18.9.2012 | 17:34
Trúlega er það trúlegi heilinn
Við vitum að jörðin er hnöttur á sporbaug um sólu, en forfeður okkar vissu líka jörðin var miðja alheimsins og að sólin gekk í kringum hana. Hægrimenn eru sannfærðir um mikilvægi frelsis í viðskiptum, en vinstri menn leggja áherslu á jöfnuð. Allir eru jafn sannfærðir um sína afstöðu, og sumir trúa henni eins og nýju testamenti.
Það er augljóst hversu rangar hugmyndir forfeðra okkar voru, um flata jörð, sjálfskviknun lífs og guðlega sköpun mannsins. En samt dafna álíka furðulegar hugmyndir enn í dag, um geimverur sem ræna fólki, að álfar búi í steinum, og að bóluefni valdi einhverfu. Og hverjir hafa rétt fyrir sér, vinstri menn eða hægri menn?Hér reyni ég ekki að svara spurningunni um hvor pólitíska afstaðan er rétt. Áherslan verður á, hví trúir fólk furðulegum hlutum? Michael Shermer hefur kannað biblíur sérstrúarsafnaða og málflutning dulspekinga, sköpunarsinna og þeirra sem afneita helförinni. Þannig greindi hann sameiginlega þætti, sem hafa áhrif á það hví og hvernig fólk trúir, sinni sannfæringu eða á yfirnáttúruleg fyrirbæri.
Nýjasta bók Shermers heitir Trúlegi heilinn, frá draugum og guðum til stjórnmála og samsæra - hvernig heilinn myndar trúarlegar skoðanir og staðfestir þær sem sannleika (The Believing Brain: From Ghosts and Gods to Politics and Conspiracies---How We Construct Beliefs and Reinforce Them as Truths).
Shermer vitnar til margra rannsókna sem sýna að að við mannfólkið myndum skoðanir mjög hratt, að mestu án aðstoðar rökhugsunar. Sumar skoðanir verða að sannfæringu og enn aðrar greypast sem þvottekta trú. Rökhugsunin er ekki nægilega sterk til að hrekja djúpgreyptar skoðunir og trú. Shermer segir að við öðlumst "trú hratt og náttúrulega, en efinn sé hægur og óeðlilegur, flestir þola illa óvissu og mótsagnir" (Belief comes quickly and naturally, skepticism is slow and unnatural, and most people have a low tolerance for ambiguity).
Samkvæmt honum geta tveir þættir útskýrt fastheldni trúar og skoðanna. Í fyrsta lagi er heili okkar mjög góður í að greina mynstur. Þegar við fáum mikið af upplýsingum - getum við pússlað þeim saman, myndað tengingar og fundið svarið (eins og að herra Sinnep eitraði fyrir frú Fjólu í bókaherberginu). Reyndar er eiginleikinn of sterkur hjá sumum, þeir sjá mynstur þar sem engin eru, t.d. myndir í svarthvítu suði sjónvarpsins þegar það leitar að útsendingu.
Í öðru lagi finnur heili okkar orsakavalda. Ef bolti kemur fljúgandi yfir vegg, ályktum við að einhver hafi kastað boltanum. En þessi hæfileiki veldur einnig vandræðum ef við oftúlkum aðstæður og leitum orsaka þar sem engar eru (eins og að álykta að fimm rauð ljós í röð séu verk djöfulsins). Í ýktustu tilfellum leiðir þessi hæfileiki til ofsóknarbrjálæðis.
Báðir hæfileikar, það að greina mynstur og að finna orsakavalda, gætu hafa gagnast forfeðrum okkar í lífsbaráttunni. Kannski voru einstaklingar góðir í að greina mynstur hæfari en aðrir í hópi forfeðra okkar. Þeir þurftu að skilja umhverfið, náttúruna og atferli rándýra og andstæðinga. Einnig var mikilvægt að skilja mannleg samskipti, ef sonur höfðingjans bað þig um greiða gat verið að höfðinginn væri að prófa hollustu þína eða mannkosti. Því var mikilvægt að greina tengsl aðburða og hegðunar. En aukaverkanir þessara hæfileika geta verið oftúlkun og trúgirni. Segja má að trú á furðlega hluti sé afleiðing sömu kerfa í heilanum sem þróuðust til gera okkur kleift að skilja veröldina og sambræður okkar. Trúin sem Shermer ræðir um er ekki eingöngu hin skipulögðu trúarbrögð kennd við Búddah eða Allah, heldur á einnig við um andatrú steinaldarmanna og djúpgreyptar sannfæringar á mörgum sviðum nútíma samfélags (t.d. pólitíska afstöðu).Rannsóknir sýna að þótt við vitum að hugsun okkar sé bjöguð, þá afbjagast hún ekki. Hún er áfram bjöguð. Hugsanaveilur þessar eru eins og fötlun, sem jafnvel vitneskja okkar sem einstaklinga megnar ekki að yfirstíga. Góðu fréttirnar eru þær að saman getum við dregið úr áhrifum þessara veikleika hins trúlega heila. Fullkomnasta form slíkra samvinnu er aðferð vísinda, þar sem hver einasta forsenda og grunnatriði er vegið og metið, og nýjar ályktanir byggja á ítarlegum prófunum. Shermer hvetur til efahyggju og gagnrýninar hugsunar: "Ég er efasemdamaður, ekki vegna þess að ég vilji ekki trúa, heldur vegna þess að ég vil vita. Hvernig greinum við á milli þess sem við viljum trúa og þess sem er satt? Svarið er vísindi." (Im a skeptic not because I do not want to believe, but because I want to know. How can we tell the difference between what we would like to be true and what is actually true? The answer is science.)
Mannkynið stendur frammi fyrir margskonar hættum og áskorunum samfara mengun, fólksfjölgun og loftslagshlýnun. Það er óskandi að við nýtum okkar sterkustu eiginleika og verkfæri til að takast á við þær áskoranir, og séum glaðvakandi fyrir veikleikum okkar trúlega heila.
Bókarýni
Bók Shermers er hugsuð sem tilraun til að greina mikilvægustu þætti sem móta trú, skoðanir og stýra samskiptum okkar. En kjarninn í bókinni er í raun þróunarleg tilgáta um tvo eiginleika, getuna til að greina mynstur og hæfileikan til að greina orsakir. Í umræðu Shermers kallast þetta patternicity og agenticity, sem ég ætla ekki að freistast til að reyna að þýða.
Shermer sækir mikið í þau viðfangsefni sem hann hefur rannsakað fyrir tímarit félags efasemdamanna (Sceptic society), dulspeki, afneitun helfararinnar, sköpunarsinna og líf eftir dauðann. Þar er lýsir hann yfirleitt án dómhörku og fordóma skoðunum fólks sem trúir furðulegum hlutum. Síðan rekur hann grunnhugmyndir þeirra og hvernig náttúrulegar skýringar duga fyllilega til að útskýra atburðarásina og upplifun einstaklinganna. Þetta virkar best í umræðu um trú á geimverur. Undir lok síðustu aldar trúðu hundruðir manna því að þeir hefðu verið numdir burt af geimverum, sem gerðu á þeim tilraunir og rannsóknir. Shermer lýsir því hvernig flest þessara tilfella eru tengd örþreytu, svefnrofa eða öðru álagi á heilann. Hann lýsir því sjálfur hvernig hann, örþreyttur um nótt í miðri 80 klst. hjólreiðakeppni, fattaði að aðstoðarmenn hans voru ekki menn heldur geimverur sem ætluðu að nema hann á brott. Að stuttum lúr loknum var ranghugmyndin horfin og félagarnir hlógu að öllu saman.
Shermer byrjar bókina á að rekja sögur af trúarlífi og upplifunum þriggja einstaklinga. Sá fyrsti er Francis Collins, sannkristinn erfðafræðingur sem leiddi verkefni um raðgreiningu erfðamengis mannsins. Collins er ekki bókstafstrúarmaður, en trúir því að guð sé til og hafi komið veröldinni á koppinn. En ekki því að guð hafi áhrif á einstaka atburði, hvorki líkurnar á kynmökum við Elisabetu Taylor (meðan hún lifði) eða tilurð mannskepnunar. Collins er oft haldið á lofti sem dæmi um vísindamann sem getur unnið sína vinnu án þess að láta trúarlega afstöðu hafa áhrif á sína vísindalegu vinnu. Annar kaflinn fjallar um Chick D´Arpino, sem sannfærðist um það á sjöunda áratugnum að hann þyrfti að bera áríðandi þrettán orða skilaboð til forseta Bandaríkjanna (Lyndon B. Johnson). Skilaboðin voru frá geimverum og fjölluðu um frið og ást. D´Arpino fékk að dvelja eitt og hálft ár á stofnun fyrir geðsjúka. Hann sýndi engin önnur einkenni geðveilu. Collins gæti hafa verið gramur við að hafa verið skellt í sömu skúffu og einhver sem vill flytja boð frá geimverum til forsetans*, en Shermer kemst upp með þetta með því að segja sína eigin sögu í þriðja kaflanum. Þar rekur hann sögu sinnar trúarlegu sannfæringar, frá ráðvilltum táningi til bókstafstrúarmanns og yfir í þann yfirlýsta efasemdamann sem hann er í dag.
*og Chick D´Aprino yfir því að vera settur undir hatt með kristnum einstaklingi.
Stíll Shermers er persónulegur. Hann notar mikið sínar upplifanir og samræður við lykilpersónur til að skerpa á lykilatriðum bókarinnar. Hann er fyllilega meðvitaður um hinar margvíslegu veilur í mannlegri hugsun. Hann samþættir töluvert af niðurstöðum úr sálfræði, taugalíffræði og skyldum greinum sem fjalla um veikleika mannlegrar hugsunar og bjögun í ákvarðanatöku. Kjarninn er sá að við myndum okkur skoðun án mikillar hugsunar, en beitum síðan allri okkar rökvísi til að verja hana. Af einhverri ástæðu þá eigum við auðveldara með að trúa sögum en tölulegum upplýsingum, og rökvísin virðist harla gagnslítil í baráttunni við djúpgreypta sannfæringu (einsog þá að geimverur hafi numið mig á brott). Frekar hratt er farið yfir rannsóknir á því hvernig mannfólk myndar sér skoðanir, eða hvaða þættir eru okkur hjartfólgnastir. Bækur Daníels Kahneman - Thinking fast and slow, og Blink Malcolms Gladwell eru mun betri greiningar á eiginleikum mannlegrar hugsunar, þótt þær ræði ekki jafn ítarlega trú á furðuleg fyrirbæri.
Undir lokin þræðir Shermer sig í gegnum samsæriskenningu nútímanns, um meint samsæri bandaríkjastjórnar á bak við 9/11. Einnig ræðir hann einstrengingslega afstöðu repúblikana og demókrata í umræðum efnahags og samfélagsmál. Hann gerir vel að greina umræðuna, sem mótast aðallega af djúpgreyptri afstöðu sem hnikast ekki við nein mótrök. Rök með einni pólitískri sannfæringu eru vegin meira en rök geg henni, sama hvaða einstak mál er til umræðu. Hins vegar fer hann aðeins út af sporinu, þegar hann reynir að færa rök fyrir sinni persónulegu stjórnmálaskoðun.
Í heildina tekst Shermer ágætlega til, megin röksemdir hans eru skýrar og halda vatni. Það er ekki víst að þetta sé hinn endalegi sannleikur um trúgirni mannfólks, og ólíklegt að bókin dugi til að draga stálið úr forvígismönnum eldri trúhreyfinga, nýrri nýaldarpostula, sértrúarsöfnuða, heilbrigðispredikara og samsærissjáenda ýmiskonar. Sorglega niðurstaða rannsókna Shermers og félaga er nefnilega sú að vísindaleg þjálfun dugir ekki til sem bólusetning fyrir trú á furðuleg fyrirbæri. Einstaklingar með próf í jarðfræði geta hampað mestu bábiljum um erfðafræðileg efni, og líffræðingar farið með staðlausa stafi um eðlisfræði orkunýtingar.
Shermer er ritstjóri Sceptic magazine, sem sérhæfir sig í að rýna í jaðarhugmyndir sem þessar.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Athugasemdir
Mér finnst það undarlegt að maður sem sýnir engin merki um geðveilu nema afmarkaða ranghugmynd, sem ógnaði engum, sé haldið hálft annað ár á geðveikrahæli. Það er bara í mínu augum ofbeldi heilbrigðisréttrúnaðarins sem menn ættu að hneykslast á út af fyrir sig. Dellur af þessu tagi, líka t.d. það að sjá álfa, sem brengla ekki neitt annað, finnst mér að eigi ekki að flokka með geðveilu heldur sérstakri persónuleikaeitthvað, ég vil ekki segja röskun eða truflun heldur bara eitthvað sér á parti. Að öðru leyti er þetta fólk oft alveg í lagi. Helfararafneitun held ég að sé sérstakt fyrirbæri, tengt ofstæki og hatri í huganum, og ekki skylt trú á t.d. geimverur. Mér dettur þetta bara í hug án þess að hafa hugsað það djúpt af gífurlegri rökvisi!
Sigurður Þór Guðjónsson, 18.9.2012 kl. 18:24
Já, þetta er fremur einvher sérviskueigind fremur en raunveruleg geiðveila. Þórbergur trúði á skrímsli og var glaður og reifur með það. En helfararafneitun er af ætt haturs og ofstækis, mannfjandsemi tel ég. Hún er ekki sama eðlis og flest hitt sem þarna var upptalið. Ég hef hins vegar ekki lesið þessa bók sem virðist mjög áhugaverð.
Sigurður Þór Guðjónsson, 18.9.2012 kl. 18:31
En hvað um þrjár af meginundistöðum „pólitískrar rétthugsunar“ samtímans, nefnilega:
1. Allir kynþættir mannanna séu eins þannig að t.d. Danir séu eins og dverg- svertingjar og indíánar eins og Ástralíu-frumbyggjar.
2. Að sambúð tveggja karla eða tveggja kvenna sé „hjónaband“, ógreinanlegt frá öðrum hjónaböndum manna, (og dýra, fugla o.s. frv.)
3. Að skipting og hlutverkaskipting gjörvalls lífríkisins, jurta, dýra og manna ná ekki til mannkynsins, þannig að konur og karlar séu, ólíkt því sem gerist hvarvetna annars staðar í lífríkinu, eins.
Þessar kenningar eru í kjarna sínum beinlínis „vit-firrtar“, þ.e. sviptar öllu viti og heilbrigðri skynsemi. Þó er fullt af fólkii, þar á meðal margir sem titia sig „vísindamenn“, sem trúa þessu í fullri alvöru.
Vilhjálmur Eyþórsson, 18.9.2012 kl. 19:38
Skýringa á trúnni er annars kannski að leita í því, að maðurinn er félagsvera, hópdýr. Það er manninum eðlilegt að hlýða skipunum, ekki gefa þær. Hann vill gera það sem foringinn segir, og réttlætir gerðir sínar með því að vísa til þess. Sé enginn jarðneskur foringi til staðar, er ósýnilegur foringi fundinn upp, og fram kemur síðan stétt, galdralæknar eða prestar, sem „túlka“ skipanir þessa ósýnilega en máttuga foringja. Þetta vindur síðan upp á sig.
Vilhjálmur Eyþórsson, 18.9.2012 kl. 20:48
Gott og vel.
Segjum sem svo að það sem vísindi hafa óhrekjanlega leitt í ljós sé að það sé enginn Guð.
Bara lögmál; sum skiljanlegri en önnur.
Er samt ekki augljóst að lögmálin leiði nauðsynlega til lífs, síðan vitundar?
Það er nánast eins og þú haldir að sú sé ekki raunin.
Bara eitthvað lótto lögmálanna...
Jóhann (IP-tala skráð) 18.9.2012 kl. 23:44
Mér finnst alltaf jafn undarlegt að sjá að menn eins og Shermer virðist ekki einu sinni detta til hugar að þeir líka hafa trúarlegar hugmyndir og að aðrir sem hafa ekki sömu skoðanir og þeir hafa líka efa en bara beita honum á annan hátt.
Hvernig t.d. myndi maður glíma við mjög raunverulega upplifun á því að vera numinn burt af geimverum? Hvaða "vísindalega" þekking er til sem segir að þessi upplifun er röng? Hver hérna er viss um að svona upplifun henti þá að þeir myndu hafna henni vegna þess að þeir eru svo vel grundvallaðir í...hverju? Sannleikanum?
Mofi, 19.9.2012 kl. 09:26
Sigurður Þór
Mannshugurinn getur brugðist á marga vegu, og enginn hefur rétt fyrir sér í öllum málum. Mannkynssagan er full af fólki sem rambaði á rétt svar við einstökum spurningum, en sýndi síðan fádæma fávisku í öðrum málum. Shermer er bara að reyna að skilja, hvað það er sem fær okkur til að sjá mynstur og verk hulinna (stundum óraunverulegra) aðilla.
Þetta eru sannarlega persónu-einkenni (ath. ekki heilkenni eða sýki), sem eru sterkari hjá sumum en öðrum. Einnig má vera að sum okkar séum útsettari fyrir sumum kreddum en öðrum, vegna uppeldis, áfalla eða tilviljunar.
Arnar Pálsson, 19.9.2012 kl. 10:36
Vilhjálmur
Þú berð upp þrjú ólík málefni, á snertiflötum liffræði og samfélags. Saga umræðu um þessi málefni er ansi skrautleg og því miður lituð af pólitískri hugsun, eða hugsjónum lengi vel.
Atriði 1. Skyldleiki mismunandi hópa manna. Í fyrsta lagi er ljóst að mannkynið er ein tegund, við getum æxlast og átt frjó afkvæmi. Það eru engar vísbendingar um æxlunarlega einangrun á milli hópa eða þjóða(rbrota). Í öðru lagi er greinilegur erfðafræðimunur á milli hópa, danir eru ekki eins að upplagi og Ástralir. Þetta hefur komið mjög skýrt í ljós á síðasta áratug. Þetta er spurning um skala. Þannig að menn eru ólíkir, en þeir eru samt sama tegund.
Atriði 2. Hjónaband mannfólks og samlífi annara tegunda. Þetta er nú meira siðfræði eða félagsfræði en líffræði. Málið er bara að skilgreina hjónaband. Það er bandalag tveggja mannvera, sem í flestum (en ekki öllum tilfellum) felur í sér barnagerð og uppeldi. Á Íslandi þekkjum við margskonar fjölskyldugerðir, börn hafa alist upp á ömmum, frænkum, frændum og óskyldum. Fjölskylduformið hefur sannarlega snúist um karl og konu, en það eru fjöldi dæma um góð og árangursrík samneyti tveggja karla og tveggja kvenna. Líffræðilega geta erfðaþættir sem ýta undir samkynhneigð ekki orðið ríkjandi í stofni, en þeir eru samt eðlilegur hluti af flórunni.
Atriði 3. Þessi alhæfing stenst ekki alveg. Það eru margar lífverur þar sem munur á kynjum er lítill, og í sumum lífverum eru kynin mun fleiri enn 2. Samaburður á dýrum sýna jú að kynin eru oftast ólík að vissu leyti, en munurinn er mismunandi eftir hópum og stundum kynjum (sbr. hesta og hýenur). Karlar og konur eru ekki eins að byggingu og áhugasvið þeirra eru ekki nákvæmlega þau sömu. Ef við látum bygginguna eiga sig, og horfum á áhugasvið og verkfærni, þá er mikil skörun á því sem kynin telja skemmtilegt, spennandi, mikilvægt og gott. Ég held að það sé samfélaginu til farnaðar að átta sig á því að einstaklingar hafa sína styrkleika og sitt drif, sem gerir þeim kleift að leggja eitthvað af mörkum.
Varðandi hugmynd þína að manneskjur séu í eðli sínu hópsálir, þá er ýmislegt því til stuðnings. Hins vegar myndi ég ekki ganga svo langt í ályktunum að okkur sé eðlislægt að hlýða. Hins vegar kann að vera að í hópum sé alltaf hættan á að einhverjir einstaklingar læri að leika hlutverk prestins og nái þannig tangarhaldi á hjörðinni. Í fortíðinni voru e.t.v. sagnamenn sem gengu á milli hópa og sögðu sögur, sungu og skemmtu fólki. Kannski voru fyrstu prestarnir einmitt bara sögumenn, sem boðuðu magnaðir sögur um orsakir hörmunga og hvalreka, og unnu sér þannig inn auðsóttan bita....
Arnar Pálsson, 19.9.2012 kl. 10:54
Jóhann
Vísindin geta ekki afsannað tilgátur um yfirnáttúrulegar verur eða krafta.
Uppruni lífs er í augnablikinu ráðgáta. Þróunarkenningin virkar bara á einingar sem afrita sig og búa til afkvæmi. Við vitum ekki hvort að tilurð lífs sé líklegt eða ólíklegt fyrirbæri (í sólkerfi okkar er þó bara ein pláneta með líf!).
Það eru deildar meiningar um hvort að vitund sé óhjákvæmileg afleiðing þróunar. Í þróunarkenningu nútímans er ekkert sem segir að vitund sé óhjákvæmileg. Hins vegar má færa rök fyrir því að þegar fjölfruma lífverur hafa öðlast i) skynfæri, ii) hreyfanleika,iii) miðtaugakerfi og iv) flókið búsvæði, þá séu líkurnar á tilurð vitundar orðnar meiri. Vandamálið er líka hvernig við skilgreinum vitund. Ertu að tala um sjálfsvitund, eða bara einhverja tilfinningu fyrir sjálfum sér? Mannfólk er með sjálfsvitund, upplifir sjálfa sig sem einstakling og veit að það hugsar. Ávaxtaflugur eru með tilfinningu fyrir líkama sínum, færa sig þegar stjakað er við þeim. Þær eru með líkamsvitund.
Arnar Pálsson, 19.9.2012 kl. 11:01
Mofi
Það eina sem Shermer segir er - sýnið mér gögnin (show me the evidence). Enginn hefur séð neinn vera numinn á brott af geimverum, engar myndir hafa verið teknar, engin geimför geymd á Brittish museum, engir geimveru kúkar fundist í Nevada eyðimörkinni og engin för eftir lendingu fundist.
Það sem liggur til grundvallar eru sögur fólks sem er í flestum tilfellum; vansvefta, örþreytt, undir miklu álagi, undir áhrifum lyfja/áfengis, sem finnst það hafa verið numið á brott.
Læknisfræðin hefur lýst því hvernig mörk draums og veruleika hverfa við slíkar aðstæður, og besta (einfaldasta) skýringin á þessum sögum, er sú að fólk hafi verið með drauma eða ofskynjanir.
Arnar Pálsson, 19.9.2012 kl. 11:06
Mofi, sönnunarbyrðin liggur hjá þeim sem segist hafa verið brottnumin, alveg eins og sönnunarbyrði um tilvist guðs liggur hjá þeim trúaða..
Það gengur ekki upp að nota þína aðferð; Mig langar svo mikið að það sé guð og líf eftir dauðann, þess vegna er guð til..
Flestir þeirra sem segjast brottnumdir eru að reyna að ná sér í peninga, eru kannski líka smá steiktir í hausnum.. En eitt máttu vita, við eigum eftir að finna aðrar geimverur þarna úti.. en guðinn þinn mun aldrei finnast, því hann er augljóslega hannaður af mönnum :)
DoctorE (IP-tala skráð) 19.9.2012 kl. 11:19
Arnar, ótal margir segjast að hafa séð svona hluti en þú velur að hafna þeirra vitnisburði sem er alveg skiljanlegt en gögn í formi vitnisburðar eru til.
DoctorE, enda erum við að tala um það sem við trúum. Hefur þú sannanir fyrir þinni sannfæringu? Eins og t.d. þessa sannfæringu þína að við eigum eftir að finna geimverur þarna úti?
Mofi, 19.9.2012 kl. 12:26
Það verður að teljast afar ólíklegt að jörðin sé eini staðurinn í alheiminum þar sem líf kviknaði. Það eru skrilljón billjón vetrarbrautir þarna úti, óteljandi sólir/plánetur; það er eiginlega fásinna að segja að við séum ein... Vonadni næ ég að sjá geimverur a´ður en ég drepst
DoctorE (IP-tala skráð) 19.9.2012 kl. 12:35
Persónulega, þá finnst mér það vera stærsti sjúkdómur nútímans, að allir eru orðnir geðveikir. Ef þú ert ekki eitthvað-path, þá ertu eitthvað-disorder. En að mann greiið hafi skipulagt þetta, er öllum orðið fjarstædukennt. Slíkt eru bara samsæriskenningar, allir erum við saklausir ... svo ef að við skrifum of hratt á liklaborðið þá erum við með typing-disorder. Tölum við of hratt, þá erum við með málæði, og ef við látum hátt í okkur heira, erum við með brjálæði, allt er þetta orðið mismunandi æðislegt, og þykja menn öðrum meiri, sem dvelja í fílabeinsturni sínum, og líta niður á aðra menn, og sjálfan sig sem Guð almáttugan, með máttinn og duginn að kalla þig veikann, og hann bleikann, og þann næsta sjálfan satan.
Sjálfum finnst mér tími til að lækna geðlæknana af geðveilunni.
Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 19.9.2012 kl. 12:40
Tölfræðilega séð þá ættum við ekki einu sinni von á því að finna eitt prótein þarna úti, hvað þá einhverjar lífverur.
Mofi, 19.9.2012 kl. 12:47
Tölfræðilega Mofi, þá erum við á lágu þroskastigi, og erum ennþá með þá skoðun að jörðin sé flöt. Vissulega eru til menn sem vita að hún er ekki flöt, en farðu bara á netið að slátu inn "earth map". Allar þessar myndir eru flatar. og þegar menn eru að reka flekanna fram og tilbaka, eftir nýjust tækni og vísindum (Plate Tectonics), þá eru þeir að flytja þessa jarðarfleka á þessu flata korti.
Svo að, þó svo að það væri líf á tunglinu ... þá höfum við ekki rasgat vit á því, að hverju við erum að leita. Svo það er afskaplega eðlilegt, að finnum ekkert ...
Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 19.9.2012 kl. 12:53
Við höfum líf á ólíklegustu stöðum hér á jörðinni, að segja að það sé ekki annað líf þarna úti í alheiminum er heimska að mér finnst.
Nóg að gera hjá Sússa að frelsa allar hinar geimverurnar :)
DoctorE (IP-tala skráð) 19.9.2012 kl. 13:02
Hérna er grein sem þú ættir að lesa: http://en.wikipedia.org/wiki/Myth_of_the_Flat_Earth
Er þá ekki dáldið kjánalegt að halda að það eru geimverur þarna úti fyrst að það stefnir ekkert í að nokkur tíman muni finnast gögn til að styðja það?
Þú hefur enga trú á staðreyndunum og tölfræðinni, kannski ertu trúlausari en ég hélt :)
Mofi, 19.9.2012 kl. 13:13
Þú ert svo takmarkaður Mofi, trú þín(Langanir) í það sem þú getur ekki fengið hefur sett þér svo þröngar skorður að þú getur ekki hugsað um neitt nema þú sért partur af því.. þú og extra lífið(Sem þú færð ekki). Þú ert það tæpur að þú telur faktískt að alheimurinn hafi verið sérstaklega smíðaður fyrir þig.
En hey.. WTF, þetta er þitt vandamál Mofi, þú ert að rústa eina lífinu þínu í ekkert nema glópabull
2 Áhugaverðir fræðsluþættir
How big is the universe?
Og svo
How small is the universe?
DoctorE (IP-tala skráð) 19.9.2012 kl. 13:25
Ég taldi upp þessi þrjú atriði vegna þess að þau eru ein helsta undirstaðan undir pólitískri rétthugsun, en þessa undirstöðu hef ég nefnt „flathyggju“ og skrifaði um það grein eða ritgerð í Þjóðmál, sem ber nafnið „Eyja Sancho Panza“ http://vey.blog.is/blog/vey/entry/643708/. Ástæða þess að ég nefni þetta er þó fyrst og fremst sú, að í dag eru vísindin beinlínis notuð til að ná fram tilteknum pólitískum og félagslegum markmiðum eins og að stuðla að góðu samkomulagi kynþátta, kynhneigða ýmsi konar og ekki síst karla og kvenna. Þetta eru vafalaus góð og göfug markmið, en þau koma vísindunum og sannleikanum, sem raunverulegir vísindamenn ættu að leita, ekkert við. Raunar kemur fram í færslu þinni, að þú sérð lítið eða ekkert athugavert við þá kenningu t.d. að karl- og kvenkyn mannanna sé eitthvað allt annað en karl- og kvenkyn hvarvetna. Í rauninni er gífurlegur „dímorfismi“, þ.e. arfgengur, meðfæddur, kynbundinn munur, á stærð og styrkleika, vaxtarlagi, hárvexti o.fl. o.fl. hjá mönnunum. Í náttúrunni bendir svo mikill munur alltaf til geysimikillar hlutverkaskiptingar og fjölkvænis, sem raunar er elsta og upprunalegasta sambýlisformið. Slík hlutverkaskipting er í sjálfu sér ekkert vont, eins og flathyggjumenn ímynda sér, heldur fullkomlega náttúruleg eins og t.d. hlutverkaskipting karlljóna og ljónynja í náttúrunni.
Málið er hins vegar, að í dag er verið að nota vísindin til að ná fram tilteknum pólitískum og félagslegum markmiðum, en það stríðir gegn öllu því sem sönn vísindi standa fyrir.
Vilhjálmur Eyþórsson, 19.9.2012 kl. 13:33
Jafnvel þótt að mín trú væri blekking ( sem hún er ekki ) þá væri betra að lifa þessu lífi með von en að lifa þessu lífi í vonleysi. Það skiptir ekki máli hvernig þú snýrð þessu, ég vinn alltaf :) Góðu fréttirnar er að þú getur unnið líka.
Mofi, 19.9.2012 kl. 13:40
Trú þín er blekking mofi og það skiptir miklu máli. Hver vill lifa með falskar vonir og lygasögu á bakinu.
Hvað með fólk sem fær póst frá svindlurum.. eigum við ekki að hugsa sem svo: Verum ekkert að vara þessa persónu við, henni líður svo vel með fölskum vonum.
Þú værir múslími hefðir þú fæðst í múslímalandi Mofi.. þar værir þú með sömu fölsku vonirnar.. sama guðinn en aðeins öðruvísi galdrabók..
Spáðu í því að sóa lífi sínu í þetta mofi, þín eina huggun er sú að þegar þú drepst þá getur þú ekki grátið yfir heimksu þinni í þessum málum, því þú verður dauður :)
DoctorE (IP-tala skráð) 19.9.2012 kl. 13:55
Ég gleymdi að geta þess hér að ofan að pólitísk rétthugsun er hin nýja trúarkenning samtímans. í meginatriðum er ætlast til að fólk afneiti sínum eigin skilningarvitum og heilbrigðri skynsemi á sama hátt og í öðrum trúarbrögðum. Kyn, kynhneigðir og kynþættir mannanna eru eins samkv. þessum nýju kenningum og hver sá sem efast er samstundis kominn í svipaða stöðu og sá sem efaðist um kenningar kirkjunnar á miðöldum. Hann er í tygjum við djöfulinn (gjarnan Hitler og nasista), karlrembusvín, hommahatari og rasisti. Að efast um meginkenningar pólitískrar rétthugsunar er í rauninni sambærilegt að vera sagður villutrúarmaður og þar með réttdræpur fyrr á öldum.
Hér er, sem fyrr sagði, um ný trúarbrögð að ræða, en allt of fáir virðast gera sér grein fyrir því, en eins og ég benti á hér að ofan fer ég all náið í þetta mál í greininn „Eyja Sancho Panza“http://vey.blog.is/blog/vey/entry/643708/ Trúarbrögðin eru manninum ásköpuð. Einungis er breytilegt í hvaða mynd þau birtast.
Vilhjálmur Eyþórsson, 19.9.2012 kl. 14:56
Earth map
Ætli það sé nú ekk enn kjánalegra, að kenna það börnum að við séum ein í himingeimnum og að gráhærð geimvera hafi skapað þennan bolta með járni í miðjuni, eins og allar aðra bolta með járni í miðju. Sem á að fyrir finnast í himinhvolvinu, þar sem járn er afar sjaldgæft og 99,999% er ekki járn en samt eru bara allar pláneturnar úr járni.
Má ég spyrja þig Mofi, hafðir þú sjálfur vit á því að sjá andstæðurnar í þessum staðhæfingum?
Eru ekki menn að byrja að kenna krökkum "öll" trúarbrögðin, svo ekki sé verið að hampa einni trú. Ætli það sé ekki mun mikilvægara Mofi að kenna krökkum það sem líklegra er. Í stað þess að ala krakkana upp í þeirri fáfræði, og láta þau síðan lifa í blindni trúarinnar. Og þá skiptir engu máli hvort trúin heitir Kristni, Islam, Big Bang eða Plate Tectonics.
Og það rétta er að kenna börnunum, að við séum að öllum líkindum ekki ein í himingeimnum.
Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 19.9.2012 kl. 15:44
Hérna kemur mun betra lesefni, um hvernig uppruni "flat earth" á sér stað. Og hvernig bókstafleg túlkun trúarinnar, hefur skipt sköpum í að móta þessa mynd af heiminum. Gott lesefni fyrir þá, sem vilja sjá hvernig "trú" spillir þekkingu.
The flat earth
Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 19.9.2012 kl. 15:59
Langaði bara að benda þér á að það er goðsögn að menn trúðu að jörðin væri flöt.
Virðist vera svipað kjánalegar hugmyndir í mínum augum. Bara svo það komi fram þá trúi ég að Guð hafi skapað heima svipaða og þessa jörð en að við munum aldrei finna gögn til að styðja það enda þess vegna kalla ég þetta mína trú.
Málið er bara að ríkisstjórnin mun bara velja hvað henni finnst vera líklegast eða hvað börn eiga að læra. Helst vildi ég að ríkisstjórnin léti trú í friði í skólum, það á líka við guðleysis þróunartrúna. Augljóslega þá er trú að þróunarkenningin sé sönn þýðir að mikið af trúarbrögðum heims er ekkert annað en lygi.
Fræða þau um þá þekkingu sem við höfum öðlast og láta í friði trúarlegar hugmyndir um heiminn, um tilgang lífssins, um uppruna okkar og hvað verður um okkur.
Mofi, 19.9.2012 kl. 16:06
Er einhver hérna sem getur sýnt fram á það að hann geti hugsað eina hugsun til enda?
Sýnt það með mælitækjum eða myndum. Ef ekki hvað þá?
Gunnar Hauksson (IP-tala skráð) 19.9.2012 kl. 16:26
Vilhjálmur Eyþórsson lítur á sjálfan sig, miðaldra hægrisinnaðan karlmann, sem hápunkt sköpunarinnar: Hann er fullkominn og þar af leiðir að allir sem ekki eru eins og hann séu ófullkomnir. Ef vísindin segja eitthvað annað þá hafa vísindin rangt fyrir sér!
Það er ástæða til að lesa flathyggjugrein Vilhjálms sem hann vísar á, enda er hún skemmtilegur vitnisburður um andlega flatneskju hans. Segir sitt um það rit Þjóðmál að það skuli hafa tekið hana til birtingar.
Vilhjálmur: Fyrir hvítum hægrisinnuðum miðaldra karlmönnum, nasistar þar meðtaldir, eru kynþættir mannanna ólíkir en fyrir náttúrunni eru þeir eins: Danskur karl getur átt barn með dvergsvertingjakonu og barn þeirra getur átt börn með indíánum og Ástralíu-frumbyggjum. (Taklið eftir að Danir, germönsk þjóð, er á hátindi fullkomnunarinnar að mati Vilhjálms og því útilokað að þeir geti átt nokkuð sameiginlega með óæðri kynþáttum eins og dvergsvertingjum, indíánum og Ástralíu-frumbyggjum). Það verður greinilega ekki of oft tuggið ofan í þig: Munur milli kynþátta er minni en munur innan kynþátta.
Einnig er vert að benda þér á að sambúð einstaklinga af báðum kynjum sem menn kjósa að kalla hjónaband, eru þekkt meðal margra dýrategunda, ekki bara mannanna. Það eru fjölmörg skjalfest dæmi um að dýr af sama kyni eigi mök saman, bendi á nýlega birtar rannsóknir á mörgæsum frá upphafi síðustu aldar, en mönnum eins og þér, íhaldssömum miðaldra hvítum karlmönnum, þóttu niðurstöðurnar svo óttalegar að þær voru ekki birtar í hundrað ár. Og nei, Vilhjálmur, af því þú hefur óttast það: Samkynhneigð er ekki smitandi, maður verður ekki hommi af að horfa á gleðigönguna.
Hvað síðasta atriðið varðar þá skil ég að Vilhjálmi finnist fúlt að vera ekki meira metinn er raun ber vitni fyrir það að vera karlmaður, en flest það sem hann hefur fram yfir konu á sama aldri kemur að litlum notum í nútímaþjóðfélagi, eða hvenær ætli hann hafi síðast þurft að fella uxa með einu hnefahöggi? Sá draumur hægrisinnaðra miðaldra karlmanna að konur eigi heima í eldhúsinu og karlarnir standi við stýrið er órar, della, bjánagangur. Vel má vera að páfuglinn eigi sitt hænsnabúr, en þú munt aldrei koma sér upp kvennabúri Vilhjálmur, enda ólíklegt að kona kjósi karlrembusvín, hommahatara og rasista.
Hversemer (IP-tala skráð) 19.9.2012 kl. 20:53
Þessi athugasemd er einkar dæmigerð fyrir forritaða flathyggjumenn, postula ríkjandi pólitískrar rétthugsunar, og snýst raunar ekki um það sem ég hef skrifað heldur einhver steypa um að ég sé hvítur karlmaður, sem hann hefur lært að sé vont. Blaðrið á að vera einhvers konar persónuleg árás á mig, sem neitar að hlusta á þær skoðanir sem þessum manni hafa verið kenndar. En svona tala málsvarar múgsins, fólksins með blysin og heykvíslarnar og svona tala alltaf þeir, sem hafa lært skoðanir sínar af öðrum í stað þess að hugsa sjálfir. Því miður er fólk af þessu tagi ríkjandi víðast hvar.
Vilhjálmur Eyþórsson, 19.9.2012 kl. 22:18
Náttúrulega mikið til í því sem umræddur bókarhöfundur segir almennt séð. Fólk myndar sér oft fyrst skoðun - og reynir síðan að rökstyðj hana. þetta er alveg rétt.
En með það hve furðuegar hugmyndr margar sagan geymir. þ.e. sem okkur í dag þykir furðulegt og heimskulegt en var haft fyrir satt í eina tíð - að hver er þess umkominn að segja að þær hugmyndir sem eru ríkjandi í dag séu endilega réttar? Hugmyndir í dag um jörð og geim eru kannski réttari í dag en í gamla daga - en eru þær alfarið og óumdeilanlega réttar? þær kynslóðir er koma í frmtíðinni mun hugsanlega þykja okkar hugmyndir fáránlegar.
Nú, varðandi tilurð guðstrúar og/eða trúar á ýmis öfl að baki etc. - að þá má ekki gleyma að fólk fyrr á tíð var yfirleitt miklu tengdara náttúrunni. Við erum að tala um allt annað dæmi en þekkist almennt á Vesturlöndum í dag 2012. Fólkið var hluti af náttúrunni. Eg held að þegar fólk lifir þannig - að þá sé tæplega hægt að komast hjá því að sjá hið guðlega í tilverunni barasta útum allt. Spurjið bara grænlendinga.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 20.9.2012 kl. 01:57
Þakka svarið.
Ekki einasta geta vísindi ekki svarað því hvernig líf varð til, þau geta aukinheldur hvorki gert grein fyrir því hvernig vitund, né meðvitund varð til.
Þú nefnir ávaxtafluguna, enda skemmtilegt verkfæri erfðafræðinga.
En jafnvel amaba, sem hefur engar eiginlegar taugar, er fær um að laðast að, eða forðast áreiti.
Það má vel vera að svokallaðir "vísindahyggjumenn" aðhyllist skýringar sem enda á því að segja að þetta sé bara "eðlisfræðilögmál".
Þá er samt full ástæða til að spyrja hvaðan þau komu, ekki satt?
Hvað merkir að tilveran sé bara afurð eðlisfræðilögmála?
P.S. Þú ættir fremur að nota hugtakið "trúgjarn" heldur en "trúlegur", enda er hugmyndin um trúlegan heila hvorki gagnsæ, né trúverðug.
Jóhann (IP-tala skráð) 20.9.2012 kl. 23:28
Hvaðan kom þetta allt.. jú það var galdrakarl sem galdraði þetta upp, það sem meira er, það var galdrakarlinn þinn AKA Gawd of the gaps.
Það að vísindin hafi ekki svar við öllu táknar ekki að guðir séu til.. það táknar ekki að þið fáið framhaldslíf.. .
Svo vill mofi láta í friði trúarlegar hugmyndir.. hann veit innst inni á bakvið sjálfumhyggjuna að trúarlegar hugmyndir eru ranghugmyndir.. ranghugmyndir ber að leiðrétta, trúarbrögð eru ekki undanskilin því.
DoctorE (IP-tala skráð) 21.9.2012 kl. 09:01
Vísindin eru ekki ákveðið svar heldur aðferð til að rannsaka heiminn. Að láta sem svo að vísindin er ákveðin niðurstaða þá er viðkomandi að láta sem svo að hann hafi hinn endanlega Sannleika en slík hugmyndafræði er ekki vísindaleg í sjálfu sér. Það veit enginn hvernig alheimurinn varð til, hvernig sólkerfi og plánetur urðu til, hvernig líf varð til og hvernig lífverur með meðvitund og vitsmuni urðu til. Menn hafa trúarlegar hugmyndir um hvernig þetta varð til en enginn veit þetta. Að láta sem svo að vísindin sem einhvers konar alvitur persóna hefur þegar svarað þessu er bara að gefa upp manns eigin misskilning á hvernig vísindin virka. Upphafsmaður hinnar vísindalegu aðferðar trúði á Biblíulega sköpun, bara svo það komi fram því það varpar heilmiklu ljósi á hvað vísindin eru og hvað þau eru ekki.
Mofi, 21.9.2012 kl. 09:15
Mofi, það gengur ekki að grafa upp gamla löngu dauða menn og segja þá hafa trúað biblíu þó þeir væru vísindamenn.. þetta var bara þekking manna á þeim tíma; þessir sömu menn myndu algerlega hafna biblíu ef þeir hefðu sömu upplýsingar og við höfum í dag.
Ef ég hefði verið uppi ... tja þarf ekki að vera mjög lang aftur, þá er líklegt að ég myndi trúa á að guð hafi galdrað allt upp; Það er ekki svo langt síðan að vísindamenn voru að spá hvort sólin keyrði á kolum eða timbri..
Alveg eins með fólkið í gamla daga og biblíu, ég get afsakað þetta fólk algerlega, það vissi ekki betur; það sem ég get ekki afsakað er að maður eins og þú mofi, með aðgengi að þekkingu,netinu.. þú neita best sönnuðu vísindagrein í heiminum mof... vegna þess eins að þig langar ekki að deyja, en guess what, það breytir engu, þú drepst með lygasögu á bakinu, ein síðasta krissaeðla íslands
DoctorE (IP-tala skráð) 21.9.2012 kl. 09:47
Þetta er forvitnilegt, hvaða upplýsingar höfum við í dag sem hefðu látið þessa menn skipta um skoðun?
Mofi, 21.9.2012 kl. 10:34
I rest my case, nákvæmlega svona viðbrögð koma alltaf frá mofa.. sérðu ekki hvað þetta er heimskulegt hjá þér drengur, sheesh
DoctorE (IP-tala skráð) 21.9.2012 kl. 10:44
Hehe, já, spyrja spurninga, vilja vita meira. Hve mikið meira heimskulegra getur það orðið! :)
Þú varst kannski að hugsa um þá þekkingu að alheimurinn hafði byrjun ( Sönnun fyrir tilvist Guðs: alheimurinn hafði upphaf ) eða hvað við vitum núna um upphaf lífs ( Sönnun fyrir tilvist Guðs - uppruni lífs ), eða allt sem við höfum lært um náttúruna? ( Myndbönd sem sýna ótrúlega hönnun í minnstu einingum lífsins )
Sannleikurinn er sá að þessir menn eins og Francis Bacon ( faðir hinnar vísindalegu aðferðar ) trúðu á Guð án þess að vita hve miklu fleiri ástæður eru til að trúa á tilvist Guð en þeir höfðu nokkru sinni. Við höfum ekki beint séð mikið af upplýsingum sem vísindin hafa aflað síðustu hundrað árin eða svo sem hafa stutt guðleysi. Mér dettur hreinlega ekkert í hug!
Mofi, 21.9.2012 kl. 10:55
Mofi.. þú og trúfélagar þínir segið að það sé guð, þið hafið engar sannanir, bara einhverja tilfinningar og viljið ekki deyja þegar þið drepist..
Taku eftir: Ef þú kemur til mín og segir að Mikki Mús sé til í alvörunni.. þá verður þú að sanna að hann sé til í alvörunni.. þú getur ekki komið og sagt að mikkamúsarleysingjar hafi ekki komið með neitt sem styðji við mikkamúsarleysi; og að þú trúir á Mikka mús vegna þess að annars er allt svo leiðinlegt og tilgangslaust fyrir þig.
DoctorE (IP-tala skráð) 21.9.2012 kl. 11:15
Ég benti á ótal gögn, aðeins gögn sem upphafsmenn vísindanna höfðu ekki en hvað getur þú bent á? Ekkert... þú hefur alla mína samúð, þín afstaða er vonlaus í fyllsta skilningi orðsins.
Mofi, 21.9.2012 kl. 11:38
Þetta sem þú kallar gögn mofi.. þetta er þvaður úr answersingenesis.. tilfinningavella og .. á mörkum geðveiki.
Finnst þér ekki merkilegt að þú kallar eftir sönnunum fyrir vísindum, það er margbúið að benda þér á hvaða efni er til og hvar er hægt að nálgast það.. og hvað gerir þú, kemur með svona þvaður aftur og aftur og aftur og aftur.. kannt varla að setji inn slóð miðað við þetta fáránlega svar þitt...
Það er ekki vegna einskis sem þú og trúfélagar þínir kallis eggjahvítur
DoctorE (IP-tala skráð) 21.9.2012 kl. 12:02
Hmm, vanalega er ekkert mál að pasta beint inn linkum...
jæja, þá þarf maður að hafa aðeins meira fyrir þessu:
Ég fyrir mitt leiti lít þannig á að þegar einhver getur ekki komið með rök fyrir sínu máli og byrjar með skítkast þá hefur viðkomandi rangt fyrir sér en bara getur ekkert horfst í augu við það og orðið tilgangslaust að tala við viðkomandi.
Mofi, 21.9.2012 kl. 12:14
Hversemer. Samkynhneigð á sér stað í dýraríkinu eins og allir aðrir lestir mannanna. Það réttlætir þá ekkert frekar.
Benni (IP-tala skráð) 5.10.2012 kl. 05:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.