Leita í fréttum mbl.is

Lífrænar kartöflur eru stressaðari en venjulegar kartöflur - hverjar eru afleiðingarnar?

Nýleg rannsókn kannaði genatjáningu í kartöflum sem ræktaðar voru á tvo ólíka vegu. Um var að ræða sama kartöfluafbrigðið, en þær voru ræktaðar á hefðbundinn hátt, eða á lífrænan hátt.

Genatjáning í öllu erfðamenginu var könnuð - þ.e. í tugþúsundum ólíkra gena. 

Í ljós kom að ræktunaraðferðin hafði áhrif á genatjáninga, í lífrænt ræktuðu kartöflunum var marktækt meiri tjáning á stress og varnargenum ýmiskonar.

Það sýnir óyggjandi að lífræn ræktun er stressandi fyrir kartöflur, og e.t.v. aðrar nytjaplöntur.

Spurning er hvort að þetta hafi einhverjar afleiðingar fyrir heilsu neytenda?

Kevin Folta visindamaður í Flórida hefur bent á að á landsvísu er jákvætt samband milli aukinnar neyslu lífrænna afurða og tíðni einhverfu.

Gögnin spanna 30 ára tímabil, frá  1980 til 2010 og sterk fylgni á milli breytanna.

Hefur Folta sannað að lífrænt ræktaðar afurðir valdi  einhverfu?

Aðrir hafa bent á að hlutfall erfðabreyttra matvæla (GMOfoods) hefur aukist samfara aukinni tíðni sykursýki og krabbameina í BNA.

Er þá sannað að erfðabreyttur matur veldur sykursýki og krabbameinum?

Svarið við báðum spurningum er NEI.

Fylgni sannar EKKI orsakasamband.

Rökvillan sem Folta setti fram var af sama meiði og sú sem andstæðingar erfðabreyttra lífvera halda á lofti.

Folta dró fram áþekkt dæmi, til að reyna að sýna fram á hversu hættulegt það er að halda að fylgni staðfesti orsakasamband.

Vigdísi Stefánsdóttur er þökkuð ábendingin.

Pistill Kevin Foltes er aðgengilegur á netinu: Organic Food Causes Autism and Diabetes 4. feb 2013.

Heimild um genatjáningu í kartöflum:

The Identification and Interpretation of Differences in the Transcriptomes of Organically and Conventionally Grown Potato Tubers Jeroen P. van Dijk, Katarina Cankar, Peter J. M. Hendriksen, Henriek G. Beenen, Ming Zhu, Stanley Scheffer, Louise V. T. Shepherd, Derek Stewart, Howard V. Davies, Carlo Leifert, Steve J. Wilkockson, Kristina Gruden, and Esther J. Kok Journal of Agricultural and Food Chemistry 2012 60 (9), 2090-2101


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband