Leita í fréttum mbl.is

Íslenski vísindamaður ársins 2010

Jón Steinsson kynnti ágæta hugmynd í pistli í Pressunni 26 desember. Hann leggur til að tilnefndir verði vísindamenn ársins, kannski topp 10 listi í ætt við það hvernig íþróttafréttamenn velja íþróttamann ársins. Jón segir meðal annars:

Ég er kannski ekki fullkomnlega hlutlaus. En mér finnst allt of lítið fjallað um afrek íslenskra vísinda- og fræðimanna. Væri ekki tilvalið að taka upp þann sið að útnefna vísindamann ársins á Íslandi. Slík verðlaun hefðu sömu kosti og íþróttaverðlaunin. Ég er viss um að það er fullt af fólki sem hefði áhuga á því að lesa umfjöllun um „afrek“ 10 tilnefndra vísindamanna á þessum árstíma. Ekki síst væri gaman að geta gefið börnum og unglingum betri innsýn í það sem íslenskir fræðimenn eru að gera. Kannski myndi það vekja áhuga einhverra á vísindum og fræðimennsku. Mér hefur alltaf fundist sláandi hvað það eru miklu fleiri 10 ára krakkar sem vilja verða Christian Ronaldo en Richard Feynman þegar þeir verða stórir. Ég held það stafi að hluta til af því að íþróttamenn hafa staðið sig betur í að koma sér á framfæri.

Og tilnefnir síðan vísindamann ársins 2010.

Vísindamaður ársins árið 2010 er ... (spennan er í hámarki) ... Freysteinn Sigmundsson.

Hann hlýtur verðlaunin fyrir rannsóknir sínar á upphafi eldgosins í Eyjafjallajökli sem birtust í vísindatímaritinu Nature 18. nóvember 2010 undir fyrirsögninni Intrusion triggering of the 2010 Eyjafjallajökull explosive eruption. Greinin varpar mikilvægu ljósi á upphaf eldgosa og sérstaklega eldgosa í eldstöðvum á „köldum svæðum“. Algengt er að eitt meginkvikuhólf fyllist smám saman og gjósi síðan. Í tilfelli Eyjafjallajökuls varð atburðarásin önnur og flóknari. Rannsóknin bendir til þess að um hafi verið að ræða fleiri en eitt kvikuhólf með missúrri kviku og sprengigosið hafi hafist þegar kvika úr mismunandi kvikuhólfum mættust.

Enginn vísindamaður nútildags vinnur einsamall, og það er mikilvægt að átta sig á að hópurinn sem rannsakar Eyjafjallajökulsgosið er stór.

Aðrir Íslendingar sem unnu að sömu rannsókn – og eiga vitaskuld mikið í henni, en Vísindamaður ársins er veitt einum aðila alveg eins og Íþróttamaður ársins – eru Sigrún Hreinsdóttir, Þóra Árnadóttir, Niels Óskarsson, Páll Einarsson, Halldór Geirsson, Benedikt G. Ófeigsson og Hjörleifur Sveinbjörnsson.

Það er vitanlega ekki hægt að veita verðlaun fyrir vísindaafrek með sama sniði og fyrir frammistöðu í íþróttum af einfaldri ástæðu. Hérlendis eru engir vísindafréttamenn í fullu starfi. Engu að síður væri vel mögulegt að framkvæma þessa hugmynd, og fá fagfélög (t.d. Vísindafélag Íslendinga, Jarðfræðifélag Íslands og Líffræðifélag Ísland.o.fl.) til að mynda nefnd sem sæi um tilnefningu og úthlutun. Gallinn er vitanlega sá að fagaðillarnir eru líklegir til að meta framfarir á sínu sviði meir en framfarir á öðrum sviðum. En ef hvert félag tilnefndi eina til tvær rannsóknir (eða greinar) sem þær bestu á sínu sviði, og það myndi síðan mynda topp 10 listann sem síðan yrði raðað af samráðsnefnd? Þetta er bara hugleiðing sem pistill Jóns vakti.

Ritstjórnarstefna 2011: Á þessu ári verða pistlarnir færri og styttri. Undirritaður er með nokkrar rannsóknir á lokastigi sem þarf að senda til birtingar. Það hlýtur að hafa forgang yfir dægurskrif þessi. Vitanlega munum við fylgjast með umfjöllun fjölmiðla um lífvísindi og leiðrétta það sem betur mætti fara, en einnig birta styttri pisla um forvitnilegar rannsóknir í erfða- eða þróunarfræði og baráttumál vísindafólks.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd:  Úrsúla Jünemann

Mikið rétt hjá þér. Menn eru útnefndir fyrir allt mögulegt og eiginlega óskiljanlegt hve litið visindamenn koma þar inn.

Úrsúla Jünemann, 3.1.2011 kl. 13:26

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Ég hef lúmskt gaman að tilnefningu manns ársins á Rás 2, sérstaklega þegar fólk fær nafnlausar eða minna "frægar" hetjur fá atkvæði t.d. fyrir að bjarga köttum úr trjám eða hlaupa rosalega hratt. Vísindamenn þurfa að finna upp góða leið til að bjarga köttum, eða smala þeim ;) til að komast á svona lista.

Arnar Pálsson, 3.1.2011 kl. 13:57

3 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Þetta væri alveg upplagt, myndi hugsanelga verða til þess að auka skilning fólks á vísindastarfi og auka áhuga þeirra yngri á þessu efni. Kannski það myndi líka verða til þess að það yrðu ráðnir vísindafréttamenn til fjölmiðlanna. Hvernig ætli svona ferli sé komið af stað, ætli einhver "samtök" vísindamanna eða áhugamanna um efnið gætu ekki staðið fyrir tilnefningu í upphafi..?

Sveinn Atli Gunnarsson, 4.1.2011 kl. 13:34

4 Smámynd: Arnar Pálsson

Helst vísindafélag Íslands og áþekk samtök. Það er engin grasrótarhreyfing vísindaáhugamanna til - að því ég veit.

Ég tel líklega að svona verkefni ættu núverandi félög að sameinast um. Það er nógu mikil vinna að halda lífi í svona fagfélögum, þó að ekki þurfi að búa til nýtt félag utan um þessa hugmynd.

Vandamálið liggur bara í útfærslunni og áherslum. Hvernig er hægt að tryggja að val fólks í "valnefnd" skekki ekki niðurstöðuna? Sem er auðvitað gamalt vandamál í vísindum, sérstaklega í úthlutunarnefndum og ráðum!

Arnar Pálsson, 6.1.2011 kl. 11:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband