisins Pfizer, framleiðandi hins rándýra kvíðalyfs Lyrica, gagnrýndi eldri gerðir kvíðalyfja? Er það eðlilegt að lyfjaiðnaðurinn borgi með auglýsingum rúmlega 90% af rekstarkostnaði Læknablaðsins?

Þetta þykja mér mjög eðlilegar spurningar. Læknar og fræðimenn verða að verja orðspor sitt - og það er best gert með því að forðast mögulega hagsmunaárekstra. Lyfjafyrirtækin vita að styrkir til lækna - til að fara á ráðstefnur eða vinnufundi - skila sér í meiri ávísunum og meiri tekjum.

Það er erfiðara að meta áhrif lyfjarisa á heil vísindasamfélög, t.d. í gegnum auglýsingar í fagtímaritum, styrki við ákveðnar stofnanir og fundi. Við í stjórn líffræðifélagsins þáðum t.d. styrki frá Gróco, Alcoa, Orf líftækni og Landsvirkjun, til að halda Líffræðiráðstefnuna 2009, en það er mér finnst ólíklegt að það hafi bein áhrif á rannsóknir þeirra vísindamanna sem sóttu ráðstefnuna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Theódórsson

Ég held það sé mjög mikilvægt að vísindamenn fjalli um þessi mál af einlægni og stillingu. Hugtakið "Big-pharma" er tilkomið af því að fólk hefur tilfinningu fyrir því að hagsmunir séu að spila með læknastéttina og þegar vísindamenn fussa og sveia yfir "samsæriskenningunum" án þess að taka alvarlega umræðu um þann vanda sem raunverulega er fyrir hendi, situr slíkt fólk eftir með takmarkað traust til læknageirans og til vísinda almennt, auk þess að þykja vísindamenn hrokafullir og blindaðir ef þeir þykjast þess umkomnir að segja hagsmunapotið ekki hafa nein áhrif.

Samsæriskenningar og bull er þó vissulega mikið vandamál, en vísindamenn og fræðingar gera þann vanda oft verri með því að bregðast við eins og vandinn sé nánast enginn. Eða það hef ég að minnsta kosti á tilfinningunni.

Steindór J. stendur sig vel, og þú reyndar líka, Arnar.

mbk,

Kristinn Theódórsson, 29.11.2010 kl. 14:08

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk Kristinn fyrir góða athugasemd - og háðsglósur :)

Þetta er rétt, vísindamenn verða að ræða vísindalega um fræðileg álitamál. En þeir verða líka að taka þátt í umræðu í samfélaginu um þessi álitamál, ekki bara að takmarka skoðanaskiptin við ritrýnd tímarit.

Samsæriskenningamenn vinna ekki á vísindalegum forsendum, heldur tína til hagstæðar staðreyndir (eða búa þær til) sem henta þeirra hugarsmíð.

Michael Shermer - ritstjóri Sceptic tímaritsins - bendir á að við eigum ekki að heiðra hvaða bullkoll sem er með því að taka þátt í rökræðu um gælu-samsæriskenningu hans eða rangfærslur um vísindaleg efni. En ef einhverri ákveðinni mjög fjarstæðukenndri hugmynd vex ásmeginn er eðlilegt að fræðimenn takist á við hana til þess að i) kryfja málið á fræðilegan hátt - reyna að komast að því hvort sannleikskorn sé í því og ii) komast að því hvers vegna tiltekin hugmynd komst á kreik iii) hvernig fólk fellur fyrir fjarstæðukenndum hugmyndum og iv) fræða fólk um það hvernig ræða má á gagnrýninn og vandaðan hátt um álitaefni.

Arnar Pálsson, 29.11.2010 kl. 14:42

3 Smámynd: Arnar Pálsson

Sceptic gengur út frá frægri setningu eftir Spinoza:

I have made a ceaseless effort not to ridicule, not to bewail, not to scorn human actions, but to understand them.

—Baruch Spinoza

Arnar Pálsson, 29.11.2010 kl. 14:43

4 Smámynd: Kristinn Theódórsson

Já, það er eflaust vandlifað í þessum efnum og erfitt að svara öllum.

En það áttu nú ekki að vera neinar háðsglósur þarna, þær eru þá ómeðvituð innskot ;-)

Kristinn Theódórsson, 29.11.2010 kl. 15:31

5 Smámynd: Arnar Pálsson

Fyrirgefðu Kristinn, þetta var lélegt spaug - ég tek háðsglósum sem hrósi og hrósi sem háði.

Klapp eru barsmíðar og barsmíðar klappandi, samskipti bælandi og bæling sköpum skiptandi, töfrarnir myrkir og myrkrið töfrandi...svona rétt eins og Morrinn að dansa.

Arnar Pálsson, 29.11.2010 kl. 16:08

6 Smámynd: Kristinn Theódórsson

Já ókey, þetta var svona öfgalítillæti ;-)

Kristinn Theódórsson, 29.11.2010 kl. 16:35

7 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Það virðist vera einhver spurning hvenær vísindamenn eiga að verja verk sín eða útskýra þau fyrir almenningi, en mér finnst t.d. varðandi loftslagsvísindin að vísindamenn þurfi að gera meira af því að útskýra verk sín á einhvern hátt, enda margir sem misskilja það (bæði viljandi og óviljandi). En sem betur fer virðist vera einhver vakning í því núna.

Síðan þín Arnar, er náttúrulega alveg frábær til að fá vísindin beint í æð, takk fyrir það :)

Sveinn Atli Gunnarsson, 29.11.2010 kl. 17:36

8 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæll Svatli, takk fyrir hrósið - ég reyni í framtíðinni að stilla öfgalítillætinu í hóf.

Það má svo sannarlega sjá hliðstæður með sköpunarsinnum, sem hafna þróunarkenningunni á biblíulegum forsendum, og þeim sem hafna loftslagsvísindum á óskiljanlegum forsendum.

Auðvitað verða vísindamenn að stíga fram fyrir skjöldu og útskýra fræðin, og þá sérstaklega aðferð vísinda. Því ef við áttum okkur ekki á aðferð vísinda, þá eigum við lítinn möguleika á að skilja muninn á nýrri tilgátu og kenningu sem staðist hefur ítrekaðar prófanir.

Arnar Pálsson, 30.11.2010 kl. 08:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband