23.4.2013 | 11:52
Alvarlegar myndasögur á degi bókarinnar
Bækur eru mér ákaflega kærar, og þeim vil ég hampa frekar en flokki og stjórnmálasannfæringu. Í dag, 23. apríl er dagur bókarinnar, og af því tilefni var Stefán Pálsson í viðtali í morgunútvarpi Rásar 2. Eða kannski var ástæða sú að nú um helgina átti teiknimyndapersónan Svalur (Spirou) 75 ára afmæli.
Það má alveg bölsóttast yfir því hversvegna í ósköpunum Ríkisútvarpinu datt í hug að tala um teiknimyndasögur á degi bókarinnar. Eru ekki teiknimyndasögur niðursoðnar bókmenntir, án boðskaps, skáldleika og andagiftar? Eru þær ekki hluti af steypiregni glepjandi miðla (með vídjóinu, netinu, tölvuleikjum og göngusnældutækjum (walkman)), sem fylla heila okkar af myndefni og tónum, og kæfa hæfileika okkar til að lesa og skilja flóknar frásagnir, tilfinningar og orsakasamhengi?
Reyndar hef ég ekki svar við þessari spurningu, eða vill ekki vita svarið, því teiknimyndasögur eru mér afskaplega kærar. Ég get alveg kvittað undir barnslegan eða allt að því þráhyggjulegan áhuga á sögunum um Sval og Val, sbr. pistil frá 2011 (Svalur á milli góðra bóka). Sval og Val bækurnar hef ég lesið mörgum sinnum og keypt danskar og evrópskar útgáfur þeirra hefta sem aldrei voru gefin út af Iðunni. Á tímabili dreymdi mig söguþráð Sval bóka, sem aldrei hafa komið út, og voru draumfarirnar svo öflugar að í vitandi vöku var ég óviss um hvort þær væru sannar eður ei.
Í stuttu máli, þá er ég pikkfastur á teiknimyndasögukróknum. Hérlendis eru teiknimyndasögur ekki merkilegt listform, og ekki sæmir kennurum við æðstu menntastofnanir að liggja í slíku skólpi. Samt er ég með hillumetra af þessum bókum á skrifstofunni. Stefán segir að í Belgíu sé ástandið annað, þar séu teiknimyndasögur í hávegum hafðar. Spurning er hvort að það sé vegna þess að þær séu svo útbreiddar, vinsælar, skaffi atvinnu og tekjur eða vegna þess að þær segi fólki eitthvað merkilegt um heiminn? Sem fyrr hef ég engin svör.
Mig grunar reyndar að góðar teiknimyndasögur nýti sér bæði hraða framvindu og hasar, sem gera kvikmyndir (og tölvuleiki, vidjó) svo heillandi og Iconografíu, sem markaðsfræðin hefur þróað. Einföld tákn, eins og gormdýrið eða blaðamaðurinn svalur, kalla fram jákvæð viðbrögð í heila lesenda, svona rétt eins og lógóin fyrir Lego, Armani eða Malt. Heilinn okkar er mjög næmur fyrir myndefni, bæði hreyfingu og skýrum táknum. Heilinn bregst sérstaklega sterkt við afmörkuðum formum - jafnvel formum sem kölluð eru "supernormal". Þekkt er að fuglar draga egg sem lenda utanveltu, inn í hreiðrið sitt (þá eru minni líkur á að þeir tapi eggjum og eignist færri afkvæmi). Tilraunir sýna að þegar fugl getur valið á milli eggs og golfkúlu, velur hann frekar golfkúluna. Þannig að náttúrulega tilhneygingin getur verið fuglinum skaðleg, þegar "supernormal" kostur er á borðum. Eða, kannski nákvæmar, getur leitt til þess að fuglinn vanræki afkvæmi sitt.
Það er einmitt þess vegna, sem ég góði faðirinn, gaf syni mínum teiknimyndasögurnar...
E.s. Þessi pistill er ekki skrifaður sem fræðipistill, eingöngu sem hugleiðing. Í bókaskápnum bíður bunki af ágætum bókum eftir því að ég riti um þær almennilega bókarýni. Þetta eru t.d.
Tilviljun og nauðsyn eftir J. Monod
Denialsim eftir Michael Specter
The age of american unreason eftir Susan Jacoby
Unscientific america eftir Chris Mooney og Sheril Kirshenbaum
og auðvitað
Bad Pharma eftir Ben Goldacre
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.