Leita í fréttum mbl.is

Svona vinna vísindin

Hans G. Þormar ritar frábæra grein í Fréttablaðinu undir titlinum, svona vinna vísindin.

Þar rekur hann sögu tveggja rannsókna sem báðar settu fram byltingarkenndar niðurstöður. Ein fjallar um þann möguleika að XMRV veira ylli blöðruhálskirtilskrabba og síþreytu. Hin fjallaði um bakteríur í Californíu, sem vísindamenn tengdir NASA voru að rannsaka. Þeir birtu niðurstöður, og héldu fréttamannafund sem náði mikilli athygli, þar sem því var haldið fram að á jörðinni fyndust bakteríur sem gætu notað Arsenic í erfðaefni sínu. Við fjölluðum um þá rannsókn hér (Gammapróteobaktería og sameiginlegur forföður)*. Hans segir:

NASA hélt blaðamannafund í beinni útsendingu, vegna mikilvægi þessarar uppgötvunar fyrir möguleikanum á lífi á öðrum hnöttum. Sumir vísindamenn efuðust frá fyrsta degi um þessar niðurstöður og nú hafa verið gerðar fjölmargar athugasemdir og birtar niðurstöður í mótsögn við þessa grein til dæmis.

Hans rekur sögu beggja rannsókna, sem eiga það sameiginlegt að rannsóknir annara vísindamanna hafa dregið niðurstöður þeirra og ályktanir í efa. Þaðan kemur titil greinarinnar, svona vinna vísindin. Þau vinna þannig að vísindamenn líta gagnrýnum augum á niðurstöður, sínar og annara. Til að eitthvað teljist "sannað"** þurfa margar óháðar rannsóknir að gefa sömu niðurstöðu. Eins og t.d. í tilfelli tóbaksreykinga og lungnakrabba, eða CO-2 og loftslagsbreytinga. Hans orðar þetta enn betur:

Þess vegna er mikilvægt að vísindamenn, fjölmiðlafólk og leikmenn efist alltaf um niðurstöður, hvort sem það er í ritrýndum vísindatímaritum, á blaðamannafundum eða í fréttatilkynningum. Sérstaklega þegar niðurstöður ganga gegn núverandi þekkingu eða valda straumhvörfum. Einungis ítrekaðar tilraunir óháðra rannsóknarhópa geta komið okkur nær "réttri" niðurstöðu. Ef niðurstöðurnar eru rangar mun vísindasamfélagið ýta þeim út af borðinu hægt, en örugglega.

Eins og einhver orðaði það: "Ef eitthvað er of gott til að vera satt, þá er það oftast of gott til að vera satt" og það gildir um vísindi líka.

* Umfjöllun okkar var frekar jákvæð, en í athugasemdum má finna ríkari umræðu um eðli vísinda og hvort að stórar stofnanir eins og NASA, decode, HÍ eigi að leggja mikla áherslu á niðurstöður einstakra rannsókna?

** Í vísindum er ekkert endanlega sannað, það er bara að hinn möguleikinn er afsannaður. Í tilfelli tóbaks, þá er það afsannað að tóbak hafi engin áhrif á tíðni lungnakrabbameins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband