Leita í fréttum mbl.is

Sturlað stigakerfi í HÍ

Það er gaman að keppa í íþróttum, handbolta, körfu eða pílukasti.

En það er mjög erfitt að bera saman íþróttir. Engri heilvita manneskju dytti í hug að bera saman handboltamann og körfuknattleiksmann, bara á fjölda skoraðra marka.

Engu að síður er svoleiðis kerfi við lýði í Háskóla Íslands. Þar er notað stigakerfi til að meta frammistöðu starfsmanna, borga launaauka, meta framgang í starfi, og við úthlutun styrkja.

Margir hafa kvartað yfir þessu vandamáli í mörg ár, og yfirvöld HÍ segja kerfið í endurskoðun (á hverju ári). En ekkert gerist, nema hvað óánægjan magnast (hjá þeim sem eru hlunfarnir af kerfinu).

Einar Steingrímsson ritar grein í tímaritið Þjóðmál um stigakerfi HÍ og rannsóknarframmistöðu mismunandi sviða HÍ. Þar fjallar hann sérstaklega um hið sturðala stigakerfi í HÍ. 

Árið 2006 setti HÍ sér það háleita markmið að komast í röð hundrað bestu háskóla heims, á listum sem leggja mikla áherslu á gæði og styrk rannsókna.  Þessi stefna var unnin innan skólans, undir forystu rektors, Kristínar Ingólfsdóttur, og með þátttöku akademískra starfsmanna, og hlaut mikinn hljómgrunn.  Forystu skólans hefði verið í lófa lagið að fylgja þessari stefnu, hefði hún kært sig um það.  Hún hefur hins vegar ekkert gert til að breyta helstu hvötunum í starfi skólans, því stigakerfi sem mat á umfangi og gæðum rannsóknaframlags einstakra starfsmanna er byggt á.
 
Það er nógu slæmt að þetta stigakerfi ríkisháskólanna byggir nánast eingöngu á baunatalningu, þ.e.a.s. á talningu á fjölda birtra greina, ráðstefnufyrirlestra o.s.frv. Það er vissulega rétt að mjög fáar birtingar vísindamanns eru undantekningalítið merki um lítið vægi, en það er hins vegar lítil fylgni milli magns og gæða þegar komið er yfir ákveðið lágmark í birtingatíðni.  Stigakerfi af þessu tagi eru nánast óþekkt í sæmilegum háskólum erlendis, af augljósum ástæðum: Gæði akademískra starfsmanna eru metin af sérfræðingum á hverju sviði fyrir sig, bæði þegar um er að ræða framgang (úr lektors- í dósents- og svo í prófessorsstöðu) og beint eða óbeint þegar laun eru annars vegar.  Engu reyndu háskólafólki dettur í hug að hægt sé að meta gæði rannsóknastarfs með því einu að telja birtar greinar og annað sem  beinlínis er hægt að kasta tölu á.
 
Það sem verra er, stigakerfið er þannig gert að það fást að jafnaði fleiri stig fyrir grein sem birt er í íslensku tímariti en í einhverju af þeim alþjóðlegu tímaritum sem mestrar virðingar njóta (eins og t.d. Nature).  Það er fráleit stefna að birta á íslensku greinar sem eiga að vera framlag til vísindasamfélagsins, á sviðum sem eru alþjóðleg í eðli sínu, en það gildir um langflest fræðasvið, þar á meðal nánast öll mennta- og félagsvísindi.  Staðreyndin er auðvitað sú að mikill fjöldi akademískra starfsmanna í HÍ ræður alls ekki við neinar rannsóknir sem ná máli á þeim alþjóðavettvangi sem skólinn vill gera sig gildandi á. Samt sem áður er ekki nóg með að allt þetta fólk fái stóran hluta launa sinna fyrir að stunda rannsóknir, heldur eru beinlínis sett á laggirnar tímarit sem eru úr öllum tengslum við alþjóðafræðasamfélagið, og því algerlega gagnslaus þessu samfélagi, til að hægt sé að veita undirmálsfólkinu framgang allt upp í prófessorsstöðu, og hækka laun þess umtalsvert.  Enda er fjöldi prófessora við HÍ sem nánast ekkert hafa birt á alþjóðavettvangi, og þar með ekkert birt bitastætt, á áratugalöngum ferli.
 
Þetta stigakerfi hvetur starfsmenn annars vegar til að skrifa gagnslausar greinar sem ekki ná máli alþjóðlega, af því auðvelt er að fá þær birtar á Íslandi, og hins vegar hvetur það til framleiðslu á magni, en ekki gæðum.  Það er sérstaklega kaldhæðið að færasta vísindafólkið leggur langflest áherslu á gæði, og forðast óþarfa magn, enda kostar dýrmætan tíma að framleiða slök vísindi, þótt það sé afar auðvelt fyrir sæmilegt vísindafólk að fjöldaframleiða ómerkilegar greinar og fá birtar á alþjóðavettvangi.

Þessi greining hans er mjög nærri lagi, og við háskólamenn verðum að takast á við vandann og krefjast breytinga.

Einar reynir síðan að greina orsakir vandands, og bendir á smákóngaveldi, ranga stefnu stjórnvalda og áherslu yfirstjórna menntastofnanna á ímynd ofar efni. Það er nokkuð víst að öll þessi atriði skipta máli, og líklega fleira til.

Ítarefni:

Einar Steingrímsson (Eyjan.is 21. janúar 2014) Vondir háskólar, viljalaus stjórnvöld

Eftirfarandi grein birtist í  desemberhefti tímaritsins Þjóðmála, 4. hefti 9. árgangs. 

Arnar Pálsson  | 20. apríl 2011 Glansandi mynd...

Arnar Pálsson | 4. október 2012  Decode dregur upp Háskóla Íslands

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Við þetta má bæta að aðferðir HÍ við val á nemendum í meistaranám orkar tvímælis. Tökum sem dæmi meistaranám í mannauðsstjórnun hjá Viðskiptadeild. Gerð er krafa um 1. einkunn en það skiptir ekki máli úr hvaða deild fólk kemur. Alþekkt er að kröfur eru mismunandi í deildum Háskólans. Einkunn 8 í einni deild getur verið sambærileg við einkunn 6 í annarri deild. Skoða þarf meðaltal, staðalfrávik og röð.

Kristjan (IP-tala skráð) 21.1.2014 kl. 22:11

2 Smámynd: Arnar Pálsson

Takk fyrir Kristján

Þetta er alveg rétt hjá þér. Hjá okkur er þetta svipað, krafan um gráðu inn í framhaldsnám er óháð því á hvaða námsbraut fólk fékk gráðuna.

Það eru dæmi um að fólk hafi verið með lágmarkseinkunn (undir 6.5) í líffræði, en síðan bætt við sig kennsluréttindum eða öðru BS prófi og fengið þar mun hærra. Þannig getur fólk komist í framhaldsnám í líffræði, sem átti erfitt grunnáminu. Það er aldeilis spurning hvort að það sé góð leið? Því miður virðast eftirspurnin eftir framhaldsnemum það mikil (og framboðið ekki nógu gott) að svona lagað hefur gerst.

Ég er sammála um að það er ekki nægilega góð umgjörð um framhaldsnám. Hér var vaðið af stað með meira kappi en forsjá, og verklag víða óskipulagt.

Arnar Pálsson, 22.1.2014 kl. 08:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband