Leita í fréttum mbl.is

Ný opin tímarit á sviði líffræði

Guðmundur Þórisson lífupplýsingafræðingur og baráttumaður um opinn aðgang benti mér á tvö ný opin tímarit á sviði líffræði.

Elife er tímarit sem er ætlað að ná sama stalli og Science, Nature, Cell, PNAS og PLoS biology. Aðeins bestu rannsóknir eru birtar þar. Kosturinn er að greinarnar verða samstundis opnar öllum, sem komast á netið. Það er ekki eins og í hinum virtustu tímaritunum á sviði líffræði sem eru öll háð áskrift einstaklinga, bókasafna eða landa. Undantekning er reyndar PLoS tímaritin, þar sem greinarnar eru í opnum aðgangi en þar þurfa höfundar reyndar að borga fyrir umsýsl, umbrot og kostnað við vefsvæði (gjöldin eru frá $1300 til $2500 per grein, eftir tímariti).

Elife býður hins vegar upp á opinn aðgang, og engin höfundagjöld. Þetta er gert mögulegt með stuðningi þriggja þungaviktar bakhjarla (Howard Hughes medical Institute (USA), Max Planck Institute (Þýskalandi) og Wellcome Trust (Bretlandi)).

PeerJ er annað tilbrigði við útgáfu starfsemina. Þar byggist viðskiptalíkanið á félagsgjöldum. Hver félagi greiðir að lágmarki 99 dali og fær að birta eina grein...á ári. Eitt gjald, fyrir eina grein á ári. Á móti kemur að viðkomandi er skuldbundinn til að vera yfirlesari á a.m.k. einni grein á hverju ári. Einnig er hægt að greiða allt að 299 dali, og birta þá fleiri greinar á hverju ári í PeerJ.

Á mót kemur vitanlega að sumar greinar eru með marga höfunda, sem þurfa allir að vera meðlimir! Fyrir tveggja höfunda grein mín og Marcosar um þróun nýrra tenginga, er næsta víst að við sendum í PeerJ.

Opinn aðgangur úr hvíta húsinu

Opinn aðgangur (open access) er sú heimspeki að vísindaleg þekking og grunngögn eigi að vera opin og aðgengileg öllum. Þessi heimspeki hefur náð fótfestu, og meðal annars verið innlimuð í stefnu Bandarísku heilbrigðisstofnunarinnar (NIH) og nú um áramót Rannsóknasjóðs íslands. Nú í febrúar gaf hvíta húsið út tilskipun um opinn aðgang...sjá meira á opinnadgangur.is og pistli Peter Suber

Ítarefni:

Umfjöllum Mike Taylor á The Guardian vefsíðunni: PeerJ leads a high-quality, low-cost new breed of open-access publisher

Grein Phil Davis á Scholarly kitchen -  PLoS ONE: Is a High Impact Factor a Blessing or a Curse?

White House announcement
http://www.whitehouse.gov/blog/2013/02/22/expanding-public-access-results-federally-funded-research

Að senda í PLoS One

Gömul viðskiptaveldi og nútíminn


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir að vekja athygli á þessu, kollegi góður! Endilega bloggaðu um reynsluna af því að birta í PeerJ þegar að því kemur.

Það má líka nefna að téður Mike Taylor (og fleiri til) er ekki bara spenntur fyrir PeerJ sem "game-changer" í þessum geira aðeins vegna verðsins, heldur ekki síst vegna þess hvað hvað ritrýningar- og birtingarferlið er skilvirkt og gengur hratt fyrir sig. Gíraffagreinin þeirra var 10 vikur frá innsendingu til birtingar:

Taylor et al. (2013) Why sauropods had long necks; and why giraffes have short necks. PeerJ 1:e36 http://dx.doi.org/10.7717/peerj.36

Margra mánaða töf (stundum allt að heilu ári) við að koma grein í inn í hefðbundið fræðirit er ekki óalgengt. Slík vinnubrögð virka últra-þunglamaleg í samanburði.

Eins og Taylor skrifaði annarsstaðar: fyrst hann er orðinn meðlimur fyrir lífstíð og ánægður með þjónustuna, af hverju ætti hann EKKI að senda næstu grein til PeerJ?

Guðmundur Þórisson (IP-tala skráð) 5.3.2013 kl. 11:41

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk sömuleiðis Guðmundur.

Góður punktur með hraða ritrýningarferlisins, það heldur oft pappírum í mánuði eða jafnvel ár - sem síðan er hafnað.

Eins og þú veist fullvel er önnur athyglisverð útfærsla (sem ég gleymdi að leggja áherslu á) á ritrýningarferlinu. Það er opið, m.ö.o. þegar handritið er sent inn þá birtist það í PeerJ-preprints og hver sem er getur skoðað það og sett inn athugasemdir. 

Arnar Pálsson, 7.3.2013 kl. 09:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband