Leita í fréttum mbl.is

Dílaskarfurinn í flutningi Arnþórs og Jóns Einars

Arnþór Garðarsson (prófessor emeritus) og Jón Einar Jónsson (forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Snæfellsnesi) munu fjalla um dílaskarfinn í föstudagserindi líffræðinnar 26. apríl 2013. Ágrip erindis.

 

Dílaskarfurinn (Phalacrocorax carbo) er afar útbreidd tegund og nær frá Grænlandi og austurströnd N-Ameríku allt til Afríku, Asíu og Ástralíu. Hann er staðfugl hérlendis og heldur sig allt í kringum land að vetrinum en verpur í þéttum byggðum á hólmum og skerjum við Faxaflóa og Breiðafjörð. Þar er mest af grunnsævi landsins og því mest fæðuframboð fyrir skarfana sem kafa yfirleitt ekki neðar en á 20 m dýpi. Fram eftir 20. öld voru dílaskarfabyggðir í sjávarhömrum á nokkrum stöðum utan núverandi útbreiðslusvæðis en þær eru nú horfnar. Þessi breyting á útbreiðslu tengist breytingu á lifnaðarháttum og útbreiðslu manna – dreifð byggð með ströndinni og nytjar úti um eyjar eru að mestu horfin.

 

Dílaskarfurinn á Íslandi hefur nokkra óvenjulega eiginleika sem henta til rannsókna á stofninum: Til dæmis er hægt að telja öll hreiðrin, meta viðkomu og kanna lífskilyrði kringum byggðirnar, meta hlutfall ungfugla í byrjun (september) og lok (febrúar) vetrar og hlutfall geldfugla í febrúar. Þannig fást samhliða lýðfræðilegar upplýsingar bæði fyrir einstakar byggðir og fyrir stofninn í heild.

dílaskarfar

Byrjað var að telja hreiður í dílaskarfsbyggðum með myndatöku úr lofti vorið 1975 og talið öðru hverju fram til 1990. Í fyrstu virtist stofninn standa nokkurn veginn í stað, alls um 3300 hreiður en talsverðar staðbundnar sveiflur t.d. í Faxaflóa. Árið 1994 var byrjað var að telja árlega en þá hafði hreiðrum fækkað og voru nú um 2400 talsins. Eftir það hófst hægfara fjölgun, 3,7% á ári, og varð fjöldinn mestur 5250 hreiður árið 2010. Á síðustu tveimur árum hefur fækkað nokkuð, auk þess sem útbreiðsla hefur aukist – ný byggð hefur myndast við Húnaflóa. Grunnsævið í Faxaflóa og Breiðafirði er að fyllast og fjöldinn þar getur varla vaxið meira. Í fyrstu jókst meðalstærð byggða jafnframt fjölguninni og náði hámarki árið 2001 en hefur stöðugt minnkað eftir það. Núna, vorið 2013, virðist ólíklegt að varpstofninn geti aukist meira nema til komi útbreiðsluaukning.

 

Frá því 1998 hefur verið fylgst með aldursamsetningu dílaskarfsins og nýlega hefur verið þróuð aðferð til að meta varpárangur í hverri byggð. Aldurssamsetning hefur verið nokkurn veginn stöðug en áætluð árleg líftala breytileg milli ára. Varpárangur er einnig mjög stöðugur, um 2,4 ungar á hreiður snemma sumars. Flest bendir til að dreifing og fjöldi varpstofnsins sé háð þéttleika og fari að mestu eftir staðbundnu fæðuframboði, viðkoman takmarki ekki stofninn ennþá, en efri mörk séu ákvörðuð af vetrarskilyrðum.

 

Mynd af dílaskörfum tekin af Arnþóri - picture copyright Arnthor Gardarsson.

 

Önnur erindi líffræðistofu vorið 2013 verða auglýst á vef Líf og umhverfisvísindastofnunar.

Erindið verður flutt á íslensku, í stofu 131 í Öskju náttúrfræðahúsi HÍ, milli kl. 12:30-13.10). Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir með húsrúm leyfir.

Sjá einnig frétt á vef HÍ frá 2012 Dílaskarfurinn í sókn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband