28.3.2012 | 13:28
Íslenskt vísindasamfélag, rannsóknir og efling samkeppnissjóða
Höfundar eru Eiríkur Steingrímsson, Hannes Jónsson, Magnús Karl Magnússon og þórólfur Þórlindsson prófessorar við Háskóla Íslands. Greinin er birt að neðan hér með áætluðu vilyrði höfunda.
Samhliða greininni var efnt til undirskriftarlisti á vefnum til að hvetja stjórnvöld til þess að efla samkeppnissjóði vísinda og tækniráðs.
-----------------------
Undanfarna áratugi hafa orðið stórstígar framfarir með tilliti til gæða og árangurs í íslensku vísindastarfi. Mikil uppbygging hefur átt sér stað; nýjar fræðigreinar hafa rutt sér til rúms, og þverfaglegar rannsóknir hafa dafnað. Þessu samhliða hefur námsframboð á háskólastigi aukist og rannsóknartengdu framhaldsnámi verið hleypt af stokkunum - doktorsnámi. Á sama tíma hafa orðið til öflugar rannsóknarstofnanir og fyrirtæki sem ráða til sín vel þjálfað starfsfólk. Samheiti alls þessa er íslenskt vísindasamfélag.
Ísland á marga öfluga vísindamenn en forsenda fyrir samkeppnishæfni þeirra á alþjóðavettvangi eru tækifæri og fjármagn sem gera þeim kleift að stunda rannsóknir hér á landi. Undanfarin ár hafa rannsóknarhópar á ýmsum sviðum eflst og sótt rannsóknarfé til útlanda, oft í samstarfi við erlenda vísindamenn. Uppbygging slíkra hópa hefst hér heima og því er nauðsynlegt að búa íslenskum vísindamönnum hagstæð skilyrði, bæði með tilliti til eflingar rannsókna en þó ekki síst nýliðunar, til að tryggja eðlileg kynslóðaskipti.
Rannsóknartengt framhaldsnám á sér stutta hefð á Íslandi. Aðeins rúmur áratugur er síðan farið var að mennta doktora á Íslandi með formlegum hætti en fyrir þann tíma luku flestir Íslendingar slíku prófi erlendis. Það er eðlileg þróun að bjóða upp á rannsóknartengt framhaldsnám hér á landi en þar þarf að standa vörð um gæði.
Áhrif hrunsins á bæði háskóla og vísindasamfélag eru kunn. Það er hins vegar vert að benda á að jafnvel fyrir hrun voru framlög í opinbera samkeppnissjóði langtum lægri hér á landi en meðal annarra þjóða sem við berum okkur saman við. Undanfarin þrjú ár hefur árangurshlutfall í Rannsóknasjóði - eina opna samkeppnissjóði landsins á sviði rannsókna - verið á bilinu 14-17%. Það þýðir að á sama tímabili hefur um 83-86% umsókna verið hafnað. Allar götur frá stofnun sjóðsins (2004) hefur þörfin fyrir hann aukist, enda hækkar sífellt sú upphæð sem sótt er um. Á sama tíma hefur styrkjum hins vegar fækkað en sjóðurinn hefur veitt um 37-47 nýja styrki á ári undanfarin þrjú ár. Umsóknir eru vel á þriðja hundrað.
Nú er svo komið að sjóðurinn hefur jafnvel ekki ráð á að
styrkja umsóknir sem lenda í efsta gæðaflokki. Þetta er afleit þróun enda öðru rannsóknarfé í opinni samkeppni vart til að dreifa. Og jafnvel þótt Rannsóknasjóður veiti hæstu styrki sem veittir eru til rannsókna hér á landi eru þessir styrkir ekki nema hálfdrættingur á við það sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndum og brot af því sem gerist í Bandaríkjunum. Loks er þess að geta að af því fé sem ríkið leggur í rannsóknir og þróun fara einungis um 15% sem í opna samkeppni; leitun er að lægra hlutfalli.
Rannsóknasjóður veitir styrki annars vegar á grundvelli almennra áherslna Vísinda- og tækniráðs og hins vegar að undangengnu faglegu mati. Sjóðurinn er opinn samkeppnissjóður sem þýðir að vísindamenn koma sjálfir með hugmyndir að rannsóknum sem svo eru settar í dóm annarra vísindamanna í svonefndu jafningjamati (peer review). Auðvitað eru umsækjendur missáttir þegar niðurstöður styrkveitinga eru birtar ár hvert - annað væri óeðlilegt - en þegar úthlutunarhlutfall er langt innan við 20% og jafnvel umsóknir sem raðast í efsta gæðaflokk fá synjun um styrk er úr vöndu að ráða.
Matskerfi Rannsóknasjóðs hefur tekið miklum breytingum undanfarin fimm ár; nú eru til að mynda allar umsóknir metnar erlendis áður en fagráð taka þær til umfjöllunar og raða endanlega fyrir stjórn. Í hverju af fjórum fagráðum Rannsóknasjóðs eiga sæti sjö sérfræðingar og eru fimm þeirra Íslendingar en tveir erlendir sérfræðingar. Mikið hefur verið gert til að bæta matsferlið og efla tiltrú umsækjenda (og vísindasamfélagsins alls) á úthlutunum. Hætt er þó við að lágt úthlutunarhlutfall bregði skugga á allt það óeigingjarna starf sem ytri sérfræðingar og fagráðsmenn auk stjórnar sjóðsins leggja á sig til að tryggja faglega afgreiðslu. Jafningjamat er ekki gallalaust kerfi en er það skásta sem við höfum.
Ef Íslendingar hyggjast áfram ná árangri á sviði rannsókna er bara eitt til ráða: efling samkeppnissjóða. Sanngjarnari leið til þess að efla rannsóknir er ekki til. Ýmislegt hefur verið reynt en hvergi hefur raunverulegur árangur náðst þar sem vísindamenn hafa ekki tækifæri til þess að leggja verk sín í dóm jafninga og fjármagna rannsóknir sínar í gegnum samkeppnissjóði. Rannsóknarstyrkir eru auk þess undirstaða rannsóknarnáms; þeir eru nýttir til að þjálfa nemendur og greiða laun þeirra. Rannsóknir eru forsenda fyrir öflugri nýsköpun og mikilvæg leið til raunverulegrar uppbyggingar á nútíma samfélagi.
Við skorum hér með á stjórnvöld að efla Rannsóknasjóð og gera honum kleift að stuðla að raunverulegri uppbyggingu á rannsóknum á Íslandi. Framtíð rannsókna og nýsköpunar á Íslandi er í húfi.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 13:31 | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.