Leita í fréttum mbl.is

Ný tegund finka að myndast á Galapagos?

Galapagoseyjar eru samofnar nafni Charles Darwin, og hugmyndinni um þróun vegna náttúrulegs vals. Eyjarnar mynduðust vegna eldvirkni, og eru ansi ólíkar í gróðurfari og aðstæðum. Þegar finkutegund frá Suður Ameríku námu land á eyjunum fyrir milljónum ára, stóðu henni mörg ólík búsvæði til boða. Fæðan var ólík, sem leiddi til þess að goggar og líkamar finkanna tóku að breytast, kynslóð fram af kynslóð. Á eyju með hörð fræ, eignuðust finkur með stæðilega gogga og sterka kjálka fleiri afkomendur en hinar finkurnar. Þannig breyttust meðal goggarnir, í gegnum árþúsundin og mynduðu um 13 aðskildar tegundir á Galapagoseyjum. Reyndar veitti Darwin finkunum ósköp litla athygli þegar hann stoppaði við í siglingunni umhverfis hnöttinn, og þegar heim var komið hreifst hann fyrst að svipuðu mynstri þróunar og sérhæfingar á mismunandi eyjum í hermifuglum (mockingbird).

Þróun á löngum tíma

Kenning Darwins gengur út á að breytingar verði á tegundum kynslóð fram af kynslóð, m.a. vegna áhrifa náttúrulegs vals. Yfir hinn óralanga tíma sem lífverur hafa byggt jörðina verða því breytingar á tegundum, þær lagast að umhverfi sínu og greinast í ný form og stundum aðskildar tegundir. Darwin lagði mikla áherslu á mikilvægi tímans og uppsöfnun smárra breytinga, og þróunarfræði nútímans hefur staðfest þetta. En þótt að þróun sé óhjákvæmileg á lengri tímaskala, þá getur hún einnig gerst hratt.

Þróun á stuttum tíma á Galapagos

Þegar Pétur og Rósamaría Grant komu til eyjanna fyrir um 40 árum, ákváðu þau að einbeita sér að finkum á einni lítilli og óbyggilegri eyju, Dapne Major. Eyjan er það lítil að þau gátu kortlagt stofninn mjög rækilega og fylgst með einstaklingum og afkomendum þeirra. Þau vonuðust til að geta rannsakað vistfræði finka í náttúrulegu umhverfi, en urðu sér til undrunar einnig vitni að þróun á nokkrum kynslóðum.

Lífríki Galapagoseyja verður fyrir miklum áhrifum frá straumakerfum Kyrrahafsins. El nino og el nina hafa áhrif á úrkomu á eyjunum, sem sveiflast frá blautum árum til svíðandi þurrka. Þetta breytir framboði og samsetningu fræja á eyjunum og þar með eiginleika finkanna.

Finkur2009_1Grant hjónin komu hingað til lands haustið 2009, og héldu fyrirlestur á afmælisári Darwins. (Á mynd ásamt Kristínu Ingólfsdóttur og Hafdísi Hönnu Ægisdóttur). Þau sýndu gögn sem afhjúpu sveiflur í stærð gokka í finkustofninum á Dapne major. Þau sýndu líka að við vissar umhverfisaðstæður getur sérhæfing finkanna horfið, og tvær tegundir runnið saman í eina.

Tilurð nýrra finka á Galapagos

Í nýrri bók þeirra hjóna segir frá  athyglisverðu dæmi, sem gæti verið vísir að nýrri tegund. Sagan hófst þegar sérstök finka birtist á eyjunni. Hún var með stærri gogg en hinar, gat borðað kaktusaldin og söng annað lag. Grant hjónin kölluðu hana Big bird. Þessi finka makaðist og afkomendur þeirra erfðu gogginn og sönginn. Fuglar geta verið mjög fastheldnir á söng, og nota hann til að velja sér maka af réttri tegund. Afkomendur Big bird pöruðust aðallega við systkyni sín eða ættingja, og þannig viðhélst söngurinn og goggurinn sem var svo góður fyrir kaktusaldin-átið.

Það er vissulega fullsnemmt að álykta að afkomendur Big bird séu orðin ný tegund, stofninn er smár og breytingar á umhverfi geta kippt undan þeim fótum. En þetta dæmi sýnir hvernig með einföldum hætti, vistfræðileg sérhæfing og makaval getur myndað aðskilda hópa. Líkön hafa sýnt að ef þessir þættir haldast í hendur, aukist líkurnar á aðskilnaði í tvo hópa og þar með tegundir.

Ítarefni:

NY Times 4. ágúst 2014 In Darwin’s Footsteps

Arnar Pálsson | 21. ágúst 2009 Finkurnar koma

Arnar Pálsson | 1. september 2009 Heimsókn Grant hjónanna


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Alveg er það makalaust að frumbyggjar Ástralíu, sem voru einangraðir frá öðrum mönnum í tugi þúsunda ára, hafi ekki breyst í aðra tegund manna.

Finkurnar eru augljóslega miklu sveigjanlegri gagnvart náttúruvali.

Svona er nú þróunarkenningin gagnleg.

Jóhann (IP-tala skráð) 8.8.2014 kl. 21:42

2 Smámynd: Jón Þórhallsson

Þróunnarkenningin er staðreynd að því leiti að allt líf þróast eitthvað smávegis eins og t.d. finkugoggar og bleikjumunnar ofl.

Eins og er með hæð, þyngd, hlaupahraða og styrkleika hjá öllum lífverum.

En maðurinn og flest önnur dýr hér á jörðu eru EKKI afsprengi einhverskonar tilviljannarkenndar þróunnar eins og nú er kennt er í skólum.

=Þörungar=>svif=>smáfiskar=>eðlur=>spendýr=>apar=>menn.

----------------------------------------------------------

Það vantar alltaf þriðja sjónarhornið á þessa umræðu:

=Alir kynþættir fólks og nær öll dýr jarðarinnar komu/VORU FLUTT til jarðarinnar úr sitthvorri áttinni frá öðrum stjörnukerfum fyrir milljónum ára.

=Guðirnir voru geimfarar eins og Erich Von Daniken heldur fram.

http://thjodarskutan.blog.is/blog/gudspekifelag_s/entry/1292101/

Jón Þórhallsson, 9.8.2014 kl. 15:18

3 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæll Jóhann

Hún er gagnlegri en þig grunar.

Hún getur útskýrt sýkingarmátt veira sem hoppa á milli tegundar, m.a. Ebóla.

Sæll Jón

Þróunarkenningin er staðreynd af því að hún er prófanleg og besta veraldlega skýringin á fjölbreytileika lífsins, þ.a.m. mannsins.

Arnar Pálsson, 9.8.2014 kl. 23:24

4 Smámynd: Jón Þórhallsson

Hefur þú ekki kynnt þér fræði Erich Von Daniken og myndað þér skoðun á þeim?

Eða trúir þú því að allt háþroskað líf hér á jörðu (eins og maðurinn sem tegund) hafi þróast fyrir algjöra tilviljun/náttúru-úrvals upp úr drullupolli fyrir einhverjum milljörðum ára?

Jón Þórhallsson, 10.8.2014 kl. 11:00

5 identicon

Þessi bóksali Erich Von Daniken hefur ekkert, engar sannanir, ekkert nema geimverusjúka menn sem kaupa bækur hans.

Þróunarkenningin er staðreynd, hver sá sem hafnar henni er einfaldlega kúkú og/eða viljandi vitlaus :)

DoctorE (IP-tala skráð) 11.8.2014 kl. 10:19

6 Smámynd: Jón Þórhallsson

Hefur þú kynnt þér málið til hlítar?

Pýramídinn mikli er besta sönnunin fyrir komu utanjarðargesta hér á jörðu:

http://thjodarskutan.blog.is/blog/gudspekifelag_s/entry/1290060/

Þróunnarkenningin getur verið staðreynd þó að uppruni flests lífs hér á jörðu hafi komið frá öðrum stjörnukerfum í fyrndinni.

T.d. ef þú parar alltaf saman bestu hestana; þá eru væntanlega líkur á árangri.

En þróunnarkenningin svarar ekki þeirri spurningu;

af hverju þróuðust t.d. tvö kyn;

karl & kona með sín fullkomnu skilngarvit og kynfæri?

(Hvaða líkur eru á að slík líffæri þróist bara fyrir röð einhverra algerra tilviljanna kenndra atburða upp úr drullupolli?).

Jón Þórhallsson, 13.8.2014 kl. 21:13

7 Smámynd: Arnar Pálsson

Sæll Jón

Þróun er ekki tilviljanakennd. Náttúrulegt val þýðir að við ákveðnar umhverfisaðstæður, lifa bestu gerðirnar af og eignast fleiri afkvæmi en hinar gerðirnar.

Hráefni þróunar stökkbreytingar eru tilviljanakenndar (að mestu) en valið getur, ef umhverfið er stöðugt, leitt til aðlagana lífvera að umhverfinu og lífbaráttunni. Þannig urðu til heilkjörnungar, tvö kyn, fjölfruma dýr, skynfæri, taugakerfi og félagsatferli. 

Það er mögulegt að einfalt líf (þá líklega gerlar eða fornbakteríur) hafi borist hingað utan úr geimnum fyrir mörgum milljörðum ára, og það líf hefði þróast samkvæmt lögmálum þróunar.

Líklegra er þó að lífið hafi kviknað hér við heppilegar aðstæður, í sjó, við hveri eða annarstaðar.

Eitt að lokum, þó að mannfólk kunni að virka fullkomið, þá eru engar lífverur fullkomnar. Bygging líkamans og atferli er samansafn aðlagana, sem eru mótaðar af togstreitum milli ólíkra krafta. Fætur sem eru góðir fyrir hlaup, geta verið slæmir fyrir klifur, og andlegir hæfileikar sem henta vel til veiða geta verið slæmir fyrir umönnun.

Arnar Pálsson, 14.8.2014 kl. 14:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband