Leita í fréttum mbl.is

Vísindabloggarinn PZ Myers á Íslandi

Einn af uppáhalds bloggurunum mínum er PZ Myers, kennari við Minnesotaháskóla í Morris. Hann heldur úti síðu undir nafninu Pharyngula (www.pharyngula.com), sem er nafn á ákveðnu stigi þroskunar hryggdýra. Á því stigi sjást tálknbogar í fóstrunum, jafnvel þeim sem ekki eru með tálkn. Það undirstrikar hvernig greina má skyldleika lífvera, með því að rýna í þroskaferla þeirra. Tálknbogarnir eru sameinandi eiginleiki hryggdýra, rétt eins og seilin sem liggur undir taugapípunni á ákveðnu stigi þroskunar.

Myers skrifar jafnt um líffræðilegar rannsóknir um þróun og þroskunm, en einnig um snertifleti vísinda og samfélags. Hann er einarður gagnrýnandi sköpunarsinna og hindurvitna af öðru tagi. Pistlar hans eru á köflum óþarflega hvassyrtir, og stundum örlar á sleggjudómum í formi alhæfinga. En hann setur allavega puttann á mikilvæga togstreitu milli trúarlegra öfgamanna og vísinda. Pistlar hans kortleggja m.a. hina fjölskrúðugu og illskeyttu atlögu að vísindum og upplýstu samfélagi sem hægri öfgamenn og sumir evangelistar standa fyrir í Bandaríkjunum. Myers er þekktur fyrirlesari, og fékk meðal annars  alþjóðlegu Húmanistaviðurkenninguna 2011.

Nú hafa þau gleðilegu tíðindi borist að PZ Myers muni halda fyrirlestur hérlendis í lok mánaðar. Siðmennt stendur fyrir herlegheitunum, sem verða 29. maí 2012. Erindi Myers heitir Vísindi og trúleysi. Erindið verður klukkan 19:30 í stofu HT-102 á Háskólatorgi Háskóla Íslands. Aðgangseyrir 1000 krónur.

 

Nánari upplýsingar 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta verður örugglega skemmtilegt!!

DoctorE (IP-tala skráð) 18.5.2012 kl. 11:05

2 Smámynd: Hólmfríður Pétursdóttir

Þakka þér fyrir að varast alhæfingar og dómhörku P Z Myers.

Mér finnst full ástæða til að mótmæla atllögum að vísindum og upplýstu samfélagi, en óþarfi að veitast að fólki sem hefur trú frekar en trúleysi.

Hólmfríður Pétursdóttir, 18.5.2012 kl. 20:46

3 identicon

Það er fátt leiðinlegra en að lesa sjálfumglatt-efnishyggju-smættunarraus-vísinda.

Hvað þá að hlusta á svona gæja...

Jóhann (IP-tala skráð) 19.5.2012 kl. 00:02

4 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Hólmfríður, er gagnrýni á trúarbrögð og stofnanir þeirra árás á þá sem aðhyllast þau hver með sínum hætti?

Væri það persónuleg árás á þig og þín gildi almennt ef menn gagnrýndu framgöngu og stefnu þess stjórnmálaflokks sem þú kýst?

PZ Mayers hefur fyrst og fremst reynt að sporna gegn vitfirringslegri bókstafstrú í bandaríkjunum, sem ógnar skólakerfinu þar í landi. 

Það bannar engin að fólk trúi. Það er ekki hægt og er jafn órökræn fullyrðing og sú fullyrðing að allt í biblíunni sé satt og sögulega rétt.  Ég trúi því ekki að þú haldir Biblíuna óskeikult rit og að sköpunarsagan sé rétt vísindaleg skilgreining á upphafi lífs á jörðu, hvað þá um tilurð alheimsins. Er það nokkuð?

PZ Mayers er eingöngu að verja kenningu tegundavals og þróunnar gegn slíkum fullyrðingum og því að þesskonar sé kennt í skólum sem vísindalegur valkostur í landi þar sem aðskilnaður ríkis og kirkju ríkir.

Á'ur en þú mátt vænast gagnrýni á þína persónulegu trú, þá verður þú að upplýsa um hver hún er, því ekki verður alhæft um það. Hver maður trúir á sinn mátta. Í heimi þar sem t.d. kristni skiptist í nálægt 30.000 trúbrot sem kalla hvort annað villutrúar innbyrðis, þá get ég allavega ekki gert mer í hugarlund hverju þú trúir og hverju ekki.

Svo áður en þú dæmir Mayers, þá þætti mér vænt um að þú segðir mér hvort þú hafir kynnt þér málflutnings hans í fyrsta lagi og í öðru lagi hvort þín trú sé innan þeirra marka.

Jón Steinar Ragnarsson, 19.5.2012 kl. 09:34

5 Smámynd: Arnar Pálsson

Doktor

Sammála, það er ekki von á neinni lognmollu. Mín helsta von er að hann sé jafn rökvís í pontu og prenti.

Hólmfríður

Hann er ekki að veitast að trú, frekar andmæla aðgerðum og áróðri tiltekinna trúarhópa.

Sleggjudómar hans eru oftast í því formi að dæma heilan hóp, á skoðunum nokkura málpípa. Málið er að Myers les málflutning kristinna öfgahópa sem vilja láta kenna fólki biblíusögur sem vísindi. Hann leiðréttir rangfærslur og reynir að kenna þeim vísindi og fræði, og uppsker haturspóst fyrir vikið. Það er e.t.v. þess vegna sem hann tekur stundum til stórra orða.

Ég skora á þig að lesa nokkra af pistlum hans, og meta röksemdirnar og málflutninginn.

Jóhann.

Skoðun þín kemur ekkert sérstaklega á óvart.

Jón Steinar

Takk fyrir að benda á þennan punkt, og í raun skýra betur hvað starf Myers felst í.

Arnar Pálsson, 19.5.2012 kl. 14:09

6 identicon

"Mín helsta von er að hann sé jafn rökvís í pontu og prenti."

og

 "Heilar mannfólk eru ekki þær fullkomnu rökvélar sem við höldum að þær séu. Heldur erum við lituð af tilfinningum og fyrri reynslu. "

 Vissir þú Arnar, að það er búið að mæla það vísindalega, að heilinn er einatt 7 millisekúndum fyrr búinn að ákveða eitthvað, á undan því að vitundin veit af því?

Veigamesta rannsóknasvið vísinda verður sjálf vitundin.

En nefndu mér eitt dæmi innan líffræði, sem sýnir hvernig efnishyggju - smættun auðgar skilning okkar. Bara eitt dæmi...

Jóhann (IP-tala skráð) 19.5.2012 kl. 19:26

7 Smámynd: Arnar Pálsson

Jóhann

Já ég vissi það. En bara þegar system 1 er í gangi. System 2 er fært um rökhugsun, og þegar það er vel þjálfað að meta líkindi, óvissu og efast um orsakasambönd sem system 1 trúir án þess að hiksta.

Lestu Thinking, fast and slow eftir Kahneman. Þú gætir jafnvel lært að efast um eitthvað annað en vísindin.

Þú segir:

En nefndu mér eitt dæmi innan líffræði, sem sýnir hvernig efnishyggju - smættun auðgar skilning okkar. Bara eitt dæmi...

Mig langar til að heyra þitt svar við spurningunni. Helduru að smættunarhyggjan sé misráðin eða lífræðin?

Vonandi er það líffræðin, því að þessi gullmoli um 7 sekúndurnar var fundinn með efnishyggjulegri rannsókn.

Afrek líffræðinnar. 

Þróunarkenningin útskýrir, tilurð, fjölbreytileika, eiginleika, veikleika og starfsemi lífvera.

Örverufræðin útskýrir eiginleika baktería og sýkla, fjölgun þeirra, meinvirkni og eiginleika (Eschericia coli, Helicobacter pylori, Salmonella...).

Erfðafræðin útskýrir hvernig eiginleikar flytjast á milli kynslóða, og hvernig genin stokkast upp, starfa og skemmast.

Allt saman efnishyggja, allt saman líffræði og allt saman grjótfastar staðreyndir, sem vísindaleg aðferð afhjúpaði (þrátt fyrir veikleika hvers einstaklings fyrir sig!).

Arnar Pálsson, 20.5.2012 kl. 13:46

8 identicon

Svo þú ,leggur vísindalega aðferð og efnishyggju að jöfnu!

lol

Jóhann (IP-tala skráð) 20.5.2012 kl. 14:09

9 Smámynd: Arnar Pálsson

Jóhann

Þú skeyttir saman efnishyggju og smættun! Jóhann:

 En nefndu mér eitt dæmi innan líffræði, sem sýnir hvernig efnishyggju - smættun...

Smættun er ákveðin nálgun í vísindum, og sú sem hefur skilað okkur mikilli þekkingu.

Hvert er svar þitt?

Mig langar til að heyra þitt svar við spurningunni. Helduru að smættunarhyggjan sé misráðin eða lífræðin?

Arnar Pálsson, 20.5.2012 kl. 15:28

10 identicon

Það er hægt að smætta án þess að aðhyllast efnishyggju.

Og þér að segja er einn helsti kostur vísindalegrar aðferðar að efast.

Jóhann (IP-tala skráð) 20.5.2012 kl. 15:51

11 Smámynd: Arnar Pálsson

Jóhann

Viðurkennir þú að hafa skeytt saman efnishyggju og smættun?

Svar óskast.

Og einnig svar við spurningunni:

 Helduru að smættunarhyggjan sé misráðin eða lífræðin?

Arnar Pálsson, 20.5.2012 kl. 16:22

12 identicon

Smættun er helsta vopn efnishyggju. En smættun jafngildir ekki efnishyggju.

Þetta svarar einnig síðari spurningu þinni.

Reyndu að smætta tónlist.

Það er engu líkara en að þú aðhyllist naíva efnishyggju. Og að PZ Mayers, sá kokhrausti líffræðingur, sé einn spámanna þinna.

Jóhann (IP-tala skráð) 20.5.2012 kl. 16:33

13 Smámynd: Arnar Pálsson

Jóhann

Vísindi ganga út á að skilgreina spurningar sem hægt er að svara. Vísindin voru á tómum villigötum þegar fólk var að takast á við of víðfemar spurningar, eins og hvers vegna er náttúran svona falleg eða hver er tilgangurinn með lífinu?

Vísindin komust almennilega á koppinn þegar þau fóru að takast á við afmarkaðar spurningar.

Hvers vegna falla hlutir til jarðar?

Hvað veldur því að ákveðin pest kemur upp í einu sjúkrahúsi en ekki öðru? 

Hvaða efni flytur eiginleika á milli baktería þegar þær fjölga sér?

Þetta eru allt saman spurningar sem byggjast á smættunarhyggju, og hafa fært okkur stórkostlega þekkingu á heiminu, lífverum og manninum. Ég benti þér á þessi dæmi og svar þitt var ....(eins og venjulega).

Aðalmálið er hins vegar að finna út á hvaða stigi skipulagsins maður á að leita svara?

Þú leitar ekki að eiginleikum tónlistar í hreyfingum kvarka í kjarna atómsins.

Þú þarft líklega að mæla tónanna og e.t.v. (nú er ég að reyna ráða í spurninguna, því hún er frekar víð ;) upplifun fólks, hugarástand, taugasvörun og jafnvel tjáningu gena á vissum svæðum í heilanum, þegar ákveðið tónverk er skynjað.

Ef þú hefur raunverulegan áhuga á líffræði og sálfræði tónlistar, mæli ég með Musicophilu Olivers Sacks. www.oliversacks.com/books/musicophilia/

Ert þú þá tvíhyggjumaður, eða hafnar þú efninu algerlega?

Arnar Pálsson, 21.5.2012 kl. 10:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband