21.9.2012 | 15:59
Veldur erfðabreyttur maís krabbameinum í mönnum?
Erfðabreyttar lífverur eru umdeildar. Þær eru búnar til með erfðatækni, sem gerir vísindamönnum kleift að flytja gen úr einni lífveru yfir í aðra. Jafnvel úr bakteríu yfir í plöntur. Ég hef skrifað töluvert um erfðabreyttar lífverur komið þeim og erfðatækninni til varnar. Hér er lyklaborðið aftur lamið, því í vikunni birtist ritrýnd rannsókn frá Giles-Eric Serilini og félögum hans við háskólann í Caen í Frakklandi.
Uppsetning tilraunar
Þar er lýst fæðutilraun, 200 rottum er skipt í 10 hópa (með jöfnum kynjahlutföllum). Hvítar rottur af stofninum Sprague-Dawley voru notaðar í rannsókninni. Vitað er að í þeim myndast mjög gjarnan krabbamein (brjóstamein aðallega) ef dýrin borða óhóflega mikið.
Hópur tuttugu rotta til viðmiðunar fékk venjulegan maís í ætinu, en hinir níu hóparnir fengu erfðabreyttan maís (roundup-ready), erfðabreyttan maís af akri sem var spreyjaður með eitrinu (roundup) eða venjulegan maís og roundup í drykkjavatninu. Athugað var hvort að styrkur hefði áhrif, með því að bæta mismiklu af erfðabreytta maísnum í fæðuna (11%, 22% eða 33%), eða hafa mismikið af Roundup í vatninu.
Uppsetningin er ágæt, nema hvað viðmiðunarhópurinn er helst til lítill að mínu viti. Og það hefði verið mjög gott að hafa óháðar endurtekningar af rottuhópunum, eða jafnvel annan stofn (meira um það síðar).
Niðurstöður og ályktanir hópsins voru kynntar á blaðamannafundi nýlega. Gagnstætt venju, fengu blaðamenn ekki eintak af vísindagreininni fyrirfram, nema þeir undirrituðu "Non-disclosure samning". (Það er óheppilegt, því það gefur blaðamönnum styttri tíma að leita álits óháðra aðilla, áður en fréttirnar fara í loftið.)
Ályktanir rannsóknarinnar eru sláandi. Erfðabreyttur maís og illgresiseitrið roundup drepur rottur og eykur tíðni krabbameina. Það er hins vegar vert að kafa aðeins í gögnin. Þeir segja að dánartíðni rotta sem fengu erfðabreyttan maís eða maís ræktaðan með roundup sé hærri en viðmiðunarhópsins. Einnig að tíðni krabbameina sé hærri meðal þeirra sem fengu meðhöndlun en tuttugu viðmiðunarrottaanna. Reyndar vantar tölfræði í greinina, sem þýðir að þeir geta ekki staðhæft að um marktæk áhrif sé að ræða. Þegar rýnt er í myndirnar má e.t.v. sjá áhrif í kvendýrum en ekkert í karldýrum. (sjá mynd 1 á vefsíðu tímaritsins) Fleiri agnúar á greininni eru ræddir hér neðar.
Hvað þýðir þetta - er roundup-ready erfðabreyttur maís hættulegur mönnum?
Í þessu tilfelli voru rottur notaðar sem líkan til að kanna möguleg áhrif af erfðabreyttri plöntu og áhrifum illgresiseiturs. Niðurstöðurnar virka afdráttarlausar, en spurning er hvort að samskonar maís (eða afurðir af ökrum sem eru spreyjaðir með roundup) séu hættulegur mönnum? Þetta má brjóta niður í nokkrar spurningar:
1) hversu gott líkan fyrir líffræði mannsins er rottan?
Svarið er að rottan er góð fyrir sumar rannsóknir en slæm fyrir aðrar. T.d. er rottan ekki gott líkan fyrir HIV rannsóknir, vegna þess að ónæmiskerfi þeirra er harla ólíkt okkar. Hins vegar er nagdýrið, eins og skylda tegundin mús, ágætt til að skilja þroskun margra líffæra, sérstaklega líffæra sem eiga langa þróunarsögu.
2) hversu gott líkan er þessi tiltekni rottustofn?
Er þessi tiltekna gerð af rottum sé gott líkan fyrir rannsóknir á eituráhrifum fæðu? Ég veit ekki svarið - en eiturefnafræðingar eða nagdýrasérfræðingar ættu að geta svarað því. Það er örlítið tortryggilegt að þessi stofn sé útsettur fyrir krabbameinum ef um ofeldi er að ræða. Því væri mjög mikilvægt að tryggja að allir hópar (viðmið og hinir) fái jafnmikið að borða. Þeir segjast mæla fæðuinntöku en ræða ekki áhrif hennar.
3) hvað segja aðrar rannsóknir?
Í vísindum er nauðsynlegt að endurtaka rannsóknir. Það er ekki nóg að einn aðilli fái tilteknar niðurstöður. Hann þarf að lýsa framkvæmdinni nægilega vel, og aðrir að geta endurtakið hana og fengið sömu (áþekkar) niðurstöður, til að vísindasamfélagið öðlist tiltrú á hugmyndinni. Nokkrar rannsóknir hafa verið gerðar á erfðabreyttum mais, en þær hafa ekki fundið nein skaðleg áhrif.
Það viðurkennist að þær tóku einungis til 90 daga tímabils. Það er fullkomlega sanngjarnt að krefjast langtímarannsókna.
En staðan er sú að fjöldi ritrýndra rannsókna hefur ekki fundið nein áhrif. Þessi rannsókn Serilinis sýnir skaðleg áhrif. Hvernig samrýmum við þetta tvennt?
a) Eru áhrif til staðar, en þau finnast bara í lengri tíma rannsóknum.
b) Áhrif eru til staðar, en þau eru það veik að þau finnast bara í fáum rannsóknum?
c) Engin áhrif, niðurstaða Serilinis og félaga er jákvæð vegna tilviljunar (búast má við marktækum niðurstöðum í 1 af hverri 20 tilraunum - einungis vegna tilviljunar. Samkvæmt grunnsetningum tölfræðinnar því við sættum okkur við "falskar jákvæðar" - "false positive" niðurstöður í 5% tilfella).
d) Engin áhrif en Serilini og félagar oftúlka niðurstöður sínar eða hönnuðu tilraunina vitlaust.
e) Áhrif eru til staðar, en allir hinir vísindamennirnir vantúlka niðurstöður sínar eða hönnuðu tilraunirnar vitlaust.
Mér finnst líklegast að kostur b) eða c) sé sá rétti. Ef við þurfum að velja á milli d) og e), þá telst fyrri kosturinn líklegri, á því prinsippi að samsæri gengur bara upp ef fáir standa að því.
4) Hvaða niðurstöðum getum við treyst?
I nútíma samfélagi er offramboð á upplýsingum, frá auglýsendum, sérhagsmunahópum, stjórnvöldum, sveitastjórnum og fræðimönnum. Hvernig á hinn almenni borgari að vinna úr þessum upplýsingum og hvernig getur hann tekið sína sjálfstæðu ákvörðun? Í þessu tilfelli eru helstu aðillarnir fyrirtækin sem selja erfðabreyttar lífverur (og illgresiseyði), stjórnvöld sem vilja tryggja öryggi borgaranna, stjórnmálamenn sem vilja það sama og stjórnvöld og atkvæði að auki, hagsmunsamtök og fyrirtæki sem hag hafa af því að móta neyslumynstur almennings. Lífvísindamenn hafa óbeinna hagsmuna að gæta, því að löggjöf um erfðabreyttar lífverur setur rannsóknum þeirra skorður (sem kosta peninga).
Í málinu má stilla upp tveimur andstæðum hópum. Serilini og nokkir samstarfsmanna hans, eru í öðrum hópnum. Hann hefur birt nokkrar rannsóknir á erfðabreyttum plöntum, og nær alltaf fundið eitthvað þeim til foráttu. Hann er einnig forstöðumaður Committee for Research and Independent Information on Genetic Engineering, sem er sjálfseignarstofnun með þetta markmið (CRIIGEN is an independent non-profit organization of scientific counter-expertise to study GMOs, pesticides and impacts of pollutants on health and environment, and to develop non polluting alternatives.). Serilini og félagar lýsa því yfir að engir hagsmunaárekstrar séu tengdir rannsóknunum.
Í hinum hópnum eru nær allir aðrir vísindamenn, sem hafa kannað eiginleika og áhrif erfðabreyttra lífvera. Meðal annars eru menn sem hafa farið í saumana á rannsóknum Serilinis og gagnrýnt þær fyrir ófaglega tölfræði, oftúlkanir á niðurstöðum og hreinar ýkjur.
Í kjölfarið á birtingu þessarar rannsóknar hefur frekar skerpst á þessum línum en hitt.
5) hvar liggur sönnunarbyrðin?
Það er algengt að rætt sé um sönnurnarbyrði í umræðu um erfðabreyttar lífverur. Andstæðingar þeirra staðhæfa að ekki hafi verið sannað að þær hafi ekki skaðleg áhrif. Á meðan þeir sem verja erfðabreyttar lífverur segja að slík krafa sé óraunhæf, því ekki beitum við henni á aðrar nýjungar í matvælaframleiðslu (eða spjaldtölvur, nanotækni, snyrtivörur og tónlist). Við getum aldrei sannað að erfðabreyttar plöntur hafi engin áhrif, frekar en að við getum sannað að skyr sé ekki krabbameinsvaldandi. Reyndar vita næringarfræðingar að vissir fæðuflokkar eða matarvenjur auka líkurnar á tilteknum krabbameinum, sem sjá má í landfræðilegum mun á tíðni vissra krabbameina.
6) hvar liggur ábyrgðin?
Ábyrgð vísindamanna er að rannsaka mikilvæg viðfangsefni, og ef þau tengjast almannahagsmunum miðla af þekkingu sinni af kunnáttu og hófsemi. Þeir ættu að varast of stórar yfirlýsingar, bæði um mögulega hættu og um að engin hætta sé á ferðum. Það á við um rannsóknir á eðlisfræði, efnafræði, líffræði og læknisfræði. Í þessu tilfelli hafa margar rannsóknir kannað spurninguna um áhættu af erfðabreyttum nytjaplöntum, og ekki fundið neina vísbendingu um skaðleg áhrif. Sannarlega er möguleiki að við höfum ekki kannað rétta þætti, eða á réttan hátt. Síðan er það spurning hvort að við viljum að vísindamennirnir hrópi úlfur í hvert sinn sem þeim grunar að eitthvað hræðilegt sé að fara að gerast (að sandsílið sé að hverfa, að makríllinn sé að borða sandsílið, að lundarnir séu ekki nógu hamingjusamir, að rjómatertur séu óhollar, að hreyfing slíti likamanum, að hefðbundin matvæli muni ganga til þurrðar). Ég er hallur undir hófstilltari umræður, og á málefnalegum grunni. Umræða um erfðabreyttar lífverur vekur miklar tilfinningar, og oft er grautað saman tilfinningalegum, félagslegum og mishaldbærum líffræðilegum rökum.
7) er Roundup (glyphosate) hættulegt mönnum?
Þessi spurning hefur verið könnuð í amk 20 mismunandi rannsóknum. Greining Pamelu Mink og félaga á þessum rannsóknum, bendir til þess að glyphosate í þeim styrk sem það berst í fólk auki ekki líkurnar á krabbameini.
Our review found no consistent pattern of positive associations indicating a causal relationship between total cancer (in adults or children) or any site-specific cancer and exposure to glyphosate.
En þau mæla samt með því að við flokkum og fylgjumst með þessu efnum.
Annmarkar við tilraun og framkvæmd
Nokkrir annmarkar eru á rannsókninn (sjá sérstaklega samantekt á síðu Bresku heilbrigðisþjónustunar: Claims of GM foods 'link to cancer' disputed by other researchers).
Forvitnilegt er að engin magnáhrif eða samlagningaráhrif eru greind. Þ.e. engin aukning er á dánartíðni eða krabbameinum á milli rotta sem fá 11%, 22% eða 33% af erfðabreyttum maís (né af roundup meðhöndlun). Einnig mætti búast við samlagningaráhrifum ef erfðabreytti maísinn og illgresiseitrið hefðu áhrif á mismunandi vegu. Það eitt og sér er ekki Slík áhrif sjást ekki í gögnunum.
Ég tel ákaflega brýnt að endurtaka tilraunina, helst með fleiri rottum til viðmiðunar (sjá að ofan), í fleiri stofnun og á ólíkum rannsóknastofum. Mikilvægt er einnig að uppsetningin sé þannig að þeir sem framkvæmi tilraunina, viti ekki hvaða fæði hvaða rotta er að fá. Þetta er krafan um blinda tilraun, rotturnar fá fæðu A, B, C...o.s.frv. en sá sem sinnir nagdýrunum vita ekki samsetningu hverrar blöndu fyrir sig. Ath. ég er ekki að staðhæfa að "athuganda" áhrif hafi verið ástæðan fyrir því að viðmiðunar rotturnar fengu ekki krabbamein og lifðu lengur. Heldur vill ég bara sjá betur uppsetta tilraun.
Lokaorð
Það verður að viðurkennast að við upphaf lesturs greinarinnar þá var ég frekar efins um mikilvægi hennar. Ítarlegur lestur sannfærði mig ekki um að erfðabreyttur maís (eða roundup) séu hættuleg heilsu manna. Ég tel hins vegar mikilvægt að tilraunin sé endurtekin, helst af nokkrum óháðum hópum og með öðrum rottuastofnum. Samt grunar mig að ef slíkar rannsóknir hrekja niðurstöður Seralini, þá muni þær aldrei verða ræddar jafn ítarlega og þessi grein. Engin þeirra frétta sem ég las, greindi t.d. frá niðurstöðum frú Mink og félaga um að Roundup virðist ekki tengjast krabbameinum. Því miður sækjum við mannfólk í hasar og læti, og kunnum ekki almennilega að meta gildi hófstilltrar umræðu eða vísindavinnu.
Ítarefni, heimildir og dæmi um umræðuna.Long term toxicity of a Roundup herbicide and a Roundup-tolerant genetically modified maize Food and Chemical Toxicology Available online 19 September 2012
NHS: Claims of GM foods 'link to cancer' disputed by other researchers
Epidemiologic studies of glyphosate and cancer: A review, , Regulatory Toxicology and Pharmacology Volume 63, Issue 3, August 2012, Pages 440452.
Erna Magnúsdóttir Skaðsemi erfðabreyttra matvæla http://www.vantru.is/2012/09/21/13.00/
Egill Helgason Rannsókn sýnir hættu vegna erfðabreytts maís
Leiðrétting. Í fyrstu útgáfu pistils ruglaði ég saman mús og rottum, sem er kannski vottur um ávaxtaflugusnobb af minni hálfu. Munurinn á þessum nagdýrum hefur ekki áhrif á inntak greinarinnar.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Erfðabreytingar og ræktun | Breytt s.d. kl. 21:50 | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Athugasemdir
Smá ruglingur í dýrafræðinni hjá þér. Í rannsókninni voru brúkaðar rottur, ekki mýs.
Guðmundur Guðmundsson (IP-tala skráð) 21.9.2012 kl. 17:07
Takk fyrir þessa færslu. Þessu þarf að deila, núna þegar allt logar út af frönsku rannsókninni.
Vildi bara benda þér á að leiðrétta lið c) hér fyrir ofan en þar þarf annaðhvort að standa "ómarktæk" eða "19 af hverjum 20 tilraunum" (hlutföllin eru öfug eins og greinin er núna).
Selma Káradóttir (IP-tala skráð) 21.9.2012 kl. 19:26
Takk fyrir ábendinguna Guðmundur. Mér var strítt í vinnunni af þessu.
Takk einnig Selma. Atriði c var ekki nægilega vel orðað. Hugmyndin er að í rannsóknum leyfum við falskar jákvæðar niðurstöður í 1 af 20 tilfellum. Það er mögulegt að jákvæða niðurstaða Seralinis og félaga sé sú niðurstaða.
En ef Seralini fær alltaf jákvæðar niðurstöður en allir aðrir alltaf neikvæðar, þá er liklega eitthvað annað í gangi.
Arnar Pálsson, 21.9.2012 kl. 21:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.