16.7.2014 | 14:07
Spriklandi andstæðingur erfðrabreyttra lífvera
Erfðatækni er notuð í landbúnaði til að betrumbæta plöntur og húsdýr. Hún er hluti af verkfærasetti sem ræktendur búa að, og nýtist t.d. til að gefa plöntum þol gagnvart sýklum eða jafnvel til að bæta ræktunareiginleika og afurðir.
Rannsóknir hafa sýnt að erfðabreyttar plöntur eru ekki síðri að næringarinnihaldi og almennt ekki hættulegar umhverfi og heilsu.
Engu að síður er umtalsverð tortryggni gagnvart erfðabreyttum plöntum. Gagnrýni andstæðinga erfðabreyttra lífvera byggir oft á heimspekilegum rökum og félagslegum. (við megum ekki breyta náttúrunni, eða erfðatækni er notuð af stórfyrirtækjum sem gera bændur að þrælum)
Endrum og eins bera andstæðingarnir upp rök sem virðast vísindaleg. Og það eru nokkrir (svokallaðir eða sjálfskipaðir) fræðimenn sem skaffa gögn eða greinar sem virðast benda til þess að erfðabreyttar plöntur séu hættulegar heilsu.
Einn þeirra er Gilles-Éric Séralini sem vinnur við háskólann í Caen í Frakklandi og er einnig stofnandi og stjórnandi stofnunar sem einbeitir sér að gagnrýni á erfðabreyttar lífverur (CRIIGEN).
Hann hefur sent frá sér nokkrar greinar, sem flestar hafa verið gagnrýndar af öðrum vísindamönnum vegna alvarlegra galla og oftúlkunar.
Árið 2012 birtist grein eftir Seralini og félaga í tímaritinu Food and Chemical Toxicology sem virtist benda til að erfðabreyttur maís ylli krabbameini í rottum.
Seralini með "niðurstöðurnar" í fjölmiðla og neitaði öðrum fagmönnum að lesa greinina áður en fréttin fór í loftið. Slíkt er mjög óalgengt, og þýðir að aðrir fagmenn geta ekki sett sig inn í málið áður en fréttamenn kynna það. (það að margir fréttamennirnir sættu sig við þetta skilyrði er áfellisdómur yfir þeirra vinnubrögð). Á sínum tíma skrifuðum við þetta.
En staðan er sú að fjöldi ritrýndra rannsókna hefur ekki fundið nein áhrif. Þessi rannsókn Serilinis sýnir skaðleg áhrif. Hvernig samrýmum við þetta tvennt?
a) Eru áhrif til staðar, en þau finnast bara í lengri tíma rannsóknum.
b) Áhrif eru til staðar, en þau eru það veik að þau finnast bara í fáum rannsóknum?
c) Engin áhrif, niðurstaða Serilinis og félaga er jákvæð vegna tilviljunar (búast má við marktækum niðurstöðum í 1 af hverri 20 tilraunum - einungis vegna tilviljunar. Samkvæmt grunnsetningum tölfræðinnar því við sættum okkur við "falskar jákvæðar" - "false positive" niðurstöður í 5% tilfella).
d) Engin áhrif en Serilini og félagar oftúlka niðurstöður sínar eða hönnuðu tilraunina vitlaust.
e) Áhrif eru til staðar, en allir hinir vísindamennirnir vantúlka niðurstöður sínar eða hönnuðu tilraunirnar vitlaust.
Aðrir fagmenn lásu greinina og komust að því rannsóknin var mjög meingölluð að nær öllu leyti, og að endingu var greinin dregin til baka af tímaritinu. Slíkt er gert ef upp kemst um gallaða tölfræði, illa hannaðar tilraunir og/eða oftúlkanir á niðurstöðum. Í þessu tilfelli var tilrauna uppsetningin gölluð og tölfræðileg greining ófullnægjandi. Þeir notuðu m.a. rottustofn þar sem 80% dýranna fá krabbamein og samanburðarhópurinn var svo lítill að tölfræðin var ómarktæk.
Andstæðingar erfðabreyttra lífvera tóku þetta óstint upp og sögðu að um þöggun væri að ræða.
Það er sannarlega matsatriði hvenær er rétt að draga grein til baka, en mér finnst eðlilegt að slíkt sé gert ef tilraunin er illa hönnuð, tölfræðin léleg eða niðurstöðurnar oftúlkaðar.
Aðrar rannsóknir, m.a. önnur langtíma rannsókn og stór samantekt í Food and Chemical Toxicology sýndi að erfðabreyttum maís hafði ekki áhrif á heilsu eða lífslíkur músa.
Óhellindi Seralinis
Hvað gerir Seralini næst, þegar búið er að draga grein hans til baka. Hann klæðir gögnin í ný föt og sendir í annað tímarit. Svo sendir hann út fréttatilkynningu og segir að greinin erfðabreyttur maís valdi krabbamein. Reyndar stóð í fyrri útgáfu greinarinnar "the data are inconclusive, due to the rat strain and the number of animals used", en sá varnagli var fjarlægður úr seinni útgáfunni. Einnig var fullyrt í fréttatilkynningu að rannsóknin væri ritrýnd, en ritstjóri Environmental Sciences Europe sagði í viðtali að svo væri ekki.
Í þessari umræðu sem mörgum öðrum málum skiptir ekki máli hvort að gögnin séu rétt, heldur að "niðurstöðurnar" henti þeim sem hafa krók að maka. Seralini og margir andstæðingar erfðabreyttra lífvera tína til atriði sem henta þeirra skoðun og lífssýn, óháð því hvort þau eigi við rök að styðjast eða ekki.
Leiðrétting. Í fyrstu útgáfu pistilsins var spriklandi með tveimur k-áum.
Ítarefni:
John Entine Forbes 24. júní 2014. Zombie Retracted Séralini GMO Maize Rat Study Republished To Hostile Scientist Reactions
Arnar Pálsson | 21. september 2012 Veldur erfðabreyttur maís krabbameinum í mönnum?
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Erfðabreytingar og ræktun, Erfðafræði | Breytt 23.7.2014 kl. 13:36 | Facebook
Nýjustu færslur
- Eru virkilega til hættuleg afbrigði veirunnar sem veldur COVI...
- Grunnrannsóknir eina aðferðin til að skapa nýja þekkingu og e...
- Lífvísindasetur skorar á stjórnvöld að efla hlut Rannsóknasjó...
- Eru bleikjuafbrigði í Þingvallavatni að þróast í nýjar tegundir?
- Hröð þróun við rætur himnaríkis
- Leyndardómur Rauðahafsins
- Loftslagsbreytingar og leiðtogar: Ferðasaga frá Suðurskautsla...
- Genatjáning í snemmþroskun og erfðabreytileiki bleikjuafbrig...
- Fjöldi og dreifing dílaskarfa á Íslandi
- Staða þekkingar á fiskeldi í sjó
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.