Leita í fréttum mbl.is

Hagsmunaaðillar ráðast gegn vísindum

Markmið vísinda er að skilgreina vísindalegar spurningar og að leita svara við þeim. Í mannkynsögunni hafa vísindin oft troðið valdhöfum um tær, með því að afsanna heimsmynd eða gildismat ríkjandi stétta eða valdastofnanna.

Nútildags eru einnig fjölmargar ríkistjórnir, flokkar, þrýstihópar, hreyfingar og félagasamtök, sem hafa horn í síðu vísinda. Vegna þess að þær vilja t.d. - virkja vatnsföll, banna kennslu á þróunarkenningunni, leyfa olíuvinnslu, banna erfðabreyttar lífverur og friða sniglana.

Á alþjóðaþingi vísindablaðamanna, sem haldið var í Helsinki í júnílok, var fjallað um margar hliðar þessa máls. Hlutverk  blaðamanna er nefnilega ekki bara að segja frá nýjustu tækni og vísindum, heldur einnig frá afbökun og markvissu niðurbroti á grundvallarþekkingu. Í bandaríkjunum eru fjöldi slíkra dæma, það þekktasta er líklega áróður trúarhópa gegn þróunarkenningunni, sem hefur staðið í hartnær hundrað ár.

Bergljót Baldursdóttir tók viðtal við  Christine Russell á alþjóðaþingi blaðamanna, og fjallaði um vaxandi vantrú á vísindum í nýlega í Speglinum. Þar sagði hún m.a.:

Ákveðinn minnihlutahópur í Bandaríkjunum hefur síðan á þriðja áratug síðust aldar mótmælt þróunarkenningunni þó svo hún sé viðurkennd meðal vísindamanna. Hugmyndin um að maðurinn hafi þróast frá óæðri dýrategund stríðir gegn trúarhugmyndum þeirra og margoft hafi þessi hópur reynt að fá lög sett sem skylda skóla til að kenna sköpunarsöguna til jafns við þróunarkenninguna. Það hefur ekki gengið eftir fyrr en núna. Í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna eru nú í gild lög sem gera það að skyldu að kenna börnum að þróunarkenningin sé umdeild þó svo hún sé það ekki. Vísindamenn hafa verið sammála um hana lengi. Nýlega hefur svo þetta sama fólk beint sjónum sínum að loftslagsbreytingum og fullyrða að maðurinn eigi ekki þátt í þeim og að einnig sé umdeilt meðal vísindamanna að loftslagsbreytingar séu að eiga sér stað.

Hagsmunir að baki
Þeir sem mótmæla því að loftslagsbreytingar eigi sér stað eiga oft hagsmuna að gæta, segir Cristine.  Þetta er fólk sem er í viðskiptum sem aðgerðir gegn loftslagsbreytingum bitna á eða fólk sem neitar að trúa þeim af öðrum ástæðum. Í flestum tilfellum er fólkið í  Republikanaflokknum og tilheyri hinni svokölluðu Teboðshreyfingu.  Nú er farið að bera á fólki með þessar hugmyndir í Kanada, Ástralíu og í Bretlandi. Í Tennesee-ríki í Bandaríkjunum hafa nú verið sett lög sem gera skólum að kenna bæði að þróunarkenningin sé umdeild og loftslagsbreytingar líka.

Ítarefni

Ruv.is Spegillinn Vaxandi tortryggni gagnvart vísindum 02.08.2013

World congress of Science journalists 2013

Christine Russel Harvard University


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þannig að ef einhver kallar sig vísindamann

þá skal almenningur trúa honum skilyrðislaust?

Því miður eru svo margar villuvísindakenningar í fréttum daglega að það er bara hið besta mál ef almenningur efast

Grímur (IP-tala skráð) 7.8.2013 kl. 14:40

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæll Grímur

Ekki hélt ég því fram!

En mýgrútur af vísindalegum staðreyndum, sem enginn í hlutaðeigandi fræðasamfélögum  efast um, eru undir atlögu hagsmunaaðilla (olíulobbísins, sköpunarsinna, andstæðinga bólusetninga).

Slíkar grundvallar staðreyndir verðum við að standa vörð um, annars rennum við á rassgatinu aftur í fornaldir.

Þú bendir á mjög mikilvægt atriði, að margar fréttir í miðlum nútímans hafa yfir sér vísindalegan blæ eða segja frá vísindalegum framförum sem síðan reynast staðlausir stafir. Það er eðlilegt að fólk efist um sumar fréttir, t.d. af rauðvíni sem lengir líf, verndar gegn einu krabbameini en eykur líkur á öðru, stuðlar að heilablæðingu og getuleysi karla...

Þar liggur ábyrgðin  bæði hjá vísindamönnum, blaðamönnum, bókaútgefendum og ekki síst afþreyingariðnaðinum.

Ég er ekki að segja að fólk eigi að kasta efanum fyrir róða.

Bara að við þurfum að vera vakandi fyrir aðillum sem í krafti hugsjóna eða gróðasjónarmiða reyna að grafa undan þekkingu og vísindum.

Arnar Pálsson, 7.8.2013 kl. 15:08

3 identicon

"Bara að við þurfum að vera vakandi"

Tek heilshugar undir það og ekki bara gagnvart vísindakenningum, heldur líka gagnvart alskyns áróðri úr öllum áttum.

Ég horfði t.d. á myndina Too Big to Fail um daginn, ágætis mynd með mörgum góðum leikurum og mér fannst hún trúverðug
EN á maður að trúa að allar þessar trilljónir dollara hafi ekki haft áhrif á efnistökin - einhver fjármagnaði myndina.

Grímur (IP-tala skráð) 8.8.2013 kl. 09:50

4 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæll Grímur

Alveg sammála, við þurfum að vera vakandi fyrir kjaftæði og útúrsnúningum úr öllum áttum. Spuni og áróður er orðinn viðurkenndur hluti af allri stjórnmálaumræðu, hagsmunarekstri og orðræðu.

Það þarf ekki bara vísindi til, heldur góða bókmenntalega og heimspekilega menntun! 

Ég sé að sumir vísindamenn hefðu mjög gott af því að fá skólun í heimspeki efahyggju og orðræðu, sem og orðræðugreiningu.

Hef ekki ekki séð myndina sem þú talar um, en jú afþreyingariðnaðurinn er tæplega með hreinan skjöld.

Arnar Pálsson, 8.8.2013 kl. 10:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband