Leita í fréttum mbl.is

Að klóna flatorm eða loðfíl

Hugmyndir um klónun lífvera komust á nýtt stig þegar fréttist af klónun kindarinnar Dollý. Fram að því hafði verið hægt að klóna önnur dýr, eins og froska og mýs, en aldrei jafn stóra lífveru. Og aldrei úr sérhæfðum vef eins og júgrí.

Klónun virðist hafa opnað gátt á milli vísinda og skáldskapar, þar sem hugmyndir flæða á milli, að því er virðist án mikillar gagnrýni.

Sérstaklega virðast loðfílar ganga greiðlega í gegnum þessa gátt, og hafa margir vísindamenn velt fyrir sér hvort hægt sé að klóna loðfíl og reisa hann þannig upp frá dauðum?

Afútdauði (deextinction) er sú hugmynd að hægt sé að lífga við útdauðar lífverur með líftækni.

Þetta er harla fjarstæðukennd hugmynd, því þröskuldarnir eru margir og stórir. Við fjölluðum um möguleikan á því að klóna loðfíl árið 2011. Þá sagði ég.

----

Hæpið [er] að hægt verði að klóna loðfíl. Ástæðurnar eru, i) klónun krefst mjög margra eggja og staðgöngu-mæðra (þúsundir eggja og kannski hundruðir fílakúa), ii) prótínin í loðfílskjarnanum er líklega skemmd ef ekki ónýt, iii) erfðaefnið í loðfílskjarnanum er örugglega brotið upp og e.t.v. einnig stökkbreytt.

----

George Church stakk upp á því nýlega að nýta erfðatækni til að endurskrifa erfðamengi núlifandi fíls eftir forskrift erfðamengis úr loðfílshræi. Sú nálgun kallar samt á óheyrilegan fjölda staðgöngu-fílakúa.

Bergsteinn á Rás2 kallaði á mig í gær til að ræða þetta mál. Hann spurði sérstaklega um hina siðferðilegu hlið á málinu, hvort það væri réttlætanlegt að klóna loðfíl. Helsu rökin gegn því eru:

1) Fílar eru útrýmingarhættu, við ættum ekki að taka tugi eða hundruði fílakúa úr hjörðum fyrir tilraun með óljósan ávinning og sem litlar líkur eru á að takist.

2) Fílar hafa sín réttindi, og það væri mikið álag á kýrnar að fara í gegnum gervifrjóvgun og eggjainnsetningu, sérstaklega þar sem það hefur ekki einu sinni verið reynt á fílum áður.

3) Það er nóg af tegundum í útrýmingarhættu. Við ættum frekar að eyða peningunum í að vernda þær og búsvæði þeirra en að eltast við drauminn um að geta endurlífgað útdauð dýr.

Fjöldi tegunda hafa dáið út af manna völdum. Ef við viljum endilega prufa að klóna einhverjar útdauðar tegundir, þá ættum við frekar að reyna að endurlífga einhver einfaldari dýr. Til þess þarf erfðaefni úr viðkomandi lífveru og umtalsverða tækniþróun. Ég sting upp á hryggleysingja með ytri frjóvgun, t.d. flatormi.

Ég sé fyrir mér fögnuð brjótast út í Reykjavík og um heim allan þegar það verður tilkynnt að íslenskum vísindamönnum hafi tekist að endurlífga útdauðan flatorm. Í mannkynssögunni verður fjallað um kínamúrinn, lendinguna á tunglinu og klónun útdauða flatormsins.

Ítarefni:

Arnar Pálsson | 5. desember 2011 Komast á forsíður án þess að klóna loðfíl
Arnar Pálsson | 23. nóvember 2008 Erfðamengi loðfílsinsArnar Pálsson | 20. janúar 2011 Hugmyndir um klónun loðfíla

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband