14.12.2012 | 14:41
Máttur tómarúmsins togar þig inn
Ég stóð á hengiflugi. Upp þverhnípt bjargið blés ofsalegur vindur. Ef ég hallaði mér fram gat ég ekki dottið niður, þvílíkur var krafturinn.
Einstaka sinnum upplifum við augnablik þar sem öfl náttúrunnar gnæfa yfir okkur, og við finnum til smæðar, aðdáunar, gleði eða hræðslu. Mitt augnablik, lýst hér að ofan, var haustið 2010 þegar við vinnufélagarnar gengum upp á Esjuna vestan við Móskarðshnjúkana.
Svipaða upplifun er hægt að fá af vel skrifaðri eðlisfræði. Þannig leið mér þegar ég las Sögu tímans eftir Stephan Hawking fyrst. Máttur tómarúmsins, higgseindin fundin (Higgs Discovery) eftir Lisu Randall fellur einnig í þennan flokk. Bókin lýsir meiriháttar uppgötvun í eðlisfræði, sem tilkynnt var 4. júlí 2012. Lisa Randall snaraði saman stuttri bók sem lýsir því hvernig Higgs eindin (eða eitthvað sem hegðar sér eins og higgs eind) var fundin.
Bókin er snaggarlega skrifuð og snýst að mestu um spurningar sem Lísa fékk frá fréttamönnum og almenningi í kjölfar þess að tilkynnt var um fund eindarinnar. Það, ágætur stíll höfundar, snyrtileg þýðing Baldurs Arnarsonar og inngangur Sveins Ólafssonar, tryggja að lykilatriðin komast til skila.
Maður fær að upplifa spennuna á tilraunastofunni, þegar ögurstundin nálgast. Tilraunin sem tók 10 ár í undirbúningi er að hefjast. Einnig því hvers eðlis gögnin eru sem ofurhraðallinn í CERN býr til, með því að dúndra saman eindum á gríðarlegum hraða.
Það er frekar sjaldgæft að gefnar séu út bækur um raunvísindi og náttúrufræði hérlendis. Í ár eru það bækurnar Tilviljun og nauðsyn eftir Jaques Monod (í þýðingu Guðmundar Eggertssonar, gefin út af HIB - sjá Tilviljun er nauðsyn) og Upphafið, bók frá DK um upphaf og sögu lífsins á jörðinni sem JPV gefur út.
Því ber sérstaklega að fagna Mætti tómsins. Þeir sem vilja panta eintak geta fylgt slóð á vefsíðu Tifstjörnunar. Mynd er af sömu vefsíðu.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.