Leita í fréttum mbl.is

Háskólar eru nauðsynlegir fyrir framfarir

Hvaðan spretta framfarir? Mannleg samfélög hafa risið og hnigið. En á síðustu öldum hefur velsæld mannkyns aukist, en hverjar eru orsakirnar? Oft er rætt um mikilvægi upplýsingarinnar, Guttenbergpressunar, hugmynda og tjáningafrelsins, tækniframfara, viðskiptafrelsis og annara þátta. Háskólar eru ein grunnstoð framfara, því þeir þjóna samfélögum og mannkyninu. Afurðir þeirra eru þekking, aðferðir og mannauður. Jón Atli Benediktsson rektor HÍ ræðir um mikilvægi Háskóla fyrir framfarir í greinarkorni í Fréttablaðinu (Bætt fjármögnun háskóla er forsenda framfara 26. feb. 2016). Hann segir m.a.

Háskóli Íslands þjónar íslensku samfélagi sem fóstrar hann. Um þessar mundir leggjum við lokahönd á stefnu skólans til næstu fimm ára sem mun bera yfirskriftina „Öflugur háskóli – farsælt samfélag“. Gildi Háskóla Íslands eru akademískt frelsi, jafnrétti og fagmennska. Markmið skólans er að bjóða ávallt upp á prófgráður sem standast alþjóðleg gæðaviðmið og vaxandi samkeppni við erlenda háskóla. Háskóli Íslands gegnir þannig lykilhlutverki í uppbyggingu þekkingarsamfélags á Íslandi. Hann e r afkastamesta vísindastofnun landsins, leiðandi í menntun fagfólks á fjölmörgum fræðasviðum, í virkum tengslum við atvinnu- og þjóðlíf og með djúpar rætur í menningu og sögu landsins. Þessi tengsl við íslenskt atvinnu- og þjóðlíf viljum við rækta með markvissum hætti á næstu árum til að efla gæði námsins og til að tryggja að áhrifa skólans til góðs gæti sem víðast í samfélaginu.

Rektor ræðir sérstaklega um fjármögnun háskóla.

Hver króna sem sett er í háskólakerfið er vel nýtt
Forsenda þess að Háskóli Íslands nái að sækja fram á næstu árum og efla farsæld í íslensku samfélagi er að fjármögnun skólans verði hliðstæð við fjármögnun norrænna háskóla. Grunnfjármögnun háskóla skiptir meginmáli þegar sótt er fram, en yfirlýst stefna stjórnvalda er að bæta fjármögnun háskólakerfisins hér á landi á næstu árum. Því fögnum við hjá Háskóla Íslands. Háskólar á Íslandi standa samanburðarskólum á Norðurlöndum og í öðrum ríkjum OECD langt að baki þegar kemur að opinberum fjárframlögum. Og bilið hefur því miður breikkað á undanförnum árum.
Ég fullyrði að hver króna sem sett er í háskólakerfið er vel nýtt, en erlendar og innlendar úttektir hafa ítrekað staðfest að Háskóli Íslands er afar skilvirk og vel rekin stofnun. Óeigingjarnt framlag starfsfólks og þrautseigja við oft erfiðar aðstæður hefur stuðlað að hagkvæmni í rekstri og tryggt gæði háskólastarfsins. En við núverandi fjármögnun verður ekki lengur búið eigi íslenskir háskólar að standast samkeppni á alþjóðavettvangi á næstu árum. Stjórnvöld verða því að forgangsraða í þágu háskólastigsins. Ekki nægir að standa vörð um það sem áunnist hefur, sækja þarf fram, ekki síst í rannsóknum. Rannsóknir hafa ótvírætt gildi í sjálfu sér, en þær eru um leið undirstaða bættrar kennslu, þær dýpka námið, fróðleiksþorsti nemenda eykst og sjóndeildarhringur þeirra víkkar þegar þeir verða vitni að því hvernig ný þekking verður til og taka þátt í öflun hennar. Rannsóknir eru einnig grundvöllur bættra lífskjara, þeim fylgja iðulega hagnýtar uppgötvanir í ólíkum fræðigreinum og þekkingarsköpunin leiðir til nýrra fyrirtækja og nýrra starfa.

Kveikjan að greininni er vafalítið athugasemdir forsætisráðherra sem um dreifingu á fjármagni til háskólastofnanna eftir landsvæðum, sem komu í kjölfar ákvörðunar HÍ um að flytja íþróttakennaranámið frá Laugarvatni til Reykjavíkur. Staðreynd málsins eru lagðar skýrt fram af rektor hér að ofan, HÍ og aðrir háskólar hérlendis, eru undirfjármagnaðir og því geta þeir ekki leyft sér að niðurgreiða ákveðnar námsgreinar. Það er meðal annars vegna þess að fjárstreymi innan Háskóla er stýrt af reiknilíkani, sem byggir á því hversu margir nemendur sækja nám í hverri grein. Að mínu viti, þá stýrir val nemenda of miklu um það hvernig Ísland deilir peningum í háskólanám. Og deililíkönin og uppskipting háskóla í deildir, ýtir undir togstreitu milli deilda og fagsviða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband