Leita í fréttum mbl.is

Tilviljun og nauðsyn, meistaraverk franska nóbelsverðlaunahafans Jacques Monod.

Líffræðistofa Háskóla Íslands stendur fyrir málþingi þann 8. febrúar n.k. um bókina Tilviljun og nauðsyn, meistaraverk franska nóbelsverðlaunahafans Jacques Monod.


Jacques Monod var einn fremsti sameindalíffræðingur sögunnar. Á yngri árum vann hann við rannsóknir á lífríki sjávar. Hann var í áhöfn rannsóknarskipsins Pourquois Pas, fyrir hinstu för þess til Íslands. Örlögin leiddu til þess að Monod fór ekki til Grænlands og Íslands heldur til Kaliforníu og kynntist erfðafræði.

 

Rannsóknir hans og Francois Jacob á sykurnámi E. coli gerla ollu straumhvörfum í líffræði. Þeir félagar fengu Nóbelsverðlaunin 1965 (ásamt Andre Lwoff) fyrir að uppgötvanir sínar á genastjórnun. Monod velti fyrir sér sameindalíffræði í víðu samhengi í bók sinni Tilviljun og nauðsyn sem kom út árið 1970. Guðmundur Eggertsson prófessor emeritus við Háskóla Íslands þýddi bókina úr frönsku og Hið íslenska bókmenntafélag gaf hana út 2012.

 

Á málþinginu verða flutt fjögur stutt erindi um Monod, verk hans og áhrif þeirra. Guðmundur Eggertsson mun kynna Jacques Monod og bók hans Tilviljun og nauðsyn. Ólafur S. Andrésson prófessor í erfðafræði við Háskóla Íslands mun ræða sérstaklega rannsóknir Monod og félaga á genastjórn sykurnýtingar E. coli. Björn Þorsteinsson sérfræðingur við Heimspekistofnun HÍ ræðir og gagnrýnir hugtak Monods um „siðfræði þekkingarinnar“. Jafnframt mun hann huga að sambandi þessa hugtaks við skoðanir Monods á samfélagsmálum. Að síðustu mun Luc Fuhrmann sendiráðunautur flytja erindið “The impact of Chance and Necessity in the 70s”. Fundarstjóri verður Eva Benediktsdóttir, forseti Líf og umhverfisvísindadeildar HÍ.

 

Málþingið verður haldið 8. febrúar 2013, milli kl. 16:00 og 18:00 í Öskju Náttúrufræðihúsi HÍ. Aðgangur er ókeypis. Erindin verða fyrsta klukkutímann í stofu 132 og boðið verður upp á léttar veitingar að þeim loknum.

Málþingið er styrkt af eftirtöldum aðillum:

Sendiráði Frakklands á Íslandi

Líffræðifélagi Íslands

Örverufræðifélagi Íslands

Mannerfðafræðifélagi Íslands

Verk og náttúruvísindasviði HÍ

Gróco ehf

ORF líftækni

Hinu Íslenska bókmenntafélagi

GPMLS við HÍ


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband