Leita í fréttum mbl.is

Óður í bóksölu stúdenta

Bókin er ein merkilegasta uppfinning mannsins. Hugmyndirnar sem bækur gerðu forfeðrum okkar að skrá, lesa og melta, opnuðu nýjar víddir í sögu lífsins á jörðinni. Þá gat ein tegund samtengt andlega hæfileika sína, lært hvert af öðru, þróað hugmyndir og tengt saman þekkinguna.

Bókin gaf okkur líka tækifæri til að rannsaka tilfinningar okkar og samfélag. Góð skáld setja okkur í spor landnámskvenna eða goða sem fæða úlfa, lögreglu sem borða sviðakjamma eða stúlku sem þvær þvott í Reykjavík, og um leið útvíkka okkar tilfinningalega róf og skilning á meðbræðrum okkar og systrum.

Þegar ég var í BS námi var bóksala stúdenta ein skemmtilegasta uppgötvunin. Á efri hæðinni voru heillandi skáldsögur og fræðibækur sem maður gat gluggað í. Margar af athyglisverðustu bókum sem ég hef lesið komu úr hillum bóksölunnar. Sem ungur líffræðinemi var frábært að lesa Wonderful life eftir Stephen J. Gould eða The blind watchmaker eftir Richard Dawkins, en einnig Ódauðleika Milan Kundera, Mómó eftir Michael Ende eða Myndin af Dorian Gray eftir Oscar Wilde. Maður þrífst ekki á fiskum eða fiskavísindum einum saman.

Bókalestur og bókabúðir hafa verið á undanhaldi, í nútíma nets og þúsund sjónvarpsrása. Ég tel fjarska mikilvægt fyrir okkur sem manneskjur og samfélag að lesa vandaða texta. Undir þann flokk fellur ekki bróðurpartu netskrifa - þ.a.m. þessi pistill. Það viðurkennist fúslega að yðar æruverðugur er ekki barnanna bestur, hef bloggað of lengi og illa, tíst um ómerkilega hluti, en blessunarlega sloppið við snjáldursskrudduskrifin. Því tók ég þá ákvörðun í fyrra að blogga minna og lesa meira.

Nema e.t.v. þegar ég þarf að blogga um mikilvægi þess að lesa, og til að minna fólk á útsölu bóksölu stúdenta...

Þessi mynd af fiski hefur enga tengingu við pistilinn - en myndefni er miðill nútímans.img_1177.jpg


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband